Ég er hvorki eins heiladauð og í desember í fyrra og hittiðfyrra. Hins vegar er ýmislegt annað líkt með þessum mánuðum, t.d. að jólaundirbúningur er í lágmarki. Skrifa t.d. ekki eitt einasta jólakort. Sendi bara hugskeyti. Hins vegar er ég búin að prenta út Lundúnagreinina hennar Nönnu og lesa hana upp til agna (ekki í fyrsta skipti), og ég er líka búin að eyða heilmiklum tíma í að skoða ýmsar skemmtilegar síður um London, m.a. um veitingastaði (t.d. þessa og þessa og þessa og þessa). Og panta borð á nokkrum stöðum. Og kynna mér vandlega hvenær ýmis söfn eru opin. Og fleira og fleira.
Ég er hins vegar ekki farin að pakka niður en það geri ég hvort eð er aldrei fyrr en í fyrsta lagi um miðnætti - alveg sama þótt það séu bara örfáir klukkutímar þangað til ég þarf að fara af stað. En ég hef aldrei skilið hvað sumt fólk gerir óskaplegt mál úr því að henda nokkrum fataræflum og tannbursta og kannski einstaka öðrum hlutum niður í ferðatösku.
Trúi því varla að ég sé að fara út í fyrramálið - mér finnst desember rétt vera byrjaður. En mikið hlakka ég til. Blogga kannski frá London, kannski ekki.
Gleðileg jól.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli