Rakst á Fleshmarket Close, nýju bókina eftir Ian Rankin, á Kastrup á sunnudaginn. Keypti hana að sjálfsögðu, er komin langleiðina og líst afar vel á. Verst hvað vinnan tekur mikinn tíma frá lestrinum.
Annars klæjar mig óheyrilega í puttana því ég VERÐ að fara að komast í nýjar íslenskar bækur. Skrapp í Eymundsson í gærkvöld til að skoða, strjúka nýju bókunum aðeins o.s.frv. (Já, ég er með bóka-fetish á háu stigi. Langar ekkert að læknast.) Álpaðist til að opna Kleifarvatn eftir Arnald - las fyrsta kaflann standandi við borðið, færði mig svo í sófa úti í horni - stóð ekki upp fyrr en klukkutíma og fjörutíu mínútum seinna, þá búin með bókina. Mjög góð. Verulega góð.
Kannski hafa afgreiðslustúlkurnar verið farnar að líta mig illu auga - hef samt ekki hugmynd um það því ég var alltof niðursokkin í bókina. Íhugaði reyndar þegar ég var búin að sitja þarna í þrjú korter að flytja mig yfir í aðra bókabúð - en svo ákvað ég að stressa mig ekkert á þessu. Nú vantar mig bara meira. Fleiri bækur, meiri tíma ...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli