þriðjudagur, 25. júní 2002

Get því miður ekki frætt Svanhildi um það hvaða kennara hún skapraunaði með flissi yfir fyrstu handbók 2.X sem hún fékk að sjá á undan öllum öðrum. Nema það var ekki Rafn því hann hefði sennilega haft húmor fyrir því og kenndi okkur auk þess ekki fyrr en í þriðja bekk.

Kannski ekki skrýtið að ég geti ekki rifjað upp hver þetta var — einhvern veginn minnir mig að við höfum almennt verið frekar duglegar við að skaprauna kennurum með því að finnast tíma okkar betur varið í annað en að fylgjast með í kennslustundum. Til dæmis að lesa Nancy-bækur, spila Minesweeper í vasareiknum tæknivæddustu bekkjarfélaganna, sauma út, prjóna ullarleista ... Það síðarnefnda varð reyndar ekki langvarandi því strákarnir í bekknum voru svo viðkvæmir, greyin, og skildu ekki að tif í sokkaprjónum er notalegt og róandi.

Í ljósi reynslu minnar í að stofna til óeirða með sokkaprjóna að vopni þarf ekki að koma á óvart að ég styð heilshugar þessa snilldarlegu hugmynd Bjarna um að láta hannyrðir taka sess fótbolta í samfélaginu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli