Las stjörnuspána mina í Mogganum og gat ekki annað en skellt upp úr. Í henni segir nefnilega:
Áætlanir sem tengjast lögfræði, framhaldsmenntun, útgáfu- og ferðamálum líta illa út.
Hér kemur vel á vondan, það liggur við að hér sé líf mitt í hnotskurn. Best að taka þetta lið fyrir lið:
- LÖGFRÆÐI: Ja, „heilkenni lagamálfars“ (skilgreining Kristbjarnar) setur verulega mark sitt á tilveru vesæls skjalalesara þessa dagana. Óþarft að segja meira um það.
- FRAMHALDSMENNTUN: Er krónískt í rúst. Held stundum að einhvern tíma takist mér að sinna MA-náminu aftur. En það víkur alltaf fyrir brauðstritinu.
- ÚTGÁFUMÁL: Hmmm – heima bíður eftir mér próförk að óheyrilega langri bók sem ég átti eiginlega að vera búin að lesa, eða ætlaði allavega að skila af mér á morgun, en sé varla fram á að það takist, þrátt fyrir beitingu svefnskorts og ofneyslu á kaffi síðustu daga. Verð væntanlega orðin ennþá svefnlausari og vitlausari þegar yfir lýkur en núna; nóg er nú samt.
- FERÐAMÁL: Neeei, nú hafna ég því að mark sé á stjörnuspánni takandi. Tilhugsunin um Lundúnaferðina eftir tíu daga hefur verið ljósið í myrkrinu í dag. Þau plön eru ekkert að renna út í sandinn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli