Vandamál vikunnar tengist múmínálfunum. Ég hef undir höndum tvær bækur, báðar á sænsku, sem eru næstum því sú sama - en ekki alveg.
Önnur heitir Muminpappans memoarer (Minningar múmínpabba), útgefin í Stokkhólmi 1968.
Hin heitir Muminpappans bravader (Raupsögur múmínpabba), útgefin í Helsinki 1950. [Áhugamenn um fjölbreytileika hafa kannski gaman af að vita að undirtitillinn á forsíðu þeirrar bókar er: "Skrivna af honom själv", en á titilsíðunni: "Berättade av honom själv"!]
Textinn í bókunum tveimur er að mestu sá sami - en bara að mestu. Stundum hefur einu orði verið skipt út fyrir annað (t.d. "beskrive" vs. "berätta" í fyrirsögn fyrsta kafla) en það er minnsti munurinn. Í báðum bókunum er formáli frá múmínpabba en í þeirri síðari er einnig prólógus þar á undan. Býsna miklu munar síðan á formálanum í bókunum tveim - og fljótlega koma í ljós drjúgar breytingar á textanum öllum hér og þar (a.m.k. framan af bókinni, ég er ekki komin mjög langt í samanburðinum).
Í formála raupsagnanna segir t.d.:
"... sitter i kväll vid mitt fönster och ser eldflugorna dansa i den mörka, varma trädgården ..."
Á sama stað í minningunum stendur:
"... sitter ikväll vid mitt fönster och ser lysmaskarna brodera hemliga tecken därute i trädgårdens sammetsmörker ..."
Ég er verulega með böggum hildar yfir að vita ekki hvernig á þessu stendur. Í fyrstu hélt ég að kannski væri meiri munur á finnlandssænsku og "venjulegri" sænsku en mér hefði verið kunnugt um - en það var áður en ég uppgötvaði hversu miklar breytingarnar eru á köflum.
Getur verið að Tove Jansson hafi endurskrifað bókina? Ef svo er, á það við um fleiri af bókunum hennar?
Vona að einhver múmínfræðingurinn sem les þetta geti upplýst mig um málið. Svo ég geti aftur sofið rótt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli