fimmtudagur, 31. júlí 2003

Meira af bókafíkn. Ég er nefnilega svo langt leidd að ég hef keypt bók (!) um efnið. Hún heitir einfaldlega Biblioholism! og á forsíðu er fyrirbærið skýrt svo: „the habitual longing to purchase, read, store, admire and consume books in excess“. Þetta virðist falla fullkomlega að skilgreiningu Ásu á meintum vanda (þótt fyrir hönd sjálfsstyrkingarhópsins hafni ég því alfarið að um nokkurn vanda sé að ræða).

Í þessari ágætu bók eru m.a. persónuleikaprófin „Ertu bóka-alki?“ og „Hversu illa ertu haldin(n)?“ Í því síðarnefnda fæ ég niðurstöðuna: „If you don't have a problem now, it's only a matter of time until you hear the voices and see the hideous little insects crawling up and down your arm.“
Þá veit ég það.

Kannast fleiri en ég við að vera sérlega veikir fyrir bókum um bækur, lestur o.þ.h.? Í sendingunni sem er á leiðinni til mín frá Amazon eru m.a. Bibliotherapy (sem snýst, eins og nafnið gefur til kynna, um bækur sem krísumeðal) og bók um bókmenntaspæjara sem rannsakar m.a. bókmenntaglæpi og fer jafnvel inn í söguþráð bóka í því skyni! Þetta er fyrsta bókin af a.m.k. þremur, ég er búin að lesa miðbókina, Lost in a Good Book, og komst að því að ég þyrfti tvímælalaust að lesa meira.

Ég frestaði kaupum á Women who love Books too much en það líður ábyggilega ekki á löngu þangað til ég geri ráðstafanir til að komast yfir hana.

Ætli þetta sé sérstakt áhyggjuefni – eða á ég að halda því fram að tilgangurinn sé að byggja upp bókasafn fyrir sjálfsstyrkingarhópinn? (Hugmyndum um að með þessum orðum sé ég eingöngu að göfga og réttlæta óhófleg bókakaup er fyrirfram hafnað!)
Hvað skyldi orðið hljúfa merkja? Þórdís er að velta málinu fyrir sér.
Mikið er langt síðan heyrst hefur í nafnleyndarbloggaranum.
Maður fer að hafa áhyggjur.
Meðal þess síðasta sem heyrðist frá henni var annars:
„Vofa þess sem aldrei varð er að ofsækja mig.“
Þessi orð gæti ég alveg gert að mínum.
Orðskrípi dagsins:
  • staðgöngumæðrun

Mæðrun? Mæðrun?!!! Sko, ég get alveg séð að þetta er myndað á sma hátt og feðrun og er trúlega alveg lógískt. En þetta er samt viðbjóðslega ljótt.

miðvikudagur, 30. júlí 2003

Að baki eru töluverðar vangaveltur um það hvort ég eigi að:
a) vinna lengur og fara svo í sund, eða
b) fara í sund núna og mæta svo aftur í vinnuna.

Niðurstaða er fengin. Sambland af hvoru tveggja:
Ég er farin í sund núna – og síðan heim.
Ætla ekki aftur í vinnuna (fyrr en í fyrramálið).
Tilkynnist hér með.
Um daginn kveinaði ég yfir Amazon.co.uk sem sagði að bækurnar sem ég var að panta myndu ekki komast til mín fyrr en í apríl á næsta ári. Síðan hef ég uppgötvað að ég laug því að ekki væri sögð lengri bið eftir neinni bókanna en átta dagar, því að ein bókin var ekki komin út þegar ég pantaði. En það átti að gerast 1. ágúst, þannig að ég sá ekki hvað átti að tefja svona hrikalega fyrir.
[Innskot: Er spennt að sjá á hvaða brautum Minette Walters er í þessari bók. Krimmarnir hennar eru nefnilega svo fjölbreyttir. Sú síðasta var hins vegar meiri þriller en krimmi – vonandi hefur hún fært sig til baka á krimmaslóðirnar, ég er meira fyrir þá deildina.]
Jæja, önnur bók í pöntuninni var líka svolítið sér á parti, því hún var sögð "print on demand" en engu að síður tiltæk innan 6–7 daga að jafnaði. Ástæðan fyrir útburði í apríl var því enn á huldu.

Ég ákvað samt að bíða róleg í nokkra daga áður en ég hellti mér yfir kvörtunardeildina – og stundum vinnur þolinmæðin þrautir allar (eða sumar), því rétt í þessu kom tölvupóstur um að pakkinn væri farinn af stað. En afhending er ennþá áætluð 22.–26. apríl. Það virðist því augljóst að dreifingardeildin hjá Amazon hafi tekið snigla í þjónustu sína. Nema dagatalið í tölvukerfinu þeirra sé í fokki. Hvort ætli sé líklegra?
Persónuleikapróf dagsins!

Polygon

This quiz says absolutely nothing about your personality. Take it!

þriðjudagur, 29. júlí 2003

Ása hefur áhyggjur af bókafíkn sinni. Hún virðist óttast að það sé óeðlilegt hvað henni finnst: „... gaman að kaupa bækur, eiga bækur, lesa bækur, strjúka bókum, merkja bækur ...“

Ég kannast mjög vel við þessi einkenni af eigin raun, og skal alveg stofna sjálfsstyrkingarhóp fyrir bókafíkla með Ásu – en ég hafna algjörlega tólf spora kerfinu sem Ása kallar eftir. Minn sjálfsstyrkingarhópur á að standa undir nafni, þ.e.a.s. vera styrkjandi í orðsins fyllstu merkingu. Þar eiga bókafíklar að geta leitað eftir stuðningi og skilningi þegar umhverfið reynir að koma því inn hjá þeim að bókafíkn sé afbrigðileg og hættuleg. Þar verða haldnar æfingar í því að koma sem flestum bókum fyrir í sem minnstu rými (skortur á bókahillum er vandamál sem allir bókafíklar kannast við). Og þar verða veitt góð ráð um greiðsludreifingu þegar bókakaupin hafa alveg farið með vísa-kortið. Svo fátt eitt sé nefnt.

Hver vill vera með?
Enn eitt persónuleikapróf. Hlýt að vera komin langt fram úr ráðlögðum skammti af þeim síðustu vikuna.

Ambaga dagsins:
... þau tilboð sem eru í boði ...
P.S. Af hverju er orðið ambaga annars svona asnalegt í eintölu?
Mamma á afmæli í dag. Ég held að hún lesi bloggið mitt sjaldan eða aldrei en samt fær hún afmæliskveðjur hér.
Hrmpf! ShoutOut-ið virtist komið í lag, þannig að ég skellti því inn á ný, en nú er það að eipa einu sinni enn – birtist ekki en þyngir síðuna fáránlega mikið, þannig að ég er búin að henda því aftur. Þetta fer að verða svolítið þreytandi.
Þórdís er með mynd á síðunni sinni af hrikalega fallegum sólblómum sem hún er búin að rækta. Einhvern tíma ætla ég líka að gera svoleiðis.
(Þ.e. rækta sólblóm, ekki endilega vera með mynd af þeim. Þó er aldrei að vita.)

mánudagur, 28. júlí 2003

Meirihlutinn af samstarfsfólki mínu er í sumarfríi. Það þýðir að á hæðinni er ágætis vinnufriður, aldrei þessu vant, en það þýðir líka að allur fjandinn lendir á skrifborðinu mínu. (Mig minnir að ég hafi bloggað eitthvað svipað fyrir ári.) Reyndar hefur mér tekist að halda prjónauppskriftunum fjarri, en varð að gefast upp fyrir Andrési önd í dag þótt mér finnist enn sem fyrr mesta firra að gefa hann út á íslensku. Hefur dönskukunnáttu þjóðarinnar ekki hrakað verulega síðustu tuttugu árin? Það hlýtur að standa í beinu sambandi við íslenskan Andrés.

Reyndar er Andrés verðugt athugunarefni fyrir áhugamenn um málfar – einkum um upphrópanir. Æks! var mér t.d. fullkomlega ókunnug upphrópun þangað til í dag. Ó, já, orðaforði manns eykst stöðugt. Kannski ég ætti að skipta úr bókmenntanámi yfir í málfræðina og skrifa MA-ritgerð um upphrópanir í teiknimyndasögum með sérstakri áherslu á Andrés? Eða kannski gæti það orðið ágætis MA-ritgerðarefni í íslenskum bókmenntum. Með málfræðilegu ívafi.

Annars er það ekki bara Andrés sem tefur fyrir öðrum verkum, því ég hef líka lent í miklu kennslubókaprófarkaflóði sem virðist aldrei ætla að linna. Mun skemmtilegra hefur hins vegar verið að tefjast yfir barnabók eftir Madonnu (ákaflega sæt saga). En ég hef ekkert komist áfram í Rushdie-þýðingunni sem ég átti að vera búin að lesa yfir fyrir löngu. Úff.
Fyrir framan mig er próförk að kennslubók í stærðfræði. Hver í fjandanum bjó til orðið logri fyrir lógaritma? Held að þetta sé með því ljótasta sem ég hef séð. Jæja, gott og vel, lógaritmi á svosem aldrei eftir að komast langt í fegurðarsamkeppni orða – en samt ...

P.S. Ætli sami maðurinn (hvort heldur er karlkyns eða kvenkyns) beri ábyrgð á þessu og orðskrípinu vigri í staðinn fyrir vektor?

P.P.S. Augljóslega afhjúpar þetta röfl í mér allsherjar íhaldssemi, sem er ekki óalgeng í tengslum við orðaforða. Tilhneigingu til að vilja bara nota þau orð sem maður hefur sjálfur vanist. Ég vil t.d. líka diffra og heilda – sögnin tegra yfir það síðarnefnda kemst tvímælalaust í flokk með ljótustu orðunum ásamt þeim fyrrnefndu. Logri, vigri, tegra ... Oj bara. Hvað er þetta eiginlega með samstöfuna -gr-? Er einhver að reyna að troða henni inn í hvert einasta stærðfræðiorð?
Helgin er búin að vera ákaflega tíðindalaus. Vann lengi fram eftir á föstudagskvöldið, var algjörlega búin í hausnum og sársvöng að auki þegar ég hélt loksins heim á leið, íhugaði að koma við á Eldsmiðjunni á leiðinni og labba með pítsuna heim, ákvað að ég nennti því ekki og vildi frekar láta færa mér pítsuna, hringdi undireins og heim var komið, til þess eins að uppgötva að Eldmiðjan væri hætt að senda heim. Það lá við að ég legðist í alvarlegt þunglyndi en ég var of svöng til þess. Nennti þó ekki að elda, þannig að ég lét mig hafa það að panta frá þeim auma stað Domino's. Mundi ekki eftir neinum öðrum. Reyni svo sannarlega að rifja aðra möguleika upp áður en pítsuhungrið sverfur að næst, því miðað við bragðið af Domino's botnunum geta þeir tæplega verið úr öðru en plasti. Reyndi að horfa á heilalausa vídeómynd fyrir svefninn, en rotaðist uppi í sófa.

Svaf alltof lengi á laugardeginum (ekki í fyrsta skipti), kom mér af stað í vinnuna seint og um síðir, freistaðist til að slæpast alltof lengi í danska bakaríinu á leiðinni (stórhættulegt að eiga leið framhjá því), komst í vinnuna á endanum, var ekki eins lengi og ég ætlaði, gekk heim með viðkomu á Vegamótum (af hverju er steikarsamlokan þar svona hrikalega góð?), gerði aðra tilraun til að horfa á heilalausa mynd, gekk betur í þetta skiptið ...

Já, eitthvað á þessa leið er þetta allt búið að vera. Ætlaði að vera dugleg að vinna, góðu áformin fóru út um þúfur, er meira búin að hanga og hangsa og slæpast o.s.frv. Jamm og já.

Þessi færsla er trúlega skólabókardæmi um tepokablogg.
Haha! Þetta er fyndið!

I'm going to Hell because I like Harry Potter!
You like Harry Potter, you scum.
It's the deepest pit in Hell for you.
Your very existence is a crime against Nature.

Why Will You Go To Hell?

brought to you by Quizilla

sunnudagur, 27. júlí 2003

Man ekki hvort ég var einhvern tíma búin að taka þetta próf. Að sjálfsögðu trúi ég öllu sem þarna stendur, en einhvern veginn hefur mér samt tekist að missa af því að ég unni mér aldrei hvíldar fyrr en gólfin hjá mér séu tandurhrein. Reyndar væri ég alveg til í að gólfin væru alltaf hrein, en mér hefur tekist ótrúlega (?) vel fram að þessu að sofa rólega þótt reyndin sé stundum önnur. Einhverra hluta vegna. Ég verð greinilega að gerast taugaveiklaðri yfir þessu – á maður ekki annars alltaf að taka fullkomið mark á persónuleikaprófum?

HASH(0x873fa68)
obsessive compulsive


Which Personality Disorder Do You Have?
brought to you by Quizilla

föstudagur, 25. júlí 2003

Ég er svöööööng. Mig langar í eitthvað gott að borða. Akkuru er ég enn í vinnunni? [Lesist allt í yfirgengilegum vælutón.]
Ármann lætur eins og eitthvað sé athugavert við það að blogga niðurstöður úr persónuleikaprófum. Ég er svolítið að spekúlera í orðalaginu hjá honum. Má ekki túlka þetta svo að hann taki persónuleikapróf en vilji ekki að aðrir viti af því? Skammast hann sín fyrir verknaðinn – og/eða niðurstöðurnar?! ;)

fimmtudagur, 24. júlí 2003

Hmmm ...

Unsure
You're unsure whether you really want to smile or
not.You just curl your lips up at the corners a
bit and let that get you through your day.You
don't have all the answers,and you certainly
don't feel like going out to look for them.Stop
being so indecisive.
What Kind of Smile are You?
brought to you by Quizilla
Sjaldan er ein báran stök. Það verður sífellt skýrara að deginum í dag er sérlega illa við mig. Var að uppgötva að ofan á allt annað hef ég gleymt farsímanum mínum heima. Og ég sem hélt að útáþekju-kastið sem ég tók um daginn hefði dugað fyrir árið.
Arg ... Ekki nóg með að kommentakerfið mitt sé í klessu – eða kommentakerfin, ShoutOut-ið er í verkfalli, og Enetation sem ég var með tilbúið til vara er líka búið að vera í kasti; nú er ég búin að skella inn Haloscan sem vara-vara-kerfi, en ég vil ekki týna öllum gömlu kommentunum. En allavega, það eru ekki bara kommentin sem eru í klessu, heldur fjandans Blogger líka, hann birtir allavega engar færslur hjá mér núna. Það er greinilega ekki minn dagur í dag. Mér er skapi næst að fara heim og breiða upp fyrir haus, en það er þetta með pappírshaugana á skrifborðinu mínu ...
Ég er mesta svefnpurka í heimi. Í gærkvöld fór ég að sofa á tiltölulega skikkanlegum tíma. Las svo sem aðeins lengur en ég ætlaði, en það gerist næstum því alltaf og telst því ekki afbrigðilegt. Svo tékkaði ég sérstaklega á því hvort vekjarinn væri ekki rétt stilltur og kveikt á honum og svoleiðis. Þá sofnaði ég. Og svaf og svaf og svaf ... mjög rækilega. Vaknaði án þess að heyra í vekjaranum, og hélt að ég væri að hrökkva upp alltof snemma. Þangað til ég leit á klukkuna. Hana vantaði fimm mínútur í eitt.

Þetta er svo sem ekki frumraun mín í að sofa yfir mig eftir hádegi. Það hefur gerst einu sinni áður – síðan eru reyndar liðin um tíu ár, en atvikið varð samstundis frægt að endemum. Eitt vorið í menntaskóla átti ég að mæta í stærðfræðipróf klukkan eitt. Útsaumsfélagið (hún og ég) var nokkuð duglegt við að snúa sólarhringnum við í próftíð á þessum árum (og setti hvert metið af öðru í því að koma ógrynni af upplýsingum inn í skammtímaminnið daginn fyrir próf). Í þetta skiptið varð viðsnúningur sólarhringsins þó fullmikill hjá mér, því ég fór ekki að sofa fyrr en milli tíu og ellefu um morguninn, og missti algjörlega af því þegar vekjarinn hringdi skömmu seinna. Mætti einum og hálfum tíma of seint í þriggja tíma próf.

En núna var ég búin að sofa ágætlega lengi, þannig að ég get ekki borið við svefnleysi í þetta skiptið. Sennilega eru vandkvæði mín við að komast á fætur á morgnana séu farin að ganga út í öfgar. Fyrsta (?) lögmál Newtons (tregðulögmálið) sannast ískyggilega oft á mér. Hvernig er þetta aftur: hlutur í ákveðnu ástandi leitast við að halda því ... (æ, eitthvað á þessa leið, er það ekki?). Í mínu tilfelli virkar þetta svona: erfitt að komast í rúmið á kvöldin, erfitt að komast á fætur á morgnana. En þetta er orðið einum of.

miðvikudagur, 23. júlí 2003

Best að láta vinnu (og bloggi) lokið í dag. Farin í sund.
Ég missi bráðum allt traust á Amazon.co.uk. Nógu slæmt var að Harry Potter skyldi ekki vera sendur af stað fyrr en seint og um síðir um daginn (sbr. hér), en nýjustu horfur eru ennþá dularfyllri. Fyrir nokkrum dögum pantaði ég mér bækur (einu sinni sem oftar). Þær áttu svo sem ekki allar að vera tiltækar samstundis, en sú sem dýpst var á var þó sögð „usually dispatched within 8 days“. Af hverju í ósköpunum áætlar Amazon þá að bækurnar komist ekki til mín fyrr en 22.–26. apríl?! Þótt reikningskunnáttu minni hafi farið töluvert aftur síðustu árin er ástandið ekki svo dramatískt að ég geri mér ekki grein fyrir því að þangað til eru ekki bara nokkrir dagar heldur margir mánuðir. Ætlar Amazon að senda bækurnar hringinn í kringum hnöttinn fyrst? Með fótgangandi sendiboða? Er þetta eitthvert samsæri gegn mér?! Hvers á ég að gjalda?!
Þetta próf er ennþá betra:

Atheist
Threat rating: extremely low. You may think you can
subvert the government, but if you should try
you will be smited mightily because God likes
us best.

What threat to the Bush administration are you?
brought to you by Quizilla
Það er alltof langt síðan ég hef tekið persónuleikapróf. Hér er eitt ágætt:

sgt. pepper
Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band
Which Beatles Album Are You?
brought to you by Quizilla
Það er löngu kominn tími til að fjölga í tenglasafninu. En það dregst samt eitthvað lengur.
Alltof lengi hefur dregist að þakka Kettinum afbragðs pistil og vinsamlegar ábendingar um hættuna sem af pappír getur stafað.

Halda mætti að orsök bloggfalls að þessu sinni væri sú að martraðir mínar um pappírsdrukknun hefðu orðið að veruleika, en svo er ekki, þrátt fyrir allt. Pappír hefur þó flætt í stríðum straumum yfir skrifborðið mitt upp á síðkastið, en blessunarlega hefur að mestu tekist að halda flóðinu í skefjum. En ég hef þurft að berjast hetjulega til að ekki færi illa. Ó, já. Og að mestu má rekja bloggfallið til þess.

Ekki aðeins hefur verið barist við flóðið, heldur hefur einnig verið hugað að þeim pappírshaugum sem til staðar eru og uppröðuninni í þeim, með hliðsjón af réttmætri ábendingu Kattarins um að efnið á örlagavaldandi pappír skipti umtalsverðu máli. Fagur dauði er grundvallaratriði í þessu samhengi.

Annars virðast mögulegar pappírstengdar dánarorsakir að minnsta kosti geta verið þrjár:
  1. Drukknun (þ.e. köfnun), sbr. fyrri skrif mín um efnið.

  2. Högg, sbr. skrif Kattarins.

  3. Hlýtur ekki líka að vera hægt að skera sig svo illa á pappír að manni blæði út? Kannski væri það allnokkur fyrirhöfn, en tæknilega mögulegt engu að síður.
Sennilega er rétt að huga vel að því hvers konar dauðdagi verður fyrir valinu hverju sinni – og í öllum tilfellum er tvímælalaust rétt að gæta þess að pappírinn sé við hæfi og auki á fegurð dauðans fremur en að draga úr henni.

Höfundur þessara orða hefur ekki enn endurskipulagt bókahillurnar á heimili sínu með hliðsjón af þessum athugunum, en slíks er þó trúlega þörf. Málið verður athugað á næstunni, og nánari skýrsla gefin um framvinduna ef þurfa þykir.
Er töluvert annars hugar yfir ýmsu þessa dagana. Meðal annars er smá naflaskoðun í gangi (varúð, þetta er krísublogg!). Það sem er ekki síst að þvælast fyrir mér er þetta: Af hverju skyldi ég ótrúlega oft taka ólíkt á málunum eftir því hvort þau snúa fremur út á við eða inn á við?

Dæmi 1: Ég er yfirleitt mjög stundvís – þegar það breytir einhverju fyrir aðra en sjálfa mig hvenær ég mæti. Hef eiginlega alltaf komið stundvíslega á fundi, í kennslu (þ.e. þegar ég er kennarinn, ekki öfugt!) o.s.frv. En þegar skiptir engu fyrir aðra hvenær ég mæti fer iðulega allt í hönk. Auðvitað er oft þægilegt að geta sveigt hlutina til eftir því sem hentar. En stundum væri ekki slæmt að hafa hlutina í fastari skorðum.

Dæmi 2: Í vinnu o.þ.h. er ég oftast laus við ákvarðanafælni. Þá get ég oftast skorið úr um hlutina í snarhasti, allavega ef þess þarf. En ef ég stend frammi fyrir einhverju óvæntu prívat hef ég tilhneigingu til að þvæla málunum fyrir mér í það óendanlega. Hugsa mig um aftur og aftur og aftur ... Jafnvel í marga daga. Finnast ég þurfa að vera minnst 500% viss áður en ég tek ákvörðun. Minnst. – Og ef ég þarf að ákveða mig fljótt hef ég tilhneigingu til að vantreysta því sem mig langar til, og halda mig í farinu þar sem ég er vön að vera. Af því að það er „öruggara“ eða „auðveldara“ eða ég veit ekki hvað. Tek ekki áhættuna á einhverju nýju nema að svo vel athuguðu máli að stundum rennur tækifærið úr greipum manns. Þótt maður haldi að hægt sé að skipta um skoðun reynist það stundum of seint þegar til kemur.

föstudagur, 11. júlí 2003

Mikið verður maður skrýtinn í hausnum af að föndra nafnaskrár í bækur. Ég ætlaði að sitja yfir próförkum í kvöld, en held að það verði ekkert af því. Nokkuð viss um að hver einasta villa og allt mögulegt klúður færi framhjá mér. Vona að mér takist að vera dugleg um helgina, það eru að myndast ískyggilega miklir haugar á skrifborðinu mínu. Ef ekkert verður að gert fer þetta fer að enda með ósköpum. Kannski finnur samstarfsfólk mitt bráðum torkennilegan haug – þegar farið verður að róta í ruslinu kemur í ljós eitthvað sem einu sinni virðist hafa verið manneskja. Dánarorsök: (pappírs)drukknun.

Þetta eru ískyggilegar framtíðarhorfur en þrátt fyrir allt held ég að það sé gáfulegast að taka frí í kvöld. Veit samt ekki hvað ég á að gera. Hef takmarkaða orku til annars en að liggja uppi í sófa og glápa á sjónvarpið, en þar sem föstudagskvöld eru sjónvarpskvöld dauðans er það ekki nógu vænlegur kostur. Nenni ekki út á vídeóleigu þótt ég hefði ábyggilega gott af því að rölta út í góða veðrið – og reyna jafnvel að komast í gott skap yfir þessu fallega sumarveðri. Akkúrat þessa stundina finnst mér sumarið vera leiðindatími, en trúlega væri skynsamlegt að snúa við blaðinu.

miðvikudagur, 9. júlí 2003

Það er stórhættulegt fyrir mig að ganga framhjá fornbókabúðum – ég tala nú ekki um að reka nefið inn fyrir dyragættina. Eða öllu heldur: það er hættulegt fyrir vísakortið mitt og plássið (þ.e. plássleysið) í bókahillunum mínum. (Mig vantar fleiri bókahillur – reyndar er það krónískt vandamál.) Í dag rölti ég af rælni við hjá Gvendi dúllara á Klapparstígnum og rakst þar að sjálfsögðu á ýmsar bækur sem mig dauðlangaði í. Lít á það sem meiriháttar sjálfsaga-afrek að hafa bara keypt tvær. Og báðar vantaði mig nauðsynlega – en ekki hvað?!

Önnur bókin er Næturstaður eftir Snjólaugu Bragadóttur, fyrsta skáldsagan hennar, gefin út 1972. Þá á ég samlede værker Snjólaugar næstum því komplett, vantar bara síðustu bókina, Setið á svikráðum (frá 1986). En hún hlýtur að verða á vegi mínum fljótlega. Í nokkur ár er ég búin að ætla að skrifa ritgerð um bækur Snjólaugar, viðtökur þeirra og þvíumlíkt – með undirtitlinum „Eru ástarsögur mannskemmandi?“ Byrjaði meira að segja að safna að mér efni einhvern tíma, og fann m.a. blaðaviðtal við Snjólaugu undir fyrirsögninni: „Bækur mínar eru ekki mannskemmandi“! Klæjar reglulega í fingurna að komast í þetta; vonandi tekst mér að drífa í því áður en alltof langt um líður.

Seinni bókin sem ég keypti heitir Matreiðslubókin þín – í máli og myndum. Hún er órjúfanlegur hluti af bernsku minni og þess vegna keypti ég hana; þetta er þýdd matreiðslubók frá 8. áratugnum – einhverra hluta vegna stendur ekki í bókinni sjálfri hvenær hún kom út, en í Gegni sé ég að það hefur verið 1975 – árið sem ég fæddist! Við höfum greinilega fylgst að alla tíð, mamma átti (og á að sjálfsögðu enn) þessa bók og ég skoðaði hana hvað eftir annað þegar ég var krakki. Aftur og aftur og aftur ... Hún er mjög sérstök að því leyti að fremst eru myndir af öllum réttunum – oft er mörgum raðað saman á stórar myndir, jafnvel opnumyndir – uppskriftirnar koma svo aftast. Mér var nákvæmlega sama um uppskriftirnar en hefur alltaf fundist eitthvað sérlega heillandi við myndirnar, t.d. opnuna með pinnamatnum, síðuna með fylltu tómötunum, opnuna með öllu sænska saffranbrauðinu – og hvað þá pönnukökutertuna sem er ein á heilli opnu: hlaðin úr sjö þykkum pönnukökum með hindberjum og rjóma á milli, ofan á er svo hrúgað hindberjum og einhverjum öðrum berjum líka, litlum og dökkum (bláberjum?) – og svo hefur ekki bara verið stráð smávegis sykri yfir, heldur algjörri gommu. Dásamlegt. Ég minnist þess ekki að það hafi nokkurn tíma verið eldað upp úr bókinni á bernskuheimili mínu, og efast stórlega eftir um að ég eigi eftir að gera það. En ég á áreiðanlega eftir að skoða myndirnar oft og mörgum sinnum, alveg eins og þegar ég var krakki.
Af hverju í ósköpunum heitir eggaldin þessu nafni? Það er ekki einu sinni líkt eggi í laginu. Var það kannski einhvern tíma þannig?
Mig vantar nýja regnhlíf. Fína rauða regnhlífin mín er allavega heldur lasin. Kannski ætti ég samt að reyna að gera við hana einu sinni enn.

laugardagur, 5. júlí 2003

Svanhildur veltir því fyrir sér hvaða merking felist í draumi um að vera beðin að dæma í ljóðasamkeppni, sökum sterkrar stöðu á því sviði. Ekki ætla ég að reyna að ráða drauminn, en hins vegar þykir mér rétt að benda á að Svanhildur hefur lengi sýnt sérstaka hæfileika til ljóðgreiningar (leyfilegt er að skilja orðið sérstakir á ýmsa vegu), sem og yfirgripsmikla þekkingu á ljóðskáldum landsins (orðið yfirgripsmikil má sömuleiðis túlka margvíslega). Af þessu tilefni verður hér endurbirtur bútur úr Carminu-greininni um Svanhildi:
... Ljóð eiga ekki eins upp á pallborðið hjá henni, enda þótt hæfileikar hennar til ljóðgreiningar séu einstakir. Þekkja ekki allir kvæðið um „gaurana tvo sem urðu úti“?

Svanhildur er fyrsta Alzheimer-tilfelli bekkjarins, eins og glöggt sést ef umræður í íslenskutíma einum í 4. bekk eru skoðaðar:

Einhver: „Af hverju var Þorsteinn Erlingsson alltaf fátækur?“
Svansý: „Var hann kommúnisti?“ [Nokkru seinna:] „Jaaá, Þorsteinn frá Hamri. Var það hann sem dó úr berklum“ [Enn seinna:] „Kunni hann að mála? Nei annars, það var Muggur!“

Getraun dagsins er: Hvert er „kvæðið um „gaurana tvo sem urðu úti““? Verðlaunum er heitið.

föstudagur, 4. júlí 2003

Í sömu bók og vitnað var í hér að neðan er kafli um minnið – þar sem m.a. er fjallað um svokallaða minnisfestingu, minnisþrep, leifturminni o.fl. o.fl. Í tilefni af því ákvað skammtímaminnið hjá mér að fara í verkfall. Ég var óratíma að lesa kaflann; þurfti að byrja á sömu síðunni hvað eftir annað – því ég mundi engan veginn hvað ég hafði verið að lesa.

Í sama kafla kom skammstöfunin SM fyrir hvað eftir annað. Ég virðist vera frekar dónalega þenkjandi, allavega datt mér alltaf bara eitt í hug – og það var ekki „skynminni“.
„Skilyrt áreiti er áður hlutlaust áreiti sem vekur skilyrta svörun eftir að hafa verið parað við óskilyrta áreitið ...“
– Æ, það er nú ekki allt jafn skemmtilegt sem lendir á skrifborðinu manns til yfirlestrar.

miðvikudagur, 2. júlí 2003

Orðin í persónuleikaprófinu um snilligáfuna harmónera mjög skemmtilega við lýsinguna á stjörnumerkinu mínu sem ég sá í gær – eintak af því furðulega blaði Vikunni lá á kaffistofunni, og þar var stjörnumerkjaumfjöllun sem var lesin upphátt fyrir alla á svæðinu og reyndist mikið skemmtiatriði. En þar sagði semsagt um vatnsberann (c'est moi) eitthvað á þá leið að hann væri framsýnn og þótt það væri ekki alltaf tekið mark á honum kæmi jafnan í ljós á endanum að hann hefði haft rétt fyrir sér! (Hverjum er ekki sama þótt þetta sé slitið rækilega úr samhengi?!) Ég er að hugsa um að klippa þetta út og ramma það inn. Eða ganga með það á mér svo ég geti alltaf dregið þetta fram ef einhver gerist svo ósvífinn að draga eitthvað í efa sem ég segi. Sigga vinkona mín hélt því fram að það gæti ekki verið hollt fyrir besservissera eins og mig að heyra svona lagað – ég læt slíka fásinnu að sjálfsögðu sem vind um eyru þjóta!
Hey, þetta er skemmtilegt persónuleikapróf!

Where is my Mind?
You're smart, shy, and often nonsensical. You have dreams of being famous, and you're quirky enough that you just might pull them off. Some would call you a genius, others would call you insane, but in reality you're pretty well-adjusted. Take a vacation once in a while- it'll help take your mind off of your troubles.
Which Pixies song are you?


Ráðleggingarnar um að frí séu holl eru ábyggilega ógalnar – en ég sé samt ekki fram á að neinu slíku verði hrundið í framkvæmd á næstunni. Kannski ég eignist sumarfrí þegar (/ef) ég verð stór!