Svefninn hjá mér er í algjöru rugli. Sólarhringurinn er ekki bara á hvolfi heldur hefur hann greinilega verið hristur (ekki hrærður). Síðustu nætur er ég ýmist búin að sofa óheyrilega lítið eða skammarlega lengi, og ekki hefur vottað fyrir reglu á því hvenær ég hef sofnað og hvenær vaknað. Í gær átti ég til dæmis frí og freistaðist til að sofa fram eftir. Laaaangt fram eftir. Það hefndi sín heldur betur í gærkvöld og nótt, því ítrekaðar tilraunir til að sofna skiluðu nákvæmlega engum árangri fyrr en undir morgun. Sem var ekki mjög sniðugt þar sem ég þurfti að byrja að kenna kl. 8.10, sem þýddi að ég mátti helst ekki fara seinna út úr húsi en hálfátta – sem leiddi af sér að ég yrði að vakna fyrr! Það er ekki hefðbundinn fótaferðatími á mínu heimili. Síðla nætur var ég farin að sjá fram á að mér tækist ekki að sofna neitt, en ég festi þó blund á endanum; samt alltof skömmu áður en vekjaraklukkan hringdi.
Blessunarlega tókst mér að hafa mig á fætur og komast út úr húsi á tilsettum tíma. Ég borðaði meira að segja morgunmat líka, sem liggur við að vera afrek, því þótt ég viti að það sé ekki sniðugt að sleppa morgunmatnum er ég yfirleitt það sein á fætur að morgunverkin eru einfaldlega (eftir að ég er búin að slökkva cirka tíu sinnum á vekjaraklukkunni): upp úr rúmi, á klósettið, í fötin og út úr húsi. En þegar maður er að fara að kenna í tvo tíma (meira að segja tvo klukkutíma en ekki hefðbundnar 40 mínútna kennslustundir) er trúlega ennþá óskynsamlegra en venjulega að sleppa morgunmatnum. A.m.k. ef maður vill að nemendurnir heyri eitthvað af því sem maður segir, frekar en beljandi garnagaul. Þannig að ég gerðist skynsöm stúlka og fékk mér að borða áður en ég rauk af stað.
En talandi um morgunmat: Ármann vekur sérstaka athygli á því að ég sé ekkert búin að segja um það að handritshöfundar Bráðavaktarinnar hafi sparað sér vinnu og notað handritið að kvikmyndinni The Breakfast Club í staðinn fyrir að skrifa síðasta þátt sjálfir.
Í þessu sambandi gæti skipt máli að umrædda kvikmynd hef ég aldrei séð. En ég verð greinilega að koma höndum yfir hana til að geta lagst í samanburðarrannsóknir. Hvað varðar Bráðavaktarþáttinn sjálfan er ég svolítið tvístígandi. Það hefur alltaf reynst fullkomlega fatalt að láta heilan þátt eða meirihluta hans snúast um eina senu utan Bráðavaktarinnar sjálfrar. Og sumt í þessum þætti var verulega glatað, svo ekki sé meira sagt. En ýmislegt var hins vegar í ágætis lagi, og af utan-vaktar-þáttum er þessi tvímælalaust sá skásti sem sést hefur. Þar skiptir trúlega máli að þarna voru mættar fimm Bráðavaktar-persónur, en ekki bara ein eða tvær, og okkur var alveg hlíft við því að þau væru látin eiga merkingarþrungin samskipti við fólk utan hins þrönga hrings (fyrir þá sem kunna að vilja stunda hártogun er rétt að nefna að ég tel ekki með tilkynninguna um að fyrirlesarinn væri í vandræðum með bílinn, þótt vissulega hafi í henni falist merkingarbær samskipti).
Engin ummæli:
Skrifa ummæli