Er töluvert annars hugar yfir ýmsu þessa dagana. Meðal annars er smá naflaskoðun í gangi (varúð, þetta er krísublogg!). Það sem er ekki síst að þvælast fyrir mér er þetta: Af hverju skyldi ég ótrúlega oft taka ólíkt á málunum eftir því hvort þau snúa fremur út á við eða inn á við?
Dæmi 1: Ég er yfirleitt mjög stundvís – þegar það breytir einhverju fyrir aðra en sjálfa mig hvenær ég mæti. Hef eiginlega alltaf komið stundvíslega á fundi, í kennslu (þ.e. þegar ég er kennarinn, ekki öfugt!) o.s.frv. En þegar skiptir engu fyrir aðra hvenær ég mæti fer iðulega allt í hönk. Auðvitað er oft þægilegt að geta sveigt hlutina til eftir því sem hentar. En stundum væri ekki slæmt að hafa hlutina í fastari skorðum.
Dæmi 2: Í vinnu o.þ.h. er ég oftast laus við ákvarðanafælni. Þá get ég oftast skorið úr um hlutina í snarhasti, allavega ef þess þarf. En ef ég stend frammi fyrir einhverju óvæntu prívat hef ég tilhneigingu til að þvæla málunum fyrir mér í það óendanlega. Hugsa mig um aftur og aftur og aftur ... Jafnvel í marga daga. Finnast ég þurfa að vera minnst 500% viss áður en ég tek ákvörðun. Minnst. – Og ef ég þarf að ákveða mig fljótt hef ég tilhneigingu til að vantreysta því sem mig langar til, og halda mig í farinu þar sem ég er vön að vera. Af því að það er „öruggara“ eða „auðveldara“ eða ég veit ekki hvað. Tek ekki áhættuna á einhverju nýju nema að svo vel athuguðu máli að stundum rennur tækifærið úr greipum manns. Þótt maður haldi að hægt sé að skipta um skoðun reynist það stundum of seint þegar til kemur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli