Ég var að uppgötva að ég er ekki nærri því eins þreytt og heiladauð núna og oft áður á þessum árstíma, t.d. í fyrra, því að þótt ég hafi unnið mikið síðustu mánuði (sept.-des. eru yfirleitt nokkuð drjúgir) hefur það ekki verið eins óendanlega yfirgengilegt og stundum áður. Hins vegar er ég býsna löt. Jákvæða hliðin á því er að ég er gjörsamlega laus við jólastress - enda hefur dregið úr íhaldsseminni með hverju árinu hjá mér - mér finnst ekki lengur að allt þurfi að vera "eins og það hefur alltaf verið" á jólunum. Gengur sífellt verr að skilja öll þessi "sjálfgefnu" atriði sem eru hömruð inn í fólk beint og óbeint. Hefðin er algjör sjálfstýring.
Ath.: Þetta er ekki andúð á jólunum - mér finnst bara ekki nauðsynlegt að klára tíu síðna tékklista til að jólin komi. Og mér finnst stórfínt að vera mis"dugleg" milli ára.
Staðan í nokkrum jólaframkvæmdaatriðum er svona (og ég hef ekkert í hyggju að breyta henni):
Jólakort: 0.
Áður fyrr sendi ég iðulega helling af jólakortum. Svo fækkaði þeim hægt og rólega þangað til í hittiðfyrra. Þá komst fjöldinn í núll og hefur verið óbreyttur síðan. Og ég hef ekkert samviskubit yfir því.
Smákökur: 0.
Venjulega baka ég svolítið af uppáhaldssmákökunum mínum (m. súkkulaðibitum og valhnetum - hrikalega góðar) en ég hef alveg látið það vera núna. Kannski baka ég bara svolítið af þeim í janúar ef mig langar þá. Hvaðan kom eiginlega þetta óopinbera samkomulag sem virðist ríkja hér á landi um að smákökur séu bara bakaðar fyrir jólin?
Konfektmolar: 0.
Hef ekki heldur nennt að gera konfekt og ekki langað neitt sérlega í það. En það er reyndar næstum því hefð fyrir því að ég breyti eldhúsi foreldra minna í konfektgerðarverksmiðju um ellefuleytið á Þorláksmessu, móður minni til mikillar ánægju (við höfum ekki alltaf sama tímaskyn og töluvert myndi bera í milli ef við ættum að skilgreina hugtakið 'fljótlegt'). Veit samt ekki hvort ég nenni núna. Svo hugsa ég að janúar væri líka góður mánuður til að gera konfekt. Jafnvel febrúar.
Jólasíldarkrukkur: 0.
Mamma gerir ofboðslega góða síld fyrir jólin - með eplum, appelsínum, negul o.fl. góðu. Afskaplega jólaleg og síðustu árin hef ég stundum gert dálítið af henni sjálf. En ekki í ár.
Laufabrauðskökur skornar og steiktar: hellingur.
Hér fer tölfræðin upp á við því ég gerði laufabrauð með frænkum mínum á sunnudaginn. Laufabrauð er eitt af fáu sem er næstum því ómissandi.
Almennt jólaföndur: Smávegis eip í vinnunni (1. hluti og 2. hluti). Í þriðja hluta uppgötvaðist að það þarf ekkert að kaupa rándýran glanspappír úti í búð til að flétta fína hjartapoka. Dagblöð gera sama gagn. Sérstaklega ef maður velur venjulega textasíðu í annan helminginn og auglýsingu í lit í hinn. Kápan af fjárlagafrumvarpinu er líka afar hentug til föndurs af þessu tagi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli