Helgin var ósköp ágæt og nú kemur tepokablogg um hana (stundum er bara um það tvennt að velja að blogga fánýta og leiðinlega skýrslu eða blogga alls ekki neitt; í dag vel ég fyrri kostinn):
Á föstudagskvöldið hafði ég mikla nautn af því að klára nýju Rankin/Rebus-bókina (eini gallinn við að klára nýja bók eftir góðan höfund er að þá er langt þangað maður getur lesið eitthvað nýtt eftir hann). Svo fór ég snemma að sofa enda ósköp lúin.
Á laugardaginn naut ég þess heil ósköp að geta sofið út, um hádegið fékk ég góða heimsókn, eftir hádegi var komið að stórskemmtilegri gönguferð um mótmælaslóðir SHA og um kvöldið hélt Jóna Finndís upp á þrítugsafmælið sitt með þessu líka fína partíi. Góður dagur enda hitti ég margt skemmtilegt fólk.
Hafi verið gott að sofa út á laugardaginn var það ennþá betra á sunnudaginn. Flutti mig um síðir úr rúminu og fram í sófa þar sem ég lá í mestu makindum megnið af deginum, las og horfði á vídeó til skiptist og dottaði svolítið inn á milli. Afar ljúft. Svo fór ég reyndar í vinnuna um kvöldið en tölvurnar voru í klessu þannig að ég gat ekki gert neitt.
En þrátt fyrir alla hvíldina er ég þreytt núna (úff, hvernig verð ég þá þegar líður á vikuna?) og ætla heim að glápa á sjónvarpið. Tilkynnist hér með (eins og einhver hafi áhuga á að vita það).
Engin ummæli:
Skrifa ummæli