miðvikudagur, 23. júlí 2008

Hjólavesen

Fyrir tveimur vikum fékk ég hjólið mitt úr viðgerð eftir alllanga bið - mér til mikillar gleði.

Gleðin varð ekki nógu langvinn því fyrir viku sprakk á hjólinu að aftan. Sem betur fer fékk ég snarlega gert við það og þóttist hafa himin höndum tekið á ný.

Á mánudaginn sprakk aftur að aftan.

Eins og nærri má geta er ég ekki fyllilega sátt við þetta. Vægast sagt.

sunnudagur, 20. júlí 2008

Hávaðamengun

Þegar fólk heldur partí og stillir græjurnar svo hátt frameftir nóttu að allt hverfið heyri örugglega, þá væri kannski lágmarks tillitssemi að spila almennilega tónlist. Ekki nauðganir Björgvins Halldórssonar á gömlum lögum þar sem meira að segja Í fjarlægð breytist í lyftutónlist.

föstudagur, 18. júlí 2008

Ferðast í bókum

Ég er full af ferðaþrá en kemst lítið frá Reykjavík á næstunni. Verð að láta nægja að ferðast í huganum.

Undir þessum kringumstæðum (og ótalmörgum öðrum) eru bækur fyrirtaks hjálpargögn.

Margt verra en að lesa vegaljóð Ingunnar Snædal og 101 Ísland eftir Pál Ásgeir í bland. (Þessar tvær bækur eiga reyndar glettilega margt sameiginlegt, þrátt fyrir að falla bara óbeint í sama flokk: huglægar hringleiðir með topptíulistum.) Svo er upplagt að bæta Fjallvegum í Reykjavík við til að gefa nýja sýn á nánasta umhverfið.

Flottar ferðahandbækur, hver á sinn hátt.

fimmtudagur, 17. júlí 2008

Skæri

Um þessar mundir stunda ég það töluvert að ráðast á eitthvað með skærum. Hártoppinn í gærkvöld, böndin á bolnum mínum í dag ...

Hvað verður það næst? Þróunin gæti orðið ógnvænleg.

Annars er ég ekkert sérlega ofbeldishneigð. Þótt ég hafi næstum hjólað niður svartan kött um daginn var það óviljandi og þar að auki kettinum að kenna.