föstudagur, 21. janúar 2005

Ég vil fá bækurnar mínar núna strax. Ég vil það svo mikið að það liggur við að ég setji auka-l í "vil" til áherslu! Sko - málið er að ég pantaði bækur frá Amazon.co.uk um daginn og þegar ég kom heim í gærkvöld beið miði um að það hefði verið reynt að koma með sendinguna til mín. Miðinn var ekki frá póstinum eins og venjulega heldur frá DHL (þótt þetta væri ekkert hraðsending - ætli DHL sé kannski komið með einhvern allsherjarsamning við Amazon?). Mér fannst þetta vond býtti því ég vinn rétt hjá pósthúsinu niðri í bæ þannig að það er lítið mál fyrir mig að sækja pakka þangað. DHL er hins vegar í Sundahöfn. En ég tók gleði mína á ný þegar ég sá að á miðanum stóð: "hringdu og við komum með sendinguna til þín". Þannig að ég hringdi í morgun og bað um að fá sendinguna í vinnuna og sá sem ég talaði við sagðist myndu sjá til þess. Svo leið og beið og það var orðið fulllangt liðið á daginn án þess að ég hefði nokkuð séð til bókanna þannig að ég hringdi aftur. Sá sem ég talaði við þá sá engin merki um að það hefði verið beðið um þessa meðferð á sendingunni og sagði að enginn á svæðinu myndi eftir að hafa talað við mig. Ég spurði þá hvort ég þyrfti að sækja þetta til þeirra ef ég vildi fá þetta í dag - á miðanum sem ég fékk stóð nefnilega líka að ég gæti sótt pakkann sjálf á Sundabakka milli 16 og 17. En nei nei - það átti greinilega ekki við nein rök að styðjast því þarna var mér sagt að fjandans sendingin væri í Keflavík!!! Og ég fæ bækurnar mínar ekki fyrr en á mánudagsmorguninn. Þ.e.a.s. mér var sagt að ég fengi þær á mánudagsmorguninn. Sé alveg eins fram á einhverja hringavitleysu a.m.k. næstu vikuna yfir þessu. Ég er ekki glöð.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli