miðvikudagur, 31. ágúst 2005

Mér finnst best að skrifa ritgerðir á nóttunni (svo framarlega sem ég þarf ekki að komast á bókasafn). En það er ekki alveg nógu hentugt að þurfa að mæta í vinnu að morgni. Ætli mér takist einhvern tíma að kljúfa persónuleikann til fulls og búa til morgunhresst aukasjálf?

mánudagur, 29. ágúst 2005

Nú er ég glöð - komin með þráðlaust adsl heima - og ég setti það upp alein.

miðvikudagur, 24. ágúst 2005

Hvað er þetta eiginlega með veðrið? Hver leyfði október í ágúst?

þriðjudagur, 16. ágúst 2005

Hmmm, hvort ætti ég frekar að bjarga heiminum eða eyða honum?

föstudagur, 12. ágúst 2005

Mér finnst nýja strætókerfið stórfínt. Mér er meira að segja alveg sama þótt það sé pínulítið óhentugra fyrir mig að taka strætó beint í vinnuna en áður því það er miklu fljótlegra og þægilegra að komast allt annað. (Ég þarf hvort eð er ekkert endilega að taka strætó í vinnuna, það er ágætt að ganga þangað). Þegar ég ber saman ferðir á alla gömlu vinnustaðina mína - sem eru úti um allan bæ - í gamla og nýja kerfinu, þá er nýja kerfið alltaf betra og oftast miklu betra. Það var alveg kominn tími til að stokka þetta upp og mér blöskrar alveg hvernig blöðin hafa látið eins og þetta sé allt ómögulegt og katastrófískt.

Þetta var jákvæði punktur vikunnar - sko, ég er ekkert í fýlu yfir öllu.

þriðjudagur, 9. ágúst 2005

Það þarf mjög lítið til að pirra mig þessa dagana. Gærdagurinn tók mjög á því þá var ekki þverfótað fyrir fólki með áráttuhegðun (eða kannski tók ég bara sérstaklega vel eftir þessu fólki þar sem pirringsþröskuldurinn var svona lágur). Fékk mér kaffi á Segafredo eftir hádegismatinn og var búin að hafa það afar notalegt um stund þegar gamalt fólk settist við hliðina á mér. Maðurinn settist bara eðlilega. Og drakk svo kaffið sitt rólega og eðlilega þegar það kom. Konan var aftur á móti af þeirri tegund sem getur aldrei gert neitt öðruvísi en að vesenast. Hún vesenaðist ógurlega við að koma sér fyrir við borðið og tókst að vesenast gríðarlega við að drekka kaffið sitt. Ég missti alveg einbeitinguna og klúðraði gjörsamlega Su Doku þrautinni sem ég var að leysa (já, ég er dottin á kaf í Su Doku). Lítil börn með æðiber í rassinum geta alveg verið pirrandi en gamalt fólk með æðiber í rassinum er ennþá verra.

Seinnipartinn beið ég eftir strætó í Lækjargötunni. Á stoppistöðinni var fleira fólk sem var alveg laust við að draga nokkra athygli að sér - nema einn maður sem gekk fram og til baka. Og fram og til baka. Og fram og til baka. Níu skref í aðra áttina, níu skref í hina áttina, snú, níu skref, snú, níu skref, snú, níu skref ... Ég var að því komin að ærast en sem betur fer kom strætóinn minn áður en ég eipaði algjörlega. Og blessunarlega var níu skrefa maðurinn að bíða eftir öðrum strætó.

Enn seinna um daginn sat ég á kaffihúsi (aftur). Á næsta borði var maður sem fiktaði stanslaust við kveikjarann sinn. Ég óskaði þess heitt að það myndi kvikna í fingrunum á honum en ég er greinilega ekki nógu bænheit.

Síðasta kaffihúsaferð dagsins varð mér hins vegar til svolítillar skemmtunar (sem blandaðist samt líka votti af fávitahrolli). Þegar ég var búin að sitja yfir ágætis glasi af rauðvíni um stund (og leysa nokkrar Su Doku gátur) settist par á næsta borð. Ég komst ekki hjá því að heyra megnið af samræðunum sem voru eins og upp úr illa skrifuðu og klisjukenndu leikriti um yfirborðsmennsku. Það lá við að ég tæki glósur.

mánudagur, 8. ágúst 2005

Ég hélt að ágúst væri bara nýbyrjaður. Ég hélt líka að í ágústbyrjun ætti að vera sumar. Af hverju er þá haust í Reykjavík í dag?

fimmtudagur, 4. ágúst 2005

Fjórði dagur eftir heimkomu og ástar-haturs-sambandið við þetta land er ennþá afgerandi hatursmegin.

Ég ætlaði að lífga upp á tilveruna með því að lesa nýja Bridget-pistilinn í Independent, en þegar ég reyndi að kaupa aðgang fór allt í hönk. Þurfti að skrá inn helling af upplýsingum, og skrifaði heimilisfangið mitt fyrst með 'th' í staðinn fyrir 'þ'. Þá tilkynnti síðan öryggisvandamál; þetta virtist ekki stemma við kortaupplýsingarnar. Mér fannst ágætis tilhugsun að tékkið væri svona öflugt, en þegar ég skrifa heimilisfangið upp á íslensku fæ ég villumeldingu og er sagt að heimilisfangið þurfi að vera lengra en fjórir bókstafir. Síðan hvenær eru minna en fjórir bókstafir í "Þjórsárgata 1"? Ég er búin að senda fyrirtækinu sem sér um þetta tölvupóst og reyna að segja þeim kurteislega að síðan þeirra kunni ekki að telja og ætla rétt að vona að þetta reddist. Ég vil fá Bridget!

Það eina jákvæða við daginn er fiskurinn sem ég borðaði í Ostabúðinni í hádeginu. Hann var mjög góður.

þriðjudagur, 2. ágúst 2005

Aldrei þessu vant var hvorki rok né rigning á Keflavíkurflugvelli á sunnudagskvöldið. En Reykjavík er grá og leiðinleg (breytir engu þótt sólin skíni lítillega núna) og Ísland er almennt óþolandi.