fimmtudagur, 23. desember 2004

Síminn minn verður á Vegamótum um jólin. Æ, æ. Fullyrðingar mínar um að ég væri ekki heiladauð núna voru greinilega ekki á rökum reistar. Ég hef einstöku sinnum gleymt símanum heima hjá mér á morgnana sem hefur valdið miklum sálarkvölum en hann hefur aldrei áður orðið eftir á undarlegum stöðum á glötuðum tíma - en einhvern tíma er allt fyrst. Fékk mér að borða á Vegamótum í hádeginu, síminn hringdi á meðan, ég svaraði honum, lagði hann svo frá mér á borðið - og þar var hann svo áfram eftir að ég var farin.

Auðvitað uppgötvaði ég þetta ekki fyrr eftir klukkan tvö þegar ég átti að vera komin út á flugvöll því það var minna en hálftími í að flugvélin færi í loftið. Ég náði nú flugvélinni en símalaus. Aðskilnaðarþjáningin er umtalsverð.

Dæmigert fyrir mig að gleyma símanum mínum aldrei nema undir einhverjum svona fáránlegum kringumstæðum og geta svo ekki nálgast hann í nokkra daga.

Ég á því augljóslega ekki eftir að svara símanum eða sms-um á næstunni. (Þetta getur átt eftir að koma út eins og ég sé að hunsa fólk suddalega.) Ef einhver vill ná í mig verður að nota gamaldags aðferð (ef einhver kann það ennþá) og hringja heim til foreldra minna.

Heiladauðinn hefur síðan haldið áfram núna eftir að ég kom til Akureyrar. Bróðir minn sótti mig á flugvöllinn og meðan við ókum eftir Drottningarbrautinni horfði ég forviða á eitthvað svífa í loftinu á mjög sérstakan hátt. Skildi ekkert í þessu og spurði hvað þetta gæti verið. Siggi horfði á mig eins og ég væri fáviti: "Erna! Þetta er hrafn!"
Hvað getur maður þá sagt annað en: "Óóóóó, er það? Virka fuglar svona?"

Jæja. Eins og áður hefur komið fram sendi ég engin jólakort. Reyni stundum að prófa hugskeyti en þeim hefur gengið illa að komast til skila enn sem komið er. Þannig að fólk verður bara að lesa þetta blessað blogg til að fá jólakveðju sem hér með er send. Gleðileg jól.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli