fimmtudagur, 14. júní 2007

7. spurning ætlar að reynast drjúg en nú fer þetta vonandi að koma; ég var allavega að setja inn vísbendingu nr. 3 sem hlýtur að vera gagnleg.

Svefninn er í rúst; ekki nóg með að þessi getraun sé eiginlega farin að leggja undir sig hálfan sólarhringinn heldur var ég fram undir morgun að reyna að koma nýja, flotta prentaranum/skannanum mínum í þráðlaust netsamband - en það gekk bara alls ekki. Vinnutilgátan er að það sé vegna þess að routerinn minn er drasl. Það er ekki bara heimasmíðuð hugmynd heldur er hún studd af áliti eins tölvumannsins í vinnunni - ég rakti raunir mínar ítarlega fyrir honum í hádeginu. Nú er á dagskrá að panta sjónvarp gegnum adsl-ið og athuga hvort routerinn sem ég fæ þá virkar betur. Læt mér nægja snúru milli prentarans og tölvunnar þangað til þótt hún sé auðvitað óttalega gamaldags og hallærislegt fyrirbæri.

- - -

Það er liðinn næstum hálftími síðan ég setti 3. vísbendingu inn en það hefur ekki borist ein einasta ágiskun síðan. Ætli keppendur séu drukknaðir í Ísfólksbókaflóðinu?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli