föstudagur, 27. ágúst 2004

Ég er pirruð í dag. Sem er frekar óviðeigandi þar sem vikan er búin að vera býsna góð. Á þriðjudagskvöldið hafði Palli t.d. samband og reyndist vera á landinu í nokkra daga. Við mæltum okkur mót niðri í bæ og kjöftuðum úr okkur allt vit langt fram á nótt. Alltaf óendanlega gaman að hitta frábært fólk eins og Palla.

Í gærkvöld fór ég svo á Happy End hjá Sumaróperunni. Þótt fólkið væri afar misvel þjálfaðir leikarar voru fýlulegu sláturdómarnir sem sýningin fékk alls ekki verðskuldaðir. Hún var stórskemmtileg, sérstaklega eftir hlé.

En í dag er ég pirruð. M.a. er ég í geðvonskukasti yfir fólki sem sér ekki skóginn fyrir trjám. (Syrpan sem ég tók í kommentakerfinu við þessa færslu hjá Nönnu var afleiðing af almennum pirringi; það var ekki efni færslunnar sem orsakaði hann.) En ég læt það vera að útlista orsakirnar hér. Og það er líka sitthvað fleira að pirra mig en ég ætla ekkert að fjölyrða um það heldur.

Reyni frekar að einbeita mér að því að hlakka til skemmtilegu hlutanna sem framundan eru. Pollýanna blífur.

þriðjudagur, 24. ágúst 2004

Helgin hætti ekki að vera skemmtileg þegar menningarnótt lauk. Á sunnudaginn var líka mikið og gott prógramm. Svanný vinkona mín (nota bene: Svanný, ekki Svansý - þær eru ekki sama manneskjan) er að fara að gifta sig um næstu helgi - ekkert heimskulegt bíómyndabrúðkaup heldur ætla hún og verðandi eiginmaður hennar til sýslumanns á föstudaginn og vera bara í rólegheitum um kvöldið, síðdegis á laugardaginn verða þau svo með veislu fyrir ættingja og um kvöldið verður partí fyrir vinina. Afslappað og skynsamlegt. Og verður ábyggilega margfalt skemmtilegra en vandlega æfðu leikritin þar sem serimóníurnar eru svo stífar að enginn hefur tíma til að njóta dagsins.

Fyrir hönd illa forfallaðs vinkvennahóps (sem er alls ekki saumaklúbbur) tókum við Una að okkur að dekra við Svanný í tilefni af hnappheldunni. Við erum ógurlega lítið hrifnar af mannvonsku og kvikindisskap og því að fólk sé látið gera sig að fífli - við erum hlynntari því að maður sé góður við vini sína og það varð leiðarljós dagsins. Sóttum Svanný um hádegið - ég var búin að föndra sitthvað matarkyns - og við fórum í pikknikk í grasagarðinum. Sólin fór að skína undireins og við komum í garðinn og við höfðum það afar notalegt drjúga stund. Mér tókst auðvitað að klúðra hinu og þessu; mundi eftir venjulegum búrhníf en gleymdi tenntum (það gerði svosem ekkert til), gleymdi könnum fyrir teið (en við drukkum það þá bara úr glösum), byrjaði á því að svipta dúknum upp úr töskunni (því miður á ég ekki fræga pikknikkkörfu eins og sumir) og braut eitt af freyðivínsglösunum í leiðinni. Hefðbundinn brussugangur. Hvernig átti ég að muna að ég hafði vafið þau inn í dúkinn tuttugu mínútum áður? En þetta er ekki alvarlegt; glös á maður að nota og þá getur svona lagað bara gerst.

Við átum auðvitað á okkur gat, enda finnst okkur finnst öllum gott að borða. Þegar Svanný útskrifaðist úr háskólanum hélt hún útskriftarveislu heima hjá tengdaforeldrum sínum. Vinkvennahópurinn mætti að sjálfsögðu og tók hraustlega til sín af veitingunum eins og venjulega. Eftir á fréttist að við hefðum glatt tengdamóðurina verulega. Hún hefði verið í skýjunum yfir að fá ungar konur í heimsókn sem höfðu almennilega matarlyst og voru ekkert að tala afsakandi um hvað þær ætluðu að vera duglegar að hreyfa sig á næstunni þegar þær hlóðu á diskinn í þriðja skipti.

En aftur að sunnudeginum: Þegar búið var að næra líkamann rækilega var tímabært að næra andann þannig að við fórum í Ásmundarsafn stundarkorn en svo var kominn tími til að keyra af stað í Bláa lónið þar sem búið var að panta nudd handa stúlkunni. Það var klukkutíma prógramm en við Una notuðum tækifærið til að vera líka góðar við okkur sjálfar og fengum nokkurra mínútna axla- og höfuðnudd sem er óhætt að mæla með. Það er ekkert slæmt að mara í lóninu, horfa upp í himininn og láta nudda sig svolítið. Ég hafði aldrei komið í Bláa lónið áður og aldrei verið spennt fyrir því - en varð frekar impóneruð og komst að því að þetta er í alvörunni möst, bæði fyrir ferðamenn og fleiri, ekki bara glötuð túristagildra. Konan í afgreiðslunni fær reyndar ekki þjónustuverðlaun ársins, hvorki fyrir glaðlegt viðmót né nauðsynlega upplýsingagjöf (eða að vita almennt hvað hún var að gera þarna), en við reyndum bara að gleyma því. Alveg óþarfi að láta það eyðileggja daginn.

Veðrið var síðan svo gott að við ákváðum að keyra Krísuvíkurleiðina til baka. Ætli fyrirhugaðar framkvæmdir við Suðurstrandarveg hafi leitt til þess að það hefur ekkert verið spanderað í að láta veghefil fara mikið um veginn í sumar? Eins gott að við erum allar "utan-af-landi-lið" og ýmsu vanar. Þannig að við vorum ekkert að stressa okkur yfir þessu. Nutum bara útsýnisins - það var ekkert að því.

Svo var komið að síðasta atriðinu á dagskránni sem fólst að sjálfsögðu í því að borða meira - í þetta sinn á þeim góða stað Sjávarkjallaranum. Við fengum okkur hinn svokallaða "exotic menu" (af hverju er þetta ekki á íslensku á matseðlinum?) sem er eiginlega bland í poka - ýmsir réttir bornir á borðið og fólk skiptir þeim sjálft á milli sín. Forréttirnir voru svo æðislegir að við fengum næstum því fullnægingu á eftir hverjum bita eins og konan í Planet Food. Aðalréttirnir stóðust því miður ekki samanburðinn þótt ágætir væru, en leiðin lá aftur upp á við í eftirréttunum. Mmmmm....
Áður en bróðir minn nær að lesa það sem skrifað stendur hér fyrir neðan og móðgast yfir því að ég skuli hafa kallað hann þýskan túrista og látið að því liggja að hann hafi eyðilegt föstudagskvöldið fyrir mér, þá er kannski rétt að taka fram að stundum er nauðsynlegt að dramatísera daglega lífið dálítið. Og biturðin í garð bróðurgreysins ristir ekki djúpt. Sérstaklega fyrst hann var svo tillitssamur að gleyma hrefnukjötinu, sem hann ætlaði að elda þegar norður yrði komið. Nánar tiltekið: gleyma því í ísskápnum mínum. Af því tilefni gróf ég upp pistilinn hennar Nönnu um matreiðslu á hrefnu og held bráðum heim að þreyta frumraun mína í slíkri eldamennsku. Svo er bara að sjá hvernig gengur.

mánudagur, 23. ágúst 2004

Menningarnóttin var æði! Og helgin reyndar öll. Eða næstum öll; hún byrjaði kannski ekki alveg nógu vel. Á föstudagskvöldið var nefnilega vinnuátak á dagskrá. Það var orðið nokkuð brýnt að grynnka á ýmsum aukaverkefnunum sem hafa gengið óæskilega hægt. Ég hafði hins vegar ekki tekið með í reikninginn að "þýskir túristar" (þ.e. bróðir minn og þýskur vinur hans) myndu leggja undir sig íbúðina mína. Hélt að svona túristar ættu að vera úti að skoða "so viel Lava" eða eitthvað álíka en ekki hanga inni, spjalla saman og horfa á sjónvarpið. Náði samt að vinna svolítið en ekki nógu mikið. Eiginlega hefur aukavinnan gengið aðeins of hægt eftir að ég kom úr orlofi. Sennilega tók svona svakalega á að vera í fríi. Ég er allavega ekki vön að vera kvöldsvæf en síðan ég kom úr fríinu hef ég hvað eftir annað lognast út af uppi í sófa á kvöldin. Skil ekkert í þessu. Þetta hlýtur að fara að komast í eðlilegra horf - ég er nefnilega vön að hressast rækilega undir miðnætti, hversu þreytt og úldin sem ég hef verið á morgnana. Þarf allavega nauðsynlega að fara að koma ákveðnum verkefnum frá. Kannski ég fari að taka orlofsdaga í dagvinnunni til að geta sinnt aukavinnunni.

En ég ætlaði víst að skrifa um menningarnóttina. Mér tókst að gera hrikalega margt skemmtilegt og hitta helling af frábæru fólki. Þrátt fyrir takmörkuð afköst á föstudagskvöldið sló ég öllu upp í kæruleysi á laugardaginn og lét menningar"nóttina" mína byrja um þrjúleytið þegar ég rölti út í Ísl.erfðagr. og hlustaði á Eivøru Pálsdóttur og Bill Bourne. Frábærir tónleikar - þótt ég hefði ekki gert neitt annað skemmtilegt þennan dag hefðu þeir einir dugað til að hefja andann í hæstu hæðir. En skemmtunin var rétt að byrja. Eftir tónleikana hélt ég niður í bæ, horfði aðeins á dans í Iðnó, hlustaði á músík hér og þar úti á götu - átti því miður aðeins leið um Ingólfstorg en var fljót að flýja Jesúmúsíkina þar - rölti meira um og fór svo í Listasafn Íslands þar sem Hlín samstarfskona mín spilaði og söng. Þar hitti ég Siggu og Jón Yngva og dæturnar þrjár og ákvað að halda með þeim í fæðuleit sem reyndist töluverð vinna því að sjálfsögðu voru allir veitingastaðir fullir. Eftir nokkurn tíma fengum við snilldarhugljómun (að eigin mati); töldum vænlegt að halda á Eldsmiðjuna þar sem hún væri svolítið út úr og líklegt að fáir hefðu munað að þar er matsalur. Það var að sjálfsögðu firra. Allt var troðfullt en við dóum ekki ráðalaus. Á móti Eldsmiðjunni er róluvöllur. Við pöntuðum pítsu og fórum í pikknikk á róló. Það þrælvirkar. Stórskemmtilegt óvissuatriði.

Leiðir okkar skildi svo og ég hélt til fundar við Kötu. Við náðum í skottið á upplestri Hauks í Iðu en síðan var farið ásamt ýmsu góðu fólki yfir í Eymundsson. Þar tylltum við okkur á gólfið á efri hæðinni, næstum því undir borð - og úr þessum afbragðs stúkusætum fylgdumst við með Ragga Bjarna og hljómsveit spila og syngja. Eldri konur í áhorfendahópnum sungu með af gríðarlegri innlifun og allt var þetta afar fagurt.

Þegar öllu þessu var lokið var kominn tími til að halda niður að höfn og hlusta á Egó. Við höfðum gætt þess svo rækilega að koma ekki of snemma (maður vill ekki hlusta á Brimkló ótilneyddur) að við misstum af blábyrjuninni en það gerði svosem ekkert til - við lögðum okkur bara þeim um meira fram við að njóta afgangsins út í ystu æsar. Fólk í kringum okkur var reyndar óþarflega hófstillt í hátterni en við létum það ekkert á okkur fá heldur sungum með af krafti og töpuðum okkur almennt. Þegar 'Fjöllin hafa vakað' komu loksins hoppaði ég þvílíkt eins og bavíani að ég kom mér næstum úr fjarskiptasambandi. Nei - ég hoppaði ekki yfir Esjuna, þetta á sér mun hversdagslegri skýringar. Allt í einu fór ein í hópnum að tína eitthvað upp af jörðinni: meirihluta af síma, bakhlið af síma, batterí úr síma. Þetta var síminn minn. Í pörtum. Ég hafði ekki hugsað út í að hann væri í jakkavasanum (grunnum og opnum) þegar ég missti mig. Sem betur fer fór þetta allt á besta veg.

Flugeldasýningin var ágæt, samt meira eins og hellingur að springa tilviljanakennt en almennilega hönnuð sýning. Það gerði samt ekkert til - og meðan á þessu stóð fór hópur í nágrenninu að syngja lag þar sem textinn var aðallega "lífið er yndislegt." Þetta var sungið aftur og aftur og þegar við vorum búin að læra lagið tókum við að sjálfsögðu undir. Afar viðeigandi. (Reyndar sagði einhver að þetta væri víst eitthvert Eyjalag, en það er óþarfi að láta þá staðreynd nokkuð á sig fá.)

Og skemmtuninni var ekki lokið - því það var eftir að fara á árlega tónleika hjá dixielandsbandinu Öndinni á Kaffi Vín. Tónleikarnir einir og sér hefðu verið nógu skemmtilegir - en best af öllu var að sjálfsögðu skrúðgangan niður Laugaveginn. Dans við dixieland á götum úti var besti mögulegi endirinn á frábærum degi.

föstudagur, 20. ágúst 2004

Kveinið hér fyrir neðan um að mig vanti vinnu í útlöndum hefur skilað nokkrum tilboðum. Gallinn er að þau virðast öll snúast um húsverk.

Sko. Ég kann alveg að elda mat, baka brauð og kökur - og þótt mér finnist afbrigðilega lítið skemmtilegt að strauja, þurrka af, skúra, skrúbba, bóna o.s.frv., þá get ég alveg innt slík leiðindaverk þokkalega af hendi ef sá gállinn er á mér (sem er reyndar sjaldan). Mér kemur líka yfirleitt prýðilega saman við börn (þótt ég sjái ekki nokkra einustu ástæðu til að eignast þau sjálf).

En ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að hæfileikar mínir væru töluvert víðtækari. (Ég kann að telja, reima skóna ... - og ... og ... ýmislegt fleira sem of langt mál er að telja upp hér.) Eiginlega er ég hálfmóðguð. Af hverju í ósköpunum vill þetta fólk hlekkja mig bak við eldavélina?

fimmtudagur, 19. ágúst 2004

Ég uppgötvaði ýmislegt í fríinu. Það veigamesta:
  • Sennilega er ég vinnufíkill.
  • Ég vildi að ég byggi í Berlín.

Ýmsar eldri hugmyndir staðfestust. T.d.:
  • Mér líður best í stórborgum.
  • Leipzig er góð og skemmtileg borg en Berlín er best (enda stórborg).
  • Sennilega er Berlín uppáhaldsborgin mín.
  • Reykjavík er óþolandi einsleit.
  • Reykjavík er ekki borg heldur þorp með mikilmennskubrjálæði.

Nánari útlistanir síðar. Kannski.


Löngu komin úr fríinu. Hálf önnur vika síðan. Alveg sátt við að vera farin að vinna aftur en langar ekkert að vera á þessu landi. Augljóst að mig vantar vinnu í útlöndum.