miðvikudagur, 31. mars 2004

Mig hefur lengi vantað saumavél og er að hugsa um að fara að gera eitthvað í málinu svo að ég geti t.d. farið að sauma mér pils eða kjól úr gömlu gardínunum sem ég keypti í Fríðu frænku fyrr í vetur. Veit einhver eitthvað um Elna-saumavélar? Eru þær almennilegar eða drasl?

þriðjudagur, 30. mars 2004

Þreytt, þreytt, þreytt. Og heiladauð. Mikið verður gott að horfa á Paradise Hotel á eftir. (PH er snilldarlega skelfilegur sjónvarpsþáttur. Ekki bara á botninum meðal sjónvarpsefnis heldur djúpt ofan í holu sem hefur verið grafin niður úr botninum. Ég fylgist spennt með.)

Akkuru er Eyðimerkurbloggarinn ekki kominn með upphitunarblogg fyrir þátt kvöldsins samkvæmt hefð? Röflar bara um páskaegg og eitthvað þaðan af verra.
Er aftur komið vor núna? Eða hvað?

mánudagur, 29. mars 2004

Heilinn er búinn að snúast í milljón skrilljón hringi í dag. Slíkt atferli hlýtur – auk andleysisaukningar – að takmarka hreyfigetu líkamans sem er afar óheppilegt þar sem ég fer í magadans á eftir og er ekkert búin að æfa mig heima. Þetta hlýtur að enda illa. (Í fyrstu atrennu skrifaði ég „enda“ með tveimur n-um sem sannar mál mitt; ég er tvímælalaust að verða heiladauð.)
Logndrífa er falleg.
Oftast er nauðsynlegt að geta opnað glugga. Ég er mjög hlynnt opnanlegum gluggum (sem er ávísun á kveinstafi og nöldur hjá kuldaskræfum) og finnst yfirleitt óþolandi að það skuli ekki vera opnanlegur gluggi á skrifstofunni minni. En suma daga er það sennilega heppilegt. Aldrei að vita hvað gæti annars dottið út.

sunnudagur, 28. mars 2004

Veturinn virðist kominn aftur. Svosem við því að búast. En þetta var ágætis vor meðan það entist. Bíð bara spennt eftir næsta vori – það hlýtur a.m.k. að koma í júní. Jafnvel fyrr.

föstudagur, 26. mars 2004

Ég hef aldrei vitað eins úthaldlaust drykkjulið og meðlimi Frjálsa kristilega léttvínsklúbbsins.
Nú styttist í að ársfundur Frjálsa, kristilega léttvínsklúbbsins hefjist. Það verður án efa merkileg samkoma. Að hluta hefur hún verið kvíðvænleg því að stjórn klúbbsins (þ.e. einvaldurinn) gerði það af skömmum sínum að skylda sérhvern meðlim til að mæta með drykkjukveðskap til flutnings fyrir hópinn. Krafan hefur valdið sálarkvölum, andvökum og skertri starfsorku, en áðan hafði ég það loksins af að hnoða einhverju saman. Vonandi verður ölvun orðin almenn þegar kemur að flutningi til að vísan nái að batna í réttu hlutfalli við innbyrt áfengismagn.

miðvikudagur, 24. mars 2004

Ég er í túlkunarfræðilegri krísu yfir heitinu á nýja leikritinu eftir Þorvald Þorsteinsson: Sekt er kennd.

Er kennd nafnorð í þessu samhengi, þ.e. ‘tilfinning’? Þá gæti sú hugmynd falist í heitinu að sekt sé sjálfsprottið og óviðráðanlegt fyrirbæri.

Eða er kennd beygingarmynd af sögninni kenna? Þá myndi heitið gefa til kynna að sekt sé lærð hegðun.

Birtast hér kannski gríðarleg átök milli eðlishyggju og mótunarhyggju? Nema maður sætti þau andstæðu sjónarmið með því að hafna hugmyndinni um að tilfinningar séu óviðráðanlegar. Þá lýsir hvort tveggja lærðri hegðun og túlkunarvandinn er úr sögunni.

Best að hugsa málið aðeins lengur.

þriðjudagur, 23. mars 2004

Alltof langt síðan léttúðugar greinar hafa birst á Múrnum. Hvað varð t.d. um bíórýnina? Og fróðleikshorn um fagra menn (uppáhaldsgreinaflokkinn minn)? Hvers á léttúðin að gjalda?
Íþróttir eru stórhættulegar, jafnt líkamlegri sem andlegri heilsu manns. Hélt að sund væri næstum eina íþróttin þar sem væri ómögulegt að koma sér upp álagsmeiðslum – en eftir 1000 m sund í gær er vinstra hnéð ekki sammála því. Þar að auki leiddi sundferðin í ljós að ég hef þyngst ennþá meira síðan í fyrra en ég hélt. Þar fór geðheilsan. Nema ég ákveði að vogin í Vesturbæjarlauginni sé ábyggilega vitlaus. Já, ætli ég geri það ekki bara. Er ekki best að varpa ábyrgðinni af sjálfum sér og kenna óviðráðanlegum ytri aðstæðum um allt sem miður fer?

föstudagur, 19. mars 2004

Ég er í rauðum skóm og með rauðan varalit.
Bráðum fer ég í rauðu kápuna mína og geng út í góða veðrið.
Karlmönnum er ekki treystandi fyrir vídeótækjum.

Seinnipartinn í gær kom í ljós að ég kæmist ekki heim til mín fyrr en seint um kvöldið. Reyndar myndi ég ná að sjá byrjunina á Gettu betur þar sem ég var en ekki alla keppnina. Hafði samt ekki miklar áhyggjur þar sem ég taldi mig vera búna að kenna bróður mínum rækilega á vídeóið mitt og hringdi því í hann og bað hann að prógrammera vídeóið til að taka upp keppnina og svo Beðmálin seinna um kvöldið. „Ertu ekki örugglega búinn að læra á þetta?“ spurði ég. „Jú, jú, þetta verður ekkert mál,“ var svarið sem ég fékk. Mér þótti samt vissara að ítreka mikilvægt atriði: „Þú manst að þú þarft að ýta á takkann sem er merktur timer on/off að lokum?“ Þessu var játað. Auðvitað myndi hann þetta.

Seint í gærkvöld kem ég heim til mín – dauðþreytt og hlakkaði mjög til að leggjast upp í sófa og horfa á keppnina (og Beðmálin). En á vídeóspólunni var ekki neitt. Og hvað hafði klikkað? Það hafði ekki verið ýtt á timer on/off. Arrrrg!

Maður skyldi greinilega aldrei treysta öðrum fyrir mikilvægum hlutum. Og ekki fer á milli mála að það er sérlega varasamt að treysta karlmönnum til réttrar umgengni við vídeótæki.

Akkuru í andsk... er Gettu betur ekki endursýnt. Ég er ekki sátt við þetta.

miðvikudagur, 17. mars 2004

Spurning dagsins:

Hvernig geta mannvirki legið í byggingum?

föstudagur, 12. mars 2004

Eitthvað við Kaupmannahöfn laðar fram í mér löngun til að kaupa eldhúsdót! Undarlegt - og þó. Kannski er þetta ekki svo skrýtið. Það er til svo óheyrilega mikið af flottum hlutum í þessari borg sem æpa hátt og skýrt: Kauptu mig, kauptu mig núna ... Ég ætlaði t.d. ekki að kaupa neitt í Illums bolighus (bara skoða) en féll gjörsamlega fyrir glerkrukku með bleiku plastloki sem lítill skrýtinn kall hangir neðan úr (hér er mynd). Og það er engin leið að komast út úr Bodum-búðinni án þess að kaupa eitthvað, þannig að núna á ég nýja fína pressukönnu (mig vantaði svoleiðis í alvörunni, glerið í gömlu pressukönnunni minni var brotið og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafði mér ekki tekist að fá nýtt gler sem passaði). Og svo rakst ég á hrikalega skemmtilega litla búð yfir í Kristjánshöfn sem heitir Inblik (ekki Ind- heldur In- (þetta er ekki stafsetningarvilla hjá mér)) og þar "varð" ég að kaupa mokkakönnu - sem er samt eiginlega ekki kanna (skilgreiningarvandi sem tengist könnum er að verða þema vikunnar) - því það er ekki hefðbundinn könnu-efripartur á henni, heldur pallur fyrir tvo bolla sem kaffið rennur beint í. "Kannan" mín líkist græjunni á þessari mynd nema á minni er neðriparturinn rauður, pípurnar svartar og bollarnir líta út eins og beygluð plastglös! Og svo er það auðvitað múmínbollinn sem áður var sagt frá (held að ég sé búin að ákveða að kalla þetta bolla).

(Er ég farin að nota sviga og innskot óhóflega?)

Mér finnst gaman að eiga skrýtna hluti! Þýðir það að ég sé skrýtin? Hah! það er gaman að vera skrýtin.

Og það er ekki allt upp talið: t.d. á ég líka nýja kápu - rauða sumarkápu. Gaman gaman!

Sko, söfnin í Kaupmannahöfn eru eiginlega öll lokuð á mánudögum. Þannig að þá neyðist maður beinlínis til að fara í búðir. Er það ekki annars?

Því miður komst ég ekkert í skóbúðirnar sem ég var búin að horfa svo mikið í gluggana á - eða kannski ætti ég að segja sem betur fer (með tilliti til heilsuverndar vísakortsins). Það eru hrikalega margar flottar skóbúðir í Kaupmannahöfn. En þegar ég var á leiðinni út í flugvél á Kastrup gekk ég framhjá Ecco-skóbúðinni þar og náði að kaupa ógurlega fína rauða skó á mettíma. Mmmmm.......

Trúlega þarf ekki mikla ályktunarhæfni til að sjá af þessari bloggfærslu að rauður er uppáhaldsliturinn minn.

miðvikudagur, 10. mars 2004

Nýi, fíni múmínbollinn minn lífgar aðeins upp á daginn. Hann er með mynd af múmínpabba, múmínmömmu, Míu litlu, múmínsnáðanum og snorkstelpunni og er ógurlega fínn. (Sjá efstu línuna miðja hér.)

Er þetta kannski kanna? Ég er ekki alveg viss. Drykkjarílátið rúmar nógu mikið til að geta verið kanna en hlutföllin eru heldur meira í ætt við bolla. Hvernig var málfræðiskilgreiningin aftur – man það ekki einhver?

Ætlaði eiginlega að kaupa bolla/könnu með mynd af Míu litlu, en fannst hann/hún ekki nógu falleg(ur) á litinn. Kannski kaupi ég svoleiðis bara seinna. En finnst ykkur ekki ósanngjarnt að það skuli ekki vera til svona leirtau með mynd af morranum?
Ég þooooli ekki þetta veður. Bara alls ekki.

þriðjudagur, 9. mars 2004

Mér finnst ömurlegt að vera komin aftur heim. Kaupmannahafnarferðin var semsagt mjög góð – mér tókst því miður ekki að hitta Auju, en var mjög ánægð með næstum allt annað (og finnst að maður ætti að geta farið til Kaupmannahafnar minnst einu sinni á ári). Svo kemur maður heim til þessa fúla lands í skítaveður. Held að ég hafi aldrei komið á Keflavíkurflugvöll öðruvísi en í roki. Ekki beinlínis til þess fallið að láta manni finnast gaman að búa hérna.

Meðal þess besta í ferðinni var:
  • Danskan mín virkaði prýðilega – ólíkt síðasta og eina skiptinu sem ég hef áður verið lengur en sólarhring í borginni. Þá var mér óþolandi oft svarað á ensku þótt ég talaði dönsku – en nú gerðist það aldrei. Ja, nema einu sinni og það tilfelli var svo asnalegt að það telst varla með. Ég var að kaupa Politiken í 7-eleven (leiðindabúlla) og afgreiðslumaðurinn sagði mér á ensku hvað blaðið kostaði. Ef maður kaupir danskt dagblað – ættu þá ekki að vera yfirgnæfandi líkur á að maður skilji dönsku? Hrmpf! Ein afgreiðslustúlkan skipti yfir í sænsku þegar hún talaði við mig – en ég get alveg lifað með því. Niðurstaðan: Annaðhvort hefur mér farið fram í dönsku eða viðhorf Dana til útlendinga sem reyna að tala málið breyst.

  • Borðaði þrjú dýr sem ég hef ekki smakkað áður: krókódíl, kengúru og ál. Tvennt það fyrra fékk ég á ástralska veitingastaðnum Reef'n'Beef - krókódíllinn var góður og kengúran algjörlega æðisleg (þótt meðfylgjandi hnetum væri dálítið ofaukið). Mæli með þessu. Var líka mjög hrifin af reykta álnum; fékk hann á ákaflega sætum frokostrestaurant sem var búið að benda mér á – eins gott, því ég hefði trúlega aldrei farið inn á hann annars; hann er nefnilega frekar óaðlaðandi að utan, og þar að auki er nafnið þannig að manni dettur fyrst í hug einhver ömurleg túristabúlla. En sú er alls ekki raunin; innra byrðið er verulega indælt. Staðurinn heitir Tivolihallen og er á horni Vester Voldgade og Stormgade. Mæli líka með honum.

  • Bíómyndin Forbrydelser er eftirminnileg. Mér leist ekkert sérlega á lýsinguna á henni – og hún hefði mjög auðveldlega getað orðið skelfileg – en hún var eiginlega mjög góð, vel leikin og lágstemmd; Dogma-stíllinn hæfði henni mjög vel – ef það hefði t.d. verið notuð áhrifstónlist eins og í „venjulegum“ myndum hefði hún orðið óbærilegt melódrama – en hún sveigði hjá nær öllum slíkum gildrum. Konan sem sat fyrir aftan mig skældi samt aðeins of mikið fyrir minn smekk.

  • Fór á Ríkislistasafnið og eignaðist nýjan uppáhaldsmálara sem ég hafði aldrei heyrt um áður: Cornelius Norbertus Gijsbrechts, sem var uppi á síðari hluta 17. aldar. Almennt höfða 17. og 18. öldin í myndlist ekki til mín – þess vegna er sérstaklega gaman að uppgötva eitthvað frá þeim tíma sem maður fellur í stafi yfir. Verkin sem ég sá eftir hann voru svo mikil myndlist um myndlist – og þótt maður viti vel að það sé ekki bara nútímalegt heldur hafi slíkt hafi verið til á öllum tímum kemur það oft skemmtilega á óvart.

  • Skemmtileg sýning á Listiðnaðarsafninu um danska hönnun síðustu 250 árin. Helsti gallinn við svona sýningar er að það megi ekki snerta neitt – maður þyrfti svo nauðsynlega að geta fundið áferðina á hlutunum, prófað að sitja í stólunum, athugað hvernig hnífapörin fara í hendi o.s.frv.

  • Það var mjög fyndið þegar Hanna og Jóna Finndís sofnuðu á kaffihúsi seinnipartinn á sunnudaginn.

  • Það var líka fyndið þegar við sögðum bandarískum túristum til vegar. Þeir bentu á götu á kortinu sínu og spurðu hvort við vissum hvar hún væri. Þeir voru að leita að Strikinu – og voru á því.

  • Kaffihús, kaffihús, kaffihús. Mikið ofboðslega eru mörg góð kaffihús í þessari borg.
Og ýmislegt fleira var mjög skemmtilegt, ég gæti haldið áfram drjúga stund. Kannski skrifa ég ferðasögu einhvern næstu daga. Ef ég nenni.

föstudagur, 5. mars 2004

Arrrg – það er tveggja tíma seinkun á fluginu. Ég hefði ekki átt að hlakka svona mikið yfir því að ég væri að fara af stað.
Ferðafiðringurinn hefur aukist jafnt og þétt síðustu daga - og nú fer ég alveg að standa upp frá skrifborðinu og halda af stað til Kaupmannahafnar. Ég hlakka svoooooo til! Ferðaundirbúningurinn er svolítið í þeim anda sem Þórdís nefndi um daginn, ekkert yfirþyrmandi flókinn. Venjulega næ ég mér í smávegis gjaldeyri áður en ég fer af stað til útlanda - ef ske kynni að ég fyndi ekki hraðbanka undireins - en nú er ég ekki einu sinni búin að því. Kæruleysið algjört. Annars minnir mig að það hafi verið lítið mál að finna hraðbanka síðast þegar ég lenti á Kastrup, þannig að kannski er kæruleysið ekki svo mikið þegar að er gáð. Samt: eins gott að kortið klikki ekki!

fimmtudagur, 4. mars 2004

Haha.

I don't want a toaster.
Furnulum pani nolo.
"I don't want a toaster."

Generally, things (like this quiz) tend to tick you off.
You have contemplated doing grievous bodily harm to door-to-door salesmen.

Which Weird Latin Phrase Are You?
brought to you by Quizilla

miðvikudagur, 3. mars 2004

Samkvæmt DV í dag „gleymdist“ að taka fram á laugardaginn að forsíðumyndin væri samsett. Þótt það sé ágætt að blaðið birti leiðréttingu er „gleymskan“ álíka trúleg og staðhæfingar Árna Johnsens á sínum tíma um að þéttidúkurinn frægi hefði aldrei verið í Vestmannaeyjum. Þvílík hræsni.
Meira um samsettar myndir: DV virðist mjög farið að leggja það í vana sinn að hafa samsettar myndir á forsíðunni. Á mánudaginn gerðist það aftur. Þá var reyndar tekið fram að myndin væri samsett – en ekki tók ég eftir því þegar ég sá blaðið. Frétti af þessu eftir á, skoðaði blaðið þá aftur og fann tilkynninguna á endanum. Hún var á hlið úti í jaðri með smáum stöfum. Maður þurfti virkilega að leita að henni. Frekar litlar líkur á að fólk ræki augun í hana. Ákaflega lítið skárra en skandallinn um helgina.

þriðjudagur, 2. mars 2004

Það er hægt að ljúga með myndum á margvíslegan hátt. Sá sýningu í Þýskalandi fyrir nokkrum árum sem var góð áminning um að myndafalsanir geta verið margs konar. Það var ekki bara logið með myndum í Sovétríkjunum sálugu þegar mönnum sem féllu í ónáð var eytt af gömlum myndum og þeir þar með þurrkaðir af spjöldum sögunnar. Og það er víðar logið með myndum nú til dags en í tískublöðum og auglýsingum með ofurfótósjoppuðum módelum.

Sýningin um „myndir sem ljúga“ rifjaðist rækilega upp þegar ég sá forsíðuna á DV um helgina. Dramatísk fyrirsögn og mynd af tveimur brosandi konum. Engin spurning að það fyrsta sem flestum dettur í hug er að báðar séu í „opinskáu“ viðtali við blaðið og hafi verið myndaðar saman fyrir það – og til þess er leikurinn væntanlega gerður. Fæstir lesa blaðið og komast kannski aldrei að því að manneskjurnar hafi ekki komið nálægt málinu á nokkurn hátt – hvorki talað við blaðið né mætt í myndatöku. Forsíðumyndin var nefnilega klippt saman úr gömlum myndum – og það var gert þannig að ekki sæist við fyrstu sýn að myndin væri samsett. Það fer ekkert á milli mála að tilgangurinn er að gefa fólki falska mynd af innihaldi blaðsins – og af þessum tveimur manneskjum í leiðinni. Ákveðin tegund lygi. Ótrúleg vinnubrögð.
Jæja, sólin er farin að skína aðeins. Þetta stefnir allt til hins betra.
Veðrið er viðbjóðslegt. Grámygla og slagviðri. Þoli ekki svona.

mánudagur, 1. mars 2004

Ég skrapp á bókamarkaðinn rétt fyrir lokun á laugardaginn – ætlaði bara að líta lauslega á hann og fara seinna í innkaupaferð. En að sjálfsögðu tókst mér að eyða alltof miklum peningum þótt ég hefði bara tíu mínútur til þess. Úff. Hundraðasta og ellefta meðferð á vísakorti. Einu sinni enn.

En auðvitað er alltaf gaman að eiga nýjar bækur. Og þetta eru ágætir tímar með ýmsum tilhlökkunarefnum. Í dag byrja ég í magadansi í Kramhúsinu, um helgina fer ég til Kaupmannahafnar ... – og það er ábyggilega margt fleira skemmtilegt framundan. Býsna sátt við tilveruna.