fimmtudagur, 23. febrúar 2006

Nýlega hef ég stundum sést berfætt og fáklædd á undarlegum stöðum. Svona er líf mitt orðið furðulegt. Og það er ekkert lát á því vegna þess að í kvöld verður Kramhúsið með dansveislu á Nasa í tilefni af Vetrarhátíð þar sem alls konar dans verður sýndur, t.d.
afró, funk jazz, Bollywood, flamenco og að sjálfsögðu verður magadanshópurinn minn líka þarna. Húsið verður opnað kl. 20.30 og prógrammið hefst kl. 21. Frítt inn.

föstudagur, 10. febrúar 2006

Fyrir viku tók ég til í hillunum með erlendu skáldsögunum mínum því þær voru búnar að sprengja utan af sér plássið sem þeim er ætlað. (Já, ég sortera bækurnar mínar í nokkra flokka og raða í stafrófsröð eftir höfundum innan hvers flokks. Já, stundum er ég pínulítið rúðustrikuð. Nei, nei, ég er ekkert skrýtin - enda set ég normið alltaf við sjálfa mig. Eitt af fáu sem situr eftir af gömlum eðlisfræðilærdómi er að það er jafnan grundvallaratriði hvaða viðmiðunarkerfi maður velur sér.)

Ég brá á það ráð að setja til hliðar þær bækur sem ég á eftir að lesa. (Við þetta hækkaði hlutfall afþreyingarbóka rækilega í hillunum og einhverra hluta vegna eru afar fáar bækur á þýsku eftir þar.) Ólesnu bækurnar flokkaði ég síðan í tvennt: forgangslestur og bækur sem ég þarf ekkert endilega að lesa á næstunni; kannski bara á næsta ári eða þarnæsta eða þarþarnæsta eða einhvern tíma miklu seinna ... Forgangsbækurnar urðu svo margar að ég þurfti að skipta þeim í tvennt: 1) mjög mikilvægan forgangslestur, og 2) bækur sem ég ætti helst að lesa áður en mjög langt um líður.

Ég veit ekki hvenær ég grynnka á þessum bunkum. Núna nenni ég t.d. ekki að lesa eina einustu bók í forgangsflokknum. Er fremur að reyna að ákveða hvaða afþreyingarbók ég á að lesa einu sinni enn ...

miðvikudagur, 1. febrúar 2006

Via Santo Stefano


Via Santo Stefano
Originally uploaded by ernae.
Loksins er ég búin að setja myndir frá Bologna inn á flickr-síðuna mína. Þótt ég hafi sorterað helling frá urðu samt rúmlega 160 eftir - og samt finnst mér mig vanta myndir af ótrúlega mörgu, t.d. ýmsu skemmtilegu úr daglega lífinu. Svona er stundum að hafa rúman tíma og færi á að gera hlutina "einhvern tíma seinna" - þ.e. þangað til tíminn rennur allt í einu út. Ég tók t.d. ekkert mikið færri myndir í Feneyjum en í Bologna þótt ég hafi bara verið eina helgi í Feneyjum en fjórar vikur í Bologna. Á enn eftir að fara gegnum Feneyjamyndirnar og aðrar myndir úr dags- og helgarferðum á Ítalíu. Það gerist einhvern tíma seinna...