Jólabókauppgjörsfundurinn í gær tókst geysivel; Jón Yngvi flutti afbragðsgóðar og frjóar „fréttir af flóðasvæðunum“, eins og við var að búast, fundurinn var prýðilega sóttur (þarna voru margir sem höfðu samviskubit yfir því að skrópa í „kistulagningu Kárahnjúka“), og umræðurnar voru að mestu leyti mjög góðar. Fjölmargt heldur áfram að gerjast í kollinum á manni og ég diskúteraði ýmislegt við sjálfa mig þegar ég var komin heim. (Verst að mér finnst ekki nógu gaman að tala við sjálfa mig. Ætli það sé þess vegna sem ég blogga?) Kannski á eitthvað af hugleiðingum mínum um jólabókaflóðið og bókmenntaumræðuna eftir að rata inn á bloggið á næstunni.
Annars veit ég varla hvort ég þori að halda áfram að blogga. Dagný tilkynnti mér í gær að hún væri farin að lesa bloggið mitt og sálgreina mig út frá því. Það finnst mér verulega ógnvænlegt, því ég geri fastlega ráð fyrir að þar með afhjúpist einhverjar skelfilegar hliðar á sjálfri mér sem ég vil engan veginn horfast í augu við! Þetta er augljóslega tilefni til illvígrar tilvistarkreppu!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli