Í dag á ég eins árs bloggafmæli. Hátíðahöld í tilefni dagsins verða engin, en ég vona að í kvöld takist mér að mestu að klára fyrirlesturinn minn fyrir landsbyggðarráðstefnuna. Getur einhver útskýrt af hverju mér virðist fyrirmunað að gera hlutina öðruvísi en á síðustu stundu?
Á þessu ári sem liðið er frá upphafi bloggs hef ég annars: Einhvern veginn finnst mér fátt standa eftir nema vinnan. Auðvitað hef ég gert ótalmargt skemmtilegt, en það er líka svo margt sem ég hef ekki gert (m.a. af því að ég hef alltaf verið að vinna). Ég hef t.d. ekkert komist áfram í MA-náminu. En það á nú samt eftir að hafast á endanum. Einhvern tíma.
miðvikudagur, 28. maí 2003
þriðjudagur, 27. maí 2003
Ja hérna! Léttúðarhjal um bloggáfanga hér fyrir neðan (í kommentum við þessa færslu) hefur leitt til þess að ég er orðin tilefni könnunar á þessari síðu. Minnir mig á að í eitt af þeim (ófáu) skiptum þegar ég blandaði Bráðavaktinni í íslenskukennsluna spurði nemendurnir hvort ég vildi ekki bara kenna sérstakan Bráðavaktaráfanga. Kannski ég ætti bjarta framtíð í námskeiðahaldi um léttúðug efni sem byrja á b. Blogg, Bráðavaktin ... það er ábyggilega hægt að finna eitthvað fleira. Hvað ætli lausleg athugun á orðabókinni leiði í ljós? Badminton og bakaraiðn væru kannski ekki alveg mín deild og bestukjarasamningar tæplega heldur (já, það virðist vera til sem orð í alvörunni!). Nei, upp úr orðabókinni hef ég ekkert í fljótu bragði, nema að sjálfsögðu ýmis skemmtileg orð, t.d. bínarður, boðvangur, bogmekktur, bogstafasýki, bókadoppa, bragþjófur, bráðaþeyr, breddufluga, breksamur, Brettívumessa, bréferfingi, brigðinn, brytöxi, buddingjaspýta, buklari, burtfararbiti, búdd-búdd (!), búsúkí, böðlastaup o.fl. o.fl. Já, það er gaman að lesa orðabækur. En þetta eru varla efnileg námskeiðsefni. Held áfram að leggja höfuðið í bleyti.
mánudagur, 26. maí 2003
Sumir morgnar eru svo mikið klúður hjá mér að það verður stórfellt vafamál að ég geti talist sjálfbjarga manneskja. Dagurinn í dag byrjaði reyndar á mjög hefðbundinn hátt, þ.e. á baráttunni við vekjaraklukkuna – hún reynir á hverjum morgni að telja mér trú um að það sé kominn nýr dagur og ég reyni að hafna þeirri staðreynd eins lengi og ég mögulega get. En það er bara fastur liður og ekkert sérstakt áhyggjuefni, enda vann vekjaraklukkan líka á endanum (eins og venjulega). Nokkru eftir að ég drattaðist upp úr rúminu komst ég hins vegar að því að úrið mitt var orðið galið. Ekki nóg með að það hefði seinkað sér verulega heldur var sekúnduvísirinn hættur að hreyfast eðlilega og tók fimm sekúndna stökk í staðinn. En ég hafði aðrar leiðir til að komast að því hvað tímanum leið, þannig að þegar hér var komið sögu hélt ég enn að þetta yrði hinn ágætasti dagur, þrátt fyrir allt. Sú skoðun staðfestist frekar á leiðinni út á strætóstoppistöð, því það var mesta blíðskaparveður, sólin skein, fuglarnir sungu o.s.frv. En þá fóru óþægilegar staðreyndir að dúkka upp. Ég opnaði töskuna og ætlaði að draga upp veskið mitt – en úpps, ég hafði gleymt því heima. Og úpps, þar með var græna kortið líka læst inni og – enn meira úpps – húslyklarnir höfðu líka orðið eftir heima, þannig að ég komst augljóslega ekki inn til að sækja veskið og græna kortið og það allt. Við tók göngutúr í vinnuna. Langur göngutúr. Ekki gott mál. Reyndar er ég vön að ganga um bæinn þveran og endilangan á undarlegustu tímum en þegar maður er þegar orðinn of seinn í vinnuna er þriggja kortera gönguferð kannski ekki það sem maður þarfnast mest. Það hefði ekki komið mér á óvart ef ég hefði klúðrað því að klæða mig líka, en blessunarlega reyndist ég vera í öllum fötunum og þau sneru líka öll rétt. Lít eiginlega á það sem meiriháttar afrek. Nú er bara að vona að aukalykillinn sem á að vera hjá frænku minni sé ekki týndur. En mér er spurn: Hvernig er hægt að vera svona misheppnuð á morgnana? Er mér almennt treystandi fyrir sjálfri mér? Ég er í mikilli tilvistarkreppu!
föstudagur, 23. maí 2003
Evróvisjón-bloggið þeirra Loga og Gísla er algjör snilld. Ekki síst kommentin hans Loga um æfingarnar. T.d. þetta:
Annars virðist fólk vera að blogga um Evróvisjón út um allt; úttekt Hjörvars á lögunum er til dæmis bráðskemmtileg. Sumir lifa sig greinilega mikið inn í þetta. Enda er Evróvisjón-dagurinn næstum því þjóðhátíðardagur. Sjaldan er þjóðin eins fullviss um eigið ágæti og yfirburði og þegar kemur að þessari keppni. En það er reyndar ágætt.
Jæja. Það verður að setja gult merki í hornið held ég. Búningurinn hjá þessari grísku er... ö fleginn!Einhver verður samt að kenna þeim að búa til linka – ómögulegt að þeir skrifi bara slóðirnar inn. Svansý, geturðu ekki reddað þessu?
Annars virðist fólk vera að blogga um Evróvisjón út um allt; úttekt Hjörvars á lögunum er til dæmis bráðskemmtileg. Sumir lifa sig greinilega mikið inn í þetta. Enda er Evróvisjón-dagurinn næstum því þjóðhátíðardagur. Sjaldan er þjóðin eins fullviss um eigið ágæti og yfirburði og þegar kemur að þessari keppni. En það er reyndar ágætt.
miðvikudagur, 21. maí 2003
Ég reyndist að sjálfsögðu vera Elísabet Bennett, alveg eins og Nanna og Þórdís. En ekki hef ég fundið neinn Darcy enn. Hvar skyldi hann halda sig?
You're Elizabeth Bennett of Pride and Prejudice by Jane Austen!
Which Classic Female Literary Character Are you?
brought to you by Quizilla
Reyndar segist Nanna (í kommenti hjá Þórdísi, sbr. einnig kommentakerfi Nönnu sjálfrar) ekki vita um neina konu sem hafi fengið aðra niðurstöðu. Sennilega vegna þess að við erum allar að bíða eftir Darcy. Ég hef líka þá kenningu að Elísabet sé týpan sem við viljum allar vera – en það sé síðan annað mál hvort sú sé raunin. Til dæmis held ég að mín skapgerð minni mun meira á Darcy sjálfan. "My good opinion once lost is lost forever." (Fjárhagsstaðan er hins vegar mun slappari, skil ekkert í því.) Svo er ég ískyggilega lík Bjarti í Sumarhúsum á köflum – þegar ég las Sjálfstætt fólk í fyrsta skipti fékk ég vægt áfall yfir því hvað við værum andlega skyld! Er þetta áhyggjuefni?
You're Elizabeth Bennett of Pride and Prejudice by Jane Austen!
Which Classic Female Literary Character Are you?
brought to you by Quizilla
Reyndar segist Nanna (í kommenti hjá Þórdísi, sbr. einnig kommentakerfi Nönnu sjálfrar) ekki vita um neina konu sem hafi fengið aðra niðurstöðu. Sennilega vegna þess að við erum allar að bíða eftir Darcy. Ég hef líka þá kenningu að Elísabet sé týpan sem við viljum allar vera – en það sé síðan annað mál hvort sú sé raunin. Til dæmis held ég að mín skapgerð minni mun meira á Darcy sjálfan. "My good opinion once lost is lost forever." (Fjárhagsstaðan er hins vegar mun slappari, skil ekkert í því.) Svo er ég ískyggilega lík Bjarti í Sumarhúsum á köflum – þegar ég las Sjálfstætt fólk í fyrsta skipti fékk ég vægt áfall yfir því hvað við værum andlega skyld! Er þetta áhyggjuefni?
fimmtudagur, 15. maí 2003
Er að lesa yfir þýðingu á alveg dásamlegri bók. Það getur varla verið vinnufriður fyrir mér hér á hæðinni, því ég flissa svo mikið, en annað er ekki hægt yfir texta eins og þessum:
Mennirnir urðu ásáttir um að nóg væri komið af sjálfsmorðstilraunum í bili. Löngunin til að deyja þennan daginn var að minnsta kosti alveg fyrir bí. Í sjálfu sér er svo mikið einkamál að farga sjálfum sér að til þess þarf fullkominn frið. Einhverjir útlendingar áttu það að vísu til að kveikja í sér á opinberum stöðum í mótmælaskyni og einnig af stjórnmálalegum og trúarlegum ástæðum, en Finni þarfnast ekki mannmergðar til að fylgjast með sínu sjálfsmorði. Um þetta voru þeir alveg á einu máli.
föstudagur, 9. maí 2003
Trúlega væri sniðugt að hafa bónus„spurningu“ á prófum sem væri einfaldlega „sjálfvalið efni“ svo að fólk gæti tappað af allri þekkingunni sem það hefur viðað að sér án þess að spurt væri út úr henni. Prófið í ÍSL203 í þessum skóla í gær var t.d. bara klukkutími, svo það var augljóslega ekki hægt að spyrja úr öllu námsefninu. A.m.k. einn nemandi hefði gjarnan viljað tjá sig um fleira en spurt var um. Í næstefstu færslunni frá 8. maí á þessari síðu er afbragðs ritgerð um indóevrópsku málaættina. Mæli með henni.
Umræðuþátturinn í sjónvarpinu í kvöld var afbrigðilega misheppnaður og leiðinlegur. Frambjóðendurnir voru flestir ógurlega þreyttir og pirraðir á þessu öllu – og þáttastjórnendurnir voru fullkomlega misheppnaðir. Það var greinilega búið að kortleggja þáttinn; fyrst átti að tala um þetta, svo um hitt, þá um þetta – sem er í sjálfu sér eðlilegt – en það sem var ekki í lagi var það að ef í umræðum um einhvern lið var snert við einhverju sem féll mögulega undir annan lið panikkeruðu stjórnendurnir gjörsamlega. Þeir réðu engan veginn við það að umræðurnar gætu leitt að öðru en þeir höfðu búist við: „Nei ... sko ... það er ekki komið að því að tala um þetta enn ...“ Ótrúlegt. Þótt það verði auðvitað að setja upp einhvern ramma fyrirfram er ekki sérlega fagmannlegt að geta ekki höndlað það að umræðurnar þróist á ákveðinn veg. A.m.k. í smátíma í hvert skipti.
Ég er í tilvistarkreppu yfir þessum kosningum, enda flokkspólitískur munaðarleysingi. Það er þó ekki eins og hvað sem er komi til greina; nei, valið stendur milli tveggja. En mér finnst mjög óheilbrigt að vera ekki búin að ákveða mig. Ætti ég að úllen-dúllen-doffa í kjörklefanum á morgun? Eða kasta upp krónu?
miðvikudagur, 7. maí 2003
Einhver lenti hér inn á síðunni eftir að hafa leitað á Google að "Gylfaginning einföld"! Ætli nemendur mínir séu að reyna að stytta sér leið að hlutunum síðasta daginn fyrir próf?!
þriðjudagur, 6. maí 2003
Var byrjuð að skrifa í kommentakerfið við færsluna hér fyrir neðan, en svarið var orðið svo langt að ég ákvað að breyta því frekar í bloggfærslu. Tilefnið var að Salvör benti á að á póstlistanum sé verið að tala um merkileg mál sem snerti tilfinningar fólks og þess vegna verði umræðan oft heit.
Það er alveg rétt. En heitar umræður eru eitt. Allt annað mál er hvernig sumt fólk á listanum hefur áskilið sér rétt til að hafna ákveðnum umræðuefnum eða sjónarhornum og afskrifa þau af því að því sjálfu finnst þau ekki áhugaverð eða mikilvæg. Fyrir nú utan annan dónaskap sem alltof oft hefur sést. Þótt þetta séu bara örfáir einstaklingar af þeim 600 (eða hvað það nú er) sem á póstlistanum eru, þá skapar þetta neikvætt andrúmsloft. Póstlistaformið sem slíkt ýtir líka undir vandann því að það er erfitt að leiða ómálefnalegu raddirnar hjá sér þegar allt kemur inn í pósthólfið manns. Vona að umræðurnar verði færðar yfir á vefsíðu sem fyrst. Þá verður auðveldara að einbeita sér að málefnalega hlutanum sem er blessunarlega stærri en hinn.
Það er alveg rétt. En heitar umræður eru eitt. Allt annað mál er hvernig sumt fólk á listanum hefur áskilið sér rétt til að hafna ákveðnum umræðuefnum eða sjónarhornum og afskrifa þau af því að því sjálfu finnst þau ekki áhugaverð eða mikilvæg. Fyrir nú utan annan dónaskap sem alltof oft hefur sést. Þótt þetta séu bara örfáir einstaklingar af þeim 600 (eða hvað það nú er) sem á póstlistanum eru, þá skapar þetta neikvætt andrúmsloft. Póstlistaformið sem slíkt ýtir líka undir vandann því að það er erfitt að leiða ómálefnalegu raddirnar hjá sér þegar allt kemur inn í pósthólfið manns. Vona að umræðurnar verði færðar yfir á vefsíðu sem fyrst. Þá verður auðveldara að einbeita sér að málefnalega hlutanum sem er blessunarlega stærri en hinn.
Synd að Unnur skuli vera búin að segja sig af femínistapóstlistanum; hún kom oft með mjög góð innlegg þar. Ég skil hana samt vel. Viðbrögð einstaka fólks á listanum við ögrandi spurningum hafa stundum verið mjög undarleg svo ekki sé meira sagt, og þótt ég sé þess fullviss að þau séu ekki lýsandi fyrir heildina er vandamálið við hinn þögla meirihluta sem kann ekki við slík viðbrögð (trúi því að það sé meirihlutinn) einmitt það að hann skuli vera þögull. Niðurrífandi raddirnar fá þá svo óeðlilega mikið vægi. Sennilega er þetta þörf áminning um að maður ætti að vera duglegri að taka beinan þátt í umræðunni.
föstudagur, 2. maí 2003
Þótt líf mitt virðist stundum óskipulagt og í lausu lofti lýtur það engu að síður ýmsum reglum. Nú er til dæmis enn og aftur komið að fasta liðnum: Erna byrjar í nýrri vinnu. Reyndar er vinnan ekki glæný í þetta skiptið því ég er semsagt komin aftur til Eddunnar. Framborð á skrifborðum er ekki yfirþyrmandi mikið, en sjálfsbjargarviðleitnin blossaði upp og ég fann mér borð sem ég gat setið við í dag. Svo er Bjarni víst að yfirgefa svæðið í mánuð, þá get ég lagt undir mig borðið hans á meðan.
Kennslunni lauk á miðvikudaginn, og ég náði blessunarlega að fara yfir öll heimaverkefni og svoleiðis dót áður en henni lauk. Kannski ég ætti að reyna að telja saman hvað ég er búin að fara yfir mörg verkefni á önninni – held að talan yrði ansi há. Trilljón, skrilljón eða eitthvað í þá veru. Nú er bara eftir að leggja fyrir próf; við kennararnir hittumst uppi í skóla í morgun og púsluðum saman kvikindislegum prófspurningum (!) – nei, nei, ég held að þetta verði allt ákaflega sanngjarnt..
Kennslunni lauk á miðvikudaginn, og ég náði blessunarlega að fara yfir öll heimaverkefni og svoleiðis dót áður en henni lauk. Kannski ég ætti að reyna að telja saman hvað ég er búin að fara yfir mörg verkefni á önninni – held að talan yrði ansi há. Trilljón, skrilljón eða eitthvað í þá veru. Nú er bara eftir að leggja fyrir próf; við kennararnir hittumst uppi í skóla í morgun og púsluðum saman kvikindislegum prófspurningum (!) – nei, nei, ég held að þetta verði allt ákaflega sanngjarnt..
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)