Ísraelska söngkonan og sú rúmenska voru í harðri samkeppni um hvor kæmist nær því að missa brjóstin upp úr hálsmálinu í gær. Það verður spennandi að sjá hvernig sú keppni þróast í úrslitunum.
Uppáhaldslögin mín komust áfram (Noregur, Ungverjaland, Sviss, Moldóva, Króatía) þannig að ég er býsna sátt. Mér finnst svosem óskiljanlegt af hverju Makedóníu og Ísrael gekk vel en það væri ekkert gaman ef manni væri aldrei komið á óvart. Og þótt ég hafi búist við því fyrirfram (eins og 99% Íslendinga) að Selma rúllaði þessu upp var ég ekkert hissa eftir keppnina sjálfa, því þótt lagið væri alveg þokkalegt og þær stæðu sig ágætlega fannst mér bæði atriðið og lagið verða frekar flatt í sjónvarpinu, þetta skar sig ekki úr að nokkru leyti og var afar laust við að vera eftirminnilegt.
Ég gef lítið fyrir kenningarnar um þessa furðulegu og/eða skelfilegu Austur-Evrópu sem hafi einhvern annan tónlistarsmekk en "við" og kjósi "okkur" ekki þess vegna. Það er t.d. ekki beinlínis eins og íslenska lagið hafi haft einhver sérstök vesturevrópsk eða norræn sérkenni. Og mér finnst ekkert skrýtið að hlutfallslega fleiri austurevrópulönd hafi komist áfram - þau voru bara almennt með betri lög (og Makedónía er þá undantekningin sem sannar regluna).
Engin ummæli:
Skrifa ummæli