föstudagur, 10. febrúar 2006

Fyrir viku tók ég til í hillunum með erlendu skáldsögunum mínum því þær voru búnar að sprengja utan af sér plássið sem þeim er ætlað. (Já, ég sortera bækurnar mínar í nokkra flokka og raða í stafrófsröð eftir höfundum innan hvers flokks. Já, stundum er ég pínulítið rúðustrikuð. Nei, nei, ég er ekkert skrýtin - enda set ég normið alltaf við sjálfa mig. Eitt af fáu sem situr eftir af gömlum eðlisfræðilærdómi er að það er jafnan grundvallaratriði hvaða viðmiðunarkerfi maður velur sér.)

Ég brá á það ráð að setja til hliðar þær bækur sem ég á eftir að lesa. (Við þetta hækkaði hlutfall afþreyingarbóka rækilega í hillunum og einhverra hluta vegna eru afar fáar bækur á þýsku eftir þar.) Ólesnu bækurnar flokkaði ég síðan í tvennt: forgangslestur og bækur sem ég þarf ekkert endilega að lesa á næstunni; kannski bara á næsta ári eða þarnæsta eða þarþarnæsta eða einhvern tíma miklu seinna ... Forgangsbækurnar urðu svo margar að ég þurfti að skipta þeim í tvennt: 1) mjög mikilvægan forgangslestur, og 2) bækur sem ég ætti helst að lesa áður en mjög langt um líður.

Ég veit ekki hvenær ég grynnka á þessum bunkum. Núna nenni ég t.d. ekki að lesa eina einustu bók í forgangsflokknum. Er fremur að reyna að ákveða hvaða afþreyingarbók ég á að lesa einu sinni enn ...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli