fimmtudagur, 27. febrúar 2003

Undarlegir hlutir virðast hafa komið fyrir bloggið mitt, samkvæmt Steinunni; hún spyr m.a. hvort ég eigi mér tvífara sem skrifi á ensku. Ég er komin í verulega ídentítets-krísu yfir málinu! Kannski er ég geðklofnari en ég hef gert mér grein fyrir fram að þessu!

miðvikudagur, 26. febrúar 2003

Lokaþáttur núverandi Bráðavaktarseríu í kvöld. Hvað ætli gerist? Ætli Carter og Abby byrji saman, eða ætli þættinum ljúki kannski á augnabliki milli þeirra sem stefnir í að verða ákaflega merkingarþrungið? Ætli dr. Greene gangi aftur og ofsæki Romano? Ætli nýi, leiðinlegi læknaneminn drepi einhvern (og verði látinn fjúka), eða ætli hann komi á óvart og sýni fram á að hann búi yfir agnarögn af jákvæðum eiginleikum? (Er samt ekki mjög bjartsýn á það.)
Bíð allavega spennt – er búin að stilla vídeóið mitt, því ég er að fá fólk í heimsókn einmitt á Bráðavaktartíma. Algjört skipulagsleysi!

föstudagur, 21. febrúar 2003

Horfði á Bráðavaktarþátt vikunnar seint í gærkvöld, mér til engrar ánægju. Nýendurvakið traust mitt á handritshöfundunum beið umtalsverðan hnekki. Þátturinn í síðustu viku, þegar fréttirnar bárust einfaldlega af því á Bráðavaktina að Mark væri dauður, var svo prýðilega gerður að ég fékk næstum því samviskubit yfir öllu tuðinu í mér um hvað hann væri óþolandi og ætti að drepast sem fyrst og allt það. Ég varð jafnvel pínulítið sorgmædd yfir andlátinu. En samviskubitið hvarf eins og dögg fyrir sólu yfir þessum velluþætti dauðans. Ætla rétt að vona að lokaþátturinn (í næstu viku) verði hrikalega góður – serían þarf svo sannarlega á því að halda til að vega upp á móti þessari hörmung.
Ja hérna. Var að kveikja á útvarpinu og lenti inni í miðju viðtali við kynþokkafyllstu konu landsins sem reyndist vera Svanhildur! Það finnst mér fyndið – og henni sjálfri líka ef ég þekki hana rétt! En hamingjuóskir fær hún engu að síður.
(P.S. Kannski rétt að taka fram að þetta með húmorgildið er engan veginn meint þannig að titillinn sé ekki verðskuldaður, þvert á móti!)
Af hverju í fjandanum er bókamarkaðurinn í fokking Smáralind?! Það tekur klukkutíma að komast þangað í strætó (eða því sem næst)! Ef ég tryði á einhver æðri máttarvöld myndi ég trúlega líta á þetta sem teikn um að ég ætti að láta öll bókakaup eiga sig þessar vikurnar – en þar sem ég er fullkomlega laus við slíka trú veit ég ekkert hvernig ég á að taka þessu. Er bara svekkt. Mjög svekkt. Og sár.

fimmtudagur, 20. febrúar 2003

Þetta er nú meira aumingjabloggið hjá mér!

þriðjudagur, 11. febrúar 2003

Er í blogglægð eins og einhverjir hafa ef til vill tekið eftir. Það stendur kannski til bóta. Kannski ekki. En trúlega er rétt að taka fram að það er alls ekki merki um að ég sé í lægð að öðru leyti – þvert á móti hefur heilastarfsemin að öllu leyti verið með skásta móti upp á síðkastið. Tengist því kannski eitthvað að það sem af er árinu er ekki búið að vera margfalt vinnuálag á mér, sem er umtalsverð tilbreyting og ég held að mér hafi ekki veitt af að anda svolítið. Það er búið að jaðra við heilmikið frí að rúmur mánuður hafi liðið þar sem ég hef bara verið í cirka hálfu starfi (sem er reyndar meiri vinna), og einum kúrsi í háskólanum, og að sinna einhverju fleiru ... OK, kannski er þetta ekki beinlínis búið að vera frí, en þetta eru allavega mun meiri rólegheit en ég hef kynnst lengi.

Síðustu tvö árin hef ég nefnilega unnið stanslaust (yfirleitt meira en fulla vinnu) á skrilljón vinnustöðum (yfirleitt á álagstímum) án þess að eiga frí einn einasta dag fyrir utan almenna frídaga (þ.e. á jóladag og svoleiðis). Nema núna um jólin tók ég heila tvo orlofsdaga. Það var algjört nýmæli. Jólin á undan tók ég reyndar svolítið frí en vann það af mér, þannig að það telst varla með. Sumarfrí? Hvað er það? Kannski eignast ég einhvern tíma svoleiðis þegar ég verð stór. En ég hef allavega brugðið umtalsvert út af vananum þennan síðasta mánuð. Og ég finn ekkert smávegis hvað ég hef haft ótrúlega gott af því – allt í einu fór ég til dæmis að fá alls konar hugmyndir, meira að segja eina MA-ritgerðarhugmynd, sem ég veit svosem ekkert hvort ég á eftir að nota, en það er ekki aðalatriðið. Bara gott að finna að maður er ekki heiladauður!

Nú lítur hins vegar út fyrir að „fríinu“ sé að ljúka, það eru aftur farin að hellast yfir mig verkefni sem er líka hið besta mál. Maður þarf víst alltaf einhverja fjandans peninga til að lifa af!

Jæja, best að fara að gera eitthvað. Meðmæli dagsins fær Hildigunnur sem á stórleik á blogginu í dag, einu sinni sem oftar, og skrifar m.a.:

„Var í sálfræði áðan, hvar við fengum að horfa á indælis myndband um lítil börn sem grenja og skíta. Það heyrðust frygðarstunur frá bekkjarsystrum mínum sem greinilega þráðu að poppa úr sér krakka á stundinni. Ég kúgaðist og fann fyrir bylgju af skuldbindingafælni sem smaug hægt og rólega inn í öll líffærakerfin. Svo beit ég mig óvart í tunguna.“

föstudagur, 7. febrúar 2003

Nei, sko! Ég er eðlileg! Alltaf uppgötvar maður eitthvað nýtt!


Balanced. You accept your emotions as normal and
are not overly happy nor depressed. You are
emotionally balanced and should find peace in
the way you deal with life situations. Your
emotions are normal and well understood. You
see the light in the dark.


How Emotional Are You?
brought to you by Quizilla

fimmtudagur, 6. febrúar 2003

Hah! – sennilega lógískt með hliðsjón af því að nornin er uppáhaldspersónan mín í sögunni um Hans og Grétu!

eating people
YOU EAT PEOPLE!!!


what's YOUR deepest secret?
brought to you by Quizilla