föstudagur, 14. júní 2002

Best að blogga aðeins svona síðla kvölds. Er að baka köku fyrir stúdentsveisluna hans Kára lillebror — ávaxtaköku með döðlum, banönum, eplum, suðusúkkulaði, kókosmjöli og næstum engu öðru — nammi namm. Hefðbundin kökuhráefni (eins og hveiti) eru algjörlega í lágmarki. Uppskriftin er frá ömmu Deddu eins og ýmsar fleiri af uppáhaldsuppskriftunum mínum — en stundum er reyndar pínu flókið að fylgja þeim. Kökuuppskriftirnar hennar ömmu minnar miðast nefnilega ósjaldan við að maður hafi á tilfinningunni hvernig deigið á að verða. Þegar ég fékk uppskrift að jólaköku hjá henni gat hún reyndar sagt mér nokkuð nákvæmlega hvað ætti að vera mikið af eggjum, hveiti o.s.frv. (þótt hún fari reyndar ábyggilega aldrei eftir því sjálf) — þangað til kom að mjólkinni. Þá var einfaldlega skrifað „mjólk“. Þetta þýðir að maður þarf helst að fá sýnikennslu um leið og maður fær uppskrift hjá ömmu. Sem er reyndar bara skemmtilegt. Verst að ég er alltof sjaldan nálægt henni — þyrfti að geta galdrað hana norðan úr Mývatnssveit reglulega. Eða fara oftar norður sjálf.

Uppskriftin að ávaxtakökunni er reyndar mun nákvæmari en venja er til. Vandamálið við hana er að hún er eiginlega fullnákvæm. Það er nefnilega allt tilgreint í grömmum; í botninum eru til dæmis 50 g af kókosmjöli. Það hljómar kannski ekki flókið — en það er svolítið erfitt að mæla þetta þegar skekkjumörkin á eldhúsvoginni manns eru a.m.k. plús/mínus 100 grömm. Þá er sennilega gáfulegast að bregða á það ráð að umreikna (ef maður vill vera aðeins nákvæmari en á bilinu mínus 50 g til plús 150 g). Samkvæmt töflu í einhverri matreiðslubók sem ég á jafngilda 100 g af „rifnum kókos“ (hlýtur það ekki að vera kókosmjöl?) um 285 millilítrum. Sem þýðir þá væntanlega að 50 g af kókosmjöli eru 142,5 ml. Hmmm. Jæja, segjum u.þ.b. 1½ dl. Allt í lagi, þetta er ekki svo flókið.

Stóð upp frá tölvunni smástund til að taka kökuna út úr ofninum. Hún lítur alveg eðlilega út, greyið. Það verður að koma í ljós hvað gerist þegar fólk reynir að borða hana.

Nú ætti Siggi að vera lentur á Keflavíkurflugvelli fyrir nokkru og vera í rútunni á leið hingað til Reykjavíkur. Siggi er hinn litli bróðir minn og gat sem betur fer skroppið heim í viku til að halda upp á fimm ára stúdentsafmælið sitt og það að litli, litli bróðir okkar er að verða stúdent. Annars er hann að læra dýralækningar í München. Sem fólk myndi kannski furða sig á ef það hefði bara heyrt hann tjá sig um ákveðnar tegundir af hundum — þá sem eru agnar-pínulitlir og jafnvel með bleika slaufu í hárinu. Þessi kvikindi kallar hann rottur og á erfitt með að stilla sig um að kremja þau undir hælnum þegar þau verða á vegi hans. Það kemur sennilega ekki á óvart að hann ætlar að sérhæfa sig í nautgripum.

Jæja, ætli það sé ekki best að fara að pakka niður fyrir ferðina norður. Annars þarf ég líka að reyna að leita að póstkortum með Berlínarmyndum sem ég á að eiga einhvers staðar á „góðum stað“ en það er nú eins og það er — allir vita að „góður staður“ er bara góður þegar maður er að ganga frá hlutunum. Síðan finnur maður þá aldrei — nema þegar maður er að leita að einhverju öðru. Núna er ég til dæmis alls ekki búin að finna póstkortin, en er m.a. búin að rekast á dagatal frá árinu 2000, dálítinn bunka af jólakortum sem ég keypti fyrir síðustu eða þarsíðustu jól en skrifaði aldrei neitt á (því síður sendi þau), og „Allgemeine Geschäftsbedingungen“ frá Sparisjóðnum í Leipzig.

Úff — vissi svo sem að það væri löngu orðið tímabært að taka til í skrifborðsskúffunum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli