Þriðjudagurinn var gulur. Ég hef stundum átt gular sokkabuxur en ekki núna og ég átti ekkert annað gult. Hugleiddi að klína á mig post-it-miðum og ganga um með sítrónur í poka. Af því varð þó ekki heldur fór ég í Skarthúsið og fann gula eyrnalokka, gula spennu og lítinn gulan klút. Svo gekk ég yfir í Tiger og var svo heppin að rekast á gult naglalakk sem toppaði dæmið alveg. Og gulan+appelsínugulan poka - eða pokatösku - eða eitthvað svoleiðis.
Ég var búin að segja frá rauða miðvikudeginum og græna þriðjudeginum og þeir þarfnast ekki nánari skýringa. Í dag var þemað höfuðföt. Ég átti engan hatt - en eftir allt eipið fyrr í vikunni þurfti ég hvort eð er að tapa mér endanlega þannig að ég fór að föndra. Fékk reyndar aðeins of margar hugmyndir en hin ágæta fyrrnefnda frænka benti mér á að ég gæti sameinað tvær þeirra:
- Málmrauð vírlengja með stjörnum (keypt sem jólaskraut) gat augljóslega verið geislabaugur fallna engilsins - orðinn svolítið tætingslegur og kominn með holdlega rauða slikju.
- Kóróna úr svörtu kartoni með álímdum silfurlitum stjörnum og ljósasería að auki (blikandi stjörnur) var hins vegar höfuðbúnaður næturdrottningarinnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli