þriðjudagur, 2. mars 2004

Það er hægt að ljúga með myndum á margvíslegan hátt. Sá sýningu í Þýskalandi fyrir nokkrum árum sem var góð áminning um að myndafalsanir geta verið margs konar. Það var ekki bara logið með myndum í Sovétríkjunum sálugu þegar mönnum sem féllu í ónáð var eytt af gömlum myndum og þeir þar með þurrkaðir af spjöldum sögunnar. Og það er víðar logið með myndum nú til dags en í tískublöðum og auglýsingum með ofurfótósjoppuðum módelum.

Sýningin um „myndir sem ljúga“ rifjaðist rækilega upp þegar ég sá forsíðuna á DV um helgina. Dramatísk fyrirsögn og mynd af tveimur brosandi konum. Engin spurning að það fyrsta sem flestum dettur í hug er að báðar séu í „opinskáu“ viðtali við blaðið og hafi verið myndaðar saman fyrir það – og til þess er leikurinn væntanlega gerður. Fæstir lesa blaðið og komast kannski aldrei að því að manneskjurnar hafi ekki komið nálægt málinu á nokkurn hátt – hvorki talað við blaðið né mætt í myndatöku. Forsíðumyndin var nefnilega klippt saman úr gömlum myndum – og það var gert þannig að ekki sæist við fyrstu sýn að myndin væri samsett. Það fer ekkert á milli mála að tilgangurinn er að gefa fólki falska mynd af innihaldi blaðsins – og af þessum tveimur manneskjum í leiðinni. Ákveðin tegund lygi. Ótrúleg vinnubrögð.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli