sunnudagur, 30. júní 2002

Svansý kom í gær og fékk lánaðar bækur til að taka með sér til Mallorca. Síðasta bók sem ég lánaði henni lenti í baði. Sú spurning sem kvelur mig núna er: Eiga þessar eftir að hafa nánari kynni af Miðjarðarhafinu en bókum er hollt?

föstudagur, 28. júní 2002

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir er dagurinn í dag ekki síst helgaður umræðu um kattarheiti (sjá síður Stefáns, Svanhildar, Svenna og Ármanns). Í tilefni af því er ekki úr vegi að tilfæra einn punkt úr fyrstu handbók 2.X (1991–1992). Lesendum er bent á að huga sérstaklega að nafni fyrri mælandans:
Högni: „Ég er mjög fjarskyldur köttum, jafnvel þótt ég sé spendýr og þeir líka.“
Svansý: „Hvað myndirðu gera ef þú hétir Fress?“



Það er hárrétt leiðrétting hjá systur hans Svenna að frumlagsígildi og aukafrumlag er ekki það sama, en þá rangfærslu tuggði ég einmitt hráa upp eftir honum um daginn þegar ég ætlaði að sýna ógurlega snögg bloggviðbrögð. Hef ekkert mér til afsökunar. Stundum er maður einfaldlega heiladauður!

Hvað sem því líður eru allar þessar málfarsumræður síðustu daga einstaklega skemmtilegar, og það er án efa heilmikið til í því hjá SvanhildiDaglegt mál hafi fundið sér nýjan farveg. „Heimur versnandi fer“ er úrelt slagorð!
Góðar stundir.
Stefán heldur því fram að Norðlendingar kalli kvenkyns ketti bleyður og telur að Svanhildur ætti að endurskoða ljósvakalæðu-heitið með hliðsjón af því.
Merkilegt. Ég hef án efa varið mun stærri hluta af ævi minni norðan heiða en Stefán en aldrei heyrt talað um bleyður í þessari merkingu. Ætli þetta sé sambærilegt við „kók í bauk“? Því er iðulega haldið fram að Norðlendingar segi þetta en ég hef aldrei heyrt neinn það láta út fyrir sínar varir nema Reykvíkinga sem halda að þeir séu fyndnir!

fimmtudagur, 27. júní 2002

Ármann hæðist að kenningunni um brasilísku ættartengslin. Viðurkenni svo sem að hún þarfnast aðeins nánari útfærslu, en hún er ekkert verri fyrir það. Lifi amatöra-etýmólógíu-ættfræði!

miðvikudagur, 26. júní 2002

Hah! — er búin að fá stuðningsyfirlýsingu í tölvupósti við pistilinn um aukafrumlagið (eða frumlagsígildið eins og það heitir líka, sbr. umfjöllun Sveins).

Dísa frænka (sem sendi mér stuðningsyfirlýsinguna) stakk upp á því að stofna líknarfélag til hressingar aukafrumlaginu. Frábær hugmynd! Félagið gæti jafnvel helgað sig fleiri góðum málefnum, til dæmis tekið upp á arma sína það sem sumir kalla „danskar fornleifar“ og agnúast stöðugt út í. Prýðileg orð og orðasambönd eins og tilfelli, undirstrika, til að byrja með o.fl. o.fl. o.fl. Miðað við hvernig fólk lætur stundum mætti halda að danska og íslenska væru fullkomlega óskyld tungumál.
Búin að setja persónulegt met í fótboltaglápi — horfði á seinni hálfleikinn í gær og allan leikinn núna áðan. Það hefði nú verið dálítið gott ef Tyrkirnir hefðu unnið; þá hefði orðið allavega sæmilegt fjör kringum úrslitaleikinn í Þýskalandi. Jafnvel óeirðir og allt!

Akkuru ætli svona margir af Brasilíumönnunum heiti eitthvað-son? Svala kom með ágætis kenningu áðan: þetta hljóti að vera afkomendur Þingeyinganna sem fluttust til Brasilíu á 19. öld. Frændur vorir, Brasilíumenn!
Svanhildur, það er ekkert að aukafrumlagi sem slíku. Hugsaðu þér til dæmis hvernig setningin hérna á undan yrði án aukafrumlags: „Ekkert er að aukafrumlagi sem slíku.“ Eða: „Að aukafrumlagi sem slíku er ekkert.“ Frekar misheppnað, finnst þér það ekki? Aukafrumlög hafa orðið fyrir ósanngjörnum ofsóknum gegnum tíðina út frá reglunni: Ef fyrirbæri X er stundum notað á óviðeigandi hátt skal undir öllum kringumstæðum ráðast gegn X. Ekki eltast sérstaklega við þessa óviðeigandi notkun, þá gæti maður þurft að hugsa og það er alltof flókið.

Aukafrumlög eru nefnilega ósjaldan ofnotuð en það þýðir ekki að þau séu af hinu illa. Og hananú!

Læt þessu opna bréfi lokið að sinni,
kær kveðja,
málfarslöggan.

þriðjudagur, 25. júní 2002

Get því miður ekki frætt Svanhildi um það hvaða kennara hún skapraunaði með flissi yfir fyrstu handbók 2.X sem hún fékk að sjá á undan öllum öðrum. Nema það var ekki Rafn því hann hefði sennilega haft húmor fyrir því og kenndi okkur auk þess ekki fyrr en í þriðja bekk.

Kannski ekki skrýtið að ég geti ekki rifjað upp hver þetta var — einhvern veginn minnir mig að við höfum almennt verið frekar duglegar við að skaprauna kennurum með því að finnast tíma okkar betur varið í annað en að fylgjast með í kennslustundum. Til dæmis að lesa Nancy-bækur, spila Minesweeper í vasareiknum tæknivæddustu bekkjarfélaganna, sauma út, prjóna ullarleista ... Það síðarnefnda varð reyndar ekki langvarandi því strákarnir í bekknum voru svo viðkvæmir, greyin, og skildu ekki að tif í sokkaprjónum er notalegt og róandi.

Í ljósi reynslu minnar í að stofna til óeirða með sokkaprjóna að vopni þarf ekki að koma á óvart að ég styð heilshugar þessa snilldarlegu hugmynd Bjarna um að láta hannyrðir taka sess fótbolta í samfélaginu.
Margrét vinnufélagi minn (reyndar ein af ca. tvöhundruð Margrétum á vinnustaðnum) var að upplýsa að samkvæmt því merka riti Hagskinnu hefur stærð tveggja manna fjölskyldu ekkert breyst í tímans rás. Merkilegt.
Fyrir norðan um daginn horfði ég á fótbolta í sjónvarpinu. Og ekki bara einu sinni heldur tvisvar! Sem er nýtt met — venjulega hef ég látið duga að horfa á einn leik í hverri heimsmeistarakeppni, nema fyrir fjórum árum þegar ég sá engan og saknaði þess ekkert.

Það er hægt að horfa á fótbolta af ýmsum ástæðum. Um tvær þeirra er nokkuð fjallað hér og hér — en þeirri þriðju má bæta við: Málblómum íþróttafréttamannanna. Þessi ódauðlegu orð voru til dæmis látin falla í leik Íra og Spánverja: „Þetta var hárrétt ákvörðun og í rauninni sú rétta.“

mánudagur, 24. júní 2002

Dæmigert — ég var óheyrilega svefnlaus í síðustu viku, en svaf síðan yfirgengilega mikið um helgina. Afleiðingin? Jú, ætlaði aldrei að geta sofnað í gær. Og vaknaði of snemma í morgun! Meira að segja alltof snemma. Sem gerist næstum aldrei. Var alveg að festa svefn aftur þegar vekjaraklukkan hringdi og ég neyddist til að fara á fætur. Vorkenni sjálfri mér óendanlega!

Einu jákvæðu afleiðingarnar af svefnleysinu í nótt voru þær að ég fór í tölvuna og komst að því hvernig maður getur föndrað aðeins meira við þessa síðu. Þannig að nú er hægt að senda mér tölvupóst með því að smella á viðeigandi stað í dálkinum hérna vinstra megin.
Ooohhh!!! Veðrið í Reykjavík er grátt og ömurlegt. Sem er óneitanlega frekar eðlilegt ástand, en þegar síðustu vikur hafa að mestu verið undantekning frá þeirri reglu er maður einhvern veginn ekki til í að horfast í augu við raunveruleikann aftur!

Lá í rúminu langt fram eftir degi og kláraði að lesa The Amber Spyglass (Ambursjónaukann), síðustu bókina í ótrúlega magnaðri trílógíu eftir Philip Pullman. Algjör skyldulesning. Fyrstu tvær bækurnar eru komnar út á íslensku og þessi á að koma fyrir jólin. (Um trílógíuna má lesa hér á heimasíðu þýðandans, Önnu Heiðu.) Þegar ég las fyrstu bókina, Gyllta áttavitann, ætlaði ég svo sannarlega að klára trílógíuna sem allra fyrst, en einhvern veginn varð ekki af því fyrr en núna. Einhver áhrif á þetta gæti haft sú einkennilega staðreynd að sumum íslenskum bókabúðum virðist ekki finnast sjálfsagt að selja breskar bækur í breskum útgáfum, og eru oftar en ekki með bandarískar útgáfur í staðinn. Óskiljanlegt. Sérstaklega þar sem það er iðulega ekki látið duga að breyta stafsetningunni í bandarískum útgáfum heldur líka föndrað við orðalag og jafnvel sitthvað fleira. Skilst t.d. að í bandarísku útgáfunni af Bridget Jones: The Edge of Reason hafi megninu af hysteríunni kringum dauða Díönu prinsessu verið sleppt, þar sem Bandaríkjumenn voru ekki taldir skilið neitt í henni. Úff! Er nauðsynlegt að gera ráð fyrir óendanlegri heimsku?

Fyrst minnst er á Bridget: Svanhildur á óneitanlega skilið að fá mörg prik fyrir leynilögguhæfileika sína — en er ekki svolítið ískyggilegt að týna nokkuð mikilvægum hlut, og þurfa að leita að honum í ruslatunnunni? Það er óneitanlega gott og gagnlegt fyrir alla að finna Bridget í sjálfum sér, en þetta er nú kannski einum of! ;)

Hef samt kannski ekki efni á því að segja neitt — eitt af mörgum skemmtilegum persónuleikaprófum sem ég hef tekið var einmitt próf um það hversu mikil Bridget maður væri í sér (því miður er þetta próf horfið af netinu). Niðurstaðan mín var: „a tie between a little bit of Bridget and very, very Bridget“!!! Á einmitt reglulega svona „very, very Bridget“ daga. Rek það ekki nánar í bili.

– – –

Sveinn Guðmarsson hefur villst hingað inn á síðuna um daginn; síðan hans er einmitt ein af þeim sem ég les alltaf öðru hverju. Sveinn vinnur með Svanhildi vinkonu minni, sem kemur reglulega við sögu hérna á síðunni (sjá t.d. hér að ofan) en ég er bara nýbúin að uppgötva að bróðir hans sem bloggar líka (reyndar nokkuð stopult en bloggar þó), er Bjarni Guðmarsson sem vinnur einmitt með mér hjá Eddu. Heimurinn er ótrúlega lítill.

Tek innilega undir með Sveini, sem tekur undir með Ármanni, um að konur séu líka menn; fyrir mér hefur það einmitt alltaf verið femínískt prinsipp, og ég næ ekki nokkrum tengslum við hugsunarhátt sem líkar ekki að aðalmerking orðsins menn sé einmitt karlar og konur. Heyrði fyrir nokkru síðan sagt frá málþingi um biblíumál, þar sem einhver hefði kvartað mikið yfir því óheyrilega vandamáli (að eigin mati) að í biblíunni væri maður ýmist notað um mannkynið almennt eða eingöngu um karla, og vildi að minnsta kosti hafa „samræmi“ í þessu! Jæja, já. Þótt ég sé prófarkalesari, og þar af leiðandi fremur illa haldin af samræmisþráhyggju, er engin leið að ég geti skilið þessa hugsun; eitt af því sem mér finnst svo frábært við tungumálið er einmitt það að eitt og sama orðið getur haft margar mismunandi merkingar. Er hrædd um að það yrði ótrúlega leiðinlegt að vera til ef það ætti að ráðast gegn öllu „ósamræmi“ af þessu tagi.

– – –

Er búin að vera ansi léleg við að blogga þessa síðustu viku, en var líka frekar svefnlaus eftir Akureyrarferðina um síðustu helgi, og alltof þreytt á kvöldin til að kveikja á tölvunni, skríða um gólfið til að taka símnúmerabirtinn úr sambandi og stinga módeminu í samband, bíða eftir því að nettengjast o.s.frv. Hefði sofnað fyrir framan tölvuna áður en mér hefði tekist að byrja að blogga.

Svefnþörfin er ekki það eina sem fór illa út úr Akureyrarferðinni, því vísakortið mitt er ennþá í taugaáfalli! Sem er reyndar ekkert nýtt, það þarf eiginlega á reglulegri áfallahjálp að halda. En nú á ég þó nýjan jakka og buxur og stígvél - sem er verulega skemmtilegt! Ekki síst þegar maður er búinn að líta í kringum sig eftir þessu öllu hér í höfuðborginni án þess að finna neitt sem hentar. Svo labbar maður inn í búðir í storbyen Akureyri og finnur samstundis eitthvað sem mann langar í og passar auk þess á mann! :) Er þá nokkuð annað til ráða en að níðast á vísakortinu?

Fyrir utan þessi áföll (?!) — og að þeim meðtöldum — var mjög gaman fyrir norðan. Kári bróðir minn (2. f.v. í efri röð á þessari mynd; 3. f.v. í efri röð á þessari) varð stúdent og allt í kringum það var ákaflega skemmtilegt. Á sautjándanum var ég eiginlega í allsherjar nostalgíukasti, en þekki líka alveg „átjándablúsinn“ sem Svansý skilgreindi um daginn. Um það leyti sem ég var að verða stúdent fannst mér eins og ég væri komin að dyrum sem ég þyrfti að ganga í gegnum, en að þegar ég yfir þröskuldinn væri komið myndi ég hrapa út í óendanlega auðn og tóm!

Það var skemmtileg uppgötvun að komast að því að það væri þrátt fyrir allt líf eftir MA — og að það væri meira að segja skemmtilegra í háskólanum en í MA (alla vega ef maður fór í íslensku!).

En stúdentsafmælin eru óheyrilega skemmtileg — veit ekki hvar Svansý hefur verið ef hún þykist ekki hafa skemmt sér á eins árs stúdentsafmælinu. Mér fannst allt að því skemmtilegra að verða eins árs stúdent en að verða stúdent! Í síðarnefnda tilvikinu var maður að kveðja alla, en í því fyrrnefnda að hitta alla aftur! Fimm ára stúdentsafmælið var líka óheyrilega skemmtilegt, og nú ríkir bara tilhlökkun eftir tíu ára afmælinu. Þó pínu aldurskrísa líka! Þótt mér hafi svo sem ekki fundist tíu ára stúdentarnir elliær gamalmenni þegar ég útskrifaðist, virtist þetta þó vera tiltölulega fullorðið fólk. Finnst einhvern veginn frekar langt í að það sama geti farið að gilda um sjálfa mig.

Rakst á Palla, bekkjarbróður okkar Svansýjar úr MA, núna á föstudaginn og settist með honum á kaffihús sem var ofsalega gaman. Meðal þess sem við Palli erum sammála um er að Reykjavík sé stórlega ofmetin sem stórborg og að allir Íslendingar ættu að fá ferðastyrk til að komast til útlanda um fimm sinnum á ári. Palli ætlar líka að taka þátt í því með okkur Svansý að stofna grasrótarsamtökin sem við vorum farnar að leggja drög að. Þetta verða alvöru grasrótarsamtök, því helsta baráttumálið verður að fá aftur gras á Ráðhústorgið á Akureyri! Þegar við vorum lítil var grasflöt á miðju torginu, með lágri girðingu í kring, og þar sat fólk á góðviðrisdögum og borðaði ís. En sú paradís varð ekki eilíf, því grasinu var útrýmt og torgið hellulagt í staðinn. Löngu kominn tími til að ráðast gegn þessu umhverfisslysi.

Meðal fyrri afreka okkar þriggja er að á sínum tíma söfnuðum við saman ýmsum gullkornum bekkjarins okkar í svokallaðar handbækur x-bekkjarins, öðru nafni the x-files sem voru settar inn á netið fyrir nokkrum árum og hefur blessunarlega dagað uppi þar. Hélt að ég myndi andast úr hlátri þegar ég skoðaði þær aftur. Sennilega eru þær frekar ófyndnar fyrir þá sem ekki þekkja til, en hverjum er ekki sama?

föstudagur, 21. júní 2002

Alltaf er maður að uppgötva eitthvað nýtt um sjálfan sig.
Hér er persónuleikapróf dagsins:





You are 70% evil! [?]


Hey, you're pretty damn evil. You've been out partying way more than once, and you're quite the little devil, but I guess you've still got some good in you. Maybe only to family...


fimmtudagur, 20. júní 2002


Which Sex and the City Player Are You? Find out @ She's Crafty
Sverrir er búinn að leiðrétta málvilluna. Hmm, sagnfræðingurinn farinn að stunda sögufalsanir!

miðvikudagur, 19. júní 2002

Fegin að sjá að Ármann sinnir málfarslöggustörfum og gætir (málfars) bróður síns. Legg til að hér eftir verði sá síðarnefndi uppnefndur Sverrir há.

föstudagur, 14. júní 2002

Annað persónuleikapróf. Gott að fá staðfestingu á því sem ég vissi alltaf — að ég væri í rauninni stjarnan.

You are Kermit!
Though you're technically the star, you're pretty mellow and don't mind letting others share the spotlight. You are also something of a dreamer.



P.S. Ég missti ekki af strætó í morgun. :)
Best að blogga aðeins svona síðla kvölds. Er að baka köku fyrir stúdentsveisluna hans Kára lillebror — ávaxtaköku með döðlum, banönum, eplum, suðusúkkulaði, kókosmjöli og næstum engu öðru — nammi namm. Hefðbundin kökuhráefni (eins og hveiti) eru algjörlega í lágmarki. Uppskriftin er frá ömmu Deddu eins og ýmsar fleiri af uppáhaldsuppskriftunum mínum — en stundum er reyndar pínu flókið að fylgja þeim. Kökuuppskriftirnar hennar ömmu minnar miðast nefnilega ósjaldan við að maður hafi á tilfinningunni hvernig deigið á að verða. Þegar ég fékk uppskrift að jólaköku hjá henni gat hún reyndar sagt mér nokkuð nákvæmlega hvað ætti að vera mikið af eggjum, hveiti o.s.frv. (þótt hún fari reyndar ábyggilega aldrei eftir því sjálf) — þangað til kom að mjólkinni. Þá var einfaldlega skrifað „mjólk“. Þetta þýðir að maður þarf helst að fá sýnikennslu um leið og maður fær uppskrift hjá ömmu. Sem er reyndar bara skemmtilegt. Verst að ég er alltof sjaldan nálægt henni — þyrfti að geta galdrað hana norðan úr Mývatnssveit reglulega. Eða fara oftar norður sjálf.

Uppskriftin að ávaxtakökunni er reyndar mun nákvæmari en venja er til. Vandamálið við hana er að hún er eiginlega fullnákvæm. Það er nefnilega allt tilgreint í grömmum; í botninum eru til dæmis 50 g af kókosmjöli. Það hljómar kannski ekki flókið — en það er svolítið erfitt að mæla þetta þegar skekkjumörkin á eldhúsvoginni manns eru a.m.k. plús/mínus 100 grömm. Þá er sennilega gáfulegast að bregða á það ráð að umreikna (ef maður vill vera aðeins nákvæmari en á bilinu mínus 50 g til plús 150 g). Samkvæmt töflu í einhverri matreiðslubók sem ég á jafngilda 100 g af „rifnum kókos“ (hlýtur það ekki að vera kókosmjöl?) um 285 millilítrum. Sem þýðir þá væntanlega að 50 g af kókosmjöli eru 142,5 ml. Hmmm. Jæja, segjum u.þ.b. 1½ dl. Allt í lagi, þetta er ekki svo flókið.

Stóð upp frá tölvunni smástund til að taka kökuna út úr ofninum. Hún lítur alveg eðlilega út, greyið. Það verður að koma í ljós hvað gerist þegar fólk reynir að borða hana.

Nú ætti Siggi að vera lentur á Keflavíkurflugvelli fyrir nokkru og vera í rútunni á leið hingað til Reykjavíkur. Siggi er hinn litli bróðir minn og gat sem betur fer skroppið heim í viku til að halda upp á fimm ára stúdentsafmælið sitt og það að litli, litli bróðir okkar er að verða stúdent. Annars er hann að læra dýralækningar í München. Sem fólk myndi kannski furða sig á ef það hefði bara heyrt hann tjá sig um ákveðnar tegundir af hundum — þá sem eru agnar-pínulitlir og jafnvel með bleika slaufu í hárinu. Þessi kvikindi kallar hann rottur og á erfitt með að stilla sig um að kremja þau undir hælnum þegar þau verða á vegi hans. Það kemur sennilega ekki á óvart að hann ætlar að sérhæfa sig í nautgripum.

Jæja, ætli það sé ekki best að fara að pakka niður fyrir ferðina norður. Annars þarf ég líka að reyna að leita að póstkortum með Berlínarmyndum sem ég á að eiga einhvers staðar á „góðum stað“ en það er nú eins og það er — allir vita að „góður staður“ er bara góður þegar maður er að ganga frá hlutunum. Síðan finnur maður þá aldrei — nema þegar maður er að leita að einhverju öðru. Núna er ég til dæmis alls ekki búin að finna póstkortin, en er m.a. búin að rekast á dagatal frá árinu 2000, dálítinn bunka af jólakortum sem ég keypti fyrir síðustu eða þarsíðustu jól en skrifaði aldrei neitt á (því síður sendi þau), og „Allgemeine Geschäftsbedingungen“ frá Sparisjóðnum í Leipzig.

Úff — vissi svo sem að það væri löngu orðið tímabært að taka til í skrifborðsskúffunum.

fimmtudagur, 13. júní 2002

Persónuleikapróf eru skemmtileg. Ekki síst þetta:


i'm a mascara. what type of make up are you?
quiz made by muna.
Missti af strætó í morgun. Það hlaut að koma að því aftur.
Æ, æ, æ — sumir eru eitthvað að skjóta á mann. Það verður að hafa það. Er vissulega búin að vera óheyrilega ódugleg að blogga. En veðrið er líka búið að vera alltof gott til að það sé nokkur leið að halda sig heima og við tölvuna.

Fór niður í bæ eftir vinnu í dag, fékk mér að borða á kaffihúsi, sat úti, og þótt borðið væri í skugga var ég að stikna, jafnvel þótt ég færi úr jakkanum og sæti þarna á stuttermabol. Sehr gut. Skrilljón manns á Austurvelli, þar á meðal Falun Gong fólk að gera æfingar. Skil ekki hvað íslensk stjórnvöld eru að hugsa í því máli. Sennilega hafa þau einmitt ekki hugsað.

Þrátt fyrir góða veðrið dreif ég mig í bíó í gærkvöld, því ein af fáum góðum ástæðum til að vera inni þessa dagana er að það er loksins farið að sýna Curse of the Jade Scorpion, „nýjustu“ Woody Allen myndina, sem er reyndar orðin ársgömul (og ekki lengur nýjasta myndin hans). Hvað er að bíóunum hérna? Ef það er búið að skjóta tvö þúsund milljón byssukúlum áður en tíu mínútur eru liðnar af bíómynd er hún sýnd med det samme. Annars þarf maður að bíða og bíða og bíða og bíða og bíða. Og bíða ennþá lengur.

Myndin var verulega skemmtileg. Frábærlega galin hugmynd að láta mynd ganga út á dáleiðslu að hætti Andrésar andar blaða! Það var líka frekar fyndið að hafa ýmislegt í anda film noir en alla líkamstjáningu persónanna o.þ.h. fullkomlega nútímalega. Og samansúrruðu blammeringarnar sem gengu á víxl milli aðalpersónanna. Dásamlegar.

— — —

Var fyrir norðan um helgina, því Arna frænka mín á Grænavatni var að fermast. Þau voru þrjú, fermingarbörnin í Skútustaðakirkju, og öll náskyld, þannig að Mývetningar höfðu nóg að gera í fermingarveislum þennan dag. Mjög gaman. Svo heldur stíft prógramm áfram; ég fer aftur norður um næstu helgi því Kári lillebror er að verða stúdent frá MA eins og fleiri í fjölskyldunni. Dagarnir kringum sautjánda júní eru reyndar að verða skipulagðir nokkur ár fram í tímann. Á næsta ári verður Brynja, systir fyrrnefndrar Örnu, stúdent og á þarnæsta ári verð ég — úpps — tíu ára stúdent. Frekar ískyggilegt. Hef ábyggilega reiknað vitlaust.

Alla vega sagði þetta próf mér að ég væri bara 23 ára. Og á laugardaginn giskaði ellefu ára stelpa (sem vildi vita hvað ég væri gömul) á að ég væri tvítug. Var frekar sátt við það þangað til mamma benti mér á að í augum ellefu ára stelpna væri tvítugt ekkert sérlega ungt! En miðað við að hún hefði þá alveg eins getað giskað á að ég væri fertug finnst mér alveg ástæða til að gleðjast yfir þessu.

En ég var sem sagt fyrir norðan um helgina. Á leiðinni suður aftur kveikti Þorgerður — enn ein frænka mín (sem ég fékk far með) — á íþróttalýsingum í útvarpinu. Hef ekki heyrt svoleiðis lengi og var búin að gleyma hvað þær geta verið fyndnar. Óvart fyndnar. Íþróttafréttamaðurinn sem lýsti landsleik Íslendinga og Makedóníumanna í handbolta kom með hverja myndlíkinguna af annarri; samkvæmt honum fóru Íslendingar gegnum vörn hinna „eins og hnífur gegnum bráðið smjör“ og ég veit ekki hvað og hvað. Fyndnast var samt þegar hann kom með hástemmdar yfirlýsingar um hvernig þyrfti að heiðra handboltalandsliðið fyrir „framlag sitt til íslenskrar þjóðmenningar“!

— — —

Er nýbúin að skipta um vinnu, einu sinni enn. Seinni partinn í vetur var ég að vinna við skjalalestur hjá Alþingi í afleysingum. Hefði kannski ekki búist við því fyrirfram að mér myndi líka það vel, en raunin varð sú að ég kunni virkilega vel við mig. Gæti alveg hugsað mér að vinna þar aftur.

En ég var bara ráðin út maí, þannig að þarsíðasti föstudagur (31. maí) var síðasti vinnudagurinn minn þarna að sinni. En það var í góðu lagi, því mánudaginn á eftir (3. júní) byrjaði ég að vinna hjá Eddu, og verð þar næstu mánuði að lesa prófarkir og eitthvað þess háttar.

Þegar ég var að leggja af stað í vinnuna fyrsta daginn hugsaði ég með mér: „Eru mistök að byrja í dag? Mánudagur til mæðu?“ En ég hristi hjátrúna samstundis af mér og hélt óhrædd af stað út á strætóstoppistöð. Svo kom strætó. Það var nýr bílstjóri á fimmunni. Sumir bílstjórar hefðu kannski verið búnir að læra leiðina sem þeir eiga að keyra áður en þeir byrja, en þessum tókst að gleyma að beygja út af Suðurgötunni. Hann uppgötvaði það þó skömmu seinna en þá voru góð ráð dýr. Í fyrstu hélt hann greinilega að hann slyppi auðveldlega frá þessu og ætlaði að að taka u-beygju á móts við Háskólabíó. Það gekk ekki sérlega vel. Þegar stóri guli bíllinn var búinn að vera þversum á gatnamótunum um stund (öðrum bílstjórum sem höfðu hugsað sér að aka eftir götunni án efa til gríðarlegrar ánægju) gafst maðurinn upp og beygði inn á planið hjá bíóinu þar sem hann hugsaði sér greinilega að fara smáhring til að komast svo aftur út á Suðurgötuna. Leiðin sem hann ætlaði að fara var hins vegar lokuð. Þannig að við héldum áfram að rúnta um planið hjá Háskólabíói. Á strætó. Það var mjög athyglisvert. Á endanum tókst bílstjóragreyinu þó að snúa við og komast þangað sem hann ætlaði sér.

Þar með var strætóævintýrum morgunsins þó ekki lokið. Á Lækjartorgi kom inn maður sem virtist frekar einkennilegur í kollinum og var auk þess verulega drukkinn af lyktinni o.fl. að dæma. Hann byrjaði að tala hátt og mikið við sjálfan sig, sem var svo sem allt í lagi, maður er ýmsu vanur í strætó. Svo virtist honum finnast þetta heldur takmarkað og sneri sér að því að áreita allt kvenfólk sem sat nálægt honum. Leiðin upp Hverfisgötuna var óvenjulöng í þetta skiptið, ég var ekki sú eina sem reyndi að líma augun við bók eða blað og láta eins og ekkert væri. Varpaði öndinni verulega mikið léttar þegar maðurinn fór úr á Hlemmi.

Síðan komst ég á Suðurlandsbraut 12 þar sem ég átti að fara að vinna. Ég gekk inn um útidyrnar og að lyftunum. Á þeim hékk miði: „Lyfturnar eru bilaðar.“ Og ég þurfti að komast upp á sjöttu hæð.

Þetta var eitt af þessum krítísku augnablikum þar sem maður spyr sjálfan sig: „Á ég að fara heim, leggjast upp í rúm, breiða sængina upp fyrir haus og skæla? Eða á ég að takast á við erfiðleikana og sigrast á þeim með bros á vör?“ Þetta var sérlega erfið ákvörðun. Niðurstaðan varð þó að leita að stigunum og ganga upp þá. Mér tókst meira að segja að hitta á rétta hæð, ólíkt því sem gerðist einu sinni þegar ég tók stiga fram yfir lyftu í heilsubótarskyni. Þá var ég á leiðinni upp á fjórðu hæð í viðkomandi húsi. Þegar ég hélt að ég væri komin þangað reyndist ég vera á sjöttu hæð. Manni gengur misvel að átta sig á tölum.

En á Suðurlandsbrautinni átti ég sem sagt að fara upp á sjöttu hæð og komst þangað í fyrstu tilraun. Þá var hörmungunum líka lokið að þessu sinni, og mér líst vel á mig í vinnunni. Ekki síst núna þegar ég er með próförk að þýðingu á krimma á borðinu mínu. Mjög ánægð með að fá borgað fyrir að lesa glæpasögur.

Jæja, ætli ég sé ekki búin að ofvirkniserast nóg í blogginu í bili. Hah!

Held að ég hætti að hafa áhyggjur af því hvað veðrið er búið að vera frábært lengi — er á meðan er, og það er engin ástæða til að velta sér upp úr þeirri óumflýjanlegu staðreynd að veðurblíðan verður ekki eilíf. Þó það eigi eftir að koma rigning og slagviðri — þá kemur líka að því að sólin fer aftur að skína. :)

föstudagur, 7. júní 2002

Ó nei, ó nei, þetta er hræðilegt — það er búið að tilkynna mér að ég sé aumingjabloggari!!! Sem er reyndar alveg satt — en það er ekki mér að kenna! Fréttir af bloggandláti mínu eru stórlega ýktar — a.m.k. vona ég að upprisan sé væntanleg! Nú ætti að vera ráðin bót á nettengingarleysi mínu sem hefur staðið yfir í heila viku af þessum orsökum: 1) Innhringisambandið við Reiknistofnun HÍ hefur verið í klessu (þess vegna hef ég ekki bloggað að heiman). 2) Ég byrjaði í nýrri vinnu á mánudaginn en fékk ekki aðgang að tölvu fyrr en í dag. En þar sem ég ætla ekki að stunda stórfellt blogg í vinnunni er best að ég hætti þessu í bili. Nánari fréttir síðar.

P.S. Er aldrei búin að missa af strætó í þessari viku. Ótrúlegt en satt!

P.P.S. Farin norður í góða veðrið. Ligga ligga lá lá!