Menningarnóttin var æði! Og helgin reyndar öll. Eða næstum öll; hún byrjaði kannski ekki alveg nógu vel. Á föstudagskvöldið var nefnilega vinnuátak á dagskrá. Það var orðið nokkuð brýnt að grynnka á ýmsum aukaverkefnunum sem hafa gengið óæskilega hægt. Ég hafði hins vegar ekki tekið með í reikninginn að "þýskir túristar" (þ.e. bróðir minn og þýskur vinur hans) myndu leggja undir sig íbúðina mína. Hélt að svona túristar ættu að vera úti að skoða "so viel Lava" eða eitthvað álíka en ekki hanga inni, spjalla saman og horfa á sjónvarpið. Náði samt að vinna svolítið en ekki nógu mikið. Eiginlega hefur aukavinnan gengið aðeins of hægt eftir að ég kom úr orlofi. Sennilega tók svona svakalega á að vera í fríi. Ég er allavega ekki vön að vera kvöldsvæf en síðan ég kom úr fríinu hef ég hvað eftir annað lognast út af uppi í sófa á kvöldin. Skil ekkert í þessu. Þetta hlýtur að fara að komast í eðlilegra horf - ég er nefnilega vön að hressast rækilega undir miðnætti, hversu þreytt og úldin sem ég hef verið á morgnana. Þarf allavega nauðsynlega að fara að koma ákveðnum verkefnum frá. Kannski ég fari að taka orlofsdaga í dagvinnunni til að geta sinnt aukavinnunni.
En ég ætlaði víst að skrifa um menningarnóttina. Mér tókst að gera hrikalega margt skemmtilegt og hitta helling af frábæru fólki. Þrátt fyrir takmörkuð afköst á föstudagskvöldið sló ég öllu upp í kæruleysi á laugardaginn og lét menningar"nóttina" mína byrja um þrjúleytið þegar ég rölti út í Ísl.erfðagr. og hlustaði á Eivøru Pálsdóttur og Bill Bourne. Frábærir tónleikar - þótt ég hefði ekki gert neitt annað skemmtilegt þennan dag hefðu þeir einir dugað til að hefja andann í hæstu hæðir. En skemmtunin var rétt að byrja. Eftir tónleikana hélt ég niður í bæ, horfði aðeins á dans í Iðnó, hlustaði á músík hér og þar úti á götu - átti því miður aðeins leið um Ingólfstorg en var fljót að flýja Jesúmúsíkina þar - rölti meira um og fór svo í Listasafn Íslands þar sem Hlín samstarfskona mín spilaði og söng. Þar hitti ég Siggu og Jón Yngva og dæturnar þrjár og ákvað að halda með þeim í fæðuleit sem reyndist töluverð vinna því að sjálfsögðu voru allir veitingastaðir fullir. Eftir nokkurn tíma fengum við snilldarhugljómun (að eigin mati); töldum vænlegt að halda á Eldsmiðjuna þar sem hún væri svolítið út úr og líklegt að fáir hefðu munað að þar er matsalur. Það var að sjálfsögðu firra. Allt var troðfullt en við dóum ekki ráðalaus. Á móti Eldsmiðjunni er róluvöllur. Við pöntuðum pítsu og fórum í pikknikk á róló. Það þrælvirkar. Stórskemmtilegt óvissuatriði.
Leiðir okkar skildi svo og ég hélt til fundar við Kötu. Við náðum í skottið á upplestri Hauks í Iðu en síðan var farið ásamt ýmsu góðu fólki yfir í Eymundsson. Þar tylltum við okkur á gólfið á efri hæðinni, næstum því undir borð - og úr þessum afbragðs stúkusætum fylgdumst við með Ragga Bjarna og hljómsveit spila og syngja. Eldri konur í áhorfendahópnum sungu með af gríðarlegri innlifun og allt var þetta afar fagurt.
Þegar öllu þessu var lokið var kominn tími til að halda niður að höfn og hlusta á Egó. Við höfðum gætt þess svo rækilega að koma ekki of snemma (maður vill ekki hlusta á Brimkló ótilneyddur) að við misstum af blábyrjuninni en það gerði svosem ekkert til - við lögðum okkur bara þeim um meira fram við að njóta afgangsins út í ystu æsar. Fólk í kringum okkur var reyndar óþarflega hófstillt í hátterni en við létum það ekkert á okkur fá heldur sungum með af krafti og töpuðum okkur almennt. Þegar 'Fjöllin hafa vakað' komu loksins hoppaði ég þvílíkt eins og bavíani að ég kom mér næstum úr fjarskiptasambandi. Nei - ég hoppaði ekki yfir Esjuna, þetta á sér mun hversdagslegri skýringar. Allt í einu fór ein í hópnum að tína eitthvað upp af jörðinni: meirihluta af síma, bakhlið af síma, batterí úr síma. Þetta var síminn minn. Í pörtum. Ég hafði ekki hugsað út í að hann væri í jakkavasanum (grunnum og opnum) þegar ég missti mig. Sem betur fer fór þetta allt á besta veg.
Flugeldasýningin var ágæt, samt meira eins og hellingur að springa tilviljanakennt en almennilega hönnuð sýning. Það gerði samt ekkert til - og meðan á þessu stóð fór hópur í nágrenninu að syngja lag þar sem textinn var aðallega "lífið er yndislegt." Þetta var sungið aftur og aftur og þegar við vorum búin að læra lagið tókum við að sjálfsögðu undir. Afar viðeigandi. (Reyndar sagði einhver að þetta væri víst eitthvert Eyjalag, en það er óþarfi að láta þá staðreynd nokkuð á sig fá.)
Og skemmtuninni var ekki lokið - því það var eftir að fara á árlega tónleika hjá dixielandsbandinu Öndinni á Kaffi Vín. Tónleikarnir einir og sér hefðu verið nógu skemmtilegir - en best af öllu var að sjálfsögðu skrúðgangan niður Laugaveginn. Dans við dixieland á götum úti var besti mögulegi endirinn á frábærum degi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli