fimmtudagur, 29. apríl 2004

Húrra! Ég fer til London um hvítasunnuna! Elsku Iceland Express með sæti á 200 kr.!

þriðjudagur, 27. apríl 2004

Mikið er ég orðin leið á bullinu um að blogg sé sjálfkrafa bersöglismál. (Finnst það næstum eins þreytandi og alhæfingar um að bloggarar kunni hvorki málfræði né stafsetningu og séu að öllu leyti óskrifandi.) Þröstur Helgason segir í Mogganum í dag að á bloggi sé allt játað og það minni helst á opinberan skriftastól. Þó að slíkar síður séu alveg til eru þær margfalt fleiri sem falla ekki undir skilgreininguna. Hvernig væri að einhver sendi manninum linka á nokkrar vel valdar bloggsíður?

mánudagur, 26. apríl 2004

Lítil heilastarfsemi afgangs til notkunar við bloggframkvæmdir. Niðurstaða úr afburða skemmilegu persónuleikaprófi sem ég fann hjá Hirti verður að duga í bili:

Semantics
You are SEMANTICS. Be true to your field,
but remember: debating the meaning of the word
"Supercalifragilisticexpealidocious"
never got Mary Poppins anywhere.


What's Your Linguistic Sub-Discipline?
brought to you by Quizilla


Ég gat líka fengið þetta út:

Sociolinguistics
You are SOCIOLINGUISTICS! You are endlessly fascinated by gender
and cultural conflicts stemming from linguistic misunderstandings.


What's Your Linguistic Sub-Discipline?
brought to you by Quizilla

þriðjudagur, 20. apríl 2004

Sorgarstund í gær þegar síðasti þátturinn af Nýjustu tækni og vísindum var sendur út. Mjög andstyggilegt af sjónvarpinu að svipta mann bernskunni svona. Næstum því jafnslæmt og ef hætt yrði að hringja inn jólin í útvarpinu.

mánudagur, 19. apríl 2004

Hvaða andsk... stælar eru í Eyðimerkurbloggaranum núna? Hann ætti skilið ærlega hirtingu fyrir að fara svona illa með lesendur sína!

laugardagur, 17. apríl 2004

Stundum er ágætt að þurfa að mæta í vinnuna á laugardegi. Maður rífur sig þá allavega á fætur fyrir kvöldmat.

föstudagur, 16. apríl 2004

Byrjaði á þriðju bókinni eftir Jasper Fforde um bókmenntaspæjarann Thursday Next í gær: The Well of Lost Plots. Fór að lesa bókaflokkinn bara út af nafninu á annarri bókinni: Lost in a Good Book (sú fyrsta er The Eyre Affair). Mjög skemmtilega galnar. Gætu kannski orðið þreytandi ef maður læsi þær í einni striklotu, en þær virka mjög vel þegar maður lætur svolítið líða á milli. Er bara rétt byrjuð á The Well of Lost Plots, en á kápunni kemur m.a. fram að persóna í bókinni verði prendvidluvýrusnum / prendvytlupúganum (Mispeling Vyrus) að bráð. Það finnst mér lofa góðu.

fimmtudagur, 15. apríl 2004

Mér finnst missiri ljótt. Misseri er mun fegurra. Ég meiði mig alltaf svolítið þegar ég þarf að breyta þessu.

miðvikudagur, 14. apríl 2004

Að sjálfsögðu:

Grammar God!
You are a GRAMMAR GOD!
If your mission in life is not already to
preserve the English tongue, it should be.

How grammatically sound are you?
brought to you by Quizilla
Annaðhvort er búið að lagfæra vogina í Vesturbæjarlauginni lítillega (þó ekki nógu mikið) eða ég hef snarlega lést um tvö kíló.

þriðjudagur, 13. apríl 2004

Páska„fríið“ í ár var einfalt í sniðum. Markmiðin sem ég hafði sett mér voru tvö: 1) Skúra íbúðina (hefur verið á dagskrá óheyrilega lengi). 2) Lesa ógrynni af próförkum. Kosturinn við að fá frí í vinnunni nokkra daga er nefnilega að þá gefst tími fyrir aukavinnuna. Með sama áframhaldi fer ég bráðum að lesa prófarkir í svefni. Málið er alls ekki að ég kunni ekki að segja nei. Vandamálið er að ég er alltof bjartsýn. Held alltaf að ég hafi mun meiri tíma en ég hef í raun.

Markmiðin voru sett til hliðar á skírdag sem fór allur í að hitta skemmtilegt fólk. Þeim tíma var vel varið en þar með var mannlegum samskiptum lokið þessa páskana. Föstudagurinn langi einkenndist í upphafi af svefninum langa (þó ekki þeim eina sanna) og sennilega veitti ekki af. Svo tóku prófarkirnar við. Skúringarnar héldu hins vegar áfram að vera hornreka. En ég moppaði. Má þá ekki segja að markmiðið hafi náðst að hálfu? Og fór líka með pappírsfjallið sem hafði safnast upp í eldhúsinu í endurvinnslugám. Gríðarlegur dugnaður við heimilisstörfin.

Á laugardaginn ákvað ég að kaupa mér páskaegg þótt mér finnist súkkulaðið í þeim ekkert sérlega gott. En maður verður að fá málshátt. Fyrirhöfnin varð ærin; það var ekki fyrr en í fjórðu búðinni sem ég fékk páskaegg. Í því var svo málshátturinn: Í myrkri eru allir kettir eins á lit. Er ekki enn búin að túlka þetta í samhengi við líf mitt. Kannski er þetta ábending um að í myrkri skeri prentvillur og ambögur sig ekkert frá öðrum stöfum á pappírnum. Efast þó um að gott væri að leggja þá hugsun til grundvallar – því það birtir alltaf aftur. Þannig að ég hélt áfram að eiga við prófarkirnar.

Milli þess sem ég boraði mig gegnum prófarkafjallið (sem er annars konar pappírsfjall en lenti í endurvinnslunni) horfði ég á mun fleiri Ally McBeal þætti en ég hef tölu á. Ally er mjög ágæt. Gerði á meðan tilraun með að prjóna peysu úr eingirni – sem lofar nokkuð góðu. Og svo föndraði ég meira við prófarkir.

mánudagur, 5. apríl 2004

Ég vil ekki trúa því að Þórdís sé hætt að blogga og búin að fela allar gömlu færslurnar! Vonandi er þetta síðbúið aprílgabb – annað væri verulega andstyggilegt.

föstudagur, 2. apríl 2004

Eftir langar og strangar rannsóknir
hefur skjaladeild nefndasviðs uppgötvað
að 17.25 er fyndna mínútan í skjalalestri.