miðvikudagur, 21. september 2005

Að móttekinni kvörtun klukka ég líka Hildi Eddu frænku mína. Og líka Sverri - ég er handviss um að yfirlýsingin um að hann myndi hunsa leikinn hafi verið sprottin af biturð yfir að hafa ekki enn verið klukkaður.
Flókið sjónvarpskvöld er framundan: Bráðavaktin og America's Next Top Model á sama tíma. Ég er búin að stilla vídeótækið.

mánudagur, 19. september 2005

Parísardaman klukkaði mig. Ætli það sé ekki best að hlýða - hér eru semsagt fimm staðreyndir um sjálfa mig og rúmlega það:
  1. Ég lærði á þverflautu frá átta ára aldri til tvítugs og var farin að æfa fyrir áttunda stigið þegar ég hætti. Næstu árin á eftir spilaði ég dálítið, en nú hef ég ekki snert flautuna í fimm ár eða þar um bil. Ég sakna þess. Fresta því samt alltaf að opna flautukassann aftur - veit ekki af hverju. Kannski er ég hrædd um að kunna ekki lengur neitt. Eða eitthvað.

  2. Ég hef aldrei komið út fyrir Evrópu og finnst það mikil fötlun. Evrópa er svo agnar-pínulítil, þannig að heimsmyndin er augljóslega alltof þröng. Stefni að því að gera eitthvað í málinu. Mig langar líka að læra fleiri tungumál (og að læra þau mál betur sem ég kann eitthvað í núna).

  3. Ég fékk gleraugu á 25. ári. Augnlæknirinn sem mældi í mér sjónina var svo forviða á því að ég hefði komist af gleraugnalaus fram að þessu að hann spurði ítrekað hvort ég hefði virkilega aldrei verið með gleraugu. Þegar ég var búin að svara því neitandi í þriðja eða fjórða skipti spurði hann skelfingu lostinn: "Keyrirðu bíl?" - "Jaaaaá," svaraði ég, og bætti svo við í huggunartón: "en ofsalega sjaldan ..." Honum virtist ekkert létta við þetta.

  4. Ég var afar stilltur og prúður unglingur - held ég allavega. Unglingauppreisnin fólst sennilega helst í því að skrifa stærðfræði- og eðlisfræðiformúlur á piparkökurnar ein jólin - og þá skar ég líka út jöfnuna E=mc2 í laufabrauðsköku og teiknaði arkímedesarspíral (minnir að fyrirbærið heiti það) á eina tegundina af konfektmolunum sem ég gerði (það síðastnefnda varð reyndar að hefð). Foreldrum mínum fannst ég mjög skrýtin og þau héldu að þetta lýsti ískyggilegri rúðustrikun. Þau þekktu afganginn af eðlisfræðibrautarbekknum mínum greinilega ekki nógu vel (strax eftir stúdentspróf sá ég að mér og sagði skilið við raungreinarnar; mér finnst stærðfræði samt ennþá skemmtileg).

  5. Ég næ ekki með tungunni upp í nef. Augljóslega engin skáldataug í mér. Enda háir mér hvað ég er lítið lygin.
Jamm og já, þannig var nú það. Ég slít oft keðjur (sjötta staðreyndin?) en ætla ekki að gera það í þetta skiptið. Klukka Þórdísi, Steinunni Þóru, Ármann, Þórunni Hrefnu og Hildigunni K.

fimmtudagur, 15. september 2005

Er heilbrigt að geta ekki séð texta í friði? Þá á ég ekki við þörf mína fyrir að krota allt út með rauðu (sem er vissulega knýjandi), heldur hreinlega að geta ekki haft texta nálægt mér án þess að lesa hann.

Einu sinni sá ég danska mynd í bíó í Frakklandi (ekki talsetta heldur textaða). Ég kann ekki frönsku. Samt las ég textann.

Á listasöfnum þarf ég stundum að beita mig hörðu til að horfa á verkin sjálf og lesa ekki bara nafnið á þeim.

Ég er sem sagt illa haldin af einhvers konar textamaníu og hún kemur einnig fram í því að í upplestrunum á bókmenntahátíðinni - þar sem íslenskri þýðingu er varpað á tjald þegar erlendu höfundarnir lesa - er engin leið að ég geti sleppt því að lesa textann þótt stundum sé lesið á máli sem ég skil. Sumar þýðingarnar eru góðar. Aðrar ekki. Alls ekki.

Ég hef áður nefnt efasemdir um þýðinguna á Dauðanum og mörgæsinni eftir Andrej Kúrkov og pirringurinn jókst mjög á upplestrinum í gær. Setningar á borð við "okkur vantar hæfileikaríkan höfund minningargreina" eru ekki að gera sig. (Aftur á móti var mjög gaman að Kúrkov sjálfum og tónlistaratriðið í dagskrárlok var dásamlega súrrealískt.)

Þýðingin á Hanan al-Shaykh sýndist mér almennt ágæt - en það var frekar fyndið hvernig hræðsla við erlend orð birtist þarna á tvenns konar hátt. Í upplestrinum kom bæði fyrir tabbouleh og húmmus. Í þýðingunni varð þetta tabbouleh-salat og kjúklingabaunamauk! Í fyrra skiptið skáletur til að það sé örugglega nógu skýrt að þarna sé hættuleg útlenska á ferðinni og íslensku orði síðan hnýtt aftan við til að milda áhrifin. (Ég veit alveg að þessi meðferð á útlenskum orðum er ekki bundin við Ísland en mér finnst hún samt óþarfi.) Í seinna skiptið hefur greinilega þótt vissara að hafa nógu margsamsett orð sem enginn myndi nokkurn tíma láta sér um munn fara.

Þýðingin á Hornby í fyrrakvöld var ekki heldur góð, t.d. var hún marflöt og munurinn á málsniði persóna máðist gjörsamlega út, en svo voru líka furðulegar villur í henni. Í upplestrinum kom t.d. fyrir setningin "she didn't carry any weight" (eða eitthvað mjög svipað) sem í samhenginu sem hún stóð í þýddi frekar augljóslega 'hún var ekki þétt á velli' / 'hún var algjört strá' (eða eitthvað í þá veru). Í þýðingunni stóð hins vegar "hún hafði ekkert með sér til að þyngja sig" (skráð eftir minni og orðalagið er kannski ekki nákvæmt, en þetta var innihaldið). Frekar pínlegt. Villa af því tagi sem oft sést í bíóþýðingum sem eru bara unnar eftir handriti.

Þetta var dagskrárliðurinn 'prófarkalesari fer á bókmenntahátíð'. Lifið heil.

miðvikudagur, 14. september 2005

Áhugi minn á að lesa meira eftir Karen Duve jókst ekki við að heyra talað við hana í gær, og upplesturinn í gærkvöld dugði ekki heldur til þess, enda var skáldsögubúturinn sem hún las greinilega unninn upp úr einni smásögunni sem ég las um daginn þannig að þetta var frekar vonlaust tilfelli hvað mig varðar.

Upplestur Þórunnar Valdimarsdóttur var hins vegar mjög ... hmmm ... eftirminnilegur - og það var sérstaklega gaman að fylgjast með Nick Hornby á meðan.

Það var síðan frábært að hlusta á Hornby lesa. Mér finnst nýjasta bókin hans ágæt - ekki eins góð og High Fidelity eða About a Boy, en fín samt. Það að láta bókina byrja á því að fjórar manneskjur í sjálfsvígshugleiðingum þvælast hver fyrir annarri er býsna sniðug aðferð til að tefla saman gerólíkum persónum. Hornby tekst ágætlega í bókinni að búa til rödd fyrir hverja persónu, og það skilaði sér vel í upplestrinum.

Því miður las Mehmed Uzun ekki á kúrdísku heldur á sænsku. Ég hefði svo gjarnan viljað fá að heyra hvernig kúrdískan hljómar.

þriðjudagur, 13. september 2005

Ég á enn eftir að lesa Stríðsmenn Salamis en er orðin verulega spennt, a.m.k. var höfundurinn (Javier Cercas) óheyrilega skemmtilegur í hádegisspjallinu í Norræna húsinu áðan og það var líka verulega gaman að hlusta á hann lesa upp í fyrrakvöld. Uppáhald nr. 2 af þeim sem ég er búin að heyra í. (Margaret Atwood er nr. 1.) James Meek vakti hins vegar engan sérstakan áhuga hjá mér.

Upplesturinn í gærkvöld var ágætur, Finninn (Kari Hotakainen) var mjög fyndinn og ég hlakka til að lesa bókina hans sem var verið að þýða (Skotgrafarveg), fuglabókin eftir Graeme Gibson virkar alveg áhugaverð, Eric-Emanuel Schmitt var afskaplega krúttlegur og gaman að hlusta á hann lesa, en Annie Proulx ætlaði hins vegar að drepa mig úr leiðindum. Ég hafði ekkert gaman af Skipafréttum þegar ég las þær á sínum tíma en vonaðist til að það breyttist við að heyra lesið úr þeim; stundum lifna bækur við í upplestri. Þær vonir rættust ekki. Mér fannst bókin jafn leiðinleg eftir sem áður og hún las hroooooðalega langan kafla.

Nú er ég að reyna að ákveða hvort ég á að drífa mig af stað að hlusta á spjallið við Þjóðverjana klukkan þrjú. Byrjaði á Helden wie wir eftir Thomas Brussig seint í gærkvöld en er bara búin með einn kafla, sem var svosem ágætur, en smásögurnar sem ég las um daginn eftir Karen Duve voru óbærilega leiðinlegar. Spurning hvort þetta verður áhugaverðara ef ég heyri spjallað við hana? Eða ekki?

mánudagur, 12. september 2005

Frænka mín horfði áðan forviða á kynningarefnið frá bókmenntahátíðinni þar sem rithöfundarnir eru í stafrófsröð með þeirri undantekningu að Paul Auster er á undan Margaret Atwood. Hún velti fyrir sér hvort reglan væri að At- sé á undan Au- í stafrófinu NEMA um sé að ræða karlkyns rithöfund, þá skuli hann vera fyrstur?

Atwood var annars frábær í hádegisspjallinu, bæði klár og fyndin, hún var líka æði á upplestrinum í gærkvöld, og eina bókin sem ég er búin að lesa eftir hana (The Handmaid's Tale) reyndist hreinasta afbragð. Það er alveg á hreinu að ég ætla að lesa meira eftir hana.

fimmtudagur, 8. september 2005

Ég ákvað að lesa What I Loved e. Siri Hustvedt til enda þrátt fyrir allt og kláraði í gærkvöld en hún skánaði ekkert. Ef marka má umsagnir á bresku Amazon finnst fólki bókin annaðhvort æðisleg eða ömurleg og ég er tvímælalaust í síðari hópnum. En nú ég er byrjuð á The Handmaid's Tale e. Margaret Atwood og líst vel á - og næst á listanum er Maskeblomstfamilien e. Lars Saabye Christensen sem ég hlakka mikið til að lesa - a.m.k. var Hálfbróðirinn frábær og leikritið Appelsinene på Fagerborg sem ég sá í Osló í fyrra var líka stórgott. Þannig að betri (lestrar)tímar eru vonandi framundan,

þriðjudagur, 6. september 2005

Mér hættir til að gera hlutina annaðhvort strax eða seint. Þetta kemur fram á undarlegasta hátt, t.d. í sambandi við lestur á bókum sem ég eignast. Oftast les ég bækurnar strax eða því sem næst, en ef það gerist ekki einhverra hluta vegna (t.d. þegar ég kaupi margar bækur í einu) líður oft óratími þangað til ég snerti þær. Þær fara einfaldlega í flokkinn "bækur sem ég ætla að lesa einhvern tíma við tækifæri", þ.e. seinna.

Þegar mig vantar eitthvað að lesa fer ég á bókasafnið eða út í bókabúð og kaupi nýja bók; það hvarflar ekki að mér að snerta ólesnu bækurnar sem ég á. En svo er átak öðru hverju til að grynnka á uppsafnaða bunkanum. Og þegar ég sá listann yfir erlenda höfunda sem eru að koma á bókmenntahátíðina var deginum ljósara að slíkt átak væri orðið verulega brýnt. Ég hef lesið næstum allt eftir tvö af höfundunum á hátíðinni (Hanne-Vibeke Holst og Nick Hornby), einstaka bók eftir fjóra höfunda í viðbót - og svo kom í ljós að ég hefði einhvern tíma keypt bækur eftir ískyggilega marga höfunda sem eru að koma á hátíðina án þess að hafa síðan lesið þær. Dró þessar bækur fram úr hillunum og bjó til bunka á borðinu. Þær reyndust vera níu. NÍU!

Þannig að nú er átak í gangi. Verst hvað það byrjar illa. Mér sýnist reyndar að Dauðinn og mörgæsin e. Andrej Kúrkov sé skemmtileg en ég varð að leggja hana til hliðar því ég rakst á alltof margar pirrandi klúðurslegar setningar í þýðingunni (sem geta ekki hafa verið viljandi klúðurslegar, svoleiðis virkar öðruvísi). Stefni samt að því að opna bókina aftur og lesa hratt. Nógu hratt til að ná plottinu en missa vonandi af klúðrinu.

Ég er rúmlega hálfnuð með What I Loved e. Siri Hustvedt (keypt fyrir tæpum tveimur árum) en hún er ekki enn farin að vekja nokkurn einasta áhuga minn. Er að reyna að ákveða hvort ég eigi að þræla mér gegnum afganginn eða hætta bara við. (En ég gefst næstum aldrei upp á bókum, held oftast í vonina til síðustu blaðsíðu. Stundum er ég bjartsýn.)

Svo er ég búin að lesa þrjár smásögur í Keine Ahnung e. Karen Duve (keypt fyrir rúmum fimm árum. Fimm!). Þær voru allar hundleiðinlegar.

Þetta lofar ekki nógu góðu. Bind samt enn heilmiklar vonir við nokkrar bækur í bunkanum. Jákvæð og bjartsýn.
Jeminneini. Var að uppgötva að það eru orðin tíu ár síðan ég flutti suður. Tíu ár! Áratugur! Tíminn líður fáránlega hratt.

mánudagur, 5. september 2005

Ég fór út og gáði í tunnuna til að leita af mér allan grun. Og hvað skyldi nú hafa verið þar? Ójú, umræddur ruslapoki. Gúbbífiskaminnið hefur greinilega tekið öll völd. Ég furðaði mig á því um daginn hvað væri langt síðan ég hefði óvart reynt að slá persónulegt met í utanviðmigheitum (t.d. mætt í ranghverfum fötum í vinnuna) en ég er greinilega komin aftur í ágætis form að þessu leyti.
Ráðgáta kvöldsins er dularfulla ruslapokahvarfið. Rétt áðan var ég á leiðinni út með ruslið en fór að gera eitthvað annað - og nú finn ég ekki ruslapokann. Hvernig er hægt að týna ruslapoka í íbúð sem er ekki stærri en mín (og ekki einu sinni brjálæðislega ósnyrtileg)? Hvað ætli líði langur tími þangað til ég renn á lyktina?

laugardagur, 3. september 2005

Ég var að uppgötva að ég er algjörlega að tapa mér í stuðlun. Og bara með bókstafnum B. Um daginn skilaði ég af mér ritdómi undir fyrirsögninni "Bisness og blóðhefnd" og nú er ég - mjög fljótlega, vonandi - að fara að skila ritgerðinni "Baksviðs í bókmenntasögunni". Bé bé bé bé. Alveg óvart. Er þetta ekki einhvers konar bilun?

föstudagur, 2. september 2005

Oft er líka athyglisvert að sjá hvaða galla menn finna á verkum upp úr fornsögum. Ó.D. (ætli það sé Ólafur Davíðsson?) skrifaði í Norðurland árið 1903 um leikritið Gísla Súrsson eftir Beatrice Helen Barmby (Matthías Jochumsson þýddi), og honum finnst að þar sé ...
"...drepið alt of víða á kossa, því að þótt getið sé um það víða í sögunum, að menn hafi minzt hvor við annan, þá liggur kossaflens og kossahjal svo fjarri hugsunarhætti Íslendinga í fornöld, að lítið ætti að bera á slíku þar, sem forn-Íslendingum er lýst." (Norðurland, 1. ágúst 1903.)
Sú var tíðin að menn voru ófeimnir við stóru orðin. Árið 1890 var Matthías Jochumsson ekki himinlifandi yfir ritdómi Gests Pálssonar um leikverkið Helgi hinn magri og svaraði m.a. með þessum orðum:
"Við og við er eins og Gestur hafi ætlað að villast á réttari leið, en því fer miður. G. er og verður Gestur blindi með bjálka í báðum augum, og allur hans ritdómur er eintóm glitábreiða (G. ritar smellið) gegnum ofin heimsku og hroka. Það lakasta er samt að dómur þessi er undirniðri illgjarn - svo illgjarn, að það er ólíkt Gesti, sem í raun og veru er meinlaus maður; mér liggur við að segja að einhver Axla-Björn hafi hrætt hann eða keypt til að gjöra þessa glópsku." (Lýður, 23. júlí 1890.)
Ég hef eignast nýja uppáhaldsvefsíðu. Tímarit.is er dásamleg uppfinning.

fimmtudagur, 1. september 2005

Hlýtur september ekki að verða frábær fyrst ágúst var svona ömurlegur? Ég er bjartsýn í dag; sólin skín og fuglarnir syngja ábyggilega einhvers staðar þarna úti. Og ég er hætt að vera heiladauð, allavega í bili.