þriðjudagur, 29. júní 2004

Aðstoð við draumráðningar óskast.

Ég man næstum aldrei neitt sem mig dreymir. Þess vegna telst það til tíðinda að draumfarir síðustu nætur séu mér minnisstæðar.

Aðstæður voru þessar: Ég var algjörlega óforvarandis kölluð til þingsetu sem varaþingmaður Kötu Jakobs. Mér þótti ekkert undarlegt að hún væri á þingi en hins vegar kom mjög á óvart að ég væri varamaður hennar. Ennþá merkilegra var að sem varamaður Kötu lenti ég inni á þingflokksfundi Samfylkingarinnar. Síðar um daginn var þingfundur en þingsalurinn hafði ummyndast og var farinn að minna á breska þingið - með bekkjum o.þ.h. Á fundinum var leynileg skrifleg atkvæðagreiðsla þar sem allir áttu að skrifa niður nöfn þeirra fimm þingmanna sem þeir hefðu mesta trú á. Ekki man ég hver tilgangurinn var en ég setti Kötu í annað sætið á eftir Möggu Frímanns. Reyndar munaði minnstu að atkvæðið mitt yrði hunsað því talning var hafin og raunar langt komin áður en ég kom því til skila. Um niðurstöður atkvæðagreiðslunnar veit ég hins vegar ekkert.

Mér fannst þingmennskan leiðinleg og asnaleg og fannst ekki heldur fara saman að vera þingmaður eins flokks en þjóna jafnframt öllum hinum í vinnunni við skjalalesturinn. Eftir hálfan dag fór líka svo að ég sagði af mér þingmennsku. Fannst vinnan mín mun gáfulegri en þingsetan.

Þannig var nú það. Algjör steypa en þó nokkuð skýr söguþráður, ólíkt flestum af þeim fáu draumum sem ég man. Stóra spurningin er hvernig beri að túlka þetta. Er þetta forboði um pólitískar sviptingar? Er Kata á leiðinni yfir í Samfylkinguna? Verður Magga Frímanns formaður á næsta landsfundi og Kata varaformaður? Verður reynt að draga mig inn í leikinn en ég sný mig lausa á síðustu stundu?

Kata hefur lagt til að þetta sé til marks um pólitíska tilvistarkreppu mína. Ég hallast frekar að því að þetta sýni ánægju mína með að vera hætt pólitískum afskiptum. Að ég sé á réttum stað í hlýjum faðmi prófarkanna.

Svo er ábyggilega hægt að föndra verulega villtar túlkanir. Kommentakerfið stendur þeim til reiðu sem vilja leggja sitt af mörkum.

mánudagur, 28. júní 2004

Helsta afrek helgarinnar: Að gera íbúðina aftur að mannabústað. Reyndar var það að hluta til gert með hókuspókusaðferðinni - þ.e. draslinu sópað úr augsýn: undir dúkað borð, inn í skáp ... ýta, troða ... (Svo kemur skriðan á móti manni seinna.) Þessi aðferð var einkum notuð þegar allnokkuð var liðið á laugardaginn og farið að styttast verulega í að Kata, Steinunn og Stefán kæmu í mat.

Ég náði samt að gera sumt í alvörunni, fasti liðurinn "endurröðun í bókahillur" tókst t.d. ágætlega. Fataskápurinn er hins vegar ennþá í klessu og eiginlega verri en nokkru sinni fyrr eftir að jólaseríu, töskum og ónýtum skóm með meiru var hrúgað inn í hann á síðustu stundu.

En það er aukaatriði. Aðalatriðið er hvað það er alltaf óheyrilega gaman að fá skemmtilegt fólk í heimsókn, ekki síst fólk sem ræðir m.a. við mann um múmínálfana, fræðir mann um undarlegheit hinnar stórfurðulegu hreyfingar Ananda Marga (og ofbeldishneigða armsins innan hennar) svo fátt eitt sé nefnt - auk þess að eipa með manni yfir vali "kosningasjónvarpsins" á myndefni og tregðu til að umbreyta kosningatölunum í grafík.

Þótt KA-heimilið sé nokkuð laglegt vil ég frekar súlurit.

föstudagur, 25. júní 2004

Mikið er ég löt í dag. Get ég ekki kennt rigningunni um? Reyndar er sólin farin að skína aftur núna þannig að þá dugar sú afsökun ekki lengur.

fimmtudagur, 24. júní 2004

Kaldhæðnislegt að þegar ég var búin að skrifa pistilinn hér fyrir neðan og býsnast yfir fólki sem tjáði sig um það sama á sama tíma fór ég á Múrinn þar sem fyrir mér varð þessi líka fína grein Kötu um Öskubuskuáráttuna. Partur af henni rímar ótrúlega vel við það sem ég var að segja.
Lenda fleiri en ég í því að fá stundum sama furðulega kommentið oft og mörgum sinnum á stuttum tíma - úr ýmsum áttum? Að fólk í kringum mann fái sömu "fix idé" á sama tíma?

Á tveimur dögum í þessari viku er ég t.d. þrisvar búin að fá kommentið: "Mikið ertu dugleg að gera eitthvað skemmtilegt ein." (Og reyndar ekki í fyrsta skipti.) Ótrúlega margir virðast hissa á því að ég ferðist stundum/oft ein, fari stundum/oft í bíó ein o.s.frv. - án þess að farast úr leiðindum og án þess að mér finnist það tiltökumál.

