Ég er búin að sjá, ja ... tvær myndir og tvær að hluta á kvikmyndahátíðinni. Eru það ekki samtals þrjár?
Der Untergang er löng. Og býsna langdregin á köflum, sérstaklega framan af. Á ákveðnum tímapunkti hélt ég að myndin væri að klárast en þá kom hlé. Hún er líka töluvert reikul, menn virðast t.d. hafa verið í vandræðum með að ákveða sig hvort ritarinn ætti að vera aðalpersónan eða ekki. En það er margt gott í myndinni og síðasti hlutinn heldur manni við efnið. Það var þess virði að sitja áfram eftir hlé; ég var allavega býsna ánægð með myndina þegar ég kom út. - En mér fannst merkilegt að ég hef sennilega aldrei verið á bíómynd þar sem eins fáar konur voru hlutfallslega meðal áhorfenda.
Shi mian mai fu - eða Fljúgandi rýtingarnir eða Fyrirsát úr tíu áttum (sem Sverrir bendir á að sé í raun merking titilsins) - er melódrama í tíunda veldi. En svakalega flott.
Ég fór á ítölsku myndina Non ti muovere þótt mér fyndist lýsingin afar óspennandi - en mig langaði að hlusta á ítölskuna til að hita upp fyrir sumarið. Því miður leiddist mér svo fyrsta hálftímann að ég færði mig yfir í annan sal í bíóinu. Þar var verið að sýna Sódómu Reykjavík. Allt annað líf.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli