þriðjudagur, 28. desember 2004

Ég gleymdi gleraugunum heima í morgun og er alveg að tapa mér yfir því að sjá ekki neitt. Suma daga ætti ég augljóslega ekki að fara út úr húsi. Algjör mistök að vera í vinnunni. Auðvitað ætti maður að eiga frí milli jóla og nýárs.

mánudagur, 27. desember 2004

Komin suður og búin að koma höndum yfir símann minn, mér til ómælds léttis. Er að reyna að jafna mig eftir sykursjokk síðustu daga - ekki vegna þess að ég sé búin að úða í mig kökum o.þ.h. heldur vegna þess að uppáhalds "kryddið" hans pabba er sykur. Honum finnst flestur matur batna við vænan skammt af sykri - og aðeins meira en það. Ætla ekki að reyna að reikna út hversu mörg kíló af sykri voru í aðalréttinum á aðfangadagskvöld þar sem við borðuðum hamborgarhrygg með sykurhjúp, brúnaðar kartöflur í ekki svo litlum sykri og heimagert rauðkál með ógrynni af sykri. Mesta furða að salatið skyldi sleppa. En þetta er ábyggilega meinhollt á sinn hátt - svona einu sinni á ári.

fimmtudagur, 23. desember 2004

Síminn minn verður á Vegamótum um jólin. Æ, æ. Fullyrðingar mínar um að ég væri ekki heiladauð núna voru greinilega ekki á rökum reistar. Ég hef einstöku sinnum gleymt símanum heima hjá mér á morgnana sem hefur valdið miklum sálarkvölum en hann hefur aldrei áður orðið eftir á undarlegum stöðum á glötuðum tíma - en einhvern tíma er allt fyrst. Fékk mér að borða á Vegamótum í hádeginu, síminn hringdi á meðan, ég svaraði honum, lagði hann svo frá mér á borðið - og þar var hann svo áfram eftir að ég var farin.

Auðvitað uppgötvaði ég þetta ekki fyrr eftir klukkan tvö þegar ég átti að vera komin út á flugvöll því það var minna en hálftími í að flugvélin færi í loftið. Ég náði nú flugvélinni en símalaus. Aðskilnaðarþjáningin er umtalsverð.

Dæmigert fyrir mig að gleyma símanum mínum aldrei nema undir einhverjum svona fáránlegum kringumstæðum og geta svo ekki nálgast hann í nokkra daga.

Ég á því augljóslega ekki eftir að svara símanum eða sms-um á næstunni. (Þetta getur átt eftir að koma út eins og ég sé að hunsa fólk suddalega.) Ef einhver vill ná í mig verður að nota gamaldags aðferð (ef einhver kann það ennþá) og hringja heim til foreldra minna.

Heiladauðinn hefur síðan haldið áfram núna eftir að ég kom til Akureyrar. Bróðir minn sótti mig á flugvöllinn og meðan við ókum eftir Drottningarbrautinni horfði ég forviða á eitthvað svífa í loftinu á mjög sérstakan hátt. Skildi ekkert í þessu og spurði hvað þetta gæti verið. Siggi horfði á mig eins og ég væri fáviti: "Erna! Þetta er hrafn!"
Hvað getur maður þá sagt annað en: "Óóóóó, er það? Virka fuglar svona?"

Jæja. Eins og áður hefur komið fram sendi ég engin jólakort. Reyni stundum að prófa hugskeyti en þeim hefur gengið illa að komast til skila enn sem komið er. Þannig að fólk verður bara að lesa þetta blessað blogg til að fá jólakveðju sem hér með er send. Gleðileg jól.

þriðjudagur, 21. desember 2004

Ég var að uppgötva að ég er ekki nærri því eins þreytt og heiladauð núna og oft áður á þessum árstíma, t.d. í fyrra, því að þótt ég hafi unnið mikið síðustu mánuði (sept.-des. eru yfirleitt nokkuð drjúgir) hefur það ekki verið eins óendanlega yfirgengilegt og stundum áður. Hins vegar er ég býsna löt. Jákvæða hliðin á því er að ég er gjörsamlega laus við jólastress - enda hefur dregið úr íhaldsseminni með hverju árinu hjá mér - mér finnst ekki lengur að allt þurfi að vera "eins og það hefur alltaf verið" á jólunum. Gengur sífellt verr að skilja öll þessi "sjálfgefnu" atriði sem eru hömruð inn í fólk beint og óbeint. Hefðin er algjör sjálfstýring.
Ath.: Þetta er ekki andúð á jólunum - mér finnst bara ekki nauðsynlegt að klára tíu síðna tékklista til að jólin komi. Og mér finnst stórfínt að vera mis"dugleg" milli ára.

Staðan í nokkrum jólaframkvæmdaatriðum er svona (og ég hef ekkert í hyggju að breyta henni):

Jólakort: 0.
Áður fyrr sendi ég iðulega helling af jólakortum. Svo fækkaði þeim hægt og rólega þangað til í hittiðfyrra. Þá komst fjöldinn í núll og hefur verið óbreyttur síðan. Og ég hef ekkert samviskubit yfir því.

Smákökur: 0.
Venjulega baka ég svolítið af uppáhaldssmákökunum mínum (m. súkkulaðibitum og valhnetum - hrikalega góðar) en ég hef alveg látið það vera núna. Kannski baka ég bara svolítið af þeim í janúar ef mig langar þá. Hvaðan kom eiginlega þetta óopinbera samkomulag sem virðist ríkja hér á landi um að smákökur séu bara bakaðar fyrir jólin?

Konfektmolar: 0.
Hef ekki heldur nennt að gera konfekt og ekki langað neitt sérlega í það. En það er reyndar næstum því hefð fyrir því að ég breyti eldhúsi foreldra minna í konfektgerðarverksmiðju um ellefuleytið á Þorláksmessu, móður minni til mikillar ánægju (við höfum ekki alltaf sama tímaskyn og töluvert myndi bera í milli ef við ættum að skilgreina hugtakið 'fljótlegt'). Veit samt ekki hvort ég nenni núna. Svo hugsa ég að janúar væri líka góður mánuður til að gera konfekt. Jafnvel febrúar.

Jólasíldarkrukkur: 0.
Mamma gerir ofboðslega góða síld fyrir jólin - með eplum, appelsínum, negul o.fl. góðu. Afskaplega jólaleg og síðustu árin hef ég stundum gert dálítið af henni sjálf. En ekki í ár.

Laufabrauðskökur skornar og steiktar: hellingur.
Hér fer tölfræðin upp á við því ég gerði laufabrauð með frænkum mínum á sunnudaginn. Laufabrauð er eitt af fáu sem er næstum því ómissandi.

Almennt jólaföndur: Smávegis eip í vinnunni (1. hluti og 2. hluti). Í þriðja hluta uppgötvaðist að það þarf ekkert að kaupa rándýran glanspappír úti í búð til að flétta fína hjartapoka. Dagblöð gera sama gagn. Sérstaklega ef maður velur venjulega textasíðu í annan helminginn og auglýsingu í lit í hinn. Kápan af fjárlagafrumvarpinu er líka afar hentug til föndurs af þessu tagi.

fimmtudagur, 16. desember 2004

Kannski ég fari að ganga um með nefklemmu. Sem betur fer er ekki lengur kaffilykt af höndunum á mér en í hádeginu rölti ég inn í Fríðu frænku með þeim afleiðingum að það er ofboðsleg reykelsislykt af hárinu á mér. Og frammi á klósetti hérna í vinnunni er komin sápa með rósafýlu í staðinn fyrir ágætu lyktarlausu sápuna. Algjör plága.

Ekki að ég sé eitthvað á móti lykt - en ég er afar selektíf. Og þoli alls ekki ilmefnin sem er troðið í undarlegustu hluti.

miðvikudagur, 15. desember 2004

Ég er búin að drekka svo mikið kaffi í dag að það er komin kaffilykt af höndunum á mér. Ógeðslegt. Kaffi er samt gott.

þriðjudagur, 14. desember 2004

Appelsína. Undarlegt.

My angst tastes like...
orange
Orange
Find your angst's flavor
Sweet and citrus, your angst comes from your social life. Perhaps you're accustomed to having lots of friends around and yet currently you're feeling lonely. Perhaps you hang out with a bunch of difficult people that really wear you down. Perhaps you're worried about your friends' loyalties and motives. Perhaps you're realizing that your life is too busy and too many people want your attention. Just take a couple steps back, a few deep breaths, and a quick self-inventory and think about how you really ought to live your life and treat others. Don't worry, it'll clear up soon.

þriðjudagur, 7. desember 2004

Hmmm. Jólatré. Er það ekki bara ágætt? Jú auðvitað. Að sjálfsögðu hlýt ég að vera eins stórkostlega dásamleg manneskja og í þessari lýsingu. Já já.

lkjk
What a marvelous person! You are the splendid
Christmas tree! You are a spirited person who
almost always in a great mood. Your smiles and
laughter are some things that people usually
look forward to in you. You are someone who is
full of energy and ready for a good time. Most
likely you are a social butterfly. All of these
characteristics make you a beautiful person
inside and out. People just really enjoy to be
around you. Merry Christmas =)

What Christmas Figure Are You?
brought to you by Quizilla

miðvikudagur, 1. desember 2004

Varúð! Aðventulag Baggalúts er stórhættulegt. A.m.k. var ég næstum dauð úr hlátri. Ekki hlusta á það ef þið viljið lifa lengur.
Skapandi jólaföndur skjaladeildar - 2. hluti

Áttu gamla jólastjörnu (þ.e. af plöntugerð) sem er bara með græn blöð (engin rauð)? Sérðu ekki fram á að komast yfir nýja plöntu í bráð? Lausnin er einföld. Finndu þér rautt plast eða rauðan pappír (einnig væri hugsanlegt að lita hvítan pappír með trélitum, vaxlitum, tómatsósu eða öðru sem við hendina er). Klipptu út eitthvað sem líkist blöðum hóflega mikið (óreglulegir ferhyrningar virka ágætlega). Festu þau á gömlu jólastjörnuna með bréfaklemmum (hefti eða lím gæti farið illa með plöntuna). Og sjá, dýrðin er algjör.