sunnudagur, 19. október 2003

Hrikalega er ég búin að slappa vel af um helgina. Ætla ekki að telja saman klukkutímana sem ég hef sofið – veit bara að talan yrði stjarnfræðilega há. En það veitti heldur ekki af eftir vikuna þar sem ég var búin að ganga svo á svefntímann að svefngalsi var orðinn varanlegt ástand. Þegar einstaka setningar í tyrfnum lagatexta eru farnar að vera fyndnar og/eða fallegar – þá er nokkuð ljóst að sálarheillinni hefur verið stefnt í voða.

Æ, já, mikið er búið að vera gott að eiga frí. Á föstudaginn tókst mér semsagt að skila af mér próförkinni sem ég hafði verið með í aukavinnu (og sem hafði valdið öllum svefnskortinum) og þar sem ég hafði lokið umfangsmiklu verkefni í vinnunni daginn áður var ljóst að spennufallið yrði töluvert. Ákvað að hafna öllu því skemmtilega sem mér stóð til boða á föstudagskvöldið; taldi fullvíst að það myndi slokkna á mér snarlega við að setjast niður og slaka á og fannst mun skynsamlegra að það gerðist heima hjá mér en t.d. á sófanum heima hjá vinafólki mínu. Eða á kórtónleikum – efast um að aukaundirleikur í hrotuformi hefði verið mjög vinsæll.

Sófinn heima og vídeóspóla varð niðurstaðan. En ofboðslega getur verið erfitt að finna sér mynd á vídeóleigu. Ég væflaðist um leiguna í lengri tíma án þess að finna nokkuð. Samt var þarna auðvitað hellingur af myndum sem ég ætla einhvern tíma að sjá. Bara einhvern tíma seinna. Eftir hálftíma vandræðagang lá við að ég tæki Bridget Jones (og horfði þar með á hana í fimmta eða sjötta skipti) eða leitaði á náðir spólusafns heimilisins og horfði á Hroka og hleypidóma í tvöþúsund tuttugasta og sjöunda skipti. Með harðfylgi tókst mér þó á endanum að finna mátulega heilalausa mynd sem ég hafði ekki séð áður. Hitt hefði hvort tveggja verið of líkt skrípamynd af föstudagskvöldi einhleyprar konu sem á sér ekki líf. Hefði bara vantað kött.

Á laugardaginn – eftir meira en tólf tíma svefn – vaknaði ég svo við símhringingu Og var spurð hvort ég vildi taka að mér eina litla próförk. Og – ótrúlegt en satt – ég sagði nei. Því ég ætlaði að eiga frí. Ó, já, ég get þetta stundum. Samt var þetta meira að segja próförk að bók sem ég hlakka til að lesa. Og ég náði samt að segja nei. Segir kannski sitt um það hversu mikið ég var búin að vinna yfir mig.

Hélt svo áfram að sofa, slæpast og gera ekki neitt á alla mögulega vegu. Stundum er það óendanlega gott.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli