föstudagur, 31. janúar 2003

Undarlegt veður í dag – svo sérkennileg ókyrrð í loftinu. Andrúmsloftið eins og hvað sem er gæti gerst. Hefði ekki deplað auga við að mæta hauslausum manni í Skuggasundi. Eða þríhöfða hundi á Vegamótastíg.

miðvikudagur, 29. janúar 2003

Tveir af nemendum mínum komu að máli við mig eftir tíma í dag til að forvitnast um aldur minn. Niðurstaðan af spekúlasjónum þeirra hafði verið að ég væri trúlega 23 ára. Veit ekki alveg hvernig ég á að túlka þetta. Ætli þetta sé merki um að þeim finnist ég ung, eða ætli þeim finnist 23 hundgamalt?! (Og ef svo er, ætli þeim finnist ég þá ævaforn eftir að þær komust að hinu sanna í málinu?!)
Er virkilega engin Bráðavakt í sjónvarpinu á morgun?! Helvítis handbolti!

þriðjudagur, 28. janúar 2003

Kennsla dagsins í dag:
Annar hópurinn: Gylfaginning með Alias-ívafi.
Hinn hópurinn: Gylfaginning tengd við Reach-tannburstaauglýsingar.
Það skal þó tekið fram að hvort tveggja var aðeins í framhjáhlaupi.

mánudagur, 27. janúar 2003

Ég er ennþá í skýjunum yfir föstudagskvöldinu! Ég ákvað nefnilega að þótt það sé fullkomlega ómerkilegt að verða 28 ára sé engin ástæða til að láta það koma í veg fyrir að maður skemmti sér, þannig að ég hélt afmælispartí. Eiginlega hélt ég ekkert upp á afmælið mitt um árabil, þ.e. eftir að ég komst af barnsaldri, en á síðustu árum hef ég farið að stunda meiri hátíðahöld, og þetta er þriðja árið í röð sem ég held svolítið almennilega afmælisveislu. Nú er spurning hvort ég á að taka pásu á næsta ári til að taka þrítugsafmælið með stæl, eða hvort ég ætti frekar að halda virkilega vel upp á næsta afmæli og sleppa svo þrítugsafmælinu. Eða halda upp á hvorugt afmælið, eða hvort tveggja, eða ... Veit ekkert hvað verður, enda er nægur tími til að velta vöngum yfir því.

En afmæli eru allavega prýðileg ástæða til að fá fólk í heimsókn til sín, og þegar fullt af skemmtilegu fólki mætir með góða skapið getur það varla klikkað.

Ég er búin að ganga um með aulalegt bros alla helgina yfir því hvað ég hafði gaman af þessu, og hvað mér finnst vinir mínir óendanlega skemmtilegir og svo framvegis, og svo framvegis!!! Nú er bara að vona að allir aðrir hafi skemmt sér eins vel – eða þó ekki sé nema hálft eins vel, það væri feikinóg samt til að samanlögð ánægja yrði umtalsverð! :) Þakka öllum sem mættu kærlega fyrir komuna og skemmtunina.

föstudagur, 24. janúar 2003

Þótt ég sé bara einum degi eldri í dag en gær hefur samt bæst heilt ár við aldurinn. Á ég ekki að krefjast skilyrðislausrar athygli og aðdáunar í tilefni dagsins?!

miðvikudagur, 22. janúar 2003

Mæli með minningarorðum Salvarar um Blogg dauðans.
Tek undir HÁSTAFAMÓTMÆLIN við því að Ármann sé hættur að blogga. Harmur mikill er að bloggheimum kveðinn ef satt reynist; það er engin sanngjörn ástæða til þess að „blogg dauðans“ verði réttnefni í bókstaflegum skilningi. Hvet Ármann eindregið til að endurskoða ákvörðun sína og hætta við að láta einhver fífl úti í bæ hindra sitt daglega eip.

þriðjudagur, 21. janúar 2003

Frábært – það var Bráðavaktarspurning í spurningakeppninni! Mjög ánægð með dómarann!

Fyrst ég er farin að blogga um spurningakeppnina: Kristbjörn lýsti því yfir um daginn að starf stigavarðar gæti ekki verið við Svanhildar hæfi, þar sem það hentaði að hans mati einungis heimskum ljóskum sem héldu kjafti og væru sætar. Nú get ég kannski ekki fullyrt neitt um málið, en miðað við kynni mín af fyrrnefndri Svanhildi og öðrum sem gegnt hafa sama embætti hljóta stigaverðirnir að vera sterki aðilinn bak við tjöldin í þessari keppni og stjórna henni í raun. Hún er því tæplega á eins skökkum stað og í fljótu bragði kann að virðast.
Hildigunnur er mývetnsk mær, nánar tiltekið úr Garði. „Garsar“ hafa aldrei verið þekktir fyrir að vera illa máli farnir og Hildigunnur er enginn ættleri. Einhver snillingurinn hefur meira að segja fundið upp á því að stofna trúfélagið Munnsöfnuðinn þar sem hún er í dýrlingatölu (ásamt Kolbeini kafteini)! Það kemur því ekki á óvart að hún er afbragðs bloggari. En ég er ekki laus við áhyggjur yfir nýjustu færslunni hennar. Hildigunnur, íslenska, þar á meðal íslensk bókmenntasaga, er skemmtileg námsgrein. Það er hreinlega ein af staðreyndum lífsins – vei þeim sem reyna að halda öðru fram í mín eyru!!! Það liggur við að ég hóti þér aukakennslu næst þegar ég kem norður!
Svefninn hjá mér er enn í rugli. Í gærkvöld fór ég yfir stóran stafla af heimaverkefnum nemenda minna; byrjaði mun seinna en ég ætlaði og svo tók þetta drjúgum lengri tíma en ætlunin var þannig að ég fór skelfilega seint að sofa, sem hafði miður jákvæð áhrif á hæfileika mína til fótaferðar í morgun. Af hverju gerir maður sér þetta? Og síðan lét ég liðið skila öðru heimaverkefni í dag, svo nú er ég komin með annan álíka bunka. Best að drífa í yfirferðinni svo ég komist aðeins fyrr í rúmið í kvöld en gærkvöld (og verði þá vonandi ekki alveg eins úldin í fyrramálið).

sunnudagur, 19. janúar 2003

Helgin hefur verið fremur tíðindalaus, fyrir utan góðan og fjölsóttan mótmælafund í gær. Veit ekki hvar löggan lærði að telja Þótt ég sé fullkominn rati í að átta mig á fjölda fólks á svona fundum – talningafræði mín er sennilega svohljóðandi í hnotskurn: a) fáir, b) þolanleg mæting, c) margir, d) mjög margir – þá er ekki sjens að ég taki það trúanlegt að þarna hafi aðeins verið um 400 manns. Mogginn nefnir 1500 manns sem mér finnst mun líklegra. – Saga til næsta bæjar þegar manni er farinn að finnast Mogginn einna trúverðugastur í svona málum!

En fyrir utan mótmælin hef ég haft mig ákaflega hæga um helgina. Í gærkvöld og fyrrakvöld gekk þetta svo langt að ég sat allt kvöldið uppi í sófa, heklaði og reyndi ýmist að hlusta á útvarpið eða horfa á sjónvarpið; reyndar með misgóðum árangri. Föstudagskvöld eru auðvitað sjónvarpskvöld dauðans, svo ekki sé meira sagt. Þegar það gerist hvað eftir annað á föstudögum að Djúpa laugin er skásta sjónvarpsefnið ætti að vera nokkuð augljóst að eitthvað er að. Mér þarf að leiðast mjög mikið til að horfa á þá hörmung – en æ, æ; þegar ég hugsa mig um kemur í ljós að það hefur gerst ískyggilega oft upp á síðkastið. Föstudagskvöldið fyrir viku var einmitt svipað og nýliðið föstudagskvöld: hekl + Djúpa laugin. Ef ég ætti að draga einhverjar ályktanir af þessu einu kæmist ég sennilega fljótt að þeirri niðurstöðu að ég ætti mér ekkert líf. Sem betur fer hef ég þó náð mun innihaldsríkari dögum og kvöldum inn á milli.

Ætla samt rétt að vona að mér takist að brjóta þetta mynstur upp næsta föstudag, því þá á ég afmæli. Er ekki búin að skipuleggja daginn, en ég verð nú að gera eitthvað til hátíðabrigða, er það ekki? Spurning hvað það ætti helst að vera. Hugmyndir vel þegnar (minni á kommentakerfið).

fimmtudagur, 16. janúar 2003

Jólabókauppgjörsfundurinn í gær tókst geysivel; Jón Yngvi flutti afbragðsgóðar og frjóar „fréttir af flóðasvæðunum“, eins og við var að búast, fundurinn var prýðilega sóttur (þarna voru margir sem höfðu samviskubit yfir því að skrópa í „kistulagningu Kárahnjúka“), og umræðurnar voru að mestu leyti mjög góðar. Fjölmargt heldur áfram að gerjast í kollinum á manni og ég diskúteraði ýmislegt við sjálfa mig þegar ég var komin heim. (Verst að mér finnst ekki nógu gaman að tala við sjálfa mig. Ætli það sé þess vegna sem ég blogga?) Kannski á eitthvað af hugleiðingum mínum um jólabókaflóðið og bókmenntaumræðuna eftir að rata inn á bloggið á næstunni.

Annars veit ég varla hvort ég þori að halda áfram að blogga. Dagný tilkynnti mér í gær að hún væri farin að lesa bloggið mitt og sálgreina mig út frá því. Það finnst mér verulega ógnvænlegt, því ég geri fastlega ráð fyrir að þar með afhjúpist einhverjar skelfilegar hliðar á sjálfri mér sem ég vil engan veginn horfast í augu við! Þetta er augljóslega tilefni til illvígrar tilvistarkreppu!

miðvikudagur, 15. janúar 2003

James Bond, Ronja ræningjadóttir og Snorra-Edda. Hvað á þetta þrennt sameiginlegt (fyrir utan að vera allt óheyrilega skemmtilegt)? Það liggur kannski ekki í augum uppi en engu að síður tókst mér að minnast bæði á Bond og Ronju í kennslu dagsins, sem snerist einmitt um Snorra-Eddu. (Og þetta var í samhengi við efnið! Jú, víst!) Tolkien var hins vegar fjarri góðu gamni í þetta skiptið.
Mér hefur ekki enn tekist að blanda Bráðavaktinni í málið en á eftir að nota fyrsta tækifæri sem gefst. Fyrst ég hafði það af að tengja hana inn í dróttkvæðakennslu í HÍ í fyrra hlýt ég að geta komið henni í samhengi við Snorra-Eddu. Nema ég bíði þangað til kemur að íslenskri málsögu?!

þriðjudagur, 14. janúar 2003

Er að reyna að gera fernt í einu: hlusta á spurningakeppnina í útvarpinu, horfa á Mósaík í sjónvarpinu, hanga á netinu og hekla sjal að auki. Þetta gengur að mestu ágætlega, en nú er ég þó búin að lækka í útvarpinu um stundarsakir til að heyra bókaspjallið í sjónvarpinu.
Jólabókaflóðið verður gert upp hjá Félagi íslenskra fræða annað kvöld (mið. 15. jan.) kl. 20.30 (í Sögufélagshúsinu í Fischersundi) Þar verða almennar umræður, en fyrst hefur Jón Yngvi framsögu, sem ég hlakka mikið til að heyra. Hann er með mjög spennandi punkta í kynningunni, sem sé þessa:

Jólabókavertíðin var um margt forvitnileg og vekur ýmsar spurningar: Eru viðtalsbækurnar aftur að taka völdin eftir nokkur góð ár fyrir íslenskan skáldskap? Er ljóðið endanlega búið að gefa upp öndina? Er sögulega skáldsagan algerlega að taka völdin meðal eldri höfunda? Hversu biblíufróður þarf maður að vera til að fá botn í íslenskar samtímabókmenntir? Og síðast en ekki síst: Komin er fram ný og áberandi sterk kynslóð ungra höfunda. Þau afneita því hvert fyrir sig í hverju viðtalinu af öðru að þau eigi nokkuð sameiginlegt, getur það verið satt?

Skyldumæting!
Nýyrði dagsins:
myndhöggvun!
(heyrðist rétt í þessu í Gettu betur).
Mér finnst ég óheyrilega dugleg! Búin að borða morgunmat á næstum hverjum degi í viku, hef alltaf verið með nesti í hádeginu sömu daga og hef þar að auki verið óvenjudugleg að elda á kvöldin. (Núna er ég að elda baunapottrétt með appelsínum og rúsínum – hljómar kannski pínu undarlega en ég held að þetta verði nokkuð gott.) Vera má að öllum finnist þetta sjálfsagt og eðlilegt framferði, en þess skal gætt að ég er ekki alltaf eðlileg. Ekki að öllu leyti, a.m.k. Og dugnaður minn á þessum sviðum er stundum mjög stopull.

Já, og svo er ég búin að ganga alveg helling. Það kemur kannski fæstum á óvart sem þekkja mig og hafa löngum furðað sig á tilhneigingu minni til að arka um bæinn þveran og endilangan – en ég er búin að vera með allra duglegasta móti upp á síðkastið. Helgast að nokkru af því að það stendur ekki nógu vel á strætó upp í MH; það tekur mig um hálftíma að komast þangað með því móti og ég er álíka lengi að ganga, þannig að ég hef hneigst til að nota tvo jafnfljóta á þessum ferðum mínum. Afleiðingin er að þá daga sem ég er að kenna (ýmist þrjá eða fjóra á viku) hreyfi ég mig alveg klukkutíma lengur en ella. Auk þess er „kjaftaklúbburinn“ minn að norðan búinn að stofna e.k. gönguklúbb sem hóf göngu sína með eins og hálfs tíma göngu í gærkvöld.
Og ég sem strengdi ekki eitt einasta nýársheit!

mánudagur, 13. janúar 2003

sunnudagur, 12. janúar 2003

Nú ætla ég að reyna að stunda gríðarlega sjálfsafneitun (að eigin mati). Mig langar ferlega út úr húsi, á þvæling niður í bæ eða eitthvað, hanga svolítið á kaffihúsi, fá mér cappuccino og lesa blöðin – en ég ætla að halda aftur af mér. Föndra cappuccino-ið hérna heima – það er ekkert mál að gera mjólkurfroðu þótt maður eigi engar græjur sem sérstaklega eru ætlaðar til verksins: Maður hitar einfaldlega mjólk í potti – það má alls ekki hita hana of mikið, bara rétt svo fari að rjúka – tekur pottinn af hellunni og pískar mjólkina með venjulegum písk. Þrælvirkar. Það er líka hægt að hella mjólkinni í sósuhristara eftir að hún hefur verið hituð (eða hvert það tól sem gegnir hlutverki hans – hjá mér er það tóm sultukrukka) og hrista duglega um stund, en þá verður uppvaskið meira, sem er að sjálfsögðu óæskilegt. Allavega hjá letingjum eins og mér.

Reyndar væri líka óskaplega gaman að hitta fólk (a.m.k. skemmtilegt fólk) en ætli það sé ekki best að ég setjist við að undirbúa kennslu. Það eru ábyggilega allir uppteknir, hvort eð er.

föstudagur, 10. janúar 2003

Svefninn hjá mér er í algjöru rugli. Sólarhringurinn er ekki bara á hvolfi heldur hefur hann greinilega verið hristur (ekki hrærður). Síðustu nætur er ég ýmist búin að sofa óheyrilega lítið eða skammarlega lengi, og ekki hefur vottað fyrir reglu á því hvenær ég hef sofnað og hvenær vaknað. Í gær átti ég til dæmis frí og freistaðist til að sofa fram eftir. Laaaangt fram eftir. Það hefndi sín heldur betur í gærkvöld og nótt, því ítrekaðar tilraunir til að sofna skiluðu nákvæmlega engum árangri fyrr en undir morgun. Sem var ekki mjög sniðugt þar sem ég þurfti að byrja að kenna kl. 8.10, sem þýddi að ég mátti helst ekki fara seinna út úr húsi en hálfátta – sem leiddi af sér að ég yrði að vakna fyrr! Það er ekki hefðbundinn fótaferðatími á mínu heimili. Síðla nætur var ég farin að sjá fram á að mér tækist ekki að sofna neitt, en ég festi þó blund á endanum; samt alltof skömmu áður en vekjaraklukkan hringdi.

Blessunarlega tókst mér að hafa mig á fætur og komast út úr húsi á tilsettum tíma. Ég borðaði meira að segja morgunmat líka, sem liggur við að vera afrek, því þótt ég viti að það sé ekki sniðugt að sleppa morgunmatnum er ég yfirleitt það sein á fætur að morgunverkin eru einfaldlega (eftir að ég er búin að slökkva cirka tíu sinnum á vekjaraklukkunni): upp úr rúmi, á klósettið, í fötin og út úr húsi. En þegar maður er að fara að kenna í tvo tíma (meira að segja tvo klukkutíma en ekki hefðbundnar 40 mínútna kennslustundir) er trúlega ennþá óskynsamlegra en venjulega að sleppa morgunmatnum. A.m.k. ef maður vill að nemendurnir heyri eitthvað af því sem maður segir, frekar en beljandi garnagaul. Þannig að ég gerðist skynsöm stúlka og fékk mér að borða áður en ég rauk af stað.

En talandi um morgunmat: Ármann vekur sérstaka athygli á því að ég sé ekkert búin að segja um það að handritshöfundar Bráðavaktarinnar hafi sparað sér vinnu og notað handritið að kvikmyndinni The Breakfast Club í staðinn fyrir að skrifa síðasta þátt sjálfir.

Í þessu sambandi gæti skipt máli að umrædda kvikmynd hef ég aldrei séð. En ég verð greinilega að koma höndum yfir hana til að geta lagst í samanburðarrannsóknir. Hvað varðar Bráðavaktarþáttinn sjálfan er ég svolítið tvístígandi. Það hefur alltaf reynst fullkomlega fatalt að láta heilan þátt eða meirihluta hans snúast um eina senu utan Bráðavaktarinnar sjálfrar. Og sumt í þessum þætti var verulega glatað, svo ekki sé meira sagt. En ýmislegt var hins vegar í ágætis lagi, og af utan-vaktar-þáttum er þessi tvímælalaust sá skásti sem sést hefur. Þar skiptir trúlega máli að þarna voru mættar fimm Bráðavaktar-persónur, en ekki bara ein eða tvær, og okkur var alveg hlíft við því að þau væru látin eiga merkingarþrungin samskipti við fólk utan hins þrönga hrings (fyrir þá sem kunna að vilja stunda hártogun er rétt að nefna að ég tel ekki með tilkynninguna um að fyrirlesarinn væri í vandræðum með bílinn, þótt vissulega hafi í henni falist merkingarbær samskipti).

fimmtudagur, 9. janúar 2003

Er ekki ætlast til þess að maður horfi um öxl við upphaf nýs árs og velti fyrir sér því sem liðið er, auk þess að horfa fram á veginn og svoleiðis. Æ, ég nenni því varla. Áramótaheit er ég ekki heldur vön að strengja og tók ekki upp á þeirri ósvinnu núna frekar en fyrri daginn.
En kannski ég líti örlítið til baka. Bara agnar-pínulítið. Í stuttu máli sagt: Síðasta ár var allt í lagi. Ekki eitt af þeim bestu sem ég hef lifað, en svo sem ekkert í hópi þeirra allra verstu heldur. Það einkenndist kannski fremur en annað af fullkomnum skorti á föstum punkti á flestum sviðum tilverunnar. Geri ekki ráð fyrir að það eigi eftir að breytast verulega, en hvernig væri að a.m.k. einn hluti af lífinu færi að komast í eitthvað fastari skorður? Hvernig væri til dæmis að einhver fyndi hjá sér hvöt til að bjóða mér fasta vinnu? Er reyndar með smávegis skilyrði: starfið þyrfti líka að vera skemmtilegt og vel launað. Ég er ekkert kröfuhörð, er það nokkuð?!
Ég nenni ekki að rekja allt sem dreif á daga mína í jólafríinu. Ekki að það hafi verið sérlega viðburðaríkt; aðaleinkennin voru mikil rólegheit, sem var reyndar ákaflega notalegt. Ég át mikið, svaf meira og las töluvert eins og tilheyrir, las samt minna en oft áður, en reyndar var ég búin að lesa drjúgt af nýju bókunum fyrir jól, þannig að það er trúlega afsakanlegt. Já, og ég sá Ásu í eigin persónu í fyrsta sinn, sem mér fannst umtalsverð tíðindi! Og kannaði hluta af undarlegustu skemmtistöðum Akureyrar með Svansý sem var ekki mjög leiðinlegt. Karókíið á Oddvitanum var til dæmis ógleymanlegt!

En helstu fréttirnar eru þær að þegar ég fór norður í jólafrí vissi ég ekki betur en ég væri atvinnulaus frá áramótum, og var á góðri leið með að fara að hafa svolitlar áhyggjur. Eins og áður hefur komið fram er ég reyndar alvön því að vera í lausu lofti hvað þetta varðar, en málin hafa alltaf bjargast á undarlegasta hátt. Ef ég tryði á engla væri ég þess fullviss að yfir mér vekti einhvers konar vinnuverndarengill! (Hmmm, undarlegt orð: hvort ætli fólk túlki þetta sem verndarengil í vinnumálum, eða engil sem annast vinnuvernd?!)

Í þetta sinn var hringt í mig um sjöleytið á Þorláksmessu og mér boðin vinna sem ég þáði. Reyndar var ekki gengið frá því fyrr en 30. des. hversu mikil vinna þetta yrði – fyrirvarinn ekkert yfirgengilega mikill. En niðurstaðan var að ég tæki að mér tæplega hálfa kennslu í MH. Er með tvo hópa í ÍSL 203, hitti þá í fyrsta skipti á þriðjudaginn, var svo með fyrsta alvörutímann í gær og líst prýðilega á. Við byrjum á Snorra-Eddu sem er mjög þægilegt – hún er svo ferlega skemmtileg. Efnið í áfanganum er annars sitt lítið af hverju, en þetta leggst allt saman vel í mig. Svo vantar mig aðra vinnu eða einhver verkefni á móti. Vonandi leysist það.
Hér er ég, hér er ég! Eins og lesendur þessarar síðu (ef einhverjir eru eftir) hafa væntanlega orðið varir við hefur mér ekki bara orðið bloggfall margfalt lengur en góðu hófi gegnir heldur hef ég beinlínis lagst í svívirðilegt bloggdá. Ástæðan er ekki sú að ég hafi hvorki haft tíma til að blogga né tækifæri til þess – ó, nei; hér er engu um að kenna nema helberri leti og ómennsku. Málið er ekki einu sinni að mér hafi ekkert dottið í hug til að blogga um, því í huganum hafa orðið til ýmis blogg, bæði um afskaplega gáfuleg og með eindæmum ógáfuleg efni. Ég hef jafnvel sest við tölvuna hvað eftir annað og lesið blogg margra annarra, en drifkrafturinn til að logga mig inn á viðeigandi stað og blogga sjálf hefur verið týndur. En nú er ég upprisin – a.m.k. í bili.

Já, meðan ég man: Landsmönnum öllum, til sjávar og sveita (og jafnvel líka þéttbýlislýð) óska ég árs og friðar!