laugardagur, 30. júní 2007

Mikið er gott hvað Morgunblaðið er duglegt að skilgreina veruleikann. Af Staksteinum í dag fræddist ég um það að blogg er "í raun og veru ekkert annað en blaðagreinar sem eru birtar á netinu og skrifaðar í svolítið öðrum stíl."

Ég hef augljóslega vaðið í villu og svíma í meira en fimm ár. Nú er spurning hvað er til ráða. Á ég að eyða þessari síðu þar sem hún fellur ekki undir skilgreiningar Moggans á bloggi? Eða á ég að senda Mogganum nokkrar af færslunum mínum með ósk um birtingu á þeirri forsendu að þetta sé blogg og þar með blaðagreinar samkvæmt skilgreiningu Staksteina? Eða á ég kannski bara að hlæja meinfýsnislega að því að grjótkastarinn skuli hafa þrusað staksteininum beint í hausinn á sér?

fimmtudagur, 28. júní 2007

Líffræðitilraun

Á skrifstofunni minni er líffræðitilraun í fullum gangi. Ég bíð spennt eftir að uppgötva hvort ég drepst fyrst úr hita, óhóflegri sólargeislun eða súrefnisskorti.

þriðjudagur, 26. júní 2007

Sumarlegustu skórnir

Ljósbleikir, dökkbleikir, fjólubláir, gulir og pínu hvítir, brjálæðislega rósóttir og með pinnahæl til að gata þykkustu ristar í gegn.

mánudagur, 25. júní 2007

Krabbaklær

Í gönguferð um daginn fann ég lítinn krabba í fjörunni sem ég tók með heim og setti á skrifborðið mitt. Síðan hef ég reynt að telja mér trú um að ef ég verði ekki mesti dugnaðarforkur að vinna lifni hann snarlega við, margfaldist að stærð og læsi í mig klónum.
Er þetta ekki Reykjavík í hnotskurn?

Reykjavík í hnotskurn

Allt leggja einkabílarnir undir sig.
Nú er lágskýjað og nógu dimmt til að það hafi kviknað á ljósastaurunum. Ég er hrædd um að það verði ekki eins gaman að horfa út um norðurgluggann á eftir og það var fyrir tuttugu og tveimur tímum. Jónsmessusólarupprásin var frekar lagleg. Myndin gerir henni ekki almennileg skil (ég kann ekki að mynda svonalagað) en ég læt hana samt fylgja:

Sólarupprás á Jónsmessu

Ísfólksgetraunaruppgjör

Það hefur farist fyrir í meira en viku að gera upp Ísfólksgetraunina en eins og sjá hefur mátt í hægri dálkinum sigruðu Sölvabakkasystur með glæsibrag og fengu 21 stig en Mummi stóð sig líka frábærlega og hlaut 16 stig. Þeim er hér með öllum boðið í mat við tækifæri - þar sem verðlaun verða afhent - og Hafdís má mjög gjarnan koma með Mumma þótt hún hafi bara lesið Ísfólkið einu sinni (sem ég hélt að væri ómögulegt; alveg var ég viss um að annaðhvort hlyti fólk að hafa lesið flestar bækurnar a.m.k. fimm sinnum eða bara alls ekki).

Skemmtilegast væri ef þau gætu komið öll í einu en ef það reynist ómögulegt vegna fjölbreyttrar búsetu hópsins verður bara að hafa það, þá verða matarboðin a.m.k. tvö. Guðnýju er boðið líka, enda var það hún sem kom mér á bragðið með Ísfólkið sumarið 1983 þegar ég var átta ára og hún á ellefta ári. Hvorug beið nokkurt tjón á sálu sinni svo ég viti. Annars er kannski best að aðrir dæmi um það.

Annars þakka ég þátttakendum frábæra skemmtun. Það var léttir að sjá að fleiri en ég muna undarlegustu smáatriði úr bókunum og hafa lesið þær oftar en tölu verður komið á - það er án efa heilmikill vitnisburður um að það sé virkilega eitthvað sérstakt við þær. Allavega er deginum ljósara að þær eru af öðrum toga en flatneskjulegustu rauðuseríubækur þar sem engu skiptir hvort ein bók er lesin fimm sinnum eða fimm bækur einu sinni. (Ekki að það sé neitt að því, það er bara öðruvísi.)

Meðan á þessu stóð var líka í gangi getraun um bókina í handtöskunni sem flestir hunsuðu en Kristín Parísardama sýndi mikla þrautseigju og giskaði réttilega á höfundinn (Pierre Bourdieu) á endanum. (Hún má endilega koma í heimsókn í næstu Íslandsferð og innheimta verðlaun.) Tilvitnunin var úr grein sem heitir "Myndbreyting smekksins" en það væri hægt að velta upp mörgum spennandi spurningum um smekksatriði í tengslum við Ísfólksbækurnar. Kannski ætti ég að skipta um MA-ritgerðarefni og gera viðtökurannsókn á Ísfólkinu.

föstudagur, 15. júní 2007

Ísfólksgetraun - 10. spurning C

Hver segir þetta, af hvaða tilefni og í hvaða bók?

"Ég hef fengið gott uppeldi og menntun og mér finnst að ég gæti notað hana ..."

Ísfólksgetraun - 10. spurning B

Hver er þetta, hvað er að gerast og hver er bókin?

"Hún var kvendýrið, hindin, sem bíður stökksins ..."

Ísfólksgetraun - 10. spurning A

Hver er þetta, hver varð á vegi hennar stuttu síðar og hver er bókin?

"Hún heyrði fylleríisraus og söng frá torginu við dómkirkjuna."

Um lokaspurninguna

Lokaspurningin verður þríþætt og hver hluti birtist sem sérstök færsla.

P.S. kl. 16.41:
A-liður birtist kl. 17.00, B-liður kl. 18.15 og C-liður kl. 19.30. Ég tjái mig ekkert um svörin fyrr en í fyrsta lagi seint í kvöld.
Stefni að því að birta lokaspurninguna um fimmleytið í dag en vonandi verður hún nógu erfið til að svarið berist ekki samstundis og fólk þurfi því ekki að vera límt við tölvuna heldur eigi færi á að koma visku sinni á framfæri eitthvað fram eftir kvöldi.

Þetta er háð því að ég komist nógu snemma heim úr vinnunni.
Bara ein spurning eftir í Ísfólksgetrauninni og spennan magnast! Síðustu tvær spurningar hafa verið frekar auðveldar en nú fer ég aftur að leyta að kvikindinu í sjálfri mér til að semja lokaspurninguna.

Hvort viljið þið frekar fá hana seinna í dag (um kvöldmatarleytið) eða eftir hádegi á morgun?

Ísfólksgetraun - 9. spurning

Hver eru það sem slást hér, hvers vegna og úr hvaða bók er þetta?

"Hann komst fljótt að því, að [X] var illkvittnari og erfiðari viðureignar en nokkur stúlka, sem hann hafði kynnst. Hér var ekki verið að tala um neitt jafnómerkilegt og hnefahögg í bakið, ó, nei! Maðurinn veinaði af sársauka, þegar hún læsti tönnunum í langan vöðvann, sem liggur frá hálsi til axlar, með hinni hendinni togaði hún í hár hans og hnykkti höfðinu aftur á bak, svo að hann starði beint upp í himininn - og svo sparkaði hún sífellt í sköflunginn á honum, svo að hann var sannfærður um, að hann væri marinn og blóðugur. Og stanslaust veinaði hún hástöfum á hjálp, og orðavalið hefði ekki hljómað vel í eyrun á presti."

fimmtudagur, 14. júní 2007

Svar við áttundu spurningu barst leiftursnöggt.

Hvernig litist ykkur á að fá 9. spurningu um hádegið á morgun?

Ísfólksgetraun - 8. spurning

Hver segir þetta, við hverja, hvert var tilefni samtalsins og í hvaða bók er þetta?

"Heldurðu að ég muni ekki ... hvað þér var illa við heimilisstörf? Nei, þú sagðir það aldrei, og kvartaðir aldrei, en ég man eftir því, þegar þú hentir þvottabalanum yfir þvert herbergið, eða hentir sópum og fötum í reiði þinni, svo að við urðum að forða okkur. Og yfir því, að þú grést, þegar fötin okkar slitnuðu, og þú varðst að gera aftur við þau. Þú varst alltaf þreytt."
Þar sem ætlunin er að hafa næstu spurningu auðveldari en þær síðustu er sennilega ráðlegt að tilkynna tímasetningu fyrirfram.

Því er hér með gjört heyrinkunnugt að 8. spurning birtist um hálftíuleytið í kvöld (ef enginn hreyfir andmælum).
7. spurning ætlar að reynast drjúg en nú fer þetta vonandi að koma; ég var allavega að setja inn vísbendingu nr. 3 sem hlýtur að vera gagnleg.

Svefninn er í rúst; ekki nóg með að þessi getraun sé eiginlega farin að leggja undir sig hálfan sólarhringinn heldur var ég fram undir morgun að reyna að koma nýja, flotta prentaranum/skannanum mínum í þráðlaust netsamband - en það gekk bara alls ekki. Vinnutilgátan er að það sé vegna þess að routerinn minn er drasl. Það er ekki bara heimasmíðuð hugmynd heldur er hún studd af áliti eins tölvumannsins í vinnunni - ég rakti raunir mínar ítarlega fyrir honum í hádeginu. Nú er á dagskrá að panta sjónvarp gegnum adsl-ið og athuga hvort routerinn sem ég fæ þá virkar betur. Læt mér nægja snúru milli prentarans og tölvunnar þangað til þótt hún sé auðvitað óttalega gamaldags og hallærislegt fyrirbæri.

- - -

Það er liðinn næstum hálftími síðan ég setti 3. vísbendingu inn en það hefur ekki borist ein einasta ágiskun síðan. Ætli keppendur séu drukknaðir í Ísfólksbókaflóðinu?

miðvikudagur, 13. júní 2007

Ísfólksgetraun - 7. spurning

Hver er bókin, hver sagði þetta, við hvern/hverja, af hvaða tilefni og hvað gerðist fljótlega á eftir?

"Nú verð ég að skjóta mig!"

- - - - -

1. vísbending (14. júní kl. 11.55):
Aðeins lengri útgáfa af tilvitnuninni:
"Skilurðu það ekki [...]? hvíslaði hann rámur. - Nú verð ég að skjóta mig."

2. vísbending (14. júní kl. 13.42):
Þetta gerist einhvern tíma á tímabilinu frá 5. bók (Dauðasyndinni) til 10. bókar (Vetrarhríðar).

3. vísbending (14. júní kl. 14.16):
Konan sem þetta var sagt við er afar náskyld ýmsum sem nýlega hefur verið giskað á. Hvorki hún né mælandinn hafa þó verið nefnd í kommentakerfinu enn sem komið er.
Um daginn sorteraði ég loksins Berlínarmyndirnar mínar, setti slatta inn á Flickr og staðsetti allt saman á korti (já, auðvitað gat ég ekki látið það vera). Þessi var tekin í undirgöngunum við Alexanderplatz; mér fannst þetta fyndið og óvænt stefnumót milli neðanjarðarmenningarinnar og kapítalismans:

Graffiti-innkaup
Sölvabakkasystur eru komnar með níu stig og Mummi líka þannig að þau eru orðin jöfn í efsta sæti (sjá hægri dálkinn á síðunni). Nú er þetta virkilega að verða spennandi.

Þetta er svo harðsnúið fólk að getraunin sem átti bara að verða saklaus og einföld skemmtun virðist vera á góðri leið með að leggja líf sumra undir sig, þar á meðal mitt þar sem ég fer að verða í megnustu vandræðum með að semja nógu erfiðar spurningar. Hefði e.t.v. verið réttast að hafa keppnina tvíþætta: annars vegar fyrir byrjendur, hins vegar fyrir atvinnumenn?!

Kannski hef ég næstu spurningu í léttari kantinum svo þátttakendur geti sofið rólegir í nótt.
Vísbendingin er komin. Bíð spennt að sjá hvort hún kemur að gagni eða hvort hún flækir málin bara enn frekar ...
Á ég að gefa vísbendingu um 6. spurningu?

þriðjudagur, 12. júní 2007

Ísfólksgetraun - 6. spurning

Hver er bókin, hver hugsar þetta, um hverja og hvernig eiga þau eftir að tengjast?

"Hún minnti hann meira en lítið á Brontë-systurnar. Innilokaðar, bældar og einangraðar, en fullar af sköpunarkrafti innra með sér sem lét ekki hemja sig."

- - - - -

1. vísbending (13. júní kl. 14.32):
"Hún" dó áður en "hann" fæddist.
Túlípanarnir í Alþingisgarðinum eru alveg búnir.

Túlípanar í Alþingisgarðinum

Þeir voru svo flottir um daginn.

Túlípanar í Alþingisgarðinum

Bráðum verður sennilega plantað einhverjum
óspennandi sumarblómum.
Ég er enn í vinnunni og verð um stund þannig að einhver bið verður á næstu spurningu í Ísfólksgetrauninni. Bendi á hins getraunina meðan beðið er; enginn hefur sýnt henni áhuga í dag. Ég var að bæta 3. vísbendingu við.

Fáránlegt, annars, að vera í vinnunni í þessu góða veðri sem loksins kom.
Hvorki hefur borist fullnægjandi svar við Ísfólksspurningu nr. 5 né spurningunni um bókina í handtöskunni. Nú eru komnar tvær vísbendingar við þá síðarnefndu.

Látið ljós ykkar skína!

mánudagur, 11. júní 2007

Ísfólksgetraun - 5. spurning

Hverjir talast hér við og hverjar voru slæmu fréttirnar sem minnst er á?

"- Það er gott, að þér eruð kominn [...] Gamli líflæknirinn minn gaf mér stundum eitthvað til að sofa af. Og ég var syfjaður allan daginn. Það gengur ekki. Maður vaknar þó af meðölum yðar.
- Ég geri mitt besta, yðar náð [...] Mér skilst, að þér hafið fengið slæmar fréttir?"

Lesendavirkjun

Átakið "lesendur virkjaðir" gengur framar vonum og skilar mun meira afli en ráð var fyrir gert. Ekki nóg með að ýmis góð svör (og tilraunir til svara) hafi borist við síðustu getraunaliðum, heldur sýna Eyja og Dísa líka vægast sagt snilldarleg tilþrif í kommentum við færsluna um forsetasetur.

Ég var annars föst í vinnunni fram eftir öllu, sem hefur tafið fyrir næstu Ísfólksspurningu, en nú er ég loksins komin heim og get farið að fletta bókunum mínum með illyrmislegu hugarfari ...

Orð dagsins

forsetasetur

Bókin í handtöskunni

Næsta Ísfólksspurning birtist ekki fyrr en í kvöld - en til að eitthvert efni á þessari síðu verði við hæfi annarra en Ísfólksaðdáenda verður nú að nýju spurt út úr því sem ég er að lesa hverju sinni (öðru en Ísfólkinu). Sú getraun getur kallast "bókin í handtöskunni". Eftirfarandi tilvitnun er einmitt úr bók sem ég ber með mér um bæinn nú um stundir - hver er hún?

"Eins og ég hef stundum sagt, þá eru menntamenn eins og hljóðön: Með því að greina sig frá öðrum er tilvist þeirra tryggð."

Mikið er "hljóðan" annars ljótt í fleirtölu. "Fónem" er mun laglegra.

- - - - -

1. vísbending (kl. 18.56):
Bókin er þýdd.

2. vísbending (12. júní kl. 10.25):
Frummál textans er franska.

3. vísbending (12. júní kl. 19.37):
Höfundurinn var fræðimaður.

sunnudagur, 10. júní 2007

Það stendur eitthvað á svörum við nýjustu spurningunni. Mummi er þó búinn að gera ýmsar hetjulegar tilraunir. En hvar eru t.d. Sölvabakkasystur og Guðný?

laugardagur, 9. júní 2007

Ísfólksgetraun - 4. spurning

Hverjir eru málsaðilar hér og í hvaða bók er þetta?

"... hún hafði komið með hálfkveðna vísu í eitt skiptið og strokið lærið á honum! Hvað ímyndaði hún sér? Hér var það hann sem réði hraðanum, og þó hann hefði strokið uppþornuð brjóst hennar einu sinni, bara svona í framhjáhlaupi, þá þýddi það ekki að hún gæti farið að taka sér bessaleyfi! Hún sem átti enga peninga lengur!"

Reglur um Ísfólksgetraun

  1. Spurningarnar verða sennilega tíu. Þær geta samt alveg orðið fleiri eða færri eftir því hvernig ég verð stemmd.

  2. Ný spurning verður ekki borin upp fyrr en þeirri næstu á undan hefur verið svarað. (Miðað við hvað svörin hafa borist fljótt er sennilega takmörkuð hætta á að þetta tefji fyrir.) Að öðru leyti verður engin regla á því hvenær spurningarnar birtast; það er svosem líklegt að oftast verði það á kvöldin en þó er engu að treysta.

  3. Eitt stig fæst fyrir fyrsta rétta svarið við hverjum lið spurningar. Ekki er nauðsynlegt að svara öllum liðum spurningarinnar rétt til að fá stig. - Að auki er hugsanlegt að bónusstig verði gefin fyrir ítarefni eða sérlega skemmtileg svör. Við mat á því ráða eingöngu duttlungar spurningahöfundar.

  4. Verðlaun eru óákveðin en meðal þess sem kemur til greina er eintak af 35. bók, Myrkraverk (ég á tvö). Eða 34. bók, Konan á ströndinni, á norsku (Kvinnen på stranden). Eða eitthvað annað. Ég tími þó ekki danska eintakinu af 4. bók sem á íslensku heitir Vonin, á dönsku Arvingen en Tisteln á frummálinu.

Í stuttu máli: Þetta verður tilviljanakennt og duttlungafullt. Jamm.

fimmtudagur, 7. júní 2007

Ísfólksgetraun - 3. spurning

Hver er þetta og í hvaða bók?

"... sat efst uppi í litla ferhyrnta turninum á þakinu á Grásteinshólma. Augun loguðu við þrumuskýjunum. Andlitið ljómaði af hrifningu, næstum eldmóði, í hvert skipti sem elding lýsti upp himininn ..."

Kannski ég fari svo að semja einhverjar reglur um þessa getraun.
Ég var að uppgötva möguleikann á að staðsetja flickr-myndirnar mínar á korti. Algjör snilld - en mig vantaði kannski ekki nýja nördalega áráttu til að sóa tímanum í. Óttast samt að ég standist ekki freistinguna.

miðvikudagur, 6. júní 2007

Ísfólksgetraun - 2. spurning

Hver lýsir hverjum svo (og í hvaða bók)?

"... [hann] var víst óhugnanlegur, þegar hann var nýfæddur. Hann var skemmtilegur, lítill prakkari, þegar ég hitti hann og hafði sitt lag á kvenþjóðinni. Það var alveg hræðilegt að eiga við hann, en þjónustustúlkurnar fyrirgáfu honum allt! Það boðar ekki gott."
Myndir frá Leipzig fóru inn á Flickr-síðuna í fyrrakvöld. Þær eru aðallega af húsum - en einstaka af einhverju öðru, t.d. þessum trjágöngum í Clöru Zetkin garði sem eru einn af uppáhaldsstöðunum mínum í borginni:

Clara-Zetkin-Park

þriðjudagur, 5. júní 2007

Mér finnst verulegur skortur á fagnaðarlátum yfir Ísfólksgetrauninni!

Skítaveður

Nú væri gott að vera heima. Í dag er veður til að kúra uppi í sófa með tebolla og afþreyingarbók (Ísfólkið kæmi sterkt inn), kannski við kertaljós, og hlusta á Rás 1. Ekki hjóla í roki og rigningu til að lesa nefndarálit og laga línuskiptingar í lagasafni.

mánudagur, 4. júní 2007

Ísfólksgetraun - 1. spurning

Í hvaða bók kemur bærinn Tobrönn við sögu og hver af ætt Ísfólksins dvaldist þar?