Skil þetta ekki. Fyndist fólki eðlilegt að ég sæti kyrr, boraði í nefið á mér og biði eftir því að annað fólk kæmi og "bjargaði" mér? Mér finnst miklu heilbrigðara að vera einfær um að gera líf mitt skemmtilegt. Sko, ég á marga frábæra vini en þeir eru ekkert alltaf tiltækir. Og stundum finnst mér hreinlega þægilegt og jafnvel gaman að vera ein. Og mér finnst það ekkert skrýtið. Og fatta ekki hversu mörgum finnst þetta merkilegt. Telst það virkilega eðlileg hegðun að bíða eftir því að aðrir "bjargi" manni frá leiðindum? Þá er ég mjög fegin að hafa aldrei verið eðlileg.

miðvikudagur, 23. júní 2004

Fótboltaprinsipp - 2. hluti.

Það er gaman að spila fótbolta við fólk sem er jafnlélegt og maður sjálfur.
Það gerði ég í gærkvöld.

Kvennafótboltaliðið sem vinkona vinkonu minnar stofnaði í fyrra hefur semsé verið endurvakið. Man ekki hvort ég bloggaði um það þá - en við spiluðum vikulega í fyrrasumar, vorum iðulega eins og fávitar og stundum orðnar líkastar mæðiveikum rollum á endanum - en mikið hrikalega var þetta gaman. Og það breyttist ekkert þótt liðið lægi í dvala í vetur; gærkvöldið var stórskemmtilegt.

Það var fyrir tilviljun og allt að því í gríni sem mér var boðið að vera með - enda hvorki íþróttamannslega vaxin né þekkt fyrir áhuga á íþróttum, allra síst boltaíþróttum. Þegar ég bjó í Þýskalandi horfði ég samt töluvert á íþróttarásirnar í sjónvarpinu. Það segir reyndar mest um þýskt sjónvarp. (Man ekki hvort ég hef einhvern tíma komið því í verk að blogga um þýskt sjónvarp. Ef ekki er eiginlega kominn tími til.)

Hvað sem því líður, þá fannst mér sú hugmynd að ég færi að spila fótbolta fráleit þegar ég heyrði hana fyrst - en komst fljótt að því að hún væri mátulega fráleit til að vera sniðug. Það var líka skylda að kunna lítið eða ekkert sem hentaði mér afar vel.

þriðjudagur, 22. júní 2004

Fótboltaprinsipp - 1. hluti.
(Og kannski síðasti hluti líka.)

Til skamms tíma horfði ég eingöngu á fótbolta þegar það var heimsmeistarakeppni. Fannst fínt að horfa bara á fjögurra ára fresti og sjá þá almennilegan fótbolta. Nú hef ég uppgötvað að Evrópukeppnin er ágæt líka.

Að jafnaði held ég með liðinu sem spilar skemmtilegri fótbolta hverju sinni. (Ég hélt t.d. með Frökkum á móti Englendingum en Króötum á móti Frökkum.)

Ég held gjarnan með minnimáttar og/eða smáþjóðum. Sérstaklega þeim sem spila skemmtilegan fótbolta.

Á HM hef ég tilhneigingu til að halda með óevrópskum liðum. Það virkar einhverra hluta vegna ekki á EM.
Ég keypti mér sólvörn í gær en mér til hrellingar var og er viðbjóðsleg kókosfýla af henni.
Mér finnst að það ættu að vera varnaðarorð á öllu sem lyktar illa.

mánudagur, 21. júní 2004

Að marggefnu tilefni skal eftirfarandi tekið fram:
Ég er ekki hætt að blogga.
Það er bara hefð fyrir því að ég leggist í bloggdá öðru hverju.
Og þar sem síðasta vika var sérstaklega tileinkuð Menntaskólanum á Akureyri og þar með hefð á hefð ofan er hefðbundið bloggfall sérlega viðeigandi um þessar mundir.

Mikið hrikalega var annars gaman á stúdentsafmælinu. Kannski tekst mér að blogga um það fljótlega. En bara kannski. Ég á eiginlega eftir að blogga um svo margt skemmtilegt, t.d. Lundúnaferðina, að ég verð næstum andvana máttvana magnvana við tilhugsunina. Og orðlaus. Mér fallast semsagt hendur. Kannski fer þetta svo að ég blogga alls ekki neitt. Held bara áfram að liggja uppi í sófa þegar ég á lausa stund og horfa á Bráðavaktina. Frænka mín á nefnilega fyrstu seríuna komplett á DVD og var svo væn að lána mér hana - með þeim afleiðingum að ekkert varð úr dugnaðinum sem var á dagskrá um helgina. Fyrsta rólega helgin heima í lengri tíma - ég hef varla komið heim til mín nema yfir blánóttina svolítið lengi - og meiningin var að sýna djörfung og dug og taka jafnvel svolítið til. Byrjaði á fataskápnum á laugardaginn, reif helminginn af fötunum út úr honum og sorteraði í bunka. Síðan hefur ekkert gerst. Og ég er búin að sofa á sófanum í stofunni tvær síðustu nætur því ég nennti ekki að færa fatabunkana af rúminu. Bráðum drepst ég úr leti. Eða kafna í drasli. Það verður spennandi að sjá hvort gerist á undan.