Helgin hefur verið fremur tíðindalaus, fyrir utan góðan og fjölsóttan mótmælafund í gær. Veit ekki hvar löggan lærði að telja Þótt ég sé fullkominn rati í að átta mig á fjölda fólks á svona fundum – talningafræði mín er sennilega svohljóðandi í hnotskurn: a) fáir, b) þolanleg mæting, c) margir, d) mjög margir – þá er ekki sjens að ég taki það trúanlegt að þarna hafi aðeins verið um 400 manns. Mogginn nefnir 1500 manns sem mér finnst mun líklegra. – Saga til næsta bæjar þegar manni er farinn að finnast Mogginn einna trúverðugastur í svona málum!
En fyrir utan mótmælin hef ég haft mig ákaflega hæga um helgina. Í gærkvöld og fyrrakvöld gekk þetta svo langt að ég sat allt kvöldið uppi í sófa, heklaði og reyndi ýmist að hlusta á útvarpið eða horfa á sjónvarpið; reyndar með misgóðum árangri. Föstudagskvöld eru auðvitað sjónvarpskvöld dauðans, svo ekki sé meira sagt. Þegar það gerist hvað eftir annað á föstudögum að Djúpa laugin er skásta sjónvarpsefnið ætti að vera nokkuð augljóst að eitthvað er að. Mér þarf að leiðast mjög mikið til að horfa á þá hörmung – en æ, æ; þegar ég hugsa mig um kemur í ljós að það hefur gerst ískyggilega oft upp á síðkastið. Föstudagskvöldið fyrir viku var einmitt svipað og nýliðið föstudagskvöld: hekl + Djúpa laugin. Ef ég ætti að draga einhverjar ályktanir af þessu einu kæmist ég sennilega fljótt að þeirri niðurstöðu að ég ætti mér ekkert líf. Sem betur fer hef ég þó náð mun innihaldsríkari dögum og kvöldum inn á milli.
Ætla samt rétt að vona að mér takist að brjóta þetta mynstur upp næsta föstudag, því þá á ég afmæli. Er ekki búin að skipuleggja daginn, en ég verð nú að gera eitthvað til hátíðabrigða, er það ekki? Spurning hvað það ætti helst að vera. Hugmyndir vel þegnar (minni á kommentakerfið).
Engin ummæli:
Skrifa ummæli