föstudagur, 3. október 2003

Kansellístíllinn er að verða mér ískyggilega tamur. Í morgun sendi ég vinnufélögum mínum svohljóðandi bréf:
Á grundvelli þeirrar staðreyndar sem óformleg athugun leiddi í ljós og fól í sér að formlegir þátttakendur í starfi skjaladeildar voru með örfáum undantekningum ekki tiltakanlega fúsir að fá í hendur þingskjöl á pappír á einstaklingsbundnum grunni, var tekin óformleg ákvörðun um að finna slíku efni hentuga staðsetningu með miðlægum hætti, og hefur henni nú verið hrundið í framkvæmd.
Og þetta er hluti úr skeyti sem fór frá mér síðdegis:
Í tilefni af nýaflokinni framkvæmd vistunar þess sem nálgast að vera heildarmagn pappíra skjaladeildar frá fyrra þingi í kössum með viðeigandi hætti ...
Með sama áframhaldi verð ég orðin fullkomlega óskiljanleg í vor. Blessunarlega ætla kollegarnir að vera á varðbergi og grípa í taumana ef í óefni stefnir. Ég vona að blogglesendur mínir geri slíkt hið sama.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli