miðvikudagur, 31. júlí 2002

Úff, það er óheyrilega langt liðið á daginn og ég er ekki enn farin að blogga. Ég var meira að segja bara rétt að lesa Múrinn, sem er venjulega eitt af fyrstu morgunverkunum. Segir kannski sitthvað um vinnudaginn. Alveg nóg að gera. Og ég sem ætlaði að blogga vel og rækilega um landafræði og málvenjur í tilefni af kattaslagnum (sennu Svanhildar og Viðars) — en það verður enn um sinn að bíða betri tíma.

þriðjudagur, 30. júlí 2002

Gott að sjá að Hilma er orðin frísk aftur. Hennar var sárt saknað í bloggheimum þar sem hún er með skemmtilegri bloggurum, en nú er veikindaleyfinu vonandi lokið.
Jæja, óskaplega er ég búin að vera léleg í blogginu síðustu daga. Svona er það þegar atburðirnir safnast upp hjá manni; hörmungar föstudagsins, skemmtilegheit laugardagsins og svo framvegis. Best að koma sér að efninu:

Á föstudaginn hugsaði ég með mér að sennilega væri kominn tími til að hætta að sofa á verstu dýnu í heimi og brá mér í Rúmfatalagerinn til að kanna hvað væri hægt að fá þar. Tvær dýnur komu til greina en ég ákvað að hugsa mig aðeins um. Mjög fljótlega eftir að ég kom aftur í vinnuna ákvað ég að vandræðast ekkert yfir þessu lengur heldur kaupa einfaldlega dýrari dýnuna og var svo ánægð með þá ákvörðun að ég dreif mig samstundis aftur í búðina. Ég var farin að sjá það í hillingum að geta farið að sofa á einhverju skikkanlegu. Kannski gæti ég hætt að leika prinsessuna á bauninni, þyrfti ekki lengur að hlaða undir mig sængum til að reyna að lifa nóttina af. Kannski myndi ég einhvern tíma vakna úthvíld til tilbreytingar. Kannski færi ég að sofa sjaldnar yfir mig. Og ef til vill yrði líf mitt að öllu leyti dásamlegt upp frá þessu.

Ég gekk glaðbeitt inn í búðina og fann þar indælan afgreiðslupilt sem vildi allt fyrir mig gera, en hann gat ekki breytt þeirri óumflýjanlegu staðreynd að dýnan var búin í þeirri stærð sem ég vildi. Hann hringdi út um allt til að athuga hvort einhvers staðar leyndist eitt stykki, en allt kom fyrir ekki.

Ég hélt sár og svekkt í vinnuna aftur og þegar vinnudeginum lauk var fjarri því að ég væri orðin hið minnsta sátt við tilveruna aftur. Auk þess var ég dauðþreytt, en sá ekki fram á að eiga eftir að hvílast almennilega á næstunni (þar sem ég þyrfti að halda áfram að sofa á dýnu sem var næstum því verri en ekkert). Lífið var ömurlegt!

Það var kominn tími til að grípa til örþrifaráða. Nú yrði ég að kanna sannleiksgildi þeirrar hugmyndar sem sumir sjónvarpsþættir breiða út: að það sé allra meina bót að kaupa sér skó.

Skókaupin gengu mun betur en fyrri tilraunin til að eyða peningum. Áður en langt var um liðið var ég búin að festa kaup á þrennum skóm! Samt leið mér ekkert betur.

Síðan þetta gerðist hefur Una vinkona mín reyndar bent mér á að sennilega hafi ég bara ekki keypt nógu dýra skó. Það að kaupa þrenna skó fyrir lægra verð samtals en eitt par undir venjulegum kringumstæðum geti tæplega dugað. Frekari rannsókna á sálrænum áhrifum skókaupa er því augljóslega þörf.

Jæja, þótt helgin byrjaði svona héldu hörmungarnar blessunarlega ekki áfram. Laugardagurinn var mun skemmtilegri, því um kvöldið hitti ég Svansý og Palla á kaffihúsi. Þeim tíma var vel varið.. Svansý var reyndar rúmum klukkutíma of sein (!!!) en við Palli borðuðum bara í rólegheitum, ágætis nautakjöt. Það er að verða síðasti sjens í bili fyrir Palla að neyta svoleiðis fæðu því hann er að fara til langdvalar í helsta heimaland gin- og klaufaveiki og kúariðu. Palli er ekki enn byrjaður að blogga þótt langt sé síðan hann lofaði bót og betrun í þeim efnum. Vona að úr þessu fari að rætast.

Jæja, við sátum á Vegamótum alllengi og skemmtum okkur hið besta þangað til leiðinleg tónlist sem var þar að auki of hátt stillt fældi okkur burtu (einum of algengt vandamál). Við gengum af stað án takmarks og tilgangs, könnuðum í fyrstu Kaupfélagið en vorum snögg að komast að þeirri niðurstöðu að þar væri leiðinlegt. Þá varð ferðin ævintýralegri, því Svansý vildi endilega kynna okkur fyrir Club Diablo. Við Palli þóttumst vita að það væri einkennilegur staður og leist ekki meir en svo á hugmyndina, en féllumst þó á að líta þarna inn fyrir dyr á leiðinni en taka svo stefnuna á Vídalín og athuga hvort þar væri eitthvað gaman. Club Diablo var vissulega einkennilegur staður, mjög einkennilegur, en á nokkuð skemmtilegan hátt. Við Palli urðum mjög fljótlega mun sáttari við þá hugmynd að dvelja þar en við höfðum verið áður, en héldum okkur þó við fyrra plan. Á Vídalín stoppuðum við allnokkurn tíma, en … æ, ég veit ekki hvað það var, kannski vorum við ekki nógu drukkin eða eitthvað. Alla vega fannst mér ekkert sérlega skemmtilegt þar. Þannig að við héldum aftur á Diablo og létum það ekkert á okkur fá þótt við hækkuðum meðalaldurinn greinilega meira en góðu hófi gegnir, heldur skemmtum okkur hið besta.

Það var gott að geta sofið út á sunnudaginn, þótt það hefði verið mun betra í skikkanlegu rúmi, en það verður ekki á allt kosið. Sá dagur leið síðan í tíðindalausum rólegheitum, ég hitti Unu og Svanný (sem er ekki sama manneskjan og Svansý) á kaffihúsi. Gott og gaman. Svo rann mánudagurinn upp og enn ein vinnuvikan hófst. Og ég þarf að halda áfram að sofa á verstu dýnu í heimi enn um sinn.

föstudagur, 26. júlí 2002

Mæli með nýjasta svarblogginu hennar Svansýjar í viðureigninni við Köttinn sem er enn að velta fyrir sér norðlenskunni, þótt hann sé reyndar búinn að teygja Norðurlandið yfir á Vopnafjörð sem er ákaflega frumleg landafræði. (Vopnafjörður var nefnilega á Austurlandi síðast þegar ég vissi.)

Þar sem Svansý er í góðri æfingu að fara með „útlendinga“ um Norðurlandið eftir japönsku ferðina um daginn (hvenær kemur annars ferðasagan?) legg ég til að hún skipuleggi ferð fyrir Köttinn og Sverri. Ég skal vera aðstoðarleiðsögumaður, og er viss um að fleiri og ennþá fleiri eru til í að leggja hönd á plóginn.

fimmtudagur, 25. júlí 2002

Jæja, já. Þannig er nú það.which mr. men/little miss are you?
take the quiz & find out! :)
quiz made by
which mr. men/little miss are you?
take the quiz & find out! :)
quiz made by

Ástandið er eitthvað að skána, klukkan þrjú var loftþrýstingurinn kominn í 987,4 millíbör. Hann þokast sem sé upp á við. En það gerist hægt. Ofurhægt.
Neeeeeiiiiii!!!!!!!!! Loftþrýstingurinn klukkan níu í morgun var 983,1 millíbör. Þetta gengur ekki lengur!!!

miðvikudagur, 24. júlí 2002

Fór inn á síðu Veðurstofunnar einu sinni enn (hversu andlega (ó)heilbrigð er manneskja sem skoðar hana oftar en einu sinni á dag?). Allavega: Loftþrýstingurinn í Rv. klukkan níu í kvöld var 993,1 millíbör. Þetta er ekki góð þróun. :(
Nú er ég búin að komast að því hvaða hnappur á lyklaborðinu ég er!

Heyrði aðeins í Svanhildi í gær sem var dauðuppgefin eftir ferðalag um landið að japönskum hætti. Bíð spennt eftir því að hún bloggi ferðasöguna.
Persónuleikapróf dagsins:


Click Here To Find Out Which Symbol You Are

Þetta var nú ágæt niðurstaða. Ef það er skýjað og grátt og ömurlegt úti verður maður líka að reyna að finna sólarglætu annars staðar. Sem minnir mig á það þegar Arna frænka mín var lítil og einu sinni sem oftar mikið að spekúlera í lífinu og tilverunni. Einhverra hluta vegna fór hún að velta guðdómnum fyrir sér og spurði mömmu sína hvað Jesús gerði eiginlega. Svarið sem hún fékk var: „Hann veitir okkur birtu og yl og ...“ Arna var snögg að draga ályktanir af þessu: „Jaaaá, er hann þá ljósapera?!“
Samkvæmt áreiðanlegustu heimildum var loftþrýstingur í Reykjavík í gær 1006 millíbör, en klukkan níu í morgun var hann 1002, sem sé fjarri því að vera stígandi. Æi. Engin furða að ég sé hálfónýt.

þriðjudagur, 23. júlí 2002

Kötturinn er augljóslega mikill áhugamaður um norðlensku. segir hann sér hafa borist þau tíðindi eftir „áreiðanlegum leiðum“ að það sem hann kýs að kalla „doggy bag“ upp á útlensku kallist „hvuttasekkur“ eða „seppasekkur“ fyrir norðan.

Sá Norðlendingur sem hér lemur lyklaborð hefur takmarkaða trú á því að þær heimildir kattarins um norðlensku sem hann kýs að líta á sem áreiðanlegar séu það í raun og veru. Skemmst er að minnast þrátekinna staðhæfinga kattarins um að Norðlendingar tali víst um „kók í bauk“, en fólkið sem hefur talið honum trú um það hefur augljóslega ekki fylkt sér undir merki sannleikans.

Hvutta- og seppasekkur eru orð sem hafa aldrei borist umsjónarmanni þessa málfarshorns til eyrna fyrr en nú, hvorki norðan heiða né annars staðar. Heimildarmenn kattarins um norðlenskt mál virðast því í þessu tilviki sem hinu fyrra ekki eins áreiðanlegir og æskilegt væri. Það breytir þó ekki þeirri staðreynt að þetta virðast vera ágætis orð sem fullkomlega óhætt væri að láta breiðast út, jafnt á Norðurlandi sem í öðrum landshlutum.
Leysti hádegisverðarvesenið að þessu sinni með því að fara í besta bakaríið í bænum sem er örskammt frá vinnustaðnum. Þar borðaði ég ágætis brauð en kaffivélin var í verkfalli þannig að ég gat ekki fengið cappuccino-ið sem mig var búið að dreyma um í allan morgun. Þótt það væri mikil mæða var þetta þrátt fyrir allt minna áfall en ég varð fyrir á mánudagsmorguninn í síðustu viku þegar ég kom þarna við á leiðinni í vinnuna (einu sinni sem oftar) og ætlaði að fá mér cappuccino til að taka með. Þá var reyndar í lagi með vélina, en pappamálin voru búin þannig að maður gat ekki tekið kaffið með sér. Það var mjög slæm byrjun á vinnuvikunni.

Cappuccino er annars vandræðaorð. Er ekki annars kominn tími til að reyna að vinna heitinu froðukaffi fylgi?
Nú nálgast hádegið og ég veit ekkert hvað ég á af mér að gera þá. Í dag er nefnilega annar dagurinn af þremur mötuneytislausum vikum í vinnunni. Valgerður sem eldar ofan í okkur er í sumarfríi. Efast um að ég lifi það af!

mánudagur, 22. júlí 2002

Enn eitt persónuleikapróf — það er ekki hægt annað í dag.Which era in time are you?
Vá, Palli er búinn að uppfæra alheimslistann! Er ekki dásamlegt hvað maður getur stundað miklar persónunjósnir með aðstoð netsins?! :)
Í gær dreif ég mig loksins í Gerðarsafn en ég var búin að vera á leiðinni á Síld og fisk sýninguna lengi. Hún var mjög fín; vel þess virði að skoða, þannig að ég var glöð og kát þegar ég fór af safninu. Þá lá leiðin á kaffihús hinum megin við gjána sem reyndist býsna gott (þótt það sé í ljótustu götu í heimi) og þegar ég fór þaðan var ég ennþá nokkuð ánægð með lífið og tilveruna. Síðan hugsaði ég með mér að fyrst ég væri komin í Kópavoginn væri sennilega best að nýta ferðina, drífa sig í leiðinda-verslunarmiðstöðina þeirra og athuga hvort það væri sjens að finna einhver sæmileg föt á útsölu. Hefði betur látið það ógert. Sennilega var þetta nokkuð vonlaust frá upphafi þar sem mér finnst verslunarmiðstöðvar almennt leiðinlegar, en sitthvað fleira kom þó til. Það lítur nefnilega út fyrir að ef maður fer ekki á útsölur strax á fyrsta degi sé ómögulegt að finna föt í öðrum stærðum en „small“. Og þegar maður loksins sér eitthvað í sínu númeri reynist það samt sem áður hannað í „small“, þ.e. á manneskjur sem eru eins og tannstönglar, þótt flíkin hafi verið stækkuð upp. Svona tilraunir til verslunarferða leiða sjaldnast til annars en þess að mér finnst ég óendanlega afbrigðileg — en einhverra hluta vegna hefur mér heyrst að ófáir kannist við þetta vandamál af eigin raun. Getur verið að það séu fataframleiðendurnir sem hafa svolítið brenglaða sýn á tilveruna?
Skildi ekkert í því af hverju teljarinn virtist hafa hætt að virka í fyrrinótt. Síðan uppgötvaði ég að tengillinn við hann var dottinn héðan út af síðunni og þá rann upp fyrir mér ljós: þegar „template-ið“ fór í klessu byrjaði ég að föndra síðuna aftur frá grunni en steingleymdi að setja teljarann inn upp á nýtt. Ekkert úti á þekju, nei, nei!
Ég er búin að að vera alltof slöpp við persónuleikaprófin upp á síðkastið. En hér kemur smá:
you're girl, interrupted. you're fun and friendly, and just a little bit crazy.

take the which prettie movie are you? quiz, a product of the slinkstercool community.
Which Soviet Leader are you? go to:the quiz!

sunnudagur, 21. júlí 2002

Er búin að koma dóti hérna inn þannig að það sé hægt að kommentera á hverja færslu. Tókst reyndar að fokka allri síðunni upp í leiðinni en held að ég sé búin að laga hana aftur. Og þetta virðist virka, því ég er strax búin að fá komment frá Svansý og Palla. Gaman, gaman! :) Skil að vísu ekkert í því hvað þau eru að gera á netinu á þessum tíma sólarhringsins! Eiga þau sér ekkert líf?!!!
Tókst líka að láta linkana hætta að vera bláa, nú eru þeir svartir eins og afgangurinn af textanum. Þarf samt helst að föndra eitthvað meira við þetta allt saman. Ætti kannski að fara að panta mér þessa bók — ætli það sé annars eitthvert vit í henni?
Er ekki frá því að djassinn og Tio Pepe sé farið að virka á hausverkinn. v.v.g.

laugardagur, 20. júlí 2002

Þótt dagurinn í dag hafi ekki verið með besta móti er ekki þar með sagt að helgin öll sé hræðileg því gærkvöldið var verulega skemmtilegt. Þá hitti ég þrjá vini og fyrrverandi bekkjarfélaga, Jónu Finndísi (sem á tvær heimasíður, hér og hér), Palla sem á mínímalískustu heimasíðu í heimi) og Hjöddu (sem hefur látið heimasíðugerð vera enn sem komið er). Því miður er ekkert þeirra farið að blogga en vonandi stendur það til bóta. Svansý átti líka að vera á svæðinu en var löglega forfölluð, ætlaði að vera farin norður í jarðarför, en síðan komst hún ekki einu sinni í jarðarförina þar sem henni tókst að veikjast rækilega, einu sinni sem oftar. Ekki gott.

Við hittumst á Kaffibrennslunni þar sem við könnuðum rækilega hina mismunandi stóla staðarins og hvar væri best að sitja. Niðurstaðan er ekki ljós; trúlega er frekari rannsókna þörf. Fyrst færðum við tvö lítil borð saman en fannst við vera óþarflega mikið úti í myrku horni þannig að við ákváðum að athuga hvort við gætum ekki setið öll við eitt lítið borð sem var aðeins meira miðsvæðis. Það kom ekki nógu vel út þannig að þegar stærra borð losnaði fluttum við okkur þangað. Það eina sem kom í veg fyrir að tilfæringarnar héldu áfram var sú brjálæðislega hugmynd að kanna næst tívolí dauðans á hafnarbakkanum. Þar reyndist varla vera sála en við ákváðum samt að prófa eitthvað af tækjunum. Þegar við ætluðum að kaupa miða komumst við hins vegar að því að það var ekki hægt að borga með kortum, þannig að við þurftum að ganga yfir í Austurstræti til að komast í hraðbanka og rölta síðan aftur til baka.

Þá tókst okkur loksins að kaupa miða og þrátt fyrir mótmæli mín var haldið í átt að tæki sem maður fer í hvolf í. Jóna Finndís og Hjödda voru rétt á undan okkur Palla en þegar þær voru komnar í tækið var það orðið fullt þannig að við Palli neyddumst til að bíða eftir næstu ferð. Við vorum næstum búin að hætta við og hefðum betur gert það því þegar við vorum loksins sest þurftum við að bíða ennþá lengur því starfsmennirnir vildu greinilega fylla tækið. Og þar sem næstum enginn var í tívolíinu (eins og áður hefur komið fram) tók það laaaangan tíma. Ég var mjög fegin þegar þessu öllu lauk þótt það hafi reyndar verið svolítið fyndið að sjá Hafnarhúsið og nánasta umhverfi á hvolfi.

Næst var haldið að brjálaða frosknum. Þar lauk einni ferðinni skömmu eftir að við komum og við tókum eftir því að þarna var ekki lögð áhersla á að fylla tækið eins og í hinu brjálæðinu. Þannig að við rukum strax til og settumst. Svo biðum við. Og biðum. Og biðum ennþá lengur. Og biðum. Við vorum næstum sofnuð þegar við komum loksins af stað, en þá var engin hætta á að við gætum lognast út af, nema það hefði liðið yfir okkur af öllum rykkjunum. Eða við dáið úr súrefnisskorti, alla vega ég, því ég var yst og vegna miðflóttaaflsins (sem við lærðum væntanlega um í eðlisfræði endur fyrir löngu) þrýstust Jóna Finndís og Palli rækilega upp að mér (því miður hafði Hjödda þurft að yfirgefa okkur þegar hér var komið sögu þar sem bróðir kærastans hennar var að koma til landsins í heimsókn).

En við lifðum þetta af þrátt fyrir allt. Þegar öllu þessu var lokið var samt orðið verulega nauðsynlegt að fá sér eitthvað hjartastyrkjandi og í þeim tilgangi var haldið á Apótekið. Þar sátum við bara við eitt borð, en kannski hefðum við haldið í heiðri þá hefð okkar (hjá MA-ingum er nóg að gera eitthvað einu sinni til að það sé orðið hefð) að flytja okkur reglulega til ef starfsfólkið hefði ekki farið að stafla stólunum skelfilega snemma.

Meðal þess sem rætt var þetta kvöld var Inter-X alheimslistinn sem er orðið nokkuð brýnt að uppfæra. Ef einhverjir af félögum okkar úr X-inu lesa þetta mega þeir gjarnan senda mér póst og láta vita hvar þeir halda sig um þessar mundir.
Ég er með hausverk! Ekki gaman. Eins gott að ég sé ekki að verða veik eins og sumir. Í bili ætla ég alla vega frekar að kenna óæskilegu hljóðáreiti sem hefur dembst yfir mig í dag um þetta leiðindaástand. Það byrjaði þegar ég fór á geisladiskaútsölu í Brautarholtinu (þar sem Japis var). Þegar ég kom inn var reyndar verið að spila prýðilegan djass en áður en leið á löngu var settur panflautudiskur í geislaspilarann. Fyrsta lagið var „I will always love you“ sem var nógu leiðinlegt með Whitney Houston en ennþá verra í panflautuútsetningunni, og síðan rak hver smekkleysan aðra.

Næsti viðkomustaður var Súfistinn. Þar var sömuleiðis verið að spila skikkanlega tónlist þegar ég kom en ekki leið á löngu áður en það breyttist. Þá kom að íslenskum lögum í útsetningum sem kallast kannski „þægilegar“ en er í þessu tilviki skrauthvörf fyrir „óþolandi“. Eini munurinn á þessu og panflautuskelfingunni var að hljóðfærin voru önnur. Auk þess var vægast sagt óviðeigandi að hlusta á „Sofðu unga ástin mín“ (sem sagt vögguvísu) svona síðdegis, þótt það væri reyndar ekkert í samanburði við „Nú er frost á Fróni“ sem er álíka fáránlegt stílbrot um hásumar og Heims um ból væri sautjánda júní.

Jæja, ég flúði Súfistann á endanum en þar með var árásunum á eyrun ekki lokið. Ég þurfti nefnilega að bíða í rúmar tíu mínútur eftir strætó niðri á Lækjartorgi og þar með að hlusta á orðin „velkomin í passamyndasjálfsalann“ endurtekin hérumbil tvö þúsund sinnum.

Er furða að ég sé með hausverk?

Best að athuga hvort þurra sérríið mitt (Tio Pepe, namm) og Benny Goodman diskurinn sem ég keypti í dag vega ekki upp á móti öllum þessum hörmungum.
Vá! Ása er búin að útnefna „litlu bloggstelpurnar“, þar á meðal mig, menn vikunnar að þessu sinni. Góður félagsskapur og heilmikill heiður. :)

föstudagur, 19. júlí 2002

Þótt púrtvín sé ákaflega gott hefði Svanhildur átt að vita að það hefur ekkert að segja gegn hálsbólgu. Ég er svoooo oft búin að segja henni að það sé koníak sem er allra meina bót.

fimmtudagur, 18. júlí 2002

Einu sinni hélt ég að ástæðan fyrir því hvað mér gengi illa að komast á fætur á morgnana væri að ég svæfi yfirleitt of lítið. Nú er ég búin að fara að sofa ótrúlega snemma (á minn mælikvarða) í þó nokkurn tíma en þetta gengur ekkert betur. Hvað á að gera við fólk eins og mig?

miðvikudagur, 17. júlí 2002

Vissuð þið að ...
... káputextar á bækur eru mjög sérstök bókmenntagrein. Og það er ekki einfalt að búa svoleiðis til!
Held að mér hljóti að vera heiður að því að kallast gimbur. Þótt ég sé tæplega eitthvert lambakjöt! En gimbrar eru fallegar og góðar skepnur. Svona yfirleitt.

þriðjudagur, 16. júlí 2002

Þá er komið að svörum dagsins!
— — —
Ármann reynir að sverja það af sér að hafa gert sig sekan um karllægt málfar og segir hina umtöluðu „þá“ hafa verið tilvísun í paranoiu og samsæriskenningar um að ævinlega séu einhverjir „þeir“ á bak við allt illt sem gerist. „Röksemdum“ hans má snúa upp í andhverfu sína, og benda á að orðfærið sé í samræmi við þá hefð og hugsunarvillu að líta svo á að ævinlega séu einhverjir „þeir“ á bak við allt sem gerist. Sem gefur ítrekað tilefni til femínískrar paranoiu!
— — —
Og Ása, ég var bara að vekja athygli móður minnar á vannýttum hæfileikum þínum. Ítreka hugmyndina um ekkifréttahorn á Akureyrarsíðunni!
Ása skrifar svo öflugar fréttir á heimasíðu AkureyrarMogginn er farinn að stela frá henni! Hér segir hún frá því. Hún birtir einnig óopinbera útgáfu af fréttinni um landsmót skáta, sem er mun skemmtilegri en „alvöru“ fréttin. Hvernig væri að setja upp „ekkifréttahorn“ á Akureyrarsíðunni?
Svansý segist vera með nett heimkomuþunglyndi. Skil hana ákaflega vel. Verst að ég er með snert af heimveruþunglyndi — ætli það sé nokkuð betra?!
Svanhildur er komin heim! Gaman, gaman!
Fór inn á Vísi og sá fréttina um Ármannshelli sem skýrði ýmislegt í véfréttarbloggi Ármanns. Enn er þó óljóst af hverju Ármann skrifaði „þeir hafa fundið“, án þess að það fylgi sögunni hverjir þessir „þeir“ eru. Það sem meira er; í fréttinni kemur bara einn maður við sögu, þannig að það hlyti að vera eðlilegra að segja t.d. „einhver hefur fundið...“ Eðlilegast væri samt „Ármannshellir hefur fundist“ eða „Ármannshellir er fundinn“.
Það er reyndar orðið ótrúlega algengt að sagt sé „þeir“ þegar gerandinn er óskilgreindur eða óljós, í samhengi þar sem oftast væri langeðlilegast að nota þolmynd. Hluti skýringarinnar er væntanlega áhrif frá hinu alræmda tungumáli, ensku, þar sem iðulega er sagt „they say ...“ í merkingunni „það er sagt að ...“, „they found something“ í merkingunni „eitthvað fannst“. En they á ensku getur ýmist merkt þeir, þær eða þau á íslensku — akkuru er nær undantekningarlaust sagt þeir? Og akkuru er það algengt að t.d. í blönduðum hópi kvenna og karla á leið eitthvað segi karlarnir ósjaldan „við erum að verða komnir“? Svo dæmi sé tekið. Eins og konurnar séu ekki til.

Þótt mér finnist áhyggjur af „karllægu málfari“ ósjaldan ganga út í öfgar (eins og þegar fólk agnúast út í það að maður skuli bæði eiga við karla og konur, sbr. eldri umræður), er þetta eitthvað sem mér finnst veruleg ástæða til að huga að.

Þar með lýkur femínískum málfarspistli dagsins að sinni. Ég þakka þeim sem hlýddu.

mánudagur, 15. júlí 2002

Ármann bloggar í véfréttarstíl í dag. Hverjir eru „þeir“? Hvað/hvar er Ármannshellir og af hverju er óæskilegt að hann hafi fundist? Og hvað í ósköpunum er þetta með skattinn? Mér er spurn.
Ég vaknaði með Der Vogelfänger bin ich ja á heilanum í morgun. Undarlegt.
Þá er helgin liðin en veðrið er ennþá leiðinlegt. Sunnudagurinn var ískyggilega líkur laugardeginum, nema í staðinn fyrir sænsku glæpasöguna byrjaði ég á norskri. Demonens død eftir Anne Holt. Lítur út fyrir að vera allt í lagi, en svo sem ekkert meira.
Verð augljóslega að finna mér danskan krimma næst til að viðhalda þessu norræna glæpaþema. Danskan var þó ekki fullkomlega afskipt um helgina, því ég las Politiken á kaffihúsi í gær og fletti hinu stórmerka riti Billed-bladet í bókabúð. Þar fræddist ég m.a. um það að kronprins Frederik sé farinn að lita á sér hárið og það sjáist mjög greinilega í dagsbirtu. Ja hérna.

laugardagur, 13. júlí 2002

Hamsturinn Marteinn er enn í pössun hjá mér. Og enn á lífi! Þessa stundina hleypur hann eins og brjálaður — sennilega er hann galinn. Snargalinn.
Þetta er búinn að vera meiri letidagurinn. Er nokkuð annað hægt þegar veðrið er svona leiðinlegt? Það eina sem getur mögulega, ef til vill og kannski flokkast undir dugnað er að hafa lesið heila bók á sænsku, Paradiset, þriðju glæpasöguna hennar Lizu Marklund. (Þær tvær fyrstu eru komnar út á íslensku, Sprengivargurinn og Stúdíó sex.) Persónurnar hjá henni eru dálítið einhliða og hún hefur á köflum (aðallega þó í fyrstu bókinni) fullmikla tilhneigingu til að mata mann með teskeið en þetta eru samt fínir krimmar. Lá undir sæng langt fram eftir degi og las, dreif mig svo loksins á fætur og þvældist milli kaffihúsa þar sem ég kláraði bókina á endanum. Fleira er ekki í fréttum.

föstudagur, 12. júlí 2002

Nei sko! Kári bróðir minn hefur stungið upp kollinum í bloggheimum! Hann sem tók því fálega þegar ég hvatti hann til að byrja að blogga og tilkynnti mér að hann væri „ekki nógu egósentrískur“ til þess. Ég ákvað að loka augunum fyrir því að í þessum orðum gætu falist einhverjar blammeringar í minn garð! Annars er rétt að taka fram að Kári er ekki með eigin bloggsíðu heldur eru þeir nokkrir félagarnir — sýnist þetta vera skátagengi að norðan — komnir með sameiginlega síðu, sem virðist nokkuð dularfull, en það gæti orðið gaman að fylgjast með henni.
Í vinnunni er starfræktur óformlegur gönguklúbbur sem klífur fjöll eftir vinnu á fimmtudögum. Ég dreif mig loksins með í gær, vopnuð Síríus-suðusúkkulaði. Algjör lífsnauðsyn í svona ferðum, og það er svindl að vera með annað en tvöfaldan pakka í smjörpappír. Það var haldið á Móskarðshnjúka og ferðin var afbragðsskemmtileg. Þetta var bölvað púl á tímabili, eins og svona fjallgöngur eru ósjaldan — blótsyrði og súkkulaði drógu mann áfram síðustu metrana á leiðinni upp — en það verður alltaf þess virði þegar maður er kominn. Annars eru helstu tíðindi ferðarinnar áreiðanlega þau að tímaáætlun Kristjáns B. stóðst, en hann varð alræmdur eftir Hengilsgöngu um daginn sem hann sagði að myndi taka þrjá tíma en tók í rauninni fimm. Í þetta skiptið hljóðaði áætlunin upp á þrjá tíma (ætli hann áætli alltaf þrjá tíma?) og stóðst næstum því upp á mínútu.
Mjög ánægð með ferðina — það er líka svo gott að komast öðru hverju út í sveit! ;)
Jæja! Ármann er búinn að blanda sér í það sem hann kallaði áður „einkastríð“ bróður síns, með því að gefa í skyn að ást á sveitalífi tengist andlegum dauða. Skömm og svívirða! Þetta er geymt en ekki gleymt!
Gott að sjá að það er farið að skipuleggja kynnisferð um Norðurlandið fyrir borgarbarnið. Ég gæti kannski útvegað gistingu í minni sveit.
Nú er ég laus við Andrésar andar prófarkirnar, en þá eru komnar prjónauppskriftir á borðið mitt. Semsé, til að prófarkalesa. Hvenær ætli ég komist í skemmtilegu verkin sem bíða á borðinu hjá mér? T.d. próförk að þýðingu á Ambursjónaukanum (The Amber Spyglass) eftir Philip Pullman, annað bindið af Ameríkubréfunum, myndskreytta endursögn á Njálu fyrir börn, með heilmiklu aukaefni, o.fl. o.fl.? (Það er sko sitthvað spennandi að koma út í haust.)
— — —
Lifi bloggið! Maður uppgötvar sífellt fleira fólk í bloggheimum. Kristbjörn fyrrverandi bekkjarfélagi minn er til dæmis farinn að blogga, og ég er nýbúin að uppgötva að Hjörtur sem ég þekki úr íslenskunni hefur bloggað um allnokkurt skeið. Hann harmar það jafnmikið og við Ármann að þorrablót Mímis skuli hafa fengið skrípanafnið árshátíð.

fimmtudagur, 11. júlí 2002

Vei, vei, vei, vei, vei, hundraðfalt vei!!! Lífsmark frá Svanhildi! Það sem ég var búin að bölva fólki sem virtist halda að það að fara til útlanda væri afsökun fyrir því að gerast aumingjabloggari! En batnandi manni er best að lifa (vek athygli á notkun orðsins maður í þessari setningu, sbr. eldri umræður um það mál á ýmsum bloggsíðum).
Á vinnustaðnum mínum eru næstum allir í sumarfríi, þannig að ég lendi í einkennilegustu verkefnum. Til dæmis að prófarkalesa Andrés önd og kennslubók í stærðfræði. Það má vart á milli sjá hvort er einkennilegra. Auðvitað ætti ekkert að gefa Andrés út á íslensku — hann er margfalt betri á „frummálinu“ (þ.e. dönsku).
En það er alla vega nóg að gera.
Hins vegar er greinilegt að Ármann og Sverrir hafa ekkert að gera því sjaldan hefur önnur eins ofvirknisering sést í bloggheimum. Ármann er auk þess búinn að uppnefna næstum alla hlekkina sína, sem er reyndar gott mál. Uppnefni geta verið skemmtileg.
Sammála Ármanni um að fólk láti raunveruleikann þvælast alltof mikið fyrir daglegu lífi. Það var til dæmis óheyrileg afturför þegar hætt var að kalla þorrablót Mímis því nafni með þeim rökum (eða rökleysu) að hátíðin væri jafnan haldin á góu og þar væri ekki etinn þorramatur. Hverjum er ekki sama um svoleiðis smáatriði?
Ármanni til fróðleiks má annars geta þess að í Menntaskólanum á Akureyri tíðkaðist á minni tíð — og tíðkast trúlega enn — að halda 1. des hátíðlegan á föstudegi, sama upp á hvaða dag hann bar í raun og veru. Fyrsti des var þannig iðulega 30. nóv. eða eitthvað álíka. Svona er norðlensk menning háþróuð!
Styð hugmynd Hilmu um að senda Sverri í kynnisferð um landsbyggðina. Hann hefði gott af því!

miðvikudagur, 10. júlí 2002

Þrátt fyrir að blogg Sverris sé misgáfulegt í dag er frillu-hugmyndin afbragðsgóð og á stuðning minn vísan.
Sverrir er dæmigerður Reykvíkingur sem heldur að svæðið utan marka höfuðborgarinnar sé samþjappaður bleðill, þar búi einungis örfáar hræður og allir þekki alla. Síðan ég flutti suður hef ekki tölu á því hversu oft ég hef fengið spurningar á borð við: „Jaaaá, ertu frá Akureyri? Þekkirðu þá Guðrúnu frá Dalvík?“ — eða álíka. Engum dytti nokkurn tíma í hug að gera ráð fyrir því að ein manneskja úr Grafarvogi þekkti sjálfkrafa aðra úr Fossvoginum.
Sem sagt: Það er ekki sjálfgefið að tvær manneskjur „utan af landi“ — jafnvel þótt þær séu frá þeim afmarkaða hluta þessarar villtu zónu sem nefnist Norðurland — þekkist eða eigi sameiginlega kunningja. Þannig að ég held óhikað áfram að láta mér finnast heimurinn skemmtilega lítill í tilviki okkar Hilmu og Ásu. Og hananú!
Hugmynd Hilmu um Dalalífspartý er frábær. Það hvort menn kunna að meta þá ágætu bók eða ekki skilur svo sannarlega sauðina frá höfrunum. Styð Hilmu líka innilega í viðleitninni til að eiga sjálfstætt líf! Það sem henni finnst skemmtilegt að gera hljómar auk þess óendanlega mikið meira spennandi í mín eyru en golfið. Við verðum greinilega að fara að hittast. Hvenær verður Dalalífspartýið?!
(P.S. Flíspeysur eru kannski í lagi per se, en eins flíspeysur eru ólýsanlegur horror!)

þriðjudagur, 9. júlí 2002

Heimurinn er lítill og bloggheimar ennþá minni. Ég hef þegar rakið eitt dæmi um það en þau eru fleiri til. Þar á meðal þetta: Um nokkurt skeið hef ég fylgst með blogginu hennar Ásu. Hana þekki ég reyndar ekki neitt, en það leið ekki á löngu þar til ég uppgötvaði ýmsar tengingar á milli okkar. Nú er Ása búin að rekja þær á bloggsíðunni sinni, og þær eru meira að segja ennþá fleiri en ég vissi fyrir. (Það er eitthvert rugl á "archives" dótinu þannig að ég gat ekki linkað beint. Lenti alltaf þar sem Ása ættfærir Önnu prinsessu undir Orra frá Þúfu, sem er reyndar brilljant punktur.)

Eins og ég hefur Ása greinilega mikið dálæti á persónuleikaprófum ýmiss konar; hér kemur niðurstaðan mín úr einu slíku í heiðursskyni við hana.

I'm pretty damn hard core! Fear me!


Fyrst ég er byrjuð að tala um það hvað bloggheimar eru litlir er best að ég haldi aðeins áfram. Síðuna hennar Ásu fann ég nefnilega í gegnum síðuna hennar Hilmu sem ég þekki heldur ekki neitt, en var ekki búin að lesa lengi þegar ég komst að því að við ættum sitthvað sameiginlegt, t.d. er hún að norðan eins og ég og einlægur aðdáendi Dalalífs eftir Guðrúnu frá Lundi (eins og kemur fram hér og hér). Svo komst ég auðvitað að því að bræður mínir þekktu hana. Það hlaut að vera eitthvað.

Stundum er óskiljanlegt hvernig manni hefur tekist að kynnast ekki sumu fólki. Held að þetta séu fullkomin dæmi um það.

mánudagur, 8. júlí 2002

Æi. Svaf af mér einn strætó í morgun og missti af þeim næsta. Ekki góð byrjun á vinnuvikunni.

föstudagur, 5. júlí 2002

Árlegu hreyfingarátaki mínu hefur verið stefnt í verulega hættu. Sem er fullgróft, því það hófst bara í fyrradag!!! Tvo daga í röð hef ég sem sé rölt niður í Laugardalslaug eftir vinnu, synt 1000 metra og gengið svo heim, ótrúlega ánægð með þennan dugnað og hugsað með mér að í þetta skiptið skyldi átakið vara lengur en mánuð. En hvað sá ég þegar ég kom í sund í gær? Tilkynningu um að það yrði sundmót í lauginni um helgina og þess vegna yrði hún lokuð frá kl. 17 í dag. Neyðist ég til að leita mér að annarri sundlaug? Hvað á ég að gera?

Í sundinu í gær hitti ég annars Loga, bernskuvin minn, sem var ofsalega skemmtilegt. Hann flutti til Danmerkur þegar við vorum ... ja, man ekki alveg hvað gömul. Átta ára kannski? Síðan höfum við bara rekist hvort á annað á nokkurra ára fresti, en það er alltaf virkilega gaman að sjá hann og mætti gerast mun oftar.

fimmtudagur, 4. júlí 2002

Hvaða þolmyndarflipp er á Ármanni? Akkuru í ósköpunum skrifar hann ekki „hafði ég ... í hávegum“?
Kveðja,
prófarkalesari að tapa sér!
Akkuru fær fólk sér hamstur? Er að passa svoleiðis kvikindi um þessar mundir, sem sýnir helst ekki með sér lífsmark nema þegar einhverju er bætt í matardallinn hans og síðan á nóttunni. Þá er hlaupið og hlaupið og hlaupið í hjólinu. Ætli hann sé að reyna að flýja þessa ömurlegu tilveru sína? Ætli það sé eins komið fyrir honum og fólki sem notar hlaupabretti á líkamsræktarstöðvum. Þessi hópur virðist hafa misskilið hugmyndina um að vera (í vísunni segir reyndar „sitja“ en það passar ekki í þessu samhengi) „kyrr á sama stað en samt að vera að ferðast“?
Kannski er tilgangurinn með því að eiga svona skepnu sá að fá jákvæðari sýn á eigið líf — sem verður svo dásamlegt í samanburðinum að það hálfa væri miklu meira en nóg.

miðvikudagur, 3. júlí 2002

Var að smakka teið — sem bragðaðist býsna vel. Er þá ekki bara seinni möguleikinn eftir?

Kata kom í heimsókn um daginn og gaf mér "Mood Mender" te — undir því yfirskini að hún ætti alltof margar tegundir af tei og þyrfti að losna við einhverjar af þeim. Þetta var ákaflega fallegt af henni — en ef ég væri móðgunargjörn gæti ég bara séð tvær mögulegar ástæður fyrir þessum örlætisgjörningi:
1) Teið er vont!
2) Henni finnst ég geðvond!

Er ekki enn búin að smakka teið þannig að ég veit ekki hvort fyrri möguleikinn getur átt við rök að styðjast. Hvað varðar þann síðari ... ja ... hmmm ... sko ...
Passar ekki alveg. Samt skemmtilegt próf.


Take the Which Madonna Video Are You? Quiz