Halda mætti að orsök bloggfalls að þessu sinni væri sú að martraðir mínar um pappírsdrukknun hefðu orðið að veruleika, en svo er ekki, þrátt fyrir allt. Pappír hefur þó flætt í stríðum straumum yfir skrifborðið mitt upp á síðkastið, en blessunarlega hefur að mestu tekist að halda flóðinu í skefjum. En ég hef þurft að berjast hetjulega til að ekki færi illa. Ó, já. Og að mestu má rekja bloggfallið til þess.
Ekki aðeins hefur verið barist við flóðið, heldur hefur einnig verið hugað að þeim pappírshaugum sem til staðar eru og uppröðuninni í þeim, með hliðsjón af réttmætri ábendingu Kattarins um að efnið á örlagavaldandi pappír skipti umtalsverðu máli. Fagur dauði er grundvallaratriði í þessu samhengi.
Annars virðast mögulegar pappírstengdar dánarorsakir að minnsta kosti geta verið þrjár:
- Drukknun (þ.e. köfnun), sbr. fyrri skrif mín um efnið.
- Högg, sbr. skrif Kattarins.
- Hlýtur ekki líka að vera hægt að skera sig svo illa á pappír að manni blæði út? Kannski væri það allnokkur fyrirhöfn, en tæknilega mögulegt engu að síður.
Höfundur þessara orða hefur ekki enn endurskipulagt bókahillurnar á heimili sínu með hliðsjón af þessum athugunum, en slíks er þó trúlega þörf. Málið verður athugað á næstunni, og nánari skýrsla gefin um framvinduna ef þurfa þykir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli