miðvikudagur, 30. maí 2007

Ég er búin að vanrækja Flickr-síðuna mína í allan vetur en nú druslaðist ég loksins til að setja inn myndir frá Napólí og nágrenni síðan í september.

United Colors of Benetton

Ef ég verð áfram dugleg við annað en það sem ég ætti að einbeita mér að er aldrei að vita nema myndir frá Berlín og Leipzig síðan í október komist inn á síðuna von bráðar.

Enn hefur enginn giskað á rétt dagblað. En nú hlýtur þetta að fara að koma - það eru ekki svo mörg eftir.

mánudagur, 28. maí 2007

Getraun! (Ekki úr Ísfólkinu að sinni, það bíður betri tíma.)
Þessi er frekar einföld því valmöguleikarnir eru ekki margir. Einfaldlega er spurt: Í hvaða dagblaði birtust þessi orð árið 1946? Sérlega getspakir mega láta fylgja sögunni hvern þeir telja höfundinn vera.

"Kommúnistar hafa kveinað sáran út af þeirri illu meðferð, sem þeir telja sig hafa sætt af hendi vondra manna, þá er úthlutað var styrkjum til rithöfunda nú í vetur. Mun það fágætt, að svo hafi verið barmað sér út af valdamissi, eins og þeir hafa gert, síðan úthlutunin fór fram, og hefur skipzt á hjá þeim gnístran tanna og sannarlegur Jeremíasar harmagrátur."
Jæja, mér tókst að koma Haloscan aftur inn. Nú fer þetta að verða þolanlegt. Ég ætlaði reyndar ekki að fá trackback-dæmið inn í leiðinni en ég get svosem lifað með því í bili.
Í tilefni af fimm ára bloggafmæli mínu (sem er í dag) ákvað ég að framkvæma byltingarkennda aðgerð (svo stofnanalegt orðalag sé viðhaft) og breyta útlitinu á þessari síðu. Eins og sumir vita er ég ekkert mikið fyrir ástæðulausar útlitsbreytingar, sbr. að ég varð einu sinni alvarlega miður mín úti í búð þegar ég uppgötvaði að ástæðan fyrir því að ég fann ekki sykurinn var að Dansukker hafði breytt umbúðunum!

En ég hef nú orðið töluvert umburðarlyndari síðustu árin og nú fannst mér semsagt kominn tími til að bloggið mitt fengi meikóver eftir að hafa litið nokkurn veginn eins út frá upphafi (fyrir utan smá litabreytingar o.þ.h.). Veit samt ekki alveg með þetta templeit sem ég valdi, ég er reyndar búin að fikta aðeins við liti og letur en er ekki orðin fyllilega ánægð. Það stendur vonandi til bóta.

Ég var orðin ágæt í að fikta í html-inu í gamla templeitinu en uppsetningin á því nýja er allt öðruvísi þannig að ég þarf greinilega að læra ýmislegt nýtt. Annars eru komnar einhverjar imbaheldar aðferðir við að breyta sumu í útlitinu - en bara sumu.

Mér finnst hroðalega pirrandi að hafa ekki aðgang að linkunum í html-kóðanum - það er leiðindavesen að geta bara fiktað við einn í einu í þessu nýja fyrirkomulagi sem þykist vera svo tæknilegt ... - eða nei annars, nú var ég að fatta að ég þarf ekki að nota linkaformið sem er innbyggt í kerfið - ég get valið "html-script" sem "page element" og föndrað linkana þannig. Gott.

Verst að Haloscan er í fýlu og þverskallast við að setja kommentakerfið inn upp á nýtt. :(

sunnudagur, 27. maí 2007

Meðal þess sem fer í taugarnar á mér um þessar mundir er eftirfarandi:
  1. Takmarkanir hinnar annars frábæru síðu tímarit.is, einkum: a) Tímarit frá tímabilinu sem ég er að skoða (miðbikinu á 20. öld) eru almennt ekki þarna inni - þetta er fyrst og fremst eldra dót. b) Þótt það sé frábært að geta leitað vel og vandlega í Mogganum er óþolandi að hin dagblöðin skuli ekki vera komin þarna inn. Ég veit að þetta horfir til bóta því það er búið að fá fjárveitingu í verkið - en það er takmörkuð huggun þegar mig vantar þetta allt NÚNA!

  2. Gloppurnar í gömlu bókmenntaspjaldskránni í bókhlöðunni (spjaldskrá yfir efni um og eftir íslenska rithöfunda í blöðum og tímaritum). Þjóðviljinn og Vísir eru bara efnisteknir til 1944, Tíminn til 1949, Alþýðublaðið nokkru lengur eða til 1954, en Mogginn alveg til 1960 og Lesbók Moggans til 1964. Þótt mér finnist gaman að fletta gömlum dagblöðum og finna alls konar skrýtið og skemmtilegt efni sem ég var alls ekki að leita að, þá hef ég ekki ótakmarkaðan tíma.

  3. Óhóflegt vægi Moggans - eða öllu heldur að efni úr öðrum dagblöðum skuli ekki vera eins aðgengilegt, sbr. 1. og 2. tölulið.

  4. Vond og dýr útprent úr filmuvélunum í bókhlöðunni.


  5. Og að lokum (þar sem ég þarf að eyða drjúgum tíma á ákveðnum stað, sbr. fyrri liði):

  6. Sumaropnunartími Þjóðarbókhlöðunnar. Núna er bara opið til fimm virka daga og til tvö á laugardögum. Alveg glatað.
Ég hef smávegis áhyggjur af því að enginn skuli svara getraununum mínum rétt nema pabbi - það er semsagt hann (geri ég ráð fyrir) sem kvittar í kommentakerfið með tilvitnunum í kvæðið "Karl faðir minn" eftir Jóhannes úr Kötlum. Fyrir utan þá sem snerist um Lúlla-bækurnar. Ætti ég kannski að fara að koma með spurningar upp úr einhverju fleiru sem pabba finnst ómerkilegt? Til dæmis Ísfólkinu?

laugardagur, 26. maí 2007

Vísbending:

Konan var skáld.

fimmtudagur, 24. maí 2007

Meiri getraun:

Um hvaða konu skrifaði Jóhannes úr Kötlum þetta árið 1943?

"Hún er okkar fjallkona, okkar bábuschka, - í persónu hennar glitrar einmitt sú ódauðlega lífsfegurð, sem framtíðin mun elska og ávaxta. Í alþýðlegri tign fórnarviljans hefur hún gefið okkur hjarta sitt, - þess vegna finnst okkur hún svona ung og falleg og léttstíg á jörðinni. Ó, að ég væri brúðguminn hennar í dag!"
Framhald um hárið á mér:

"Mjög pæjuleg" er kannski orðum aukið. Til þess þyrfti ég að hafa svolítið fyrir hárinu á hverjum degi og því nenni ég ekki. Réttara væri kannski að segja "mun pæjulegri en fyrir klippinguna".
Getraun!

Hver sagði og um hvaða bók? Mikilvæg sérnöfn eru dulkóðuð af skiljanlegum ástæðum.

"Síst kemur mér á óvart þótt einhver Rússi hafi lofað þá bók, enda hefur henni vafalaust verið feginsamlega tekið í ritdómum þar í landi.

Hitt er málum blandað, og misskilningur, að ég hafi reynt að koma því til leiðar að bannað yrði að þýða bókina á erlendar tungur. Enginn getur lagt bann á þýðingu íslenzkrar bókar nema höfundurinn sjálfur.

Hinsvegar hef ég einhverntíma látið þá skoðun í ljós, að mér fyndist að XXX hefði ekki átt að leyfa erlendar þýðingar á XXX.

Mér finnst hann hefði getað það fyrir þjóð sína ..."

miðvikudagur, 23. maí 2007

Ég var eiginlega búin að gleyma að ég hefði einhvern tíma vaknað úr bloggdái. Er það ekki frekar undarleg kölkun?

Stundum langar mig að blogga um pólitík en ég er alltof samviskusamur þingstarfsmaður til að láta það eftir mér, auk þess sem það er ekki beinlínis skortur á leiðinlegu blaðri um pólitík í bloggheimum. Og ekki vil ég verða eins og einhver fjandans Moggabloggari.

Sá fátíði atburður skeði annars í nýliðnu blogghléi að ég fór í klippingu. Nú er ég mjög pæjuleg að eigin mati, a.m.k. um hausinn.