þriðjudagur, 9. ágúst 2005

Það þarf mjög lítið til að pirra mig þessa dagana. Gærdagurinn tók mjög á því þá var ekki þverfótað fyrir fólki með áráttuhegðun (eða kannski tók ég bara sérstaklega vel eftir þessu fólki þar sem pirringsþröskuldurinn var svona lágur). Fékk mér kaffi á Segafredo eftir hádegismatinn og var búin að hafa það afar notalegt um stund þegar gamalt fólk settist við hliðina á mér. Maðurinn settist bara eðlilega. Og drakk svo kaffið sitt rólega og eðlilega þegar það kom. Konan var aftur á móti af þeirri tegund sem getur aldrei gert neitt öðruvísi en að vesenast. Hún vesenaðist ógurlega við að koma sér fyrir við borðið og tókst að vesenast gríðarlega við að drekka kaffið sitt. Ég missti alveg einbeitinguna og klúðraði gjörsamlega Su Doku þrautinni sem ég var að leysa (já, ég er dottin á kaf í Su Doku). Lítil börn með æðiber í rassinum geta alveg verið pirrandi en gamalt fólk með æðiber í rassinum er ennþá verra.

Seinnipartinn beið ég eftir strætó í Lækjargötunni. Á stoppistöðinni var fleira fólk sem var alveg laust við að draga nokkra athygli að sér - nema einn maður sem gekk fram og til baka. Og fram og til baka. Og fram og til baka. Níu skref í aðra áttina, níu skref í hina áttina, snú, níu skref, snú, níu skref, snú, níu skref ... Ég var að því komin að ærast en sem betur fer kom strætóinn minn áður en ég eipaði algjörlega. Og blessunarlega var níu skrefa maðurinn að bíða eftir öðrum strætó.

Enn seinna um daginn sat ég á kaffihúsi (aftur). Á næsta borði var maður sem fiktaði stanslaust við kveikjarann sinn. Ég óskaði þess heitt að það myndi kvikna í fingrunum á honum en ég er greinilega ekki nógu bænheit.

Síðasta kaffihúsaferð dagsins varð mér hins vegar til svolítillar skemmtunar (sem blandaðist samt líka votti af fávitahrolli). Þegar ég var búin að sitja yfir ágætis glasi af rauðvíni um stund (og leysa nokkrar Su Doku gátur) settist par á næsta borð. Ég komst ekki hjá því að heyra megnið af samræðunum sem voru eins og upp úr illa skrifuðu og klisjukenndu leikriti um yfirborðsmennsku. Það lá við að ég tæki glósur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli