mánudagur, 24. janúar 2005

Fólk hefur lengi keppst við að telja mér trú um að ég verði gömul í dag. En mér finnst ég bara degi eldri en í gær - og þótt ég teljist vera orðin þrítug núna finnst mér það bara engin breyting. Á sínum tíma fannst mér pínu skrýtið að verða tvítug - og líka tuttugu og fimm - hvort tveggja virkaði aðeins of fullorðinslegt. En mér finnst bara fínt að vera orðin þrítug. Er kannski sérlega óhóflegt fullorðinseinkenni að finnast þrítugsafmælið ekkert stórmál?

sunnudagur, 23. janúar 2005

Annaðhvort var sunnudagskrossgáta Moggans óvenju létt að þessu sinni eða ég í sérlega góðu stuði því ég kláraði hana á minna en þremur korterum; var meira að segja búin með öll orðin nema tvö innan hálftíma. Þetta tók eiginlega fullfljótt af - miklu skemmtilegra ef maður þarf virkilega að brjóta heilann.

Til huggunar því fólki sem hefur haft áhyggjur af því að ég myndi loka mig inni í krossgátueinangrun um helgina er rétt að upplýsa að mannleg samskipti hafa verið allnokkur það sem af er. Fyrst kom Þorgerður frænka mín með frábæra afmælisgjöf: gamla litaða ljósmynd úr fallegustu sveit í heimi þar sem Sellandafjall og Bláfjall sjást í allri sinni dýrð. Og svo dreif ég mig út úr húsi og naut góðs af kryddbrauðinu hennar Steinunnar. Afar notaleg stund.

Kannski ég haldi áfram með hjartagátubunkann (leysti tvær í gærkvöld mér til mikillar gleði) fyrst sunnudagskrossgátan tók styttri tíma en áætlað var. Eða lesi eitthvað skemmtilegt. Kannski ég kasti upp krónu ... eða fimmtíukalli - ég á víst ekki krónu. Ef krabbinn kemur upp er það krossgátan, landvættirnar (þoli ekki þegar fólk veit ekki að þetta er kvenkynsorð) leiða af sér lestur. Einn, tveir og ... krabbinn var það. Byrja þá allavega á hjartagátunni. Les kannski eitthvað skemmtilegt á eftir.

föstudagur, 21. janúar 2005

Það bjargar því sem bjargað verður að mér var að áskotnast ljósritabunki með fornu efni: hjartakrossgátunni úr Þjóðviljanum, blessuð sé minning hans. Ég get því svalað hömlulausri krossgátufíkn minni sæmilega um helgina. Hún blossaði upp í sumar eftir margra mánaða eða ára hlé og ekkert lát er á. Ég forðaðist lengi vel að kynna mér skrýtnu krossgátuna í sunnudagsmogganum því ég sá fram á að ég gæti aldrei látið hana vera ef ég lenti einu sinni í klónum á henni - en ágæt frænka mín kom mér á bragðið og síðan varð ekki aftur snúið. Þannig að núna um helgina get ég bæði hlakkað til sunnudagskrossgátunnar og bunkans af hjartagátunni. Þetta verður sennilega ágætis helgi þrátt fyrir allt.
Ég vil fá bækurnar mínar núna strax. Ég vil það svo mikið að það liggur við að ég setji auka-l í "vil" til áherslu! Sko - málið er að ég pantaði bækur frá Amazon.co.uk um daginn og þegar ég kom heim í gærkvöld beið miði um að það hefði verið reynt að koma með sendinguna til mín. Miðinn var ekki frá póstinum eins og venjulega heldur frá DHL (þótt þetta væri ekkert hraðsending - ætli DHL sé kannski komið með einhvern allsherjarsamning við Amazon?). Mér fannst þetta vond býtti því ég vinn rétt hjá pósthúsinu niðri í bæ þannig að það er lítið mál fyrir mig að sækja pakka þangað. DHL er hins vegar í Sundahöfn. En ég tók gleði mína á ný þegar ég sá að á miðanum stóð: "hringdu og við komum með sendinguna til þín". Þannig að ég hringdi í morgun og bað um að fá sendinguna í vinnuna og sá sem ég talaði við sagðist myndu sjá til þess. Svo leið og beið og það var orðið fulllangt liðið á daginn án þess að ég hefði nokkuð séð til bókanna þannig að ég hringdi aftur. Sá sem ég talaði við þá sá engin merki um að það hefði verið beðið um þessa meðferð á sendingunni og sagði að enginn á svæðinu myndi eftir að hafa talað við mig. Ég spurði þá hvort ég þyrfti að sækja þetta til þeirra ef ég vildi fá þetta í dag - á miðanum sem ég fékk stóð nefnilega líka að ég gæti sótt pakkann sjálf á Sundabakka milli 16 og 17. En nei nei - það átti greinilega ekki við nein rök að styðjast því þarna var mér sagt að fjandans sendingin væri í Keflavík!!! Og ég fæ bækurnar mínar ekki fyrr en á mánudagsmorguninn. Þ.e.a.s. mér var sagt að ég fengi þær á mánudagsmorguninn. Sé alveg eins fram á einhverja hringavitleysu a.m.k. næstu vikuna yfir þessu. Ég er ekki glöð.

þriðjudagur, 18. janúar 2005

Hvað á þetta eiginlega að þýða? Það getur ekki verið að ég hegði mér í samræmi við aldur - eða öllu heldur "næstum því aldur" því það eru nú ennþá sex dagar í þrítugsafmælið.
You Are 30 Years Old

30

Under 12: You are a kid at heart. You still have an optimistic life view - and you look at the world with awe.

13-19: You are a teenager at heart. You question authority and are still trying to find your place in this world.

20-29: You are a twentysomething at heart. You feel excited about what's to come... love, work, and new experiences.

30-39: You are a thirtysomething at heart. You've had a taste of success and true love, but you want more!

40+: You are a mature adult. You've been through most of the ups and downs of life already. Now you get to sit back and relax.þriðjudagur, 4. janúar 2005

Fyrirfram var ég viss um að skaupið yrði hundleiðinlegt þannig að það kom mér ánægjulega á óvart að svo skyldi ekki fara - mér fannst það meira að segja býsna skemmtilegt. Samt frekar merkilegt að láta frummyndirnar leika eftirmyndir af sjálfum sér. En síðustu ár hefur verið lögð sífellt meiri áhersla á gervin og að þau séu sem nákvæmust - sennilega hefur þetta talist rökrétt framhald.

Skemmti mér því miður ekki eins vel í bíó í fyrradag. Þegar ég heyrði að það ætti að gera framhald af Með allt á hreinu fannst mér það hljóma afspyrnu illa en svo gaf allt sem ég heyrði um myndina til kynna að trúlega mætti hafa gaman af henni þannig að ég fór tiltölulega vongóð í bíó. Vonbrigðin voru því umtalsverð þegar mér stökk varla bros nema kannski þrisvar.

mánudagur, 3. janúar 2005

Gleðilegt ár. Ástandið í heiminum er ömurlegt, líf fólks í kringum mig var misgott á árinu (frábært hjá sumum, verra hjá öðrum) en ég ætla ekki að taka upp á þeirri nýbreytni að blanda því mikið inn í þetta blessað blogg. Það hefur verið egósentrískt röfl og kjaftæði frá upphafi og verður áfram. (Mér finnst engin ástæða til að taka fram að það sé ekki tæmandi lýsing á hugsunum mínum.)

Ég er ekki mikið fyrir áramótauppgjör - og finnst áramótaheit glatað fyrirbæri - en samt hefur maður tilhneigingu til að líta aðeins um öxl á þessum tíma þótt ég sé reyndar með gúbbífiskaminni dauðans. Kannski er það ástæðan fyrir því að mér finnst ekkert sérlega margt hafa gerst á árinu. Held að það sé þó ekki eingöngu misminni að mér finnist ég hafa siglt tiltölulega lygnan sjó. Samt gerðist auðvitað margt nýtt - t.d. var ég í sömu vinnunni allt árið og ég átti líka sumarfrí. Hvort tveggja var glæný lífsreynsla og nokkuð góð, enda er ég mjög ánægð í vinnunni. Samt frekar fyndið að helstu breytingarnar skuli vera breytingaleysi. Kannski óhóflegt fullorðinseinkenni en ekki endilega slæmt.

Auðvitað var margt annað nýtt án þess að vera status quo. Ég fór t.d. miklu oftar til útlanda en nokkru sinni áður, vísakortinu til lítils hagnaðar en sjálfri mér til gríðarlegs fagnaðar (nema þegar vísareikningarnir komu). Og þetta æsti bara upp í mér enn frekari ferðalöngun. Meðal þess sem mig langar að gera á þessu ári er því augljóslega að ferðast meira. Á árinu byrjaði ég líka í magadansi í Kramhúsinu mér til bæði gagns og gamans enda ætla ég að sjálfsögðu að halda áfram. Mig langar líka að læra ýmsar fleiri gerðir af dansi. Af hverju eru svona fáir klukkutímar í sólarhringunum? Svo langar mig að sjálfsögðu alltaf að lesa meira (enda er það skemmtilegast af öllu). Og hitta vini mína oftar. Það stendur svo sem ekki upp á mig eina, það hafa allir eitthvað svo mikið að gera (þar á meðal ég sjálf). Er eitthvert skeið núna þar sem allir eru að drukkna í vinnu og öðrum verkefnum?