þriðjudagur, 27. maí 2003
Ja hérna! Léttúðarhjal um bloggáfanga hér fyrir neðan (í kommentum við þessa færslu) hefur leitt til þess að ég er orðin tilefni könnunar á þessari síðu. Minnir mig á að í eitt af þeim (ófáu) skiptum þegar ég blandaði Bráðavaktinni í íslenskukennsluna spurði nemendurnir hvort ég vildi ekki bara kenna sérstakan Bráðavaktaráfanga. Kannski ég ætti bjarta framtíð í námskeiðahaldi um léttúðug efni sem byrja á b. Blogg, Bráðavaktin ... það er ábyggilega hægt að finna eitthvað fleira. Hvað ætli lausleg athugun á orðabókinni leiði í ljós? Badminton og bakaraiðn væru kannski ekki alveg mín deild og bestukjarasamningar tæplega heldur (já, það virðist vera til sem orð í alvörunni!). Nei, upp úr orðabókinni hef ég ekkert í fljótu bragði, nema að sjálfsögðu ýmis skemmtileg orð, t.d. bínarður, boðvangur, bogmekktur, bogstafasýki, bókadoppa, bragþjófur, bráðaþeyr, breddufluga, breksamur, Brettívumessa, bréferfingi, brigðinn, brytöxi, buddingjaspýta, buklari, burtfararbiti, búdd-búdd (!), búsúkí, böðlastaup o.fl. o.fl. Já, það er gaman að lesa orðabækur. En þetta eru varla efnileg námskeiðsefni. Held áfram að leggja höfuðið í bleyti.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli