þriðjudagur, 30. nóvember 2004

Tollskráin er (óvart) fyndin. Og af lestri hennar lærir maður stundum ný orð. Nú var ég t.d. að læra orðið áldeig. Til hvers ætli það sé notað? Ætli það sé gott að baka smákökur úr því?

föstudagur, 26. nóvember 2004

Skapandi jólaföndur skjaladeildar - 1. hluti

Spuni með staðbundin aðföng í samvinnu nokkurra aðila.
Framkvæmist að kvöldlagi þegar smávegis hlé er á vinnunni.
  1. Vínberjaklasi tekinn úr ísskápnum.
  2. Vínberin étin.
  3. Greinin látin standa upp á endann, t.d. með því að stinga henni í glas. Þá er orðið til jólatré.
  4. Stjarna klippt út úr því sem hendi er næst. Poki undan piparkökum (rauði hlutinn) hentar t.d. vel.
  5. Stjarnan heftuð á toppinn á trénu.
  6. Pakkabönd - gjarnan rauð - klofin eftir endilöngu.
  7. Böndin hnýtt utan um sykurmola (frjáls fjöldi). Þetta eru augljóslega jólapakkar.
  8. Pökkunum raðað kringum jólatréð.
  9. Afgangurinn af böndunum krullaður og jólatréð skreytt.
  10. Gulir miðar (post-it) dregnir fram.
  11. Stjörnur klipptar út úr þeim hluta miðanna sem límið er á.
  12. Stjörnurnar límdar á nokkra greinarenda trésins.
Næstu daga má halda áfram að bæta við skrautið, t.d. með því að föndra poka úr pappír utan af konfektmolum og hengja þá á tréð.

þriðjudagur, 16. nóvember 2004

Kláraði eina nýja bók í viðbót í gærkvöld sem ég bjóst svo sem ekki við miklu af og olli þess vegna engum sérstökum vonbrigðum. En þetta var frekar þreytandi.
Svo byrjaði ég á einni í strætó í morgun sem mér líst ekkert á.

Útlista þetta allt saman kannski nánar seinna.

En hvað er eiginlega að gerast? Af hverju kemst ég ekki yfir almennilegar bækur?

mánudagur, 15. nóvember 2004

Las tvær nýjar bækur um helgina en hvorug stóð undir væntingum. Synd. Ætla ekki að hafa fleiri orð um þær í bili.
Þingskjöl eru til margra hluta nytsamleg. Ég þurfti að mæta í grímubúningi í partí á laugardagskvöldið og lengi vel vissi ég ekkert hvernig ég ætti að vera. Datt helst í hug að mæta í venjulegu fötunum mínum og segjast vera í gervi skjalalesara. En svo fékk ég hugmynd. Reif síðurnar úr fjárlagafrumvarpinu, heftaði og límdi - og föndraði sítt og mikið pils. Dísa frænka mín bjó á meðan til stórfín pappírsblóm (úr sama frumvarpi) sem ég festi á bolinn minn. Svo mætti ég í partíið sem þjóðarbúið.

föstudagur, 12. nóvember 2004

Meðmæli dagsins, jafnvel ársins, fær þessi grein eftir Philip Pullman um lestur og lýðræði.
Mikið var notalegt að hlusta á marrið í snjónum á leiðinni í vinnuna og láta fallega veðrið síast inn í morgunsárið. Stundum getur verið gott að missa af strætó. Vorkenni eiginlega fólki sem húkir inni í bílum og missir af þessu.

miðvikudagur, 10. nóvember 2004

Af hverju skortir suma eðlilegan málskilning?
Af hverju fatta ekki allir að framkvæma endurmat merkir það sama og endurmeta?

þriðjudagur, 9. nóvember 2004

Fannst ég grípa í saum á kjólnum mínum áðan. Varð frekar hissa en komst svo að því að ég hafði farið í kjólinn ranghverfan. Efast um að þetta lofi góðu fyrir framhald dagsins.

mánudagur, 8. nóvember 2004

Helgin var ósköp ágæt og nú kemur tepokablogg um hana (stundum er bara um það tvennt að velja að blogga fánýta og leiðinlega skýrslu eða blogga alls ekki neitt; í dag vel ég fyrri kostinn):

Á föstudagskvöldið hafði ég mikla nautn af því að klára nýju Rankin/Rebus-bókina (eini gallinn við að klára nýja bók eftir góðan höfund er að þá er langt þangað maður getur lesið eitthvað nýtt eftir hann). Svo fór ég snemma að sofa enda ósköp lúin.

Á laugardaginn naut ég þess heil ósköp að geta sofið út, um hádegið fékk ég góða heimsókn, eftir hádegi var komið að stórskemmtilegri gönguferð um mótmælaslóðir SHA og um kvöldið hélt Jóna Finndís upp á þrítugsafmælið sitt með þessu líka fína partíi. Góður dagur enda hitti ég margt skemmtilegt fólk.

Hafi verið gott að sofa út á laugardaginn var það ennþá betra á sunnudaginn. Flutti mig um síðir úr rúminu og fram í sófa þar sem ég lá í mestu makindum megnið af deginum, las og horfði á vídeó til skiptist og dottaði svolítið inn á milli. Afar ljúft. Svo fór ég reyndar í vinnuna um kvöldið en tölvurnar voru í klessu þannig að ég gat ekki gert neitt.

En þrátt fyrir alla hvíldina er ég þreytt núna (úff, hvernig verð ég þá þegar líður á vikuna?) og ætla heim að glápa á sjónvarpið. Tilkynnist hér með (eins og einhver hafi áhuga á að vita það).

föstudagur, 5. nóvember 2004

Rakst á Fleshmarket Close, nýju bókina eftir Ian Rankin, á Kastrup á sunnudaginn. Keypti hana að sjálfsögðu, er komin langleiðina og líst afar vel á. Verst hvað vinnan tekur mikinn tíma frá lestrinum.

Annars klæjar mig óheyrilega í puttana því ég VERÐ að fara að komast í nýjar íslenskar bækur. Skrapp í Eymundsson í gærkvöld til að skoða, strjúka nýju bókunum aðeins o.s.frv. (Já, ég er með bóka-fetish á háu stigi. Langar ekkert að læknast.) Álpaðist til að opna Kleifarvatn eftir Arnald - las fyrsta kaflann standandi við borðið, færði mig svo í sófa úti í horni - stóð ekki upp fyrr en klukkutíma og fjörutíu mínútum seinna, þá búin með bókina. Mjög góð. Verulega góð.

Kannski hafa afgreiðslustúlkurnar verið farnar að líta mig illu auga - hef samt ekki hugmynd um það því ég var alltof niðursokkin í bókina. Íhugaði reyndar þegar ég var búin að sitja þarna í þrjú korter að flytja mig yfir í aðra bókabúð - en svo ákvað ég að stressa mig ekkert á þessu. Nú vantar mig bara meira. Fleiri bækur, meiri tíma ...
Viðurkenni:
- að ég er aumingjabloggari dauðans.

Iðrast:
- einlæglega.

Lofa:
- samt ekki endilega bót og betrun. Kemur bara í ljós hvernig málin þróast. Kannski fyllist ég fítons-blogg-krafti. Kannski ekki.