sunnudagur, 12. janúar 2003

Nú ætla ég að reyna að stunda gríðarlega sjálfsafneitun (að eigin mati). Mig langar ferlega út úr húsi, á þvæling niður í bæ eða eitthvað, hanga svolítið á kaffihúsi, fá mér cappuccino og lesa blöðin – en ég ætla að halda aftur af mér. Föndra cappuccino-ið hérna heima – það er ekkert mál að gera mjólkurfroðu þótt maður eigi engar græjur sem sérstaklega eru ætlaðar til verksins: Maður hitar einfaldlega mjólk í potti – það má alls ekki hita hana of mikið, bara rétt svo fari að rjúka – tekur pottinn af hellunni og pískar mjólkina með venjulegum písk. Þrælvirkar. Það er líka hægt að hella mjólkinni í sósuhristara eftir að hún hefur verið hituð (eða hvert það tól sem gegnir hlutverki hans – hjá mér er það tóm sultukrukka) og hrista duglega um stund, en þá verður uppvaskið meira, sem er að sjálfsögðu óæskilegt. Allavega hjá letingjum eins og mér.

Reyndar væri líka óskaplega gaman að hitta fólk (a.m.k. skemmtilegt fólk) en ætli það sé ekki best að ég setjist við að undirbúa kennslu. Það eru ábyggilega allir uppteknir, hvort eð er.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli