Uppáhaldssjónvarpsþættirnir mínir síðustu vikur hafa að sjálfsögðu verið norrænu Júróvisjónþættirnir. Vitsmunalegt spjall (reyndar misvitsmunalegt í þessu tilfelli) um léttvæg málefni á norsku, dönsku, sænsku og finnlandssænsku er bara æðislegt.
Ég hef samt saknað rauðu, gulu og grænu hnappanna frá í fyrra og finnst synd að settið hafi verið gert smartara. Þetta var svo fallega hallærislegt í fyrra. Hef líka saknað sænsku konunnar frá því í fyrra, hún var svo ágætlega skelegg, allt annað en þessi leiðinlega Charlotte sem er upptekin af tvennu, annars vegar sjálfri sér, hins vegar því hvort lögin "pössuðu" í keppnina. Það minnti reyndar mjög á umræðurnar í Þýskalandi árið 2000 þegar lagið sem vann undankeppni var bara dár og spé í staðinn fyrir að vera "Schlager" og Schlager-mafían í landinu varð brjáluð. (Ég skrifaði fræðslupistil um málið fyrir Stúdentablaðið veturinn á eftir, kannski ég ætti að draga hann fram.)
Finnlandssvíinn er annars uppáhaldspersónan mín í þessum þáttum, hann er frábær og fötin hans líka!
Það eina sem dregur úr sorginni yfir að þættirnir skuli vera búnir er að það skuli vera komið að keppninni sjálfri. Mér finnst norska glysrokkið fullkomin snilld og held líka mikið upp á lögin frá Sviss, Ungverjalandi og Moldóvu. Króatíska lagið finnst mér flott og það pólska líka (jamm, ég fíla þjóðlagatónlist og þjóðlagapopp/-rokk).
Ég er ekkert sérlega hrifin af austurríska laginu en það fær samt stóran plús fyrir jóðlið.
Söngkonan frá Andorra geiflaði sig svo hroðalega í myndbandinu að lagið varð sjálfkrafa hörmulegt. Var hins vegar að hlusta án þess að horfa um leið og lagið skánaði til muna við það. Plús fyrir að syngja á katalónsku.
Vore nordiske venner standa sig afar misvel. Norska lagið er auðvitað æði eins og ég er búin að segja en það finnska heillar mig ekki (þótt lagið sé ekkert endilega beinlínis vont) og mér fannst danska lagið líka slappt þegar ég heyrði það fyrst en kannski venst það sæmilega. (Og þótt ég ætli ekki að blogga um lögin sem eru ekki í undankeppninni get ég ekki látið hjá líða að nefna í þessu samhengi hvað sænska lagið er misheppnað.)
Litháíska og eistneska lagið eru óspennandi og þótt það lettneska sé svosem sætt er það óhóflega vemmilegt.
Búlgarska myndbandið var eitt af mörgum sem minnti óhóflega á íslenskar leiksýningar út af öllu vatnssullinu. Kannski er lagið skárra en mér fannst í fyrstu, þrátt fyrir hina glötuðu alrímsklifun Lorraine in the rain. Ég er allavega búin að fá það rækilega á heilann - en reyndar eru það ekki endilega meðmæli.
Slóvenía sullaði líka í vatni. Æi.
Leiðinleg lög sem óþarft er að eyða fleiri orðum á, sum meira að segja ýmist hundleiðinleg eða skelfileg nema hvort tveggja sé: Hvíta-Rússland, Ísrael, Rúmenía, Mónakó, Portúgal, Belgía, Makedónía.
Ég ætla rétt að vona að hollenska Whitney Houston eftirherman komist ekki áfram. Hún fær hallærisverðlaun ársins.
Svo er spurning hvort írsku sifjaspellin verða Albanía þessa árs. Eins og allir hljóta að muna var Albanía með skelfilegasta myndband sem sést hefur í fyrra og maður gerði fyrirfram ráð fyrir núll stigum á línuna, nema kannski einstaka samúðaratkvæðum. Svo rúllaði stelpan þessu upp á sviðinu og maður komst að því að lagið var fínt.
Held samt að írska lagið sé of glatað til að það sama gerist. Bíð spennt að sjá hvort það verður riverdance á sviðinu eins og í vídeóinu. Það jók gildið umtalsvert - þ.e. súrrelíska gildið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli