föstudagur, 15. apríl 2005

Meira af þemadögum. Og kannski ég byrji á byrjuninni núna. Á mánudaginn var svokallað "launaþema" í tilefni af nýgerðum kjarasamningum. Þar reyndi á sköpunargáfuna. Sumir létu peningaseðil standa upp úr vasa - einkum dollara, þeir eru svo ódýrir núna. Ein af uppáhaldsfrænkum mínum var með hálsmen úr tölum - reyndar tölum eins og á flíkum en hafa ber í huga að orðið er margrætt (tölur = upphæðir). Ég prentaði út nýgerðan kjarasamning, límdi saman blöðin, braut þau saman á langveginn og heftaði um mittið þannig að til yrði belti (sem mátti t.d. túlka sem sultaról).

Þriðjudagurinn var gulur. Ég hef stundum átt gular sokkabuxur en ekki núna og ég átti ekkert annað gult. Hugleiddi að klína á mig post-it-miðum og ganga um með sítrónur í poka. Af því varð þó ekki heldur fór ég í Skarthúsið og fann gula eyrnalokka, gula spennu og lítinn gulan klút. Svo gekk ég yfir í Tiger og var svo heppin að rekast á gult naglalakk sem toppaði dæmið alveg. Og gulan+appelsínugulan poka - eða pokatösku - eða eitthvað svoleiðis.

Ég var búin að segja frá rauða miðvikudeginum og græna þriðjudeginum og þeir þarfnast ekki nánari skýringa. Í dag var þemað höfuðföt. Ég átti engan hatt - en eftir allt eipið fyrr í vikunni þurfti ég hvort eð er að tapa mér endanlega þannig að ég fór að föndra. Fékk reyndar aðeins of margar hugmyndir en hin ágæta fyrrnefnda frænka benti mér á að ég gæti sameinað tvær þeirra:
  1. Málmrauð vírlengja með stjörnum (keypt sem jólaskraut) gat augljóslega verið geislabaugur fallna engilsins - orðinn svolítið tætingslegur og kominn með holdlega rauða slikju.
  2. Kóróna úr svörtu kartoni með álímdum silfurlitum stjörnum og ljósasería að auki (blikandi stjörnur) var hins vegar höfuðbúnaður næturdrottningarinnar.
Þetta mátti augljóslega sameina á þann hátt að fallni engillinn (sem vantaði auðvitað vinnu) væri að reyna fyrir sér sem næturdrottning.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli