þriðjudagur, 28. desember 2004

Ég gleymdi gleraugunum heima í morgun og er alveg að tapa mér yfir því að sjá ekki neitt. Suma daga ætti ég augljóslega ekki að fara út úr húsi. Algjör mistök að vera í vinnunni. Auðvitað ætti maður að eiga frí milli jóla og nýárs.

mánudagur, 27. desember 2004

Komin suður og búin að koma höndum yfir símann minn, mér til ómælds léttis. Er að reyna að jafna mig eftir sykursjokk síðustu daga - ekki vegna þess að ég sé búin að úða í mig kökum o.þ.h. heldur vegna þess að uppáhalds "kryddið" hans pabba er sykur. Honum finnst flestur matur batna við vænan skammt af sykri - og aðeins meira en það. Ætla ekki að reyna að reikna út hversu mörg kíló af sykri voru í aðalréttinum á aðfangadagskvöld þar sem við borðuðum hamborgarhrygg með sykurhjúp, brúnaðar kartöflur í ekki svo litlum sykri og heimagert rauðkál með ógrynni af sykri. Mesta furða að salatið skyldi sleppa. En þetta er ábyggilega meinhollt á sinn hátt - svona einu sinni á ári.

fimmtudagur, 23. desember 2004

Síminn minn verður á Vegamótum um jólin. Æ, æ. Fullyrðingar mínar um að ég væri ekki heiladauð núna voru greinilega ekki á rökum reistar. Ég hef einstöku sinnum gleymt símanum heima hjá mér á morgnana sem hefur valdið miklum sálarkvölum en hann hefur aldrei áður orðið eftir á undarlegum stöðum á glötuðum tíma - en einhvern tíma er allt fyrst. Fékk mér að borða á Vegamótum í hádeginu, síminn hringdi á meðan, ég svaraði honum, lagði hann svo frá mér á borðið - og þar var hann svo áfram eftir að ég var farin.

Auðvitað uppgötvaði ég þetta ekki fyrr eftir klukkan tvö þegar ég átti að vera komin út á flugvöll því það var minna en hálftími í að flugvélin færi í loftið. Ég náði nú flugvélinni en símalaus. Aðskilnaðarþjáningin er umtalsverð.

Dæmigert fyrir mig að gleyma símanum mínum aldrei nema undir einhverjum svona fáránlegum kringumstæðum og geta svo ekki nálgast hann í nokkra daga.

Ég á því augljóslega ekki eftir að svara símanum eða sms-um á næstunni. (Þetta getur átt eftir að koma út eins og ég sé að hunsa fólk suddalega.) Ef einhver vill ná í mig verður að nota gamaldags aðferð (ef einhver kann það ennþá) og hringja heim til foreldra minna.

Heiladauðinn hefur síðan haldið áfram núna eftir að ég kom til Akureyrar. Bróðir minn sótti mig á flugvöllinn og meðan við ókum eftir Drottningarbrautinni horfði ég forviða á eitthvað svífa í loftinu á mjög sérstakan hátt. Skildi ekkert í þessu og spurði hvað þetta gæti verið. Siggi horfði á mig eins og ég væri fáviti: "Erna! Þetta er hrafn!"
Hvað getur maður þá sagt annað en: "Óóóóó, er það? Virka fuglar svona?"

Jæja. Eins og áður hefur komið fram sendi ég engin jólakort. Reyni stundum að prófa hugskeyti en þeim hefur gengið illa að komast til skila enn sem komið er. Þannig að fólk verður bara að lesa þetta blessað blogg til að fá jólakveðju sem hér með er send. Gleðileg jól.

þriðjudagur, 21. desember 2004

Ég var að uppgötva að ég er ekki nærri því eins þreytt og heiladauð núna og oft áður á þessum árstíma, t.d. í fyrra, því að þótt ég hafi unnið mikið síðustu mánuði (sept.-des. eru yfirleitt nokkuð drjúgir) hefur það ekki verið eins óendanlega yfirgengilegt og stundum áður. Hins vegar er ég býsna löt. Jákvæða hliðin á því er að ég er gjörsamlega laus við jólastress - enda hefur dregið úr íhaldsseminni með hverju árinu hjá mér - mér finnst ekki lengur að allt þurfi að vera "eins og það hefur alltaf verið" á jólunum. Gengur sífellt verr að skilja öll þessi "sjálfgefnu" atriði sem eru hömruð inn í fólk beint og óbeint. Hefðin er algjör sjálfstýring.
Ath.: Þetta er ekki andúð á jólunum - mér finnst bara ekki nauðsynlegt að klára tíu síðna tékklista til að jólin komi. Og mér finnst stórfínt að vera mis"dugleg" milli ára.

Staðan í nokkrum jólaframkvæmdaatriðum er svona (og ég hef ekkert í hyggju að breyta henni):

Jólakort: 0.
Áður fyrr sendi ég iðulega helling af jólakortum. Svo fækkaði þeim hægt og rólega þangað til í hittiðfyrra. Þá komst fjöldinn í núll og hefur verið óbreyttur síðan. Og ég hef ekkert samviskubit yfir því.

Smákökur: 0.
Venjulega baka ég svolítið af uppáhaldssmákökunum mínum (m. súkkulaðibitum og valhnetum - hrikalega góðar) en ég hef alveg látið það vera núna. Kannski baka ég bara svolítið af þeim í janúar ef mig langar þá. Hvaðan kom eiginlega þetta óopinbera samkomulag sem virðist ríkja hér á landi um að smákökur séu bara bakaðar fyrir jólin?

Konfektmolar: 0.
Hef ekki heldur nennt að gera konfekt og ekki langað neitt sérlega í það. En það er reyndar næstum því hefð fyrir því að ég breyti eldhúsi foreldra minna í konfektgerðarverksmiðju um ellefuleytið á Þorláksmessu, móður minni til mikillar ánægju (við höfum ekki alltaf sama tímaskyn og töluvert myndi bera í milli ef við ættum að skilgreina hugtakið 'fljótlegt'). Veit samt ekki hvort ég nenni núna. Svo hugsa ég að janúar væri líka góður mánuður til að gera konfekt. Jafnvel febrúar.

Jólasíldarkrukkur: 0.
Mamma gerir ofboðslega góða síld fyrir jólin - með eplum, appelsínum, negul o.fl. góðu. Afskaplega jólaleg og síðustu árin hef ég stundum gert dálítið af henni sjálf. En ekki í ár.

Laufabrauðskökur skornar og steiktar: hellingur.
Hér fer tölfræðin upp á við því ég gerði laufabrauð með frænkum mínum á sunnudaginn. Laufabrauð er eitt af fáu sem er næstum því ómissandi.

Almennt jólaföndur: Smávegis eip í vinnunni (1. hluti og 2. hluti). Í þriðja hluta uppgötvaðist að það þarf ekkert að kaupa rándýran glanspappír úti í búð til að flétta fína hjartapoka. Dagblöð gera sama gagn. Sérstaklega ef maður velur venjulega textasíðu í annan helminginn og auglýsingu í lit í hinn. Kápan af fjárlagafrumvarpinu er líka afar hentug til föndurs af þessu tagi.

fimmtudagur, 16. desember 2004

Kannski ég fari að ganga um með nefklemmu. Sem betur fer er ekki lengur kaffilykt af höndunum á mér en í hádeginu rölti ég inn í Fríðu frænku með þeim afleiðingum að það er ofboðsleg reykelsislykt af hárinu á mér. Og frammi á klósetti hérna í vinnunni er komin sápa með rósafýlu í staðinn fyrir ágætu lyktarlausu sápuna. Algjör plága.

Ekki að ég sé eitthvað á móti lykt - en ég er afar selektíf. Og þoli alls ekki ilmefnin sem er troðið í undarlegustu hluti.

miðvikudagur, 15. desember 2004

Ég er búin að drekka svo mikið kaffi í dag að það er komin kaffilykt af höndunum á mér. Ógeðslegt. Kaffi er samt gott.

þriðjudagur, 14. desember 2004

Appelsína. Undarlegt.

My angst tastes like...
orange
Orange
Find your angst's flavor
Sweet and citrus, your angst comes from your social life. Perhaps you're accustomed to having lots of friends around and yet currently you're feeling lonely. Perhaps you hang out with a bunch of difficult people that really wear you down. Perhaps you're worried about your friends' loyalties and motives. Perhaps you're realizing that your life is too busy and too many people want your attention. Just take a couple steps back, a few deep breaths, and a quick self-inventory and think about how you really ought to live your life and treat others. Don't worry, it'll clear up soon.

þriðjudagur, 7. desember 2004

Hmmm. Jólatré. Er það ekki bara ágætt? Jú auðvitað. Að sjálfsögðu hlýt ég að vera eins stórkostlega dásamleg manneskja og í þessari lýsingu. Já já.

lkjk
What a marvelous person! You are the splendid
Christmas tree! You are a spirited person who
almost always in a great mood. Your smiles and
laughter are some things that people usually
look forward to in you. You are someone who is
full of energy and ready for a good time. Most
likely you are a social butterfly. All of these
characteristics make you a beautiful person
inside and out. People just really enjoy to be
around you. Merry Christmas =)

What Christmas Figure Are You?
brought to you by Quizilla

miðvikudagur, 1. desember 2004

Varúð! Aðventulag Baggalúts er stórhættulegt. A.m.k. var ég næstum dauð úr hlátri. Ekki hlusta á það ef þið viljið lifa lengur.
Skapandi jólaföndur skjaladeildar - 2. hluti

Áttu gamla jólastjörnu (þ.e. af plöntugerð) sem er bara með græn blöð (engin rauð)? Sérðu ekki fram á að komast yfir nýja plöntu í bráð? Lausnin er einföld. Finndu þér rautt plast eða rauðan pappír (einnig væri hugsanlegt að lita hvítan pappír með trélitum, vaxlitum, tómatsósu eða öðru sem við hendina er). Klipptu út eitthvað sem líkist blöðum hóflega mikið (óreglulegir ferhyrningar virka ágætlega). Festu þau á gömlu jólastjörnuna með bréfaklemmum (hefti eða lím gæti farið illa með plöntuna). Og sjá, dýrðin er algjör.

þriðjudagur, 30. nóvember 2004

Tollskráin er (óvart) fyndin. Og af lestri hennar lærir maður stundum ný orð. Nú var ég t.d. að læra orðið áldeig. Til hvers ætli það sé notað? Ætli það sé gott að baka smákökur úr því?

föstudagur, 26. nóvember 2004

Skapandi jólaföndur skjaladeildar - 1. hluti

Spuni með staðbundin aðföng í samvinnu nokkurra aðila.
Framkvæmist að kvöldlagi þegar smávegis hlé er á vinnunni.
 1. Vínberjaklasi tekinn úr ísskápnum.
 2. Vínberin étin.
 3. Greinin látin standa upp á endann, t.d. með því að stinga henni í glas. Þá er orðið til jólatré.
 4. Stjarna klippt út úr því sem hendi er næst. Poki undan piparkökum (rauði hlutinn) hentar t.d. vel.
 5. Stjarnan heftuð á toppinn á trénu.
 6. Pakkabönd - gjarnan rauð - klofin eftir endilöngu.
 7. Böndin hnýtt utan um sykurmola (frjáls fjöldi). Þetta eru augljóslega jólapakkar.
 8. Pökkunum raðað kringum jólatréð.
 9. Afgangurinn af böndunum krullaður og jólatréð skreytt.
 10. Gulir miðar (post-it) dregnir fram.
 11. Stjörnur klipptar út úr þeim hluta miðanna sem límið er á.
 12. Stjörnurnar límdar á nokkra greinarenda trésins.
Næstu daga má halda áfram að bæta við skrautið, t.d. með því að föndra poka úr pappír utan af konfektmolum og hengja þá á tréð.

þriðjudagur, 16. nóvember 2004

Kláraði eina nýja bók í viðbót í gærkvöld sem ég bjóst svo sem ekki við miklu af og olli þess vegna engum sérstökum vonbrigðum. En þetta var frekar þreytandi.
Svo byrjaði ég á einni í strætó í morgun sem mér líst ekkert á.

Útlista þetta allt saman kannski nánar seinna.

En hvað er eiginlega að gerast? Af hverju kemst ég ekki yfir almennilegar bækur?

mánudagur, 15. nóvember 2004

Las tvær nýjar bækur um helgina en hvorug stóð undir væntingum. Synd. Ætla ekki að hafa fleiri orð um þær í bili.
Þingskjöl eru til margra hluta nytsamleg. Ég þurfti að mæta í grímubúningi í partí á laugardagskvöldið og lengi vel vissi ég ekkert hvernig ég ætti að vera. Datt helst í hug að mæta í venjulegu fötunum mínum og segjast vera í gervi skjalalesara. En svo fékk ég hugmynd. Reif síðurnar úr fjárlagafrumvarpinu, heftaði og límdi - og föndraði sítt og mikið pils. Dísa frænka mín bjó á meðan til stórfín pappírsblóm (úr sama frumvarpi) sem ég festi á bolinn minn. Svo mætti ég í partíið sem þjóðarbúið.

föstudagur, 12. nóvember 2004

Meðmæli dagsins, jafnvel ársins, fær þessi grein eftir Philip Pullman um lestur og lýðræði.
Mikið var notalegt að hlusta á marrið í snjónum á leiðinni í vinnuna og láta fallega veðrið síast inn í morgunsárið. Stundum getur verið gott að missa af strætó. Vorkenni eiginlega fólki sem húkir inni í bílum og missir af þessu.

miðvikudagur, 10. nóvember 2004

Af hverju skortir suma eðlilegan málskilning?
Af hverju fatta ekki allir að framkvæma endurmat merkir það sama og endurmeta?

þriðjudagur, 9. nóvember 2004

Fannst ég grípa í saum á kjólnum mínum áðan. Varð frekar hissa en komst svo að því að ég hafði farið í kjólinn ranghverfan. Efast um að þetta lofi góðu fyrir framhald dagsins.

mánudagur, 8. nóvember 2004

Helgin var ósköp ágæt og nú kemur tepokablogg um hana (stundum er bara um það tvennt að velja að blogga fánýta og leiðinlega skýrslu eða blogga alls ekki neitt; í dag vel ég fyrri kostinn):

Á föstudagskvöldið hafði ég mikla nautn af því að klára nýju Rankin/Rebus-bókina (eini gallinn við að klára nýja bók eftir góðan höfund er að þá er langt þangað maður getur lesið eitthvað nýtt eftir hann). Svo fór ég snemma að sofa enda ósköp lúin.

Á laugardaginn naut ég þess heil ósköp að geta sofið út, um hádegið fékk ég góða heimsókn, eftir hádegi var komið að stórskemmtilegri gönguferð um mótmælaslóðir SHA og um kvöldið hélt Jóna Finndís upp á þrítugsafmælið sitt með þessu líka fína partíi. Góður dagur enda hitti ég margt skemmtilegt fólk.

Hafi verið gott að sofa út á laugardaginn var það ennþá betra á sunnudaginn. Flutti mig um síðir úr rúminu og fram í sófa þar sem ég lá í mestu makindum megnið af deginum, las og horfði á vídeó til skiptist og dottaði svolítið inn á milli. Afar ljúft. Svo fór ég reyndar í vinnuna um kvöldið en tölvurnar voru í klessu þannig að ég gat ekki gert neitt.

En þrátt fyrir alla hvíldina er ég þreytt núna (úff, hvernig verð ég þá þegar líður á vikuna?) og ætla heim að glápa á sjónvarpið. Tilkynnist hér með (eins og einhver hafi áhuga á að vita það).

föstudagur, 5. nóvember 2004

Rakst á Fleshmarket Close, nýju bókina eftir Ian Rankin, á Kastrup á sunnudaginn. Keypti hana að sjálfsögðu, er komin langleiðina og líst afar vel á. Verst hvað vinnan tekur mikinn tíma frá lestrinum.

Annars klæjar mig óheyrilega í puttana því ég VERÐ að fara að komast í nýjar íslenskar bækur. Skrapp í Eymundsson í gærkvöld til að skoða, strjúka nýju bókunum aðeins o.s.frv. (Já, ég er með bóka-fetish á háu stigi. Langar ekkert að læknast.) Álpaðist til að opna Kleifarvatn eftir Arnald - las fyrsta kaflann standandi við borðið, færði mig svo í sófa úti í horni - stóð ekki upp fyrr en klukkutíma og fjörutíu mínútum seinna, þá búin með bókina. Mjög góð. Verulega góð.

Kannski hafa afgreiðslustúlkurnar verið farnar að líta mig illu auga - hef samt ekki hugmynd um það því ég var alltof niðursokkin í bókina. Íhugaði reyndar þegar ég var búin að sitja þarna í þrjú korter að flytja mig yfir í aðra bókabúð - en svo ákvað ég að stressa mig ekkert á þessu. Nú vantar mig bara meira. Fleiri bækur, meiri tíma ...
Viðurkenni:
- að ég er aumingjabloggari dauðans.

Iðrast:
- einlæglega.

Lofa:
- samt ekki endilega bót og betrun. Kemur bara í ljós hvernig málin þróast. Kannski fyllist ég fítons-blogg-krafti. Kannski ekki.

þriðjudagur, 19. október 2004

Skiptirekkimálibloggið hef ég lesið öðru hverju mér til skemmtunar og lengi ætlað að setja inn á linkalistann en hef alltaf gleymt því. Ég hef aldrei leitt hugann neitt sérstaklega að því hver stæði á bak við það; gerði einfaldlega ekki ráð fyrir að ég gæti vitað hver Pulla væri - þangað til núna áðan þegar mér fór allt í einu að finnast stíllinn og sum umfjöllunarefnin svolítið kunnugleg.

Það skyldi þó ekki vera ...

mánudagur, 18. október 2004

Kannski er rétt að taka fram að ég er ekki búin að vera eins neikvæð upp á síðkastið og (stopular) bloggfærslur síðustu vikna gætu gefið til kynna.
Hvað er þessi vetur að gera hérna? Ég varð næstum úti í skurði á leiðinni í og úr strætó í morgun.

þriðjudagur, 12. október 2004

Í dag er ég þreytt. Og heiladauð.

þriðjudagur, 5. október 2004

"Einstaklingar" eru nýju "aðilarnir". Skil ekki þennan flótta frá því að tala um "fólk" eða eitthvað álíka snyrtilegt. Einu sinni voru allir "aðilar". "Aðilunum" hefur blessunarlega fækkað en "einstaklingarnir" virðst komnir í tísku í staðinn.

Fólk er fífl. Eða ætti ég kannski að segja: "einstaklingar eru fífl"?

Þetta var geðvonskumálfarslöggublogg vikunnar. Lifið heil.

fimmtudagur, 30. september 2004

Þingsetning á morgun með tilheyrandi serimóníum.
Ætli ég verði krafin um skilríki eins og í fyrra?

miðvikudagur, 22. september 2004

Vill enginn benda mér á neitt sniðugt og skemmtilegt í Osló? :( Þegar maður ætlar virkilega að reyna að hafa gagn af kommentakerfinu ...
Fer til Oslóar á morgun og verð fram á sunnudag. Hef einu sinni komið þangað áður en það var í blásarasveitarferðalagi þegar ég var tólf ára. Þá byrjuðum við í Osló og stoppuðum í tvo eða þrjá daga en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar þannig að þetta eru í raun framandi slóðir. Er búin að lesa mér svolítið til um borgina en ef einhverjir staðkunnugir lesa þetta yrðu góðar ábendingar vel þegnar.

Ætlaði að vera búin að blogga um göngurnar en tíminn hefur verið takmarkaður síðan ég kom til baka. Kannski kemst það í verk síðar.

föstudagur, 17. september 2004

Farin norður í Mývatnssveit að eltast við sauðfé.

fimmtudagur, 16. september 2004

Vissuð þið að ef maður er fróður um kóngafólk getur það verið merki um lélega heilsu? Þetta uppgötvaði ég fyrir nokkrum árum og sagði frá því á kommentakerfinu hennar Nönnu fyrr í dag í tilefni af nýjustu fréttum. Ætli það sé ekki best að eiga frásögnina hér:

- - -

Einu sinni var ég í afmæli með stelpum héðan og þaðan úr Evrópu og einhvern veginn þróuðaðist það þannig að við fórum að ræða evrópskt kóngafólk. (Veit ekki af hverju.)

Ein reyndist sérlega fróð um málið - og afsakaði sig með því að hún hefði verið mikið lasin => þurft að sitja mikið á biðstofum lækna þar sem ekkert lesefni var nema slúðurblöð.

Nokkrum mínútum seinna gat ég frætt hópinn um eitthvað kóngaslektistengt sem hinar höfðu ekki vitað. Þá horfði ein á mig meðaumkunaraugum og spurði: "Hefur þú líka verið mikið lasin?"

(Það var reyndar ekki tilfellið heldur er ég bara með svona undarlegt minni. En mér fannst skemmtileg uppgötvun að vitneskja um kóngafólk gæti verið mælikvarði á heilbrigði fólks.)

mánudagur, 13. september 2004

Ég varð svo glöð þegar ég sá að Lisa Ekdahl væri á leið til landsins - en núna var ég að uppgötva að ég verð ekki á landinu þegar tónleikarnir hennar verða. Þannig að ég er svekkt og sár. Akkuru fær maður ekki alltaf allt sem maður vill?

fimmtudagur, 9. september 2004

Einn vondan veðurdag í september gengur Erna niður Laugaveginn.

Skyndilega vindur ókunnur maður sér að henni og spyr með hálfgerðum þjósti:
"Viltu koma í kaffi?"

Söguhetjan hefur ekkert dramatískt svar á reiðum höndum.
Forviða "nei" er það eina sem hún hefur um málið að segja.

Maðurinn hörfar.

Erna heldur áfram göngu sinni.

- - -

Undarlegt. Og þó; eiginlega skorar þetta frekar lágt á undarlegheitaskalanum í sagnaflokknum "furðufuglar reyna að stofna til kynna við Ernu". Súrrealískasta senan er að verða fimm ára og verður seint slegin út.

þriðjudagur, 7. september 2004

Kannski rétt að láta vita að ég er ekki búin að vera krónískt pirruð síðan ég bloggaði síðast. Bara öðru hverju. Í dag er ég til dæmis fokvond yfir þessu viðbjóðslega veðri - en nokkuð glöð að öðru leyti. Fyrir utan örvæntingu yfir því hvað klukkutímarnir í sólarhringnum eru fáir ...

Sló samt öllu upp í kæruleysi á föstudagskvöldið og dreif mig í leikhús á Edith Piaf. Er búin að hlusta á Piaf síðan ég var krakki - sá leikrit um hana á Akureyri þegar ég var níu eða tíu ára og kolféll fyrir músíkinni á stundinni. Fannst afar vond hugmynd þegar fréttist að Sigurður Pálsson væri að semja nýtt leikrit um hana - og þeir fordómar reyndust alveg á rökum reistir því leikritið er meingallað. Sögumennirnir tveir eru t.d. alveg út í hött - þótt höfundi hafi kannski fundist hann klofinn milli "skálds" og "sagnfræðings" þegar hann samdi leikritið er ekkert verið að vinna með þá togstreitu í verkinu og ég sá engan tilgang með því að holdgera slíkar fígúrur á sviðinu - sérstaklega þar sem ég hefði aldrei áttað mig á því hvor átti að vera hvor (eða að þeir ættu yfirleitt að gegna þessum hlutverkum) ef ég hefði ekki lesið það í leikskránni. Senurnar með Marlene Dietrich voru skelfilega misheppnaðar (synd, eins og væri nú ábyggilega hægt að skrifa spennandi leikrit um þær tvær) - og ég gæti haldið lengi áfram. Ég er líka innilega sammála hinum ágæta bloggara Varríusi um að það var út í hött að skipta milli frönsku og íslensku í lögunum. Vissulega finnst manni franskan mikill hluti af músíkinni þegar hlustað er á Piaf sjálfa og stemmningarinnar vegna hefði kannski - endurtek: kannski - verið réttlætanlegt að hafa einstaka lag á frönsku (sérstaklega undir þeim kringumstæðum sem Varríus nefnir, þ.e. í Ameríkuferðinni). En að skipta milli frönsku og íslensku í sama laginu: það er fullkomin vanvirðing við söguna sem verið er að segja.

Svona flakk milli frönsku og íslensku kom allt öðruvísi og margfalt betur út í þeirri frábæru sýningu Paris at Night (sem ég sá í vor og langar að sjá aftur). Þar var hluti ljóðanna sunginn á frönsku en það kom vel út þar - enda minnir mig reyndar að öll hafi líka verið flutt á íslensku.

En allt þetta geðvonskuraus þýðir alls ekki að ég sjái eftir að hafa farið í leikhúsið. Þvert á móti. Sýningin stendur og fellur með aðalleikkonunni - og Brynhildur var alveg óheyrilega góð. Hún á skilið allt það lof sem borið hefur verið á hana og gerir sýninguna fullkomlega þess virði að sjá hana.

Kæruleysið hélt svo aðeins áfram á laugardaginn því þá fór ég í bíó og sá Dís. Alveg stórfín. Hárrétt ákvörðun að vera ekkert að eltast í smáatriðum við söguþráðinn í bókinni heldur skrifa nýtt handrit utan um persónuna (enda byggist bókin ekki á plottinu heldur fremur á karakterum, sitúasjónum o.þ.h.). Stórvel heppnað - og það er dásamlega margt þarna sem maður kannast við, ýmist af eigin reynslu eða af afspurn (senurnar með saumaklúbbi dauðans rifja t.d. rækilega upp hryllingssögur einnar vinkonu minnar af álíka vondum félagsskap sem hún er í (eða var a.m.k.)). Karakterarnir eru frábærir og vel leiknir - ég held að mér hafi fundist allir leikararnir góðir! Mjög sátt við þetta.

föstudagur, 27. ágúst 2004

Ég er pirruð í dag. Sem er frekar óviðeigandi þar sem vikan er búin að vera býsna góð. Á þriðjudagskvöldið hafði Palli t.d. samband og reyndist vera á landinu í nokkra daga. Við mæltum okkur mót niðri í bæ og kjöftuðum úr okkur allt vit langt fram á nótt. Alltaf óendanlega gaman að hitta frábært fólk eins og Palla.

Í gærkvöld fór ég svo á Happy End hjá Sumaróperunni. Þótt fólkið væri afar misvel þjálfaðir leikarar voru fýlulegu sláturdómarnir sem sýningin fékk alls ekki verðskuldaðir. Hún var stórskemmtileg, sérstaklega eftir hlé.

En í dag er ég pirruð. M.a. er ég í geðvonskukasti yfir fólki sem sér ekki skóginn fyrir trjám. (Syrpan sem ég tók í kommentakerfinu við þessa færslu hjá Nönnu var afleiðing af almennum pirringi; það var ekki efni færslunnar sem orsakaði hann.) En ég læt það vera að útlista orsakirnar hér. Og það er líka sitthvað fleira að pirra mig en ég ætla ekkert að fjölyrða um það heldur.

Reyni frekar að einbeita mér að því að hlakka til skemmtilegu hlutanna sem framundan eru. Pollýanna blífur.

þriðjudagur, 24. ágúst 2004

Helgin hætti ekki að vera skemmtileg þegar menningarnótt lauk. Á sunnudaginn var líka mikið og gott prógramm. Svanný vinkona mín (nota bene: Svanný, ekki Svansý - þær eru ekki sama manneskjan) er að fara að gifta sig um næstu helgi - ekkert heimskulegt bíómyndabrúðkaup heldur ætla hún og verðandi eiginmaður hennar til sýslumanns á föstudaginn og vera bara í rólegheitum um kvöldið, síðdegis á laugardaginn verða þau svo með veislu fyrir ættingja og um kvöldið verður partí fyrir vinina. Afslappað og skynsamlegt. Og verður ábyggilega margfalt skemmtilegra en vandlega æfðu leikritin þar sem serimóníurnar eru svo stífar að enginn hefur tíma til að njóta dagsins.

Fyrir hönd illa forfallaðs vinkvennahóps (sem er alls ekki saumaklúbbur) tókum við Una að okkur að dekra við Svanný í tilefni af hnappheldunni. Við erum ógurlega lítið hrifnar af mannvonsku og kvikindisskap og því að fólk sé látið gera sig að fífli - við erum hlynntari því að maður sé góður við vini sína og það varð leiðarljós dagsins. Sóttum Svanný um hádegið - ég var búin að föndra sitthvað matarkyns - og við fórum í pikknikk í grasagarðinum. Sólin fór að skína undireins og við komum í garðinn og við höfðum það afar notalegt drjúga stund. Mér tókst auðvitað að klúðra hinu og þessu; mundi eftir venjulegum búrhníf en gleymdi tenntum (það gerði svosem ekkert til), gleymdi könnum fyrir teið (en við drukkum það þá bara úr glösum), byrjaði á því að svipta dúknum upp úr töskunni (því miður á ég ekki fræga pikknikkkörfu eins og sumir) og braut eitt af freyðivínsglösunum í leiðinni. Hefðbundinn brussugangur. Hvernig átti ég að muna að ég hafði vafið þau inn í dúkinn tuttugu mínútum áður? En þetta er ekki alvarlegt; glös á maður að nota og þá getur svona lagað bara gerst.

Við átum auðvitað á okkur gat, enda finnst okkur finnst öllum gott að borða. Þegar Svanný útskrifaðist úr háskólanum hélt hún útskriftarveislu heima hjá tengdaforeldrum sínum. Vinkvennahópurinn mætti að sjálfsögðu og tók hraustlega til sín af veitingunum eins og venjulega. Eftir á fréttist að við hefðum glatt tengdamóðurina verulega. Hún hefði verið í skýjunum yfir að fá ungar konur í heimsókn sem höfðu almennilega matarlyst og voru ekkert að tala afsakandi um hvað þær ætluðu að vera duglegar að hreyfa sig á næstunni þegar þær hlóðu á diskinn í þriðja skipti.

En aftur að sunnudeginum: Þegar búið var að næra líkamann rækilega var tímabært að næra andann þannig að við fórum í Ásmundarsafn stundarkorn en svo var kominn tími til að keyra af stað í Bláa lónið þar sem búið var að panta nudd handa stúlkunni. Það var klukkutíma prógramm en við Una notuðum tækifærið til að vera líka góðar við okkur sjálfar og fengum nokkurra mínútna axla- og höfuðnudd sem er óhætt að mæla með. Það er ekkert slæmt að mara í lóninu, horfa upp í himininn og láta nudda sig svolítið. Ég hafði aldrei komið í Bláa lónið áður og aldrei verið spennt fyrir því - en varð frekar impóneruð og komst að því að þetta er í alvörunni möst, bæði fyrir ferðamenn og fleiri, ekki bara glötuð túristagildra. Konan í afgreiðslunni fær reyndar ekki þjónustuverðlaun ársins, hvorki fyrir glaðlegt viðmót né nauðsynlega upplýsingagjöf (eða að vita almennt hvað hún var að gera þarna), en við reyndum bara að gleyma því. Alveg óþarfi að láta það eyðileggja daginn.

Veðrið var síðan svo gott að við ákváðum að keyra Krísuvíkurleiðina til baka. Ætli fyrirhugaðar framkvæmdir við Suðurstrandarveg hafi leitt til þess að það hefur ekkert verið spanderað í að láta veghefil fara mikið um veginn í sumar? Eins gott að við erum allar "utan-af-landi-lið" og ýmsu vanar. Þannig að við vorum ekkert að stressa okkur yfir þessu. Nutum bara útsýnisins - það var ekkert að því.

Svo var komið að síðasta atriðinu á dagskránni sem fólst að sjálfsögðu í því að borða meira - í þetta sinn á þeim góða stað Sjávarkjallaranum. Við fengum okkur hinn svokallaða "exotic menu" (af hverju er þetta ekki á íslensku á matseðlinum?) sem er eiginlega bland í poka - ýmsir réttir bornir á borðið og fólk skiptir þeim sjálft á milli sín. Forréttirnir voru svo æðislegir að við fengum næstum því fullnægingu á eftir hverjum bita eins og konan í Planet Food. Aðalréttirnir stóðust því miður ekki samanburðinn þótt ágætir væru, en leiðin lá aftur upp á við í eftirréttunum. Mmmmm....
Áður en bróðir minn nær að lesa það sem skrifað stendur hér fyrir neðan og móðgast yfir því að ég skuli hafa kallað hann þýskan túrista og látið að því liggja að hann hafi eyðilegt föstudagskvöldið fyrir mér, þá er kannski rétt að taka fram að stundum er nauðsynlegt að dramatísera daglega lífið dálítið. Og biturðin í garð bróðurgreysins ristir ekki djúpt. Sérstaklega fyrst hann var svo tillitssamur að gleyma hrefnukjötinu, sem hann ætlaði að elda þegar norður yrði komið. Nánar tiltekið: gleyma því í ísskápnum mínum. Af því tilefni gróf ég upp pistilinn hennar Nönnu um matreiðslu á hrefnu og held bráðum heim að þreyta frumraun mína í slíkri eldamennsku. Svo er bara að sjá hvernig gengur.

mánudagur, 23. ágúst 2004

Menningarnóttin var æði! Og helgin reyndar öll. Eða næstum öll; hún byrjaði kannski ekki alveg nógu vel. Á föstudagskvöldið var nefnilega vinnuátak á dagskrá. Það var orðið nokkuð brýnt að grynnka á ýmsum aukaverkefnunum sem hafa gengið óæskilega hægt. Ég hafði hins vegar ekki tekið með í reikninginn að "þýskir túristar" (þ.e. bróðir minn og þýskur vinur hans) myndu leggja undir sig íbúðina mína. Hélt að svona túristar ættu að vera úti að skoða "so viel Lava" eða eitthvað álíka en ekki hanga inni, spjalla saman og horfa á sjónvarpið. Náði samt að vinna svolítið en ekki nógu mikið. Eiginlega hefur aukavinnan gengið aðeins of hægt eftir að ég kom úr orlofi. Sennilega tók svona svakalega á að vera í fríi. Ég er allavega ekki vön að vera kvöldsvæf en síðan ég kom úr fríinu hef ég hvað eftir annað lognast út af uppi í sófa á kvöldin. Skil ekkert í þessu. Þetta hlýtur að fara að komast í eðlilegra horf - ég er nefnilega vön að hressast rækilega undir miðnætti, hversu þreytt og úldin sem ég hef verið á morgnana. Þarf allavega nauðsynlega að fara að koma ákveðnum verkefnum frá. Kannski ég fari að taka orlofsdaga í dagvinnunni til að geta sinnt aukavinnunni.

En ég ætlaði víst að skrifa um menningarnóttina. Mér tókst að gera hrikalega margt skemmtilegt og hitta helling af frábæru fólki. Þrátt fyrir takmörkuð afköst á föstudagskvöldið sló ég öllu upp í kæruleysi á laugardaginn og lét menningar"nóttina" mína byrja um þrjúleytið þegar ég rölti út í Ísl.erfðagr. og hlustaði á Eivøru Pálsdóttur og Bill Bourne. Frábærir tónleikar - þótt ég hefði ekki gert neitt annað skemmtilegt þennan dag hefðu þeir einir dugað til að hefja andann í hæstu hæðir. En skemmtunin var rétt að byrja. Eftir tónleikana hélt ég niður í bæ, horfði aðeins á dans í Iðnó, hlustaði á músík hér og þar úti á götu - átti því miður aðeins leið um Ingólfstorg en var fljót að flýja Jesúmúsíkina þar - rölti meira um og fór svo í Listasafn Íslands þar sem Hlín samstarfskona mín spilaði og söng. Þar hitti ég Siggu og Jón Yngva og dæturnar þrjár og ákvað að halda með þeim í fæðuleit sem reyndist töluverð vinna því að sjálfsögðu voru allir veitingastaðir fullir. Eftir nokkurn tíma fengum við snilldarhugljómun (að eigin mati); töldum vænlegt að halda á Eldsmiðjuna þar sem hún væri svolítið út úr og líklegt að fáir hefðu munað að þar er matsalur. Það var að sjálfsögðu firra. Allt var troðfullt en við dóum ekki ráðalaus. Á móti Eldsmiðjunni er róluvöllur. Við pöntuðum pítsu og fórum í pikknikk á róló. Það þrælvirkar. Stórskemmtilegt óvissuatriði.

Leiðir okkar skildi svo og ég hélt til fundar við Kötu. Við náðum í skottið á upplestri Hauks í Iðu en síðan var farið ásamt ýmsu góðu fólki yfir í Eymundsson. Þar tylltum við okkur á gólfið á efri hæðinni, næstum því undir borð - og úr þessum afbragðs stúkusætum fylgdumst við með Ragga Bjarna og hljómsveit spila og syngja. Eldri konur í áhorfendahópnum sungu með af gríðarlegri innlifun og allt var þetta afar fagurt.

Þegar öllu þessu var lokið var kominn tími til að halda niður að höfn og hlusta á Egó. Við höfðum gætt þess svo rækilega að koma ekki of snemma (maður vill ekki hlusta á Brimkló ótilneyddur) að við misstum af blábyrjuninni en það gerði svosem ekkert til - við lögðum okkur bara þeim um meira fram við að njóta afgangsins út í ystu æsar. Fólk í kringum okkur var reyndar óþarflega hófstillt í hátterni en við létum það ekkert á okkur fá heldur sungum með af krafti og töpuðum okkur almennt. Þegar 'Fjöllin hafa vakað' komu loksins hoppaði ég þvílíkt eins og bavíani að ég kom mér næstum úr fjarskiptasambandi. Nei - ég hoppaði ekki yfir Esjuna, þetta á sér mun hversdagslegri skýringar. Allt í einu fór ein í hópnum að tína eitthvað upp af jörðinni: meirihluta af síma, bakhlið af síma, batterí úr síma. Þetta var síminn minn. Í pörtum. Ég hafði ekki hugsað út í að hann væri í jakkavasanum (grunnum og opnum) þegar ég missti mig. Sem betur fer fór þetta allt á besta veg.

Flugeldasýningin var ágæt, samt meira eins og hellingur að springa tilviljanakennt en almennilega hönnuð sýning. Það gerði samt ekkert til - og meðan á þessu stóð fór hópur í nágrenninu að syngja lag þar sem textinn var aðallega "lífið er yndislegt." Þetta var sungið aftur og aftur og þegar við vorum búin að læra lagið tókum við að sjálfsögðu undir. Afar viðeigandi. (Reyndar sagði einhver að þetta væri víst eitthvert Eyjalag, en það er óþarfi að láta þá staðreynd nokkuð á sig fá.)

Og skemmtuninni var ekki lokið - því það var eftir að fara á árlega tónleika hjá dixielandsbandinu Öndinni á Kaffi Vín. Tónleikarnir einir og sér hefðu verið nógu skemmtilegir - en best af öllu var að sjálfsögðu skrúðgangan niður Laugaveginn. Dans við dixieland á götum úti var besti mögulegi endirinn á frábærum degi.

föstudagur, 20. ágúst 2004

Kveinið hér fyrir neðan um að mig vanti vinnu í útlöndum hefur skilað nokkrum tilboðum. Gallinn er að þau virðast öll snúast um húsverk.

Sko. Ég kann alveg að elda mat, baka brauð og kökur - og þótt mér finnist afbrigðilega lítið skemmtilegt að strauja, þurrka af, skúra, skrúbba, bóna o.s.frv., þá get ég alveg innt slík leiðindaverk þokkalega af hendi ef sá gállinn er á mér (sem er reyndar sjaldan). Mér kemur líka yfirleitt prýðilega saman við börn (þótt ég sjái ekki nokkra einustu ástæðu til að eignast þau sjálf).

En ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að hæfileikar mínir væru töluvert víðtækari. (Ég kann að telja, reima skóna ... - og ... og ... ýmislegt fleira sem of langt mál er að telja upp hér.) Eiginlega er ég hálfmóðguð. Af hverju í ósköpunum vill þetta fólk hlekkja mig bak við eldavélina?

fimmtudagur, 19. ágúst 2004

Ég uppgötvaði ýmislegt í fríinu. Það veigamesta:
 • Sennilega er ég vinnufíkill.
 • Ég vildi að ég byggi í Berlín.

Ýmsar eldri hugmyndir staðfestust. T.d.:
 • Mér líður best í stórborgum.
 • Leipzig er góð og skemmtileg borg en Berlín er best (enda stórborg).
 • Sennilega er Berlín uppáhaldsborgin mín.
 • Reykjavík er óþolandi einsleit.
 • Reykjavík er ekki borg heldur þorp með mikilmennskubrjálæði.

Nánari útlistanir síðar. Kannski.


Löngu komin úr fríinu. Hálf önnur vika síðan. Alveg sátt við að vera farin að vinna aftur en langar ekkert að vera á þessu landi. Augljóst að mig vantar vinnu í útlöndum.

föstudagur, 23. júlí 2004

Farin í fríið. Efast stórlega um að ég nenni að blogga á meðan.

fimmtudagur, 22. júlí 2004

Ég ætla ekkert að afsaka bloggfallið síðasta hálfa mánuðinn. Get svo sem upplýst að daginn eftir að ég bloggaði síðast var verulega léttúðugt blogg í undirbúningi - en þegar ég ætlaði að fara að skrásetja það hringdi síminn og ég fékk þær fréttir að góð vinkona mín hefði misst níu ára dóttur sína í hörmulegu slysi. Undir svoleiðis kringumstæðum hættir léttúðugt hjal um daginn og veginn og jarðálfinn Láka og álíka fánýta hluti að vera manni efst í huga.

Í gleðilegri fréttum er það hins vegar helst að ég fer í sumarfrí á morgun og er að tapa mér af tilhlökkun. Flýg til Kaupmannahafnar síðdegis á morgun, gisti eina nótt hjá Hönnu vinkonu minni, flýg svo áfram til Berlínar morguninn eftir, tek lest beint til Leipzig og verð þar í viku, fer svo til Berlínar til vikudvalar, flýg svo til baka til Kaupmannahafnar, gisti aftur hjá Hönnu eina nótt - og neyðist svo víst til að snúa aftur heim á þetta fúla land. En það er óþarfi að eyða tímanum í að kvíða heimkomunni - ætla frekar að einbeita mér að því að njóta frísins út í ystu æsar. Hef ekki átt alvöru sumarfrí síðan ég var tólf ára - en finnst líklegt að ekki verði aftur snúið eftir þetta. Sumarfrí eru ábyggilega ávanabindandi.

þriðjudagur, 6. júlí 2004

Ég er svöng. Kannski ég fái mér bananabrauð.

föstudagur, 2. júlí 2004

Þórdís bloggsnillingur er farin að semja klámsögu. Reyndar hefur eitthvert fólk haldið því fram að þetta sé fremur rauð ástarsaga. Það getur svosem verið. Annars hallast ég að því að þetta geti alveg verið hvort tvegga. Mörkin milli þessara bókmenntagreina eru ekkert alltaf skýr.

Uppáhaldssetningin mín í fyrsta kaflanum er: "Hún fann hvernig ástríðan óx og gat sér til um að hann væri ekki ósnortinn þegar hún sá að honum hafði fipast fiskskurðurinn."

Hrein snilld. Svo er nafnið á kvenpersónunni (Amanda) punkturinn yfir i-ið eins og bent hefur verið á í kommentunum hjá Þórdísi.

Fisksalinn er enn nafnlaus. Ég hef lagt til að hann fái nafnið Geirharður. Væri það ekki nokkuð viðeigandi nafn á persónu í klámsögu?
Vandamál vikunnar tengist múmínálfunum. Ég hef undir höndum tvær bækur, báðar á sænsku, sem eru næstum því sú sama - en ekki alveg.

Önnur heitir Muminpappans memoarer (Minningar múmínpabba), útgefin í Stokkhólmi 1968.
Hin heitir Muminpappans bravader (Raupsögur múmínpabba), útgefin í Helsinki 1950. [Áhugamenn um fjölbreytileika hafa kannski gaman af að vita að undirtitillinn á forsíðu þeirrar bókar er: "Skrivna af honom själv", en á titilsíðunni: "Berättade av honom själv"!]

Textinn í bókunum tveimur er að mestu sá sami - en bara að mestu. Stundum hefur einu orði verið skipt út fyrir annað (t.d. "beskrive" vs. "berätta" í fyrirsögn fyrsta kafla) en það er minnsti munurinn. Í báðum bókunum er formáli frá múmínpabba en í þeirri síðari er einnig prólógus þar á undan. Býsna miklu munar síðan á formálanum í bókunum tveim - og fljótlega koma í ljós drjúgar breytingar á textanum öllum hér og þar (a.m.k. framan af bókinni, ég er ekki komin mjög langt í samanburðinum).

Í formála raupsagnanna segir t.d.:
"... sitter i kväll vid mitt fönster och ser eldflugorna dansa i den mörka, varma trädgården ..."

Á sama stað í minningunum stendur:
"... sitter ikväll vid mitt fönster och ser lysmaskarna brodera hemliga tecken därute i trädgårdens sammetsmörker ..."

Ég er verulega með böggum hildar yfir að vita ekki hvernig á þessu stendur. Í fyrstu hélt ég að kannski væri meiri munur á finnlandssænsku og "venjulegri" sænsku en mér hefði verið kunnugt um - en það var áður en ég uppgötvaði hversu miklar breytingarnar eru á köflum.

Getur verið að Tove Jansson hafi endurskrifað bókina? Ef svo er, á það við um fleiri af bókunum hennar?

Vona að einhver múmínfræðingurinn sem les þetta geti upplýst mig um málið. Svo ég geti aftur sofið rótt.
Það er lykkjufall á skærbleiku sokkabuxunum mínum. Ég varð næstum pirruð og fúl en þá lagði einn vinnufélagi minn til að ég startaði bara lykkjufalli á sama stað á hinni löppinni til samræmis. Líst vel á hugmyndina. Hætta að fárast yfir leiðindaatvikum, snúa þeim í staðinn upp í skapandi ferli ... Allt spurning um hugarfar.

þriðjudagur, 29. júní 2004

Aðstoð við draumráðningar óskast.

Ég man næstum aldrei neitt sem mig dreymir. Þess vegna telst það til tíðinda að draumfarir síðustu nætur séu mér minnisstæðar.

Aðstæður voru þessar: Ég var algjörlega óforvarandis kölluð til þingsetu sem varaþingmaður Kötu Jakobs. Mér þótti ekkert undarlegt að hún væri á þingi en hins vegar kom mjög á óvart að ég væri varamaður hennar. Ennþá merkilegra var að sem varamaður Kötu lenti ég inni á þingflokksfundi Samfylkingarinnar. Síðar um daginn var þingfundur en þingsalurinn hafði ummyndast og var farinn að minna á breska þingið - með bekkjum o.þ.h. Á fundinum var leynileg skrifleg atkvæðagreiðsla þar sem allir áttu að skrifa niður nöfn þeirra fimm þingmanna sem þeir hefðu mesta trú á. Ekki man ég hver tilgangurinn var en ég setti Kötu í annað sætið á eftir Möggu Frímanns. Reyndar munaði minnstu að atkvæðið mitt yrði hunsað því talning var hafin og raunar langt komin áður en ég kom því til skila. Um niðurstöður atkvæðagreiðslunnar veit ég hins vegar ekkert.

Mér fannst þingmennskan leiðinleg og asnaleg og fannst ekki heldur fara saman að vera þingmaður eins flokks en þjóna jafnframt öllum hinum í vinnunni við skjalalesturinn. Eftir hálfan dag fór líka svo að ég sagði af mér þingmennsku. Fannst vinnan mín mun gáfulegri en þingsetan.

Þannig var nú það. Algjör steypa en þó nokkuð skýr söguþráður, ólíkt flestum af þeim fáu draumum sem ég man. Stóra spurningin er hvernig beri að túlka þetta. Er þetta forboði um pólitískar sviptingar? Er Kata á leiðinni yfir í Samfylkinguna? Verður Magga Frímanns formaður á næsta landsfundi og Kata varaformaður? Verður reynt að draga mig inn í leikinn en ég sný mig lausa á síðustu stundu?

Kata hefur lagt til að þetta sé til marks um pólitíska tilvistarkreppu mína. Ég hallast frekar að því að þetta sýni ánægju mína með að vera hætt pólitískum afskiptum. Að ég sé á réttum stað í hlýjum faðmi prófarkanna.

Svo er ábyggilega hægt að föndra verulega villtar túlkanir. Kommentakerfið stendur þeim til reiðu sem vilja leggja sitt af mörkum.

mánudagur, 28. júní 2004

Helsta afrek helgarinnar: Að gera íbúðina aftur að mannabústað. Reyndar var það að hluta til gert með hókuspókusaðferðinni - þ.e. draslinu sópað úr augsýn: undir dúkað borð, inn í skáp ... ýta, troða ... (Svo kemur skriðan á móti manni seinna.) Þessi aðferð var einkum notuð þegar allnokkuð var liðið á laugardaginn og farið að styttast verulega í að Kata, Steinunn og Stefán kæmu í mat.

Ég náði samt að gera sumt í alvörunni, fasti liðurinn "endurröðun í bókahillur" tókst t.d. ágætlega. Fataskápurinn er hins vegar ennþá í klessu og eiginlega verri en nokkru sinni fyrr eftir að jólaseríu, töskum og ónýtum skóm með meiru var hrúgað inn í hann á síðustu stundu.

En það er aukaatriði. Aðalatriðið er hvað það er alltaf óheyrilega gaman að fá skemmtilegt fólk í heimsókn, ekki síst fólk sem ræðir m.a. við mann um múmínálfana, fræðir mann um undarlegheit hinnar stórfurðulegu hreyfingar Ananda Marga (og ofbeldishneigða armsins innan hennar) svo fátt eitt sé nefnt - auk þess að eipa með manni yfir vali "kosningasjónvarpsins" á myndefni og tregðu til að umbreyta kosningatölunum í grafík.

Þótt KA-heimilið sé nokkuð laglegt vil ég frekar súlurit.

föstudagur, 25. júní 2004

Mikið er ég löt í dag. Get ég ekki kennt rigningunni um? Reyndar er sólin farin að skína aftur núna þannig að þá dugar sú afsökun ekki lengur.

fimmtudagur, 24. júní 2004

Kaldhæðnislegt að þegar ég var búin að skrifa pistilinn hér fyrir neðan og býsnast yfir fólki sem tjáði sig um það sama á sama tíma fór ég á Múrinn þar sem fyrir mér varð þessi líka fína grein Kötu um Öskubuskuáráttuna. Partur af henni rímar ótrúlega vel við það sem ég var að segja.
Lenda fleiri en ég í því að fá stundum sama furðulega kommentið oft og mörgum sinnum á stuttum tíma - úr ýmsum áttum? Að fólk í kringum mann fái sömu "fix idé" á sama tíma?

Á tveimur dögum í þessari viku er ég t.d. þrisvar búin að fá kommentið: "Mikið ertu dugleg að gera eitthvað skemmtilegt ein." (Og reyndar ekki í fyrsta skipti.) Ótrúlega margir virðast hissa á því að ég ferðist stundum/oft ein, fari stundum/oft í bíó ein o.s.frv. - án þess að farast úr leiðindum og án þess að mér finnist það tiltökumál.

Skil þetta ekki. Fyndist fólki eðlilegt að ég sæti kyrr, boraði í nefið á mér og biði eftir því að annað fólk kæmi og "bjargaði" mér? Mér finnst miklu heilbrigðara að vera einfær um að gera líf mitt skemmtilegt. Sko, ég á marga frábæra vini en þeir eru ekkert alltaf tiltækir. Og stundum finnst mér hreinlega þægilegt og jafnvel gaman að vera ein. Og mér finnst það ekkert skrýtið. Og fatta ekki hversu mörgum finnst þetta merkilegt. Telst það virkilega eðlileg hegðun að bíða eftir því að aðrir "bjargi" manni frá leiðindum? Þá er ég mjög fegin að hafa aldrei verið eðlileg.

miðvikudagur, 23. júní 2004

Fótboltaprinsipp - 2. hluti.

Það er gaman að spila fótbolta við fólk sem er jafnlélegt og maður sjálfur.
Það gerði ég í gærkvöld.

Kvennafótboltaliðið sem vinkona vinkonu minnar stofnaði í fyrra hefur semsé verið endurvakið. Man ekki hvort ég bloggaði um það þá - en við spiluðum vikulega í fyrrasumar, vorum iðulega eins og fávitar og stundum orðnar líkastar mæðiveikum rollum á endanum - en mikið hrikalega var þetta gaman. Og það breyttist ekkert þótt liðið lægi í dvala í vetur; gærkvöldið var stórskemmtilegt.

Það var fyrir tilviljun og allt að því í gríni sem mér var boðið að vera með - enda hvorki íþróttamannslega vaxin né þekkt fyrir áhuga á íþróttum, allra síst boltaíþróttum. Þegar ég bjó í Þýskalandi horfði ég samt töluvert á íþróttarásirnar í sjónvarpinu. Það segir reyndar mest um þýskt sjónvarp. (Man ekki hvort ég hef einhvern tíma komið því í verk að blogga um þýskt sjónvarp. Ef ekki er eiginlega kominn tími til.)

Hvað sem því líður, þá fannst mér sú hugmynd að ég færi að spila fótbolta fráleit þegar ég heyrði hana fyrst - en komst fljótt að því að hún væri mátulega fráleit til að vera sniðug. Það var líka skylda að kunna lítið eða ekkert sem hentaði mér afar vel.

þriðjudagur, 22. júní 2004

Fótboltaprinsipp - 1. hluti.
(Og kannski síðasti hluti líka.)

Til skamms tíma horfði ég eingöngu á fótbolta þegar það var heimsmeistarakeppni. Fannst fínt að horfa bara á fjögurra ára fresti og sjá þá almennilegan fótbolta. Nú hef ég uppgötvað að Evrópukeppnin er ágæt líka.

Að jafnaði held ég með liðinu sem spilar skemmtilegri fótbolta hverju sinni. (Ég hélt t.d. með Frökkum á móti Englendingum en Króötum á móti Frökkum.)

Ég held gjarnan með minnimáttar og/eða smáþjóðum. Sérstaklega þeim sem spila skemmtilegan fótbolta.

Á HM hef ég tilhneigingu til að halda með óevrópskum liðum. Það virkar einhverra hluta vegna ekki á EM.
Ég keypti mér sólvörn í gær en mér til hrellingar var og er viðbjóðsleg kókosfýla af henni.
Mér finnst að það ættu að vera varnaðarorð á öllu sem lyktar illa.

mánudagur, 21. júní 2004

Að marggefnu tilefni skal eftirfarandi tekið fram:
Ég er ekki hætt að blogga.
Það er bara hefð fyrir því að ég leggist í bloggdá öðru hverju.
Og þar sem síðasta vika var sérstaklega tileinkuð Menntaskólanum á Akureyri og þar með hefð á hefð ofan er hefðbundið bloggfall sérlega viðeigandi um þessar mundir.

Mikið hrikalega var annars gaman á stúdentsafmælinu. Kannski tekst mér að blogga um það fljótlega. En bara kannski. Ég á eiginlega eftir að blogga um svo margt skemmtilegt, t.d. Lundúnaferðina, að ég verð næstum andvana máttvana magnvana við tilhugsunina. Og orðlaus. Mér fallast semsagt hendur. Kannski fer þetta svo að ég blogga alls ekki neitt. Held bara áfram að liggja uppi í sófa þegar ég á lausa stund og horfa á Bráðavaktina. Frænka mín á nefnilega fyrstu seríuna komplett á DVD og var svo væn að lána mér hana - með þeim afleiðingum að ekkert varð úr dugnaðinum sem var á dagskrá um helgina. Fyrsta rólega helgin heima í lengri tíma - ég hef varla komið heim til mín nema yfir blánóttina svolítið lengi - og meiningin var að sýna djörfung og dug og taka jafnvel svolítið til. Byrjaði á fataskápnum á laugardaginn, reif helminginn af fötunum út úr honum og sorteraði í bunka. Síðan hefur ekkert gerst. Og ég er búin að sofa á sófanum í stofunni tvær síðustu nætur því ég nennti ekki að færa fatabunkana af rúminu. Bráðum drepst ég úr leti. Eða kafna í drasli. Það verður spennandi að sjá hvort gerist á undan.

föstudagur, 28. maí 2004

Tveggja ára bloggafmæli í dag! Og ég er að fara til London. Þetta er góður dagur.

Mikið var annars gaman á Pixies-tónleikunum á þriðjudaginn. Þ.e. þegar "upphituninni" var lokið þar sem Ghostdigital framdi hljóðgjörning með ákaflega frjálsri aðferð. Ég var farin að velta því alvarlega fyrir mér hvort þetta væri þolpróf - aðeins þeir úthaldsbestu fengju að heyra alvöru-tónlistina. En Pixies voru æði. Aðeins í ólagi í fyrstu lögunum, en svo small þetta saman; í "I bleed" voru farnir að gerast góðir hlutir og ennþá betri í "Wave of mutilation" og svo rak hver snilldin aðra. Dásamlegt.

þriðjudagur, 25. maí 2004

Pixies í kvöld. Mikið hlakka ég til.

Það er annars ótrúlega mikið um að vera um þessar mundir. Stíft prógramm af veislum, skemmtunum og alls konar tilhlökkunarefnum fram á haust!
 • Á föstudaginn var ég í tveimur útskriftarveislum.
 • Á sunnudaginn var ég í skírnarveislu.
 • Í kvöld fer ég á Pixies-tónleikana, sem fyrr segir.
 • Um næstu helgi fer ég til London.
 • Helgina á eftir er mér boðið í doktorsvarnarveislu.
 • Rúmri viku seinna kemur að 10 ára stúdentsafmæli frá MA. Það verða a.m.k. þriggja daga hátíðahöld.
 • Þá er rúmlega mánaðarhlé á dagskránni.
 • Svo fer ég til Leipzig og Berlínar í tvær vikur (og Kaupmannahafnar líka).
 • Og síðustu helgina í ágúst er mér boðið í brúðkaup.
Gaman, gaman.

föstudagur, 21. maí 2004

Ég er hætt að bera saman prófarkir. Héðan í frá mun ég eingöngu framkvæma samræmismat.

miðvikudagur, 19. maí 2004

Nú er ég endanlega heiladauð. Það hlaut að koma að þessu.

Ég fór inn í bankann minn á netinu í morgun til að millifæra peninga. Skráði allar upplýsingar, reikningsnúmer, kennitölu, upphæð - og leyninúmerið mitt. Smellti á 'áfram' - fór yfir upplýsingarnar en datt í hug að sennilega væri best að láta skýringu fylgja. Þannig að ég fór til baka. Skrifaði skýringuna og þurfti svo að slá leyninúmerið inn upp á nýtt. Sem hefði ekki átt að vera mikið mál - sérstaklega miðað við að mér hafði tekist það vandræðalaust nokkrum sekúndum áður.

En allt í einu hvarf stykki úr heilanum á mér. Höndin fraus yfir lyklaborðinu - númerið hafði gufað upp úr hausnum. Leitaraðgerðir hafa ekki enn skilað árangri.

Athyglisverðast er samt er meðan á þessu stóð var ég að hlusta á "Where is my mind?" með Pixies!

fimmtudagur, 6. maí 2004

Þegar maður hefur ekkert að segja er best að láta persónuleikaprófin tala:

Niðurstaða 1:

Bunson jpeg
You are Dr. Bunson Honeydew.
You love to analyse things and further the cause of
science, even if you do tend to blow things up
more often than not.

HOBBIES:
Scientific inquiry, Looking through microscopes,
Recombining DNA to create decorative art.

QUOTE:
"Now, Beakie, we'll just flip this switch and
60,000 refreshing volts of electricity will
surge through your body. Ready?"

FAVORITE MUSICAL ARTIST:
John Cougar Melonhead

LAST BOOK READ:
"Quantum Physics: 101 Easy Microwave
Recipes"

NEVER LEAVES HOME WITHOUT:
An atom smasher and plenty of extra atoms.

What Muppet are you?
brought to you by Quizilla


Niðurstaða 2:

statler jpeg
You are Statler or Waldorf.
You have a high opinion of yourself, as do others.
But only because you are in the balcony seats.

ALSO KNOWN AS:
Those two old guys in the box.

SPECIAL TALENTS:
Heckling, complaining, being cantankerous

QUOTE:
"Get off the stage, you bum!"

LAST BOOKS READ:
"The Art of Insult" and "How To
Insult Art"

NEVER LEAVE HOME WITHOUT:
Their pacemakers.

What Muppet are you?
brought to you by Quizilla

mánudagur, 3. maí 2004

Langþráð PH-blogg hjá Eyðimörkinni. Unaðslegt
Í fréttum er þetta helst: Litlar líkur eru á breyttri bloggvirkni alveg á næstunni. Annars aldrei að vita hvað gerist – kannski allt eins líklegt að ég taki við mér undireins og ég lýsi þessu yfir. En það er meira en nóg að gera; t.d. er ég til viðbótar við reglulega magadansnámskeiðið að fara á annað nokkuð intensíft námskeið, þ.e. ef ég ræð við að vera með framhaldshópnum þar. Þá verð ég næstu tvær vikur í magadansi á mánudagskvöldum, þriðjudagskvöldum, miðvikudagskvöldum, tvöfalt á fimmtudagskvöldum og þrjá klukkutíma á laugardögum. Er þetta ekki bilun? Sérstaklega miðað við hvað er mikið að gera í vinnunni þessa dagana og hvað allt er óútreiknanlegt þar.

Sennilega verð ég dauð þegar yfir lýkur.

Mikið hlakka ég annars til að komast úr landi um hvítasunnuna. Tapaði mér líka alveg í ferðaplönum þegar ég var á annað borð byrjuð og pantaði mér líka flug fyrir sumarfríið mitt. Fyrsta alvöru sumarfríið síðan ég var 12 ára. Ætla að fara á gömlu „heimaslóðirnar“ mínar í Þýskalandi: vera viku í Leipzig (var Erasmus-skiptinemi þar 1999–2000) og aðra viku í Berlín. Síðustu vikuna í júlí og þá fyrstu í ágúst. Hlakka óendanlega til.

fimmtudagur, 29. apríl 2004

Húrra! Ég fer til London um hvítasunnuna! Elsku Iceland Express með sæti á 200 kr.!

þriðjudagur, 27. apríl 2004

Mikið er ég orðin leið á bullinu um að blogg sé sjálfkrafa bersöglismál. (Finnst það næstum eins þreytandi og alhæfingar um að bloggarar kunni hvorki málfræði né stafsetningu og séu að öllu leyti óskrifandi.) Þröstur Helgason segir í Mogganum í dag að á bloggi sé allt játað og það minni helst á opinberan skriftastól. Þó að slíkar síður séu alveg til eru þær margfalt fleiri sem falla ekki undir skilgreininguna. Hvernig væri að einhver sendi manninum linka á nokkrar vel valdar bloggsíður?

mánudagur, 26. apríl 2004

Lítil heilastarfsemi afgangs til notkunar við bloggframkvæmdir. Niðurstaða úr afburða skemmilegu persónuleikaprófi sem ég fann hjá Hirti verður að duga í bili:

Semantics
You are SEMANTICS. Be true to your field,
but remember: debating the meaning of the word
"Supercalifragilisticexpealidocious"
never got Mary Poppins anywhere.


What's Your Linguistic Sub-Discipline?
brought to you by Quizilla


Ég gat líka fengið þetta út:

Sociolinguistics
You are SOCIOLINGUISTICS! You are endlessly fascinated by gender
and cultural conflicts stemming from linguistic misunderstandings.


What's Your Linguistic Sub-Discipline?
brought to you by Quizilla

þriðjudagur, 20. apríl 2004

Sorgarstund í gær þegar síðasti þátturinn af Nýjustu tækni og vísindum var sendur út. Mjög andstyggilegt af sjónvarpinu að svipta mann bernskunni svona. Næstum því jafnslæmt og ef hætt yrði að hringja inn jólin í útvarpinu.

mánudagur, 19. apríl 2004

Hvaða andsk... stælar eru í Eyðimerkurbloggaranum núna? Hann ætti skilið ærlega hirtingu fyrir að fara svona illa með lesendur sína!

laugardagur, 17. apríl 2004

Stundum er ágætt að þurfa að mæta í vinnuna á laugardegi. Maður rífur sig þá allavega á fætur fyrir kvöldmat.

föstudagur, 16. apríl 2004

Byrjaði á þriðju bókinni eftir Jasper Fforde um bókmenntaspæjarann Thursday Next í gær: The Well of Lost Plots. Fór að lesa bókaflokkinn bara út af nafninu á annarri bókinni: Lost in a Good Book (sú fyrsta er The Eyre Affair). Mjög skemmtilega galnar. Gætu kannski orðið þreytandi ef maður læsi þær í einni striklotu, en þær virka mjög vel þegar maður lætur svolítið líða á milli. Er bara rétt byrjuð á The Well of Lost Plots, en á kápunni kemur m.a. fram að persóna í bókinni verði prendvidluvýrusnum / prendvytlupúganum (Mispeling Vyrus) að bráð. Það finnst mér lofa góðu.

fimmtudagur, 15. apríl 2004

Mér finnst missiri ljótt. Misseri er mun fegurra. Ég meiði mig alltaf svolítið þegar ég þarf að breyta þessu.

miðvikudagur, 14. apríl 2004

Að sjálfsögðu:

Grammar God!
You are a GRAMMAR GOD!
If your mission in life is not already to
preserve the English tongue, it should be.

How grammatically sound are you?
brought to you by Quizilla
Annaðhvort er búið að lagfæra vogina í Vesturbæjarlauginni lítillega (þó ekki nógu mikið) eða ég hef snarlega lést um tvö kíló.

þriðjudagur, 13. apríl 2004

Páska„fríið“ í ár var einfalt í sniðum. Markmiðin sem ég hafði sett mér voru tvö: 1) Skúra íbúðina (hefur verið á dagskrá óheyrilega lengi). 2) Lesa ógrynni af próförkum. Kosturinn við að fá frí í vinnunni nokkra daga er nefnilega að þá gefst tími fyrir aukavinnuna. Með sama áframhaldi fer ég bráðum að lesa prófarkir í svefni. Málið er alls ekki að ég kunni ekki að segja nei. Vandamálið er að ég er alltof bjartsýn. Held alltaf að ég hafi mun meiri tíma en ég hef í raun.

Markmiðin voru sett til hliðar á skírdag sem fór allur í að hitta skemmtilegt fólk. Þeim tíma var vel varið en þar með var mannlegum samskiptum lokið þessa páskana. Föstudagurinn langi einkenndist í upphafi af svefninum langa (þó ekki þeim eina sanna) og sennilega veitti ekki af. Svo tóku prófarkirnar við. Skúringarnar héldu hins vegar áfram að vera hornreka. En ég moppaði. Má þá ekki segja að markmiðið hafi náðst að hálfu? Og fór líka með pappírsfjallið sem hafði safnast upp í eldhúsinu í endurvinnslugám. Gríðarlegur dugnaður við heimilisstörfin.

Á laugardaginn ákvað ég að kaupa mér páskaegg þótt mér finnist súkkulaðið í þeim ekkert sérlega gott. En maður verður að fá málshátt. Fyrirhöfnin varð ærin; það var ekki fyrr en í fjórðu búðinni sem ég fékk páskaegg. Í því var svo málshátturinn: Í myrkri eru allir kettir eins á lit. Er ekki enn búin að túlka þetta í samhengi við líf mitt. Kannski er þetta ábending um að í myrkri skeri prentvillur og ambögur sig ekkert frá öðrum stöfum á pappírnum. Efast þó um að gott væri að leggja þá hugsun til grundvallar – því það birtir alltaf aftur. Þannig að ég hélt áfram að eiga við prófarkirnar.

Milli þess sem ég boraði mig gegnum prófarkafjallið (sem er annars konar pappírsfjall en lenti í endurvinnslunni) horfði ég á mun fleiri Ally McBeal þætti en ég hef tölu á. Ally er mjög ágæt. Gerði á meðan tilraun með að prjóna peysu úr eingirni – sem lofar nokkuð góðu. Og svo föndraði ég meira við prófarkir.

mánudagur, 5. apríl 2004

Ég vil ekki trúa því að Þórdís sé hætt að blogga og búin að fela allar gömlu færslurnar! Vonandi er þetta síðbúið aprílgabb – annað væri verulega andstyggilegt.

föstudagur, 2. apríl 2004

Eftir langar og strangar rannsóknir
hefur skjaladeild nefndasviðs uppgötvað
að 17.25 er fyndna mínútan í skjalalestri.

miðvikudagur, 31. mars 2004

Mig hefur lengi vantað saumavél og er að hugsa um að fara að gera eitthvað í málinu svo að ég geti t.d. farið að sauma mér pils eða kjól úr gömlu gardínunum sem ég keypti í Fríðu frænku fyrr í vetur. Veit einhver eitthvað um Elna-saumavélar? Eru þær almennilegar eða drasl?

þriðjudagur, 30. mars 2004

Þreytt, þreytt, þreytt. Og heiladauð. Mikið verður gott að horfa á Paradise Hotel á eftir. (PH er snilldarlega skelfilegur sjónvarpsþáttur. Ekki bara á botninum meðal sjónvarpsefnis heldur djúpt ofan í holu sem hefur verið grafin niður úr botninum. Ég fylgist spennt með.)

Akkuru er Eyðimerkurbloggarinn ekki kominn með upphitunarblogg fyrir þátt kvöldsins samkvæmt hefð? Röflar bara um páskaegg og eitthvað þaðan af verra.
Er aftur komið vor núna? Eða hvað?

mánudagur, 29. mars 2004

Heilinn er búinn að snúast í milljón skrilljón hringi í dag. Slíkt atferli hlýtur – auk andleysisaukningar – að takmarka hreyfigetu líkamans sem er afar óheppilegt þar sem ég fer í magadans á eftir og er ekkert búin að æfa mig heima. Þetta hlýtur að enda illa. (Í fyrstu atrennu skrifaði ég „enda“ með tveimur n-um sem sannar mál mitt; ég er tvímælalaust að verða heiladauð.)
Logndrífa er falleg.
Oftast er nauðsynlegt að geta opnað glugga. Ég er mjög hlynnt opnanlegum gluggum (sem er ávísun á kveinstafi og nöldur hjá kuldaskræfum) og finnst yfirleitt óþolandi að það skuli ekki vera opnanlegur gluggi á skrifstofunni minni. En suma daga er það sennilega heppilegt. Aldrei að vita hvað gæti annars dottið út.

sunnudagur, 28. mars 2004

Veturinn virðist kominn aftur. Svosem við því að búast. En þetta var ágætis vor meðan það entist. Bíð bara spennt eftir næsta vori – það hlýtur a.m.k. að koma í júní. Jafnvel fyrr.

föstudagur, 26. mars 2004

Ég hef aldrei vitað eins úthaldlaust drykkjulið og meðlimi Frjálsa kristilega léttvínsklúbbsins.
Nú styttist í að ársfundur Frjálsa, kristilega léttvínsklúbbsins hefjist. Það verður án efa merkileg samkoma. Að hluta hefur hún verið kvíðvænleg því að stjórn klúbbsins (þ.e. einvaldurinn) gerði það af skömmum sínum að skylda sérhvern meðlim til að mæta með drykkjukveðskap til flutnings fyrir hópinn. Krafan hefur valdið sálarkvölum, andvökum og skertri starfsorku, en áðan hafði ég það loksins af að hnoða einhverju saman. Vonandi verður ölvun orðin almenn þegar kemur að flutningi til að vísan nái að batna í réttu hlutfalli við innbyrt áfengismagn.

miðvikudagur, 24. mars 2004

Ég er í túlkunarfræðilegri krísu yfir heitinu á nýja leikritinu eftir Þorvald Þorsteinsson: Sekt er kennd.

Er kennd nafnorð í þessu samhengi, þ.e. ‘tilfinning’? Þá gæti sú hugmynd falist í heitinu að sekt sé sjálfsprottið og óviðráðanlegt fyrirbæri.

Eða er kennd beygingarmynd af sögninni kenna? Þá myndi heitið gefa til kynna að sekt sé lærð hegðun.

Birtast hér kannski gríðarleg átök milli eðlishyggju og mótunarhyggju? Nema maður sætti þau andstæðu sjónarmið með því að hafna hugmyndinni um að tilfinningar séu óviðráðanlegar. Þá lýsir hvort tveggja lærðri hegðun og túlkunarvandinn er úr sögunni.

Best að hugsa málið aðeins lengur.

þriðjudagur, 23. mars 2004

Alltof langt síðan léttúðugar greinar hafa birst á Múrnum. Hvað varð t.d. um bíórýnina? Og fróðleikshorn um fagra menn (uppáhaldsgreinaflokkinn minn)? Hvers á léttúðin að gjalda?
Íþróttir eru stórhættulegar, jafnt líkamlegri sem andlegri heilsu manns. Hélt að sund væri næstum eina íþróttin þar sem væri ómögulegt að koma sér upp álagsmeiðslum – en eftir 1000 m sund í gær er vinstra hnéð ekki sammála því. Þar að auki leiddi sundferðin í ljós að ég hef þyngst ennþá meira síðan í fyrra en ég hélt. Þar fór geðheilsan. Nema ég ákveði að vogin í Vesturbæjarlauginni sé ábyggilega vitlaus. Já, ætli ég geri það ekki bara. Er ekki best að varpa ábyrgðinni af sjálfum sér og kenna óviðráðanlegum ytri aðstæðum um allt sem miður fer?

föstudagur, 19. mars 2004

Ég er í rauðum skóm og með rauðan varalit.
Bráðum fer ég í rauðu kápuna mína og geng út í góða veðrið.
Karlmönnum er ekki treystandi fyrir vídeótækjum.

Seinnipartinn í gær kom í ljós að ég kæmist ekki heim til mín fyrr en seint um kvöldið. Reyndar myndi ég ná að sjá byrjunina á Gettu betur þar sem ég var en ekki alla keppnina. Hafði samt ekki miklar áhyggjur þar sem ég taldi mig vera búna að kenna bróður mínum rækilega á vídeóið mitt og hringdi því í hann og bað hann að prógrammera vídeóið til að taka upp keppnina og svo Beðmálin seinna um kvöldið. „Ertu ekki örugglega búinn að læra á þetta?“ spurði ég. „Jú, jú, þetta verður ekkert mál,“ var svarið sem ég fékk. Mér þótti samt vissara að ítreka mikilvægt atriði: „Þú manst að þú þarft að ýta á takkann sem er merktur timer on/off að lokum?“ Þessu var játað. Auðvitað myndi hann þetta.

Seint í gærkvöld kem ég heim til mín – dauðþreytt og hlakkaði mjög til að leggjast upp í sófa og horfa á keppnina (og Beðmálin). En á vídeóspólunni var ekki neitt. Og hvað hafði klikkað? Það hafði ekki verið ýtt á timer on/off. Arrrrg!

Maður skyldi greinilega aldrei treysta öðrum fyrir mikilvægum hlutum. Og ekki fer á milli mála að það er sérlega varasamt að treysta karlmönnum til réttrar umgengni við vídeótæki.

Akkuru í andsk... er Gettu betur ekki endursýnt. Ég er ekki sátt við þetta.

miðvikudagur, 17. mars 2004

Spurning dagsins:

Hvernig geta mannvirki legið í byggingum?

föstudagur, 12. mars 2004

Eitthvað við Kaupmannahöfn laðar fram í mér löngun til að kaupa eldhúsdót! Undarlegt - og þó. Kannski er þetta ekki svo skrýtið. Það er til svo óheyrilega mikið af flottum hlutum í þessari borg sem æpa hátt og skýrt: Kauptu mig, kauptu mig núna ... Ég ætlaði t.d. ekki að kaupa neitt í Illums bolighus (bara skoða) en féll gjörsamlega fyrir glerkrukku með bleiku plastloki sem lítill skrýtinn kall hangir neðan úr (hér er mynd). Og það er engin leið að komast út úr Bodum-búðinni án þess að kaupa eitthvað, þannig að núna á ég nýja fína pressukönnu (mig vantaði svoleiðis í alvörunni, glerið í gömlu pressukönnunni minni var brotið og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafði mér ekki tekist að fá nýtt gler sem passaði). Og svo rakst ég á hrikalega skemmtilega litla búð yfir í Kristjánshöfn sem heitir Inblik (ekki Ind- heldur In- (þetta er ekki stafsetningarvilla hjá mér)) og þar "varð" ég að kaupa mokkakönnu - sem er samt eiginlega ekki kanna (skilgreiningarvandi sem tengist könnum er að verða þema vikunnar) - því það er ekki hefðbundinn könnu-efripartur á henni, heldur pallur fyrir tvo bolla sem kaffið rennur beint í. "Kannan" mín líkist græjunni á þessari mynd nema á minni er neðriparturinn rauður, pípurnar svartar og bollarnir líta út eins og beygluð plastglös! Og svo er það auðvitað múmínbollinn sem áður var sagt frá (held að ég sé búin að ákveða að kalla þetta bolla).

(Er ég farin að nota sviga og innskot óhóflega?)

Mér finnst gaman að eiga skrýtna hluti! Þýðir það að ég sé skrýtin? Hah! það er gaman að vera skrýtin.

Og það er ekki allt upp talið: t.d. á ég líka nýja kápu - rauða sumarkápu. Gaman gaman!

Sko, söfnin í Kaupmannahöfn eru eiginlega öll lokuð á mánudögum. Þannig að þá neyðist maður beinlínis til að fara í búðir. Er það ekki annars?

Því miður komst ég ekkert í skóbúðirnar sem ég var búin að horfa svo mikið í gluggana á - eða kannski ætti ég að segja sem betur fer (með tilliti til heilsuverndar vísakortsins). Það eru hrikalega margar flottar skóbúðir í Kaupmannahöfn. En þegar ég var á leiðinni út í flugvél á Kastrup gekk ég framhjá Ecco-skóbúðinni þar og náði að kaupa ógurlega fína rauða skó á mettíma. Mmmmm.......

Trúlega þarf ekki mikla ályktunarhæfni til að sjá af þessari bloggfærslu að rauður er uppáhaldsliturinn minn.

miðvikudagur, 10. mars 2004

Nýi, fíni múmínbollinn minn lífgar aðeins upp á daginn. Hann er með mynd af múmínpabba, múmínmömmu, Míu litlu, múmínsnáðanum og snorkstelpunni og er ógurlega fínn. (Sjá efstu línuna miðja hér.)

Er þetta kannski kanna? Ég er ekki alveg viss. Drykkjarílátið rúmar nógu mikið til að geta verið kanna en hlutföllin eru heldur meira í ætt við bolla. Hvernig var málfræðiskilgreiningin aftur – man það ekki einhver?

Ætlaði eiginlega að kaupa bolla/könnu með mynd af Míu litlu, en fannst hann/hún ekki nógu falleg(ur) á litinn. Kannski kaupi ég svoleiðis bara seinna. En finnst ykkur ekki ósanngjarnt að það skuli ekki vera til svona leirtau með mynd af morranum?
Ég þooooli ekki þetta veður. Bara alls ekki.

þriðjudagur, 9. mars 2004

Mér finnst ömurlegt að vera komin aftur heim. Kaupmannahafnarferðin var semsagt mjög góð – mér tókst því miður ekki að hitta Auju, en var mjög ánægð með næstum allt annað (og finnst að maður ætti að geta farið til Kaupmannahafnar minnst einu sinni á ári). Svo kemur maður heim til þessa fúla lands í skítaveður. Held að ég hafi aldrei komið á Keflavíkurflugvöll öðruvísi en í roki. Ekki beinlínis til þess fallið að láta manni finnast gaman að búa hérna.

Meðal þess besta í ferðinni var:
 • Danskan mín virkaði prýðilega – ólíkt síðasta og eina skiptinu sem ég hef áður verið lengur en sólarhring í borginni. Þá var mér óþolandi oft svarað á ensku þótt ég talaði dönsku – en nú gerðist það aldrei. Ja, nema einu sinni og það tilfelli var svo asnalegt að það telst varla með. Ég var að kaupa Politiken í 7-eleven (leiðindabúlla) og afgreiðslumaðurinn sagði mér á ensku hvað blaðið kostaði. Ef maður kaupir danskt dagblað – ættu þá ekki að vera yfirgnæfandi líkur á að maður skilji dönsku? Hrmpf! Ein afgreiðslustúlkan skipti yfir í sænsku þegar hún talaði við mig – en ég get alveg lifað með því. Niðurstaðan: Annaðhvort hefur mér farið fram í dönsku eða viðhorf Dana til útlendinga sem reyna að tala málið breyst.

 • Borðaði þrjú dýr sem ég hef ekki smakkað áður: krókódíl, kengúru og ál. Tvennt það fyrra fékk ég á ástralska veitingastaðnum Reef'n'Beef - krókódíllinn var góður og kengúran algjörlega æðisleg (þótt meðfylgjandi hnetum væri dálítið ofaukið). Mæli með þessu. Var líka mjög hrifin af reykta álnum; fékk hann á ákaflega sætum frokostrestaurant sem var búið að benda mér á – eins gott, því ég hefði trúlega aldrei farið inn á hann annars; hann er nefnilega frekar óaðlaðandi að utan, og þar að auki er nafnið þannig að manni dettur fyrst í hug einhver ömurleg túristabúlla. En sú er alls ekki raunin; innra byrðið er verulega indælt. Staðurinn heitir Tivolihallen og er á horni Vester Voldgade og Stormgade. Mæli líka með honum.

 • Bíómyndin Forbrydelser er eftirminnileg. Mér leist ekkert sérlega á lýsinguna á henni – og hún hefði mjög auðveldlega getað orðið skelfileg – en hún var eiginlega mjög góð, vel leikin og lágstemmd; Dogma-stíllinn hæfði henni mjög vel – ef það hefði t.d. verið notuð áhrifstónlist eins og í „venjulegum“ myndum hefði hún orðið óbærilegt melódrama – en hún sveigði hjá nær öllum slíkum gildrum. Konan sem sat fyrir aftan mig skældi samt aðeins of mikið fyrir minn smekk.

 • Fór á Ríkislistasafnið og eignaðist nýjan uppáhaldsmálara sem ég hafði aldrei heyrt um áður: Cornelius Norbertus Gijsbrechts, sem var uppi á síðari hluta 17. aldar. Almennt höfða 17. og 18. öldin í myndlist ekki til mín – þess vegna er sérstaklega gaman að uppgötva eitthvað frá þeim tíma sem maður fellur í stafi yfir. Verkin sem ég sá eftir hann voru svo mikil myndlist um myndlist – og þótt maður viti vel að það sé ekki bara nútímalegt heldur hafi slíkt hafi verið til á öllum tímum kemur það oft skemmtilega á óvart.

 • Skemmtileg sýning á Listiðnaðarsafninu um danska hönnun síðustu 250 árin. Helsti gallinn við svona sýningar er að það megi ekki snerta neitt – maður þyrfti svo nauðsynlega að geta fundið áferðina á hlutunum, prófað að sitja í stólunum, athugað hvernig hnífapörin fara í hendi o.s.frv.

 • Það var mjög fyndið þegar Hanna og Jóna Finndís sofnuðu á kaffihúsi seinnipartinn á sunnudaginn.

 • Það var líka fyndið þegar við sögðum bandarískum túristum til vegar. Þeir bentu á götu á kortinu sínu og spurðu hvort við vissum hvar hún væri. Þeir voru að leita að Strikinu – og voru á því.

 • Kaffihús, kaffihús, kaffihús. Mikið ofboðslega eru mörg góð kaffihús í þessari borg.
Og ýmislegt fleira var mjög skemmtilegt, ég gæti haldið áfram drjúga stund. Kannski skrifa ég ferðasögu einhvern næstu daga. Ef ég nenni.

föstudagur, 5. mars 2004

Arrrg – það er tveggja tíma seinkun á fluginu. Ég hefði ekki átt að hlakka svona mikið yfir því að ég væri að fara af stað.
Ferðafiðringurinn hefur aukist jafnt og þétt síðustu daga - og nú fer ég alveg að standa upp frá skrifborðinu og halda af stað til Kaupmannahafnar. Ég hlakka svoooooo til! Ferðaundirbúningurinn er svolítið í þeim anda sem Þórdís nefndi um daginn, ekkert yfirþyrmandi flókinn. Venjulega næ ég mér í smávegis gjaldeyri áður en ég fer af stað til útlanda - ef ske kynni að ég fyndi ekki hraðbanka undireins - en nú er ég ekki einu sinni búin að því. Kæruleysið algjört. Annars minnir mig að það hafi verið lítið mál að finna hraðbanka síðast þegar ég lenti á Kastrup, þannig að kannski er kæruleysið ekki svo mikið þegar að er gáð. Samt: eins gott að kortið klikki ekki!

fimmtudagur, 4. mars 2004

Haha.

I don't want a toaster.
Furnulum pani nolo.
"I don't want a toaster."

Generally, things (like this quiz) tend to tick you off.
You have contemplated doing grievous bodily harm to door-to-door salesmen.

Which Weird Latin Phrase Are You?
brought to you by Quizilla

miðvikudagur, 3. mars 2004

Samkvæmt DV í dag „gleymdist“ að taka fram á laugardaginn að forsíðumyndin væri samsett. Þótt það sé ágætt að blaðið birti leiðréttingu er „gleymskan“ álíka trúleg og staðhæfingar Árna Johnsens á sínum tíma um að þéttidúkurinn frægi hefði aldrei verið í Vestmannaeyjum. Þvílík hræsni.
Meira um samsettar myndir: DV virðist mjög farið að leggja það í vana sinn að hafa samsettar myndir á forsíðunni. Á mánudaginn gerðist það aftur. Þá var reyndar tekið fram að myndin væri samsett – en ekki tók ég eftir því þegar ég sá blaðið. Frétti af þessu eftir á, skoðaði blaðið þá aftur og fann tilkynninguna á endanum. Hún var á hlið úti í jaðri með smáum stöfum. Maður þurfti virkilega að leita að henni. Frekar litlar líkur á að fólk ræki augun í hana. Ákaflega lítið skárra en skandallinn um helgina.

þriðjudagur, 2. mars 2004

Það er hægt að ljúga með myndum á margvíslegan hátt. Sá sýningu í Þýskalandi fyrir nokkrum árum sem var góð áminning um að myndafalsanir geta verið margs konar. Það var ekki bara logið með myndum í Sovétríkjunum sálugu þegar mönnum sem féllu í ónáð var eytt af gömlum myndum og þeir þar með þurrkaðir af spjöldum sögunnar. Og það er víðar logið með myndum nú til dags en í tískublöðum og auglýsingum með ofurfótósjoppuðum módelum.

Sýningin um „myndir sem ljúga“ rifjaðist rækilega upp þegar ég sá forsíðuna á DV um helgina. Dramatísk fyrirsögn og mynd af tveimur brosandi konum. Engin spurning að það fyrsta sem flestum dettur í hug er að báðar séu í „opinskáu“ viðtali við blaðið og hafi verið myndaðar saman fyrir það – og til þess er leikurinn væntanlega gerður. Fæstir lesa blaðið og komast kannski aldrei að því að manneskjurnar hafi ekki komið nálægt málinu á nokkurn hátt – hvorki talað við blaðið né mætt í myndatöku. Forsíðumyndin var nefnilega klippt saman úr gömlum myndum – og það var gert þannig að ekki sæist við fyrstu sýn að myndin væri samsett. Það fer ekkert á milli mála að tilgangurinn er að gefa fólki falska mynd af innihaldi blaðsins – og af þessum tveimur manneskjum í leiðinni. Ákveðin tegund lygi. Ótrúleg vinnubrögð.
Jæja, sólin er farin að skína aðeins. Þetta stefnir allt til hins betra.
Veðrið er viðbjóðslegt. Grámygla og slagviðri. Þoli ekki svona.

mánudagur, 1. mars 2004

Ég skrapp á bókamarkaðinn rétt fyrir lokun á laugardaginn – ætlaði bara að líta lauslega á hann og fara seinna í innkaupaferð. En að sjálfsögðu tókst mér að eyða alltof miklum peningum þótt ég hefði bara tíu mínútur til þess. Úff. Hundraðasta og ellefta meðferð á vísakorti. Einu sinni enn.

En auðvitað er alltaf gaman að eiga nýjar bækur. Og þetta eru ágætir tímar með ýmsum tilhlökkunarefnum. Í dag byrja ég í magadansi í Kramhúsinu, um helgina fer ég til Kaupmannahafnar ... – og það er ábyggilega margt fleira skemmtilegt framundan. Býsna sátt við tilveruna.

föstudagur, 27. febrúar 2004

Flaumræn greind? Ekki vissi ég að svoleiðis væri til – en maður lærir alltaf eitthvað nýtt; í DV í dag er því nefnilega haldið fram að tiltekinn maður búi yfir „analógískri greind“. Hlýtur „stafræn greind“ þá ekki líka að vera til? Hún væri þá kannski einkennandi fyrir vélmenni en sú analógíska til marks um mennska eiginleika.

P.S. Ætlaði einhver snillingurinn kannski að tala um „analýtíska“ greind? Ýmislegt skondið getur gerst þegar menn reyna að slá um sig með flóknum orðum sem þeir skilja ekki.

miðvikudagur, 25. febrúar 2004

Í dag væri viðeigandi að skrifa nostalgíublogg um öskudaginn á Akureyri (söngæfingar öskudagsliða, búningaföndur o.fl. o.fl.) og hversu mjög hann hafi tekið hinni lélegu reykvísku eftiröpun fram (og geri vonandi enn). En það ætla ég ekki að gera. Allavega ekki í bili. En öskudagurinn var sko hörkuvinna.

Er bjartsýn á að dagurinn í dag verði skárri en gærdagurinn þegar ég fór kolvitlausum megin fram úr rúminu og eyddi vinnudeginum að mestu í að reka mig í, sulla niður kaffi og vera pirruð yfir fánýtum smáatriðum. Og ekki batnaði það eftir vinnu. Ég ætlaði að taka á mig krók á heimleiðinni, koma við í Melabúðinni og kaupa saltkjöt - en það reyndist uppselt (ábyggilega umfjölluninni í Fréttablaðinu að kenna). Þá gekk ég út í Nóatún – svo ég yrði örugglega komin nógu langt að heiman og gæti verið viss um að frjósa í hel á heimleiðinni. Í Nóatúni fékk ég saltkjöt og eldaði það þegar heim var komið. Fingurna kól sem betur fer ekki af mér á heimleiðinni en það lá nærri. Mistök að vera með asnalega hanska í staðinn fyrir lopavettlinga.

Hörmungum dagsins var samt ekki lokið. Ekki nóg með að bróðir minn tæki fagnandi á móti mér og æfði á mér nýjar aðferðir til að snúa fólk niður sem hann hafði lært þá um daginn. [Innskot: Drengurinn er í Lögregluskólanum. Hann er ekki enn búinn að koma heim og segja: „Í dag var okkur kennt að telja mótmælendur.“ En það hlýtur að koma að því. Ég bíð spennt.] Ó, nei. Það versta var eftir. Saltkjötið úr Nóatúni var nefnilega vont. Ég hef aldrei fengið eins vont saltkjöt. Sem betur fer tókust baunirnar ágætlega – enda setti ég ekki nema agnarlítið af saltkjötssoðinu í þær, sem var auðvitað eins óætt og kjötið sjálft. Baunirnar urðu sérstaklega góðar þegar ég setti ferskt kóríander út í þær. Mjög ánægð með þá hugdettu. En ótrúlega mörgum hefur fundist það svívirðileg helgispjöll að nota eitthvað "nýtt" út í þær. Skil þetta ekki. Heldur fólk kannski að gulrætur og rófur hafi alltaf verið ræktaðar á Íslandi?

þriðjudagur, 24. febrúar 2004

Það voru mistök að fara á fætur í morgun.

mánudagur, 23. febrúar 2004

Hah! Ég bakaði vatnsdeigsbollur í gærkvöld. Og byrjaði meira að segja löngu fyrir miðnætti, þ.e. um tíuleytið í gærkvöld. Reyndar misheppnuðust þær hálfvegis -- en þær eru samt ágætar á bragðið. Það skiptir mestu.

En nú er tekinn við annars konar vandræðagangur. Sko: Bróðir minn er búinn að búa hjá mér frá áramótum. Við skiptumst á að elda; sjáum um viku í senn. Og núna er mín vika að elda. Og ég ætlaði að halda þjóðlegar hefðir í heiðri: elda fiskbollur í kvöld og saltkjöt & baunir annað kvöld. En ég hugsaði ekki út í að svoleiðis matur yrði að sjálfsögðu líka í mötuneytinu. Það flækir málin svolítið því mig langar ekki að borða það sama tvisvar sama daginn tvo daga í röð.

Ég gæti auðvitað fengið mér salat núna og eldað fiskbollur í kvöld. En ég er svöng. Mig langar í almennilegan mat. Kannski ég fái mér fiskbollurnar -- og eldi svo bara öðruvísi fiskbollur í kvöld. Kannski með hellingi af rifnum gulrótum og einhverju undarlegu kryddi. Svo fæ ég mér bara salat í hádeginu á morgun og elda svo saltkjöt & baunir. Auðvitað geri ég þetta svona. Málið leyst. Af hverju vesenast maður stundum svona mikið yfir einföldum hlutum?

sunnudagur, 22. febrúar 2004

Er að reyna að ákveða hvort ég nenni að baka bollur í kvöld eða hvort ég kaupi bara ófylltar vatnsdeigsbollur. Keypti bollur í fyrra og það var svosem í lagi, en búðarbollur eru samt asnalegar. Stórar og klunnalegar. Vatnsdeigsbollurnar sem ég baka eru litlar og sætar. (Undantekning frá reglunni um að ég sé ekkert tiltakanlega pen.) Svo eru þær auðvitað miklu betri. Ég væri vís til að vandræðast yfir þessu fram eftir kvöldi en taka svo brjálæðiskast undir miðnætti og baka svolítið. Stundum geri ég hlutina á undarlegum tímum. Það kemur í ljós hvernig fer í þetta sinn.

laugardagur, 21. febrúar 2004

Lhasa er frábær. Hef hlustað mikið á gamla diskinn hennar, La Llorona, sem er algjört æði; tók hann hvað eftir annað á bókasafninu í fyrra – en kom því loksins í verk að kaupa hann um daginn og nýja diskinn líka, The Living Road. Hann er fínn, samt kannski ekki alveg eins góður. Þar syngur hún ýmist á spænsku, frönsku eða ensku – og enn sem komið er finnst mér síst að hlusta á hana á ensku. Svipað og þegar Edith Piaf syngur á ensku; það passar ekki. Franskan hjá Piaf er svo órjúfanlegur hluti af tónlistinni, og ég held að svipað megi segja um Lhösu (verður ekki að beygja nafnið svona?); spænskan fellur betur að tónlistinni hennar (og franskan líka).

Held að uppáhaldslagið mitt með Lhösu sé fyrsta lagið á gamla disknum, De cara a la pared. Rigningarhljóðið í því er algjörlega ómótstæðilegt. Þegar veðrið er andstyggilegt, slagviðri og viðbjóður, er fátt betra en að spila þetta lag og ímynda sér að rigningin sé hitaskúr og maður gangi um steinlagðar borgargötur að kvöldlagi í þunnum sumarkjól. (Kannski ekki alveg í samræmi við grátinn og kveinstafina sem ég held að sé lýst í textanum, en það er annað mál.)

föstudagur, 20. febrúar 2004

Eitt próf fyrir helgi.You're Catch-22
! by Joseph Heller

Incredibly witty and funny, you have a taste for irony
in all that you see. It seems that life has put you in perpetually
untenable situations, and your sense of humor is all that gets you
through them. These experiences have also made you an ardent
pacifist, though you present your message with tongue sewn into cheek.
You could coin a phrase that replaces the word "paradox"
for millions of people.Take the Book Quiz at the Blue Pyramid.

Nú eru litlu hringirnir að sameinast í einn stóran.
Það eru skrilljón leikskólabörn úti á Austurvelli. Þau haldast í hendur og mynda hringi. Ætli þetta eigi að vera umhverfislistaverk?
Endanlega orðin galin? Það hélt ég sem snöggvast í gær. Fannst ískyggilegt að sjónin sviki mig hastarlega annan daginn í röð. Ég gekk nefnilega upp Bankastrætið eftir vinnu og fannst ég sjá risatúlípana. Varð hrædd um að næst breyttist rykið undir rúminu í litla græna kalla og ég færi að heyra raddir sem segðu mér að teikna lítil hjörtu á öll þingskjölin eða eitthvað þaðan af verra. En þegar betur var að gáð reyndist þetta ekki skynvilla. Það var í alvörunni búið að breyta ljósastaurunum í túlípana. Hrikalega flott.

Það er víst að koma helgi einu sinni enn og ég er ekki búin að blogga um þá síðustu eins og ég ætlaði mér. Kannski kemst það í verk í dag.

miðvikudagur, 18. febrúar 2004

Stundum mætti halda að ég væri ólæs. (Sem væri frekar óheppilegt í mínu starfi.) Rétt í þessu leit ég á tölvuskjáinn þar sem lagasafnið blasti við (í númeraröð) – og varð svolítið hverft við því ég sá þarna glænýtt lagaheiti. Þegar ég neri augun og kannaði málið betur kom auðvitað í ljós að lög um ráðstöfun dauðra eru alls ekki til! Hins vegar eru til lög um ákvörðun dauða (nr. 15/1991) og í næstu línu á eftir eru lög um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum (nr. 13/1991).

Ég er reyndar nokkuð ánægð með þetta nýja lagaheiti. Hvernig væri að breyta um heiti á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu? Lög um ráðstöfun dauðra er mun þjálla. Það væri hægt að nota tækifærið og bæta við nýju ákvæði þar sem ítrekað væri að hafnir teljist ekki lögmætir grafreitir.

mánudagur, 16. febrúar 2004

Gullkorn (?) dagsins heyrðist í Kastljósinu rétt í þessu:
„... ef eitthvað ófyrirséð gerist sem erfitt er að sjá fyrir núna ...“
Bráðabirgðatiltekt í tenglasafninu lokið. Það kemur í ljós hvernig nýja skiptingin reynist. Helstu breytingar aðrar: Nokkrum sem telja má hafa hætt að blogga (er ég að reyna að setja met í því hversu mörgum sagnorðum er hægt að raða saman, eða hvað?) var varpað út í ystu myrkur, einstaka aðilar að sams konar hegðun voru sendir í Niflheim niður, nokkrir linkar voru uppfærðir. Nýir linkar eru á Eyðimörkina og Hildi Eddu, frænku mína, og Pezið sem ég hef ítrekað gleymt að linka á. Telja má vafalaust að ég gleymi að linka á einhverja aðra. En það er hefð og gerir því ekkert til.
Meðmæli dagsins fær eyðimerkurbloggið. Það fær fastan link þegar ég kem því í verk að stokka upp vinstri vænginn. Núverandi dilkadráttur er alveg hættur að virka.

Indælis helgi að baki annars. Blogga kannski um hana á eftir ef ég finn mér tíma til þess. Eða á morgun.
Ostaprófið:
I am feta!
I am a salty, crumbly cheese from Greece.
I am overflowing with charisma.
I am a confident intellectual who is very ambitious.

Cheese Test: What type of cheese are you?

miðvikudagur, 11. febrúar 2004

Persónuleikapróf dagsins:

Virginia Woolf
You are Virginia Woolf! You were openly bisexual
and had public affairs, but you never liked
sex. You wrote a seminal feminist work, long
before feminists knew that they were feminists.
In this vein, you never really considered
yourself a feminist. You were a tragic figure,
but a damn genius.

Which Western feminist icon are you?
brought to you by Quizilla

þriðjudagur, 10. febrúar 2004

Þreyta er hverfult hugtak. Slenið sem hrjáði mig á föstudaginn hvarf eins og dögg fyrir sólu undir kvöldið (hmmm, sennilega öfugsnúið að blanda sólinni í þetta), og í vinnupartíinu (sem stóð langt fram á nótt) var ég auðvitað með þeim síðustu út. Hugmyndir um að ég færi ábyggilega snemma heim sökum þreytu reyndust að sjálfsögðu ranghugmyndir. Var bara þeim mun uppgefnari á laugardaginn í staðinn. En það gerði nú ekkert til.

Gerði ekkert um helgina – þrátt fyrir nokkur verkefni sem biðu – nema að lesa þrjár Rankin/Rebus-bækur. Hægt að eyða tímanum í ýmislegt verra en það. Já, og svo fór ég í bíó – á Leyndardóm gula herbergisins sem er á frönsku kvikmyndahátíðinni. Gaman að ýmsu í henni, en fimmaurabrandararnir voru stundum óþarflega langir. Eiginlega voru heldur mörg atriði einn langur fimmaurabrandari. Gat orðið pínu þreytandi.

Annars er ég búin að uppgötva að það sé misskilningur að sólarhringinn vanti nokkra klukkutíma. Ég er allavega búin að skipta um skoðun. Núna langar mig meira í aukadag í vikuna. Aukafrídag. Þegar ég á frí um helgar er ég oft búin að vera á laugardegi eftir langa og stranga vinnuviku (ekki síst eftir viku eins og þá síðustu sem tók töluvert á en var líka stórskemmtileg). Á hefðbundnum sunnudegi er ég svo aðeins að hjarna við og á góðri leið með að fara hugsanlega að koma einhverju í verk innan tíðar. En svo verður aldrei af neinu því maður þarf að mæta aftur í vinnuna á mánudegi.

Möguleg lausn á þessu gæti verið að gera mánudag að frídegi en mér fyndist það ekkert sérlega góð hugmynd. Mig langar ekkert að vinna minna en ég geri. Mig langar bara í meira frí. Nýjan frídag á eftir sunnudegi en á undan mánudegi. Hann gæti heitið aukadagur.
Skemmtilegt próf og ágætis niðurstaða:


I am infinity

You may worship me,
but from afar

_

what number are you?

föstudagur, 6. febrúar 2004

Tíminn heldur áfram að vera skrýtinn. Þegar vekjaraklukkan hringdi í morgun var ég heillengi að átta mig á því hvort það væri föstudagur eða laugardagur. (Var býsna lengi í vinnunni í gærkvöld; svolítið rugluð í kollinum eftir allan hasarinn.) Á endanum tókst mér að snúa heilanum í gang og uppgötva að sennilega væri föstudagur og ég þyrfti þess vegna að mæta í vinnuna þótt mig langaði mest af öllu að fara aftur að sofa – en ég reyndi að hugga mig við það að ég myndi bara leggjast upp í sófa undireins og ég kæmi heim í dag og ekki hreyfast þaðan fyrr en ég færði mig inn í rúm.

En svo gerði ég þá „óþægilegu“ uppgötvun að ég yrði að mæta í vinnupartíi í kvöld. Ekki misskilja mig – það er sko nákvæmlega engin kvöð, enda bý ég við einhverja skemmtilegustu vinnufélaga sem til eru norðan Mundíufjalla og þótt víðar væri leitað. En ég er þreeeeeyyyyytt. (Er þetta til marks um að ég sé orðin öldruð? Þegar það þyrmir næstum yfir mig við tilhugsunina um skemmtanir?)

Eins gott að það er að koma helgi. Veit ekki hvenær í ósköpunum ég ætti annars að hafa tíma til að lesa allan bækurnar eftir Ian Rankin sem ég var að fá lánaðar án þess að stofna svefninum í stórhættu. Eins og stundum hefur gerst. Gerði eitt sinn þau mistök að byrja að lesa The Falls á mánudagskvöldi, gat að sjálfsögðu ekki hætt fyrr en ég sofnaði ofan í bókina, var illa sofin í vinnunni á þriðjudegi, gat samt ekki annað en klárað bókina um kvöldið (eða nóttina), var aftur illa sofin á miðvikudegi og ætlaði svo sannarlega að bæta úr um kvöldið og fara snemma að sofa. En slysin gera ekki boð á undan sér. Þennan dag kom Resurrection Men upp í hendurnar á mér. Og leikurinn endurtók sig.
Atgervisflótti úr bloggheimum hefur verið heldur mikill síðustu mánuði. En sem betur fer kemur enn fyrir að gott fólk nemi þar land, Hugrún vinkona mín er t.d. nýbyrjuð að blogga. Gott hjá henni. Annað en hjá sumum.

fimmtudagur, 5. febrúar 2004

Mikið getur tíminn verið afstæður og liðið undarlega. Stefán og Steinunn voru svo indæl að bjóða mér í mat í gærkvöld og við kjöftuðum síðan út í eitt fram eftir kvöldi, ja og eiginlega svolítið lengur. Tíminn leið nefnilega eftir svo undarlegum brautum. Ég leit þrisvar á klukkuna. Fyrst reyndist hún vera rúmlega tíu, og ég var ógurlega fegin að hún skyldi ekki vera orðin meira. Næst var komið miðnætti, og þá hugsaði ég: „Jæja, það er nú best að fara að koma sér heim.“ Síðan leið bara smástund í viðbót – að mér fannst. Þannig að ég skil bara ekkert í því hvernig klukkan fór að því að vera orðin tvö. Allt í einu. Svona getur tíminn gufað upp þegar maður er með skemmtilegu fólki. (Bestu þakkir fyrir mig.)

Á nýliðnu bloggauðnartímabili hefur annars ótalmargt skemmtilegt gerst. Það voru auðvitað jól – sem voru ósköp indæl og áramótin sömuleiðis. Best af öllu var samt afmælið mitt um daginn. Ég er búin að vera í væmniskasti síðan (virðist orðið fastur liður á þessum árstíma) yfir því hvað mér finnst vinir mínir frábærir og æðislegir og ég veit ekki hvað og hvað. Það er svo sem ekki slæmt.

Já, og svo eru stórfréttir: Fastur liður á þessu bloggi hafa verið kvartanir og kveinstafir yfir skorti á bókahillum – en nú verður hlé á slíku nöldri. Ég keypti mér nefnilega bókahillur um daginn! Alveg helling! Þrjá Billy-bókaskápa með upphækkun. Allgott. (Í fornri merkingu forliðarins all-.)

þriðjudagur, 3. febrúar 2004

Það er lygi og rógburður að ég sé hætt að blogga. Kannski þarf ég að viðurkenna nokkurn skort á bloggdjörfung og -dug, en það þýðir ekki – endurtek: ekki – að ég hafi nokkurn tíma hætt að blogga. Alls ekki. Ég hef til dæmis verið frekar dugleg að blogga í huganum. Kannski ég reyni að halda því fram að ég hafi verið að gera tilraunir með fjarhrif á bloggsíðuna mína. Þær hafa augljóslega ekki skilað neinum árangri – spurning hvort ég er nauðbeygð að gefa þær upp á bátinn eða hvort ég ætti að halda þeim áfram? Hugarburður getur verið miklu skemmtilegri en raunveruleikinn.