fimmtudagur, 30. júní 2005

Ég fer í fríið, ég fer í fríið ... Búin að svara þeirri spurningu daglega í viku hvort ég sé byrjuð að pakka, en svarið er og verður nei þangað til seint í kvöld þar sem ég hef aldrei skilið af hverju maður ætti að eyða óratíma í málið. Hins vegar er ég næstum búin að gera íbúðina mína boðlega fyrir leigjendurna sem er töluvert afrek.

Ætlaði að útfæra þetta með krimmana nánar áður en ég færi en hef ekki haft tíma - æstur múgurinn sem hlýtur að bíða í ofvæni eftir greindarlegum athugasemdum verður bara að þrauka þangað til ég kem úr fríinu.

Veit ekkert hvort ég blogga frá Ítalíu, það kemur bara í ljós.

föstudagur, 24. júní 2005

Ég hef óbeit á mörgum svokölluðum "menningarlegum" glæpasögum. Vil aftur á móti sem mest af ómenningarlegum krimmum. Meira um málið síðar.

fimmtudagur, 23. júní 2005

Meðmæli mánaðarins: Bloggráð Tótu pönk.

miðvikudagur, 22. júní 2005

Hah! Ég er ekkert smá stolt af sjálfri mér. Ég var að hringja í konuna sem ég á að búa hjá í Bologna til að láta vita hvenær ég kæmi. Til öryggis var ég búin að dunda mér við að komast að því hvernig nauðsynlegar upplýsingar ættu að hljóma á ítölsku - ef ske kynni að konan talaði ekki ensku. Og fyrst ég var búin að hafa fyrir þessu fannst mér ómögulegt annað en láta á það reyna hvort ég gæti gert mig skiljanlega, þannig að ég ákvað að athuga hversu langt ég kæmist inn í samtalið á ítölskunni einni saman. Og konan virtist alveg skilja mig; samtalið gekk bara býsna vel meðan það var enn að mestu eintal. Svo kom að því að konan fór að segja eitthvað flóknara en eða bene eða perfetto. Þá varð málið töluvert snúnara og hentugt að skipta yfir í ensku. En ég komst allavega langleiðina yfir þennan þröskuld, sem mér finnst verulega ásættanlegt, ekki síst fyrir símafælna manneskju.
Það er gaman í skemmtilegum veislum. Ein slík var á fimmtudaginn (mér tókst að kaupa utan á mig föt án harmkvæla!) og önnur, sem lofar góðu, er á dagskrá á laugardaginn. Ég hlakka til.

Í næstu viku fer ég á Duran Duran tónleika. Var lengi tvístígandi um hvort ég ætti að fara - fannst spurning hvort þetta væri tuttugu árum of seint - en komst svo að því að ég gæti ekki annað en farið. Ég hlakka til.

Daginn eftir fer ég svo í mánaðar sumarfrí - og er svo upptekin af þessu blessunarlega yfirvofandi fríi að ég nenni varla nokkru öðru. Eftir níu daga verð ég í London, eftir ellefu daga verð ég komin til Bologna og eftir tólf daga verð ég sest á skólabekk þar. Ég hlakka hrikalega til.

Vonandi er ekki hægt að deyja úr tilhlökkun, annars er hætt við að það verði brátt um mig.

fimmtudagur, 16. júní 2005

Hörmungasaga er yfirvofandi. Mig vantar sparilegan efripart við pilsið sem mér tókst á endanum (eftir mikil harmkvæli) að kaupa um daginn - og mig vantar hann fyrir kvöldið þannig að ég er að reyna að herða mig upp í aðra Kringluferð. Dauði og djöfull.

þriðjudagur, 14. júní 2005

Fann fyrstu seríuna af Já ráðherra á bókasafninu og er búin að skemmta mér mjög við að horfa. Snilldarlegir þættir sem ættu að vera skylduefni hjá öllum sem vinna við opinbera stjórnsýslu - eiginlega ættu þeir að fylgja með ráðningarsamningnum.

Hér er ein af ótalmörgum góðum tilvitnunum í einn af bestu þáttunum:
Jim Hacker: "When you give your evidence to the Think Tank, are you going to support my view that the Civil Service is over manned and feather-bedded, or not? Yes or no? Straight answer."

Sir Humphrey: "Well Minister, if you ask me for a straight answer, then I shall say that, as far as we can see, looking at it by and large, taking one thing with another in terms of the average of departments, then in the final analysis it is probably true to say, that at the end of the day, in general terms, you would probably find that, not to put too fine a point on it, there probably wasn't very much in it one way or the other. As far as one can see, at this stage."

mánudagur, 13. júní 2005

Föndurhornið:
Spurt var hvernig maður klæði sig eins og þorskastríð.

Svar: Möguleikarnir eru án efa óþrjótandi en hér er einn þeirra:
  • Takið ykkur í hönd skæri og karton í lit/litum að eigin vali.
  • Klippið út eitthvað sem líkist fiskum mátulega mikið.
  • Nælið fiskana á fötin sem þið hyggist klæðast (t.d. stuttan svartan kjól).
  • Farið í kjólinn.
  • Farið einnig í netsokkabuxur. Þær eru augljóslega troll.
  • Hengið skæri utan á ykkur (t.d. í band um hálsinn). Þau eru auðvitað togvíraklippur.
Flóknara er það nú ekki.

þriðjudagur, 7. júní 2005

Mér finnst þetta mjög eðlilegt:




You Are 35% Normal
(Occasionally Normal)


You sure do march to your own beat...
But you're so weird, people wonder if it's a beat at all
You think on a totally different wavelength
And it's often a chore to get people to understand you

Það var gott og gaman að komast norður, og fermingarbarnið var til fyrirmyndar. Ferðin var reyndar sérlega eftirminnileg því fermingarmessan í Skútustaðakirkju var vægast sagt söguleg af ýmsum ástæðum sem ekki verða útlistaðar hér nema fyndnasti parturinn: mismæli prestsins þegar hann reyndi að útskýra hvernig altarisgangan færi fram og sagðist myndu vera með 'niðurdýfingarskírn'. Ég átti mjög erfitt með mig fyrir niðurbældu flissi.

En fyrst ég nefni altarisgöngu má nefna að það er ekki venja að margir aðrir fari til altaris í kirkjunni en þeir sem beinlínis neyðast til að fara með fermingarbörnunum og það finnst mér góð hefð. Mývetningum finnst ógeðsleg tilhugsun að éta mannshold og drekka blóð.

föstudagur, 3. júní 2005

Þórdís er nýbúin að blogga um hörmungar Kringlunnar. Reynsluheimur minn er svipaður. Ég forðast verslunarmiðstöðvar líka eins og heitan eldinn en þurfti að fara í Kringluna í dag með hörmulegum afleiðingum. Ég var orðin málstola af ringlun á endanum. Var næstum búin að ljúga því að afgreiðslustúlku (eftir langt hik þar sem ég mundi ekki orðið) að ég hefði brotið handfang, en tókst á endanum (eftir áframhaldandi hik) að koma orðinu 'herðatré' út úr mér. Eini kosturinn við þessa leiðindaferð er að mér tókst á endanum að kaupa mér fallegt pils (eftir að hafa mátað skrilljón misskelfilegar flíkur). Það kostaði helling af peningum en mér er alveg sama.

Það hjálpaði ekki til að ég var vönkuð af hitamollu eftir að hafa reynt að vera á skrifstofunni minni mestallan daginn. Það annars ágæta herbergi telur sig vera í hitabeltinu þegar sólin skín.

Þar að auki (þetta var erfiður dagur) var ég geispandi eftir að hafa vaknað snemma til að mæta í útvarpsviðtal á Talstöðinni um bækur Snjólaugar Bragadóttur (endurtekið klukkan eitt í nótt ef einhver hefur áhuga). Ég hef lengi ætlað að skrifa um þær, safnaði að mér ýmsum gögnum fyrir þónokkru síðan og fékk mikinn fiðring í fingurna við að fletta þeim þegar ég var að undirbúa mig. Vonandi rekur þetta mig af stað að gera eitthvað í málinu.

En nú er ég komin norður á Akureyri og alveg að leggja af stað austur í Mývatnssveit. Hrólfur frændi minn fermist á morgun - það er meira hvað allir eru að verða gamlir.
Ég veit ekki hvort það er sæluvíman yfir nýju tölvunni eða eitthvað annað sem hefur valdið því að ég hef alveg gleymt að blogga upp á síðkastið. Ég missti meira að segja af þriggja ára bloggafmælinu mínu 28. maí.

Hef verið frekar upptekin við að tækninördast, bæði í nýju tölvunni, og í tengslum við nýja símann sem fjölskyldan gaf ömmu í afmælisgjöf og var fyrir misskilning keyptur læstur. En það reddaðist.

Stundum ræð ég ekki við mig af fögnuði yfir því hvað netið er æðislegt.

Annars er ég sígeispandi eftir að hafa af óviðráðanlegum utanaðkomandi ástæðum þurft að vakna fyrir allar aldir í morgun og vera þar að auki ekki búin að ná upp svefni eftir ævintýralega öflugt félagslíf um síðustu helgi. Í frábæru vinnupartíi á föstudagskvöldið eignaðist ég nýja skó og á rölti mínu heim undir morgun (úthald skjaladeildar var umtalsvert að vanda) lék ég mér við kött í garðinum við Listasafn Einars Jónssonar og skoðaði vandlega nýju göngubrúna yfir Hringbraut. Og svo var ég í æðislegu fertugsafmæli á laugardagskvöldið þar sem fólki hafði verið úthlutað ári á æviskeiði afmælisbarnsins til að hafa í huga við klæðaburð eða annað. Ég klæddi mig sem þorskastríð. Jamm og já.