fimmtudagur, 9. janúar 2003

Ég nenni ekki að rekja allt sem dreif á daga mína í jólafríinu. Ekki að það hafi verið sérlega viðburðaríkt; aðaleinkennin voru mikil rólegheit, sem var reyndar ákaflega notalegt. Ég át mikið, svaf meira og las töluvert eins og tilheyrir, las samt minna en oft áður, en reyndar var ég búin að lesa drjúgt af nýju bókunum fyrir jól, þannig að það er trúlega afsakanlegt. Já, og ég sá Ásu í eigin persónu í fyrsta sinn, sem mér fannst umtalsverð tíðindi! Og kannaði hluta af undarlegustu skemmtistöðum Akureyrar með Svansý sem var ekki mjög leiðinlegt. Karókíið á Oddvitanum var til dæmis ógleymanlegt!

En helstu fréttirnar eru þær að þegar ég fór norður í jólafrí vissi ég ekki betur en ég væri atvinnulaus frá áramótum, og var á góðri leið með að fara að hafa svolitlar áhyggjur. Eins og áður hefur komið fram er ég reyndar alvön því að vera í lausu lofti hvað þetta varðar, en málin hafa alltaf bjargast á undarlegasta hátt. Ef ég tryði á engla væri ég þess fullviss að yfir mér vekti einhvers konar vinnuverndarengill! (Hmmm, undarlegt orð: hvort ætli fólk túlki þetta sem verndarengil í vinnumálum, eða engil sem annast vinnuvernd?!)

Í þetta sinn var hringt í mig um sjöleytið á Þorláksmessu og mér boðin vinna sem ég þáði. Reyndar var ekki gengið frá því fyrr en 30. des. hversu mikil vinna þetta yrði – fyrirvarinn ekkert yfirgengilega mikill. En niðurstaðan var að ég tæki að mér tæplega hálfa kennslu í MH. Er með tvo hópa í ÍSL 203, hitti þá í fyrsta skipti á þriðjudaginn, var svo með fyrsta alvörutímann í gær og líst prýðilega á. Við byrjum á Snorra-Eddu sem er mjög þægilegt – hún er svo ferlega skemmtileg. Efnið í áfanganum er annars sitt lítið af hverju, en þetta leggst allt saman vel í mig. Svo vantar mig aðra vinnu eða einhver verkefni á móti. Vonandi leysist það.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